Ferill 156. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1168  —  156. mál.

3. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944, með síðari breytingum, (notkun fánans við markaðssetningu á vöru og þjónustu).

Frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju eftir 2. umræðu og fengið á sinn fund Ágúst Geir Ágústsson frá forsætisráðuneyti og Björgu Ástu Þórðardóttur frá Samtökum iðnaðarins.
    Við meðferð málsins komu fram ábendingar sem leiddu til þess að málinu var vísað til umfjöllunar nefndarinnar að nýju. Ábendingarnar miða að því að tryggja að notkun fánans við merkingar veiti neytendum skýrar og gagnsæjar upplýsingar um uppruna og takmarki ekki um of möguleika íslenskrar framleiðslu til að geta um upprunann með þeim hætti. Nefndin tekur undir mikilvægi þessa og leggur til nokkrar breytingar á málinu til þess að auka skýrleika og gagnsæi við notkun fánamerkingarinnar fyrir neytendur.
    Nefndin leggur til að í stað þess að miða við að vara teljist íslensk sé hún framleidd hér á landi úr innlendu hráefni að uppistöðu til verði miðað við að hún teljist íslensk sé hún framleidd úr innlendu hráefni að hluta eða öllu leyti, enda hafi hún hlotið nægilega aðvinnslu hérlendis. Með því skilyrði er í reynd gerð krafa um að nægilegur hluti virðisaukningar vöru verði til í landinu. Það skilyrði er einnig í samræmi við reglur sem gilda um mat á uppruna vöru.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að þegar um er að ræða landbúnaðarhráefni, sem framleidd eru á Íslandi, geri neytendur í vaxandi mæli kröfu um að uppruna þeirra sé getið í merkingum. Þannig geti verið hætta á að neytendur muni álíta það villandi að vörur framleiddar úr innfluttum landbúnaðarhráefnum, t.d. kjöti, mjólk og grænmeti, beri íslenska fánann. Nefndin fellst á nauðsyn þess að bregðast við því og leggur til viðbótarákvæði sem felur í sér undanþágu, þ.e. að vara teljist ekki íslensk ef hún er framleidd úr innfluttu hráefni sem telst vera einkennandi hluti vörunnar og er eðlislíkt búvöru, þ.m.t. afurðir eldisfiska, sem er ræktuð hér á landi, vöru sem er framleidd hér á landi á garðyrkjubýli, gróðrarstöð eða garðyrkjustöð, eða nytjastofnum sjávar sem veiddir eru af íslenskum skipum innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi.
    Nefndin fellst einnig á sjónarmið um að gera þurfi greinarmun á vöru sem hönnuð er á Íslandi undir íslensku vörumerki eftir því hvort hún er framleidd hérlendis eða erlendis. Nefndin tekur undir að þótt hvort tveggja megi merkja með fánanum sé mjög mikilvægt að jafnframt komi ætíð fram í merkingu vöru í hvaða landi hún er framleidd. Nefndin telur að slíkt sé til þess fallið að veita neytendum eðlilegar upplýsingar um vöruna.
    Nefndin leggur einnig til að ráðherra verði falið að útfæra nánar í reglugerð hvað teljist nægileg aðvinnsla, hvað teljist einkennandi hluti vöru og eðlislíkt hráefni og skilgreiningu framleiðslulands.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 2. gr.
     a.      Orðin „að uppistöðu til“ í a-lið 2. mgr. b-liðar falli brott.
     b.      B-liður 2. mgr. b-liðar orðist svo: framleidd hér á landi úr innfluttu hráefni að hluta eða öllu leyti, enda hafi hún hlotið nægilega aðvinnslu hérlendis.
     c.      Á eftir 2. mgr. b-liðar komi ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Þrátt fyrir b-lið 4. mgr. telst vara ekki íslensk ef hún er framleidd úr innfluttu hráefni sem telst vera einkennandi hluti vörunnar og er eðlislíkt:
              a.      búvöru, þ.m.t. afurðir eldisfiska, sem er ræktuð hér á landi,
              b.      vöru sem er framleidd hér á landi á garðyrkjubýli, gróðrarstöð eða garðyrkjustöð,
              c.      nytjastofnum sjávar sem veiddir eru af íslenskum skipum innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi.
     d.      Við 3. mgr. b-liðar bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ef hönnunarvara er framleidd erlendis skal framleiðsluland vörunnar jafnframt koma fram.
     e.      Í stað „2.–9. mgr.“ í 1. mgr. c-liðar komi: 2.–10. mgr.
     f.      Við 2. mgr. c-liðar bætist: svo sem um hvað teljist nægileg aðvinnsla, um mat á því hvað teljist einkennandi hluti vöru og eðlislíkt hráefni og um skilgreiningu framleiðslulands.

    Birgitta Jónsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir og Árni Páll Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. apríl 2016.

Ögmundur Jónasson,
form.
Willum Þór Þórsson,
frsm.
Birgir Ármannsson.
Brynjar Níelsson. Helgi Hjörvar. Höskuldur Þórhallsson.