Ferill 733. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1200  —  733. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um alþjóðlegar við­skipta­þvinganir gagnvart lágskattaríkjum.


Flm.: Árni Páll Árnason, Helgi Hjörvar, Katrín Júlíusdóttir, Kristján L. Möller, Oddný G. Harðardóttir, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Össur Skarphéðinsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir alþjóðlegum við­skipta­þvingunum gagnvart lágskattaríkjum. Markmið aðgerðanna verði að koma í veg fyrir leynd yfir eignarhaldi félaga í lágskattaríkjum og koma í veg fyrir skattaundanskot. Í þessu skyni getur ríkisstjórnin einnig stutt og tekið þátt í alþjóðlegum aðgerðum sem þegar hafa verið kynntar. Forsætisráðherra geri Alþingi grein fyrir framvindu verkefnisins á haustþingi 2016.

Greinargerð.

    Með tillögu þessari er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að beita sér fyrir alþjóðlegum við­skipta­þvingunum gagnvart lágskattaríkjum í þeim tilgangi að sporna við flutningi fjármagns þangað þar sem erfitt getur reynst að afla upplýsinga frá slíkum ríkjum og skattleggja með eðlilegum hætti þann hagnað og eignir sem til eru hjá félögum sem skráð eru í lágskattaríkjum. Uppljóstranir síðustu vikna í tengslum við Panamaskjölin hafa gefið innsýn í heim leyndarhyggju og skattaundanskota. Mikilvægt er að ríki heims taki höndum saman og stöðvi þá starfsemi sem þrifist hefur í lágskattaríkjum.
    Frá því upplýsingar tóku að berast úr Panamaskjölunum hafa háværar kröfur heyrst um að stemma þurfi stigu við starfsemi skattaskjóla. Boðaðar hafa verið alþjóðlega samræmdar aðgerðir. Fimm öflugustu ríki Evrópusambandsins, Bretland, Þýskaland, Frakkland, Ítalía og Spánn, tilkynntu nýlega að skattyfirvöld ríkjanna mundu skiptast á upplýsingum sem gagnast gætu til að koma í veg fyrir skattaundanskot með notkun aflandsfélaga. Þá hefur fjármálaráðherra Bretlands, George Osborne, tilkynnt um samkomulag um alþjóðlegan svartan lista yfir skattaskjól og mörg G20-ríki hafa fagnað þeim fyrirætlunum. Fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa einnig fagnað þeim tillögum sem komið hafa fram en jafnframt hefur verið bent á mikilvægi þess að Bandaríkin taki þátt í þvingunaraðgerðum. Þá liggur fyrir Evrópuþinginu tillaga um rannsókn á Panamaskjölunum sem þingið mun taka afstöðu til í maí, en margir þingmenn á Evrópuþinginu hafa kallað eftir rannsóknum og aðgerðum í kjölfar lekans.
    Á vettvangi Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, hefur verið unnið að gerð upplýsingasamninga við lágskattaríki um nokkurt árabil og hefur Ísland tekið þátt í þeirri vinnu. Þá hafa einnig verið tekin upp í löggjöf á Íslandi ákvæði sem snúa að skattlagningu félaga sem skráð eru í lágskattaríkjum. Eru það svonefndar CFC-reglur (e. Controlled Foreign Corporation) sem hafa verið lögfestar í 57. gr. a laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Samkvæmt ákvæðinu og reglugerð settri á grundvelli þess, þ.e. reglugerð um skattlagningu vegna eignarhalds í lögaðilum á lágskattasvæðum, nr. 1102/2013, telst lágskattaríki ríki þar sem álagður tekjuskattur af hagnaði félags, sjóðs eða stofnunar er í raun lægri en tveir þriðju hlutar af þeim tekjuskatti sem hefði verið lagður á hagnað lögaðilans hefði hann borið ótakmarkaða skattskyldu hér á landi. OECD gaf áður út lista yfir ríki og svæði sem skattlagning samkvæmt CFC-reglunum tók til en hefur nú hætt útgáfu listans þar sem þau ríki sem áður voru á listanum hafa skuldbundið sig til að veita upplýsingar um skattamál á grundvelli upplýsingasamninga. Enn eru þó til staðar ríki eða svæði sem ekki hafa undirgengist slíka samninga og þá er lagaumgjörð um félög í mörgum þeirra landa sem hafa gert samninga þannig að skylda til að skrá upplýsingar er lítil eða ekki til staðar og ekki er skylt að gera ársreikninga. Rétt er því að beina aðgerðum að þessum ríkjum og miða við skilgreiningar OECD á lágskattaríkjum en jafnframt horfa til þess ef vinaþjóðir okkar í Evrópu munu setja saman alþjóðlegan svartan lista yfir skattaskjól eins og verið hefur í umræðunni og vikið hefur verið að.
    Í umræðu um lágskattaríki hefur almennt verið vísað til nokkurra sérstakra eiginleika sem menn nýta sér og kunna að gera ríkin eftirsóknarverð sem svæði fyrir skráð félög með ákveðinn tilgang. Skattar á hagnað fyrirtækja eru ekki til staðar eða mjög lágir og því greiða aflandsfélögin lítinn sem engan skatt. Einnig ríkir mikil leynd um raunverulega eigendur félaga sem skráð eru í lágskattaríkjum og löggjöf um upplýsingar af því tagi er þannig úr garði gerð að öðrum aðilum en eigendum félaga reynist afar erfitt og jafnvel ógerlegt að afla upplýsinga um raunverulegt eignarhald þeirra. Þá er það oft einkenni aflandsfélaga að þau eru hluti af neti félaga sem hefur þann tilgang að færa hagnað sem til verður í raunverulegri atvinnustarfsemi í landi þar sem lagður er eðlilegur skattur á starfsemina yfir í aflandsfélög sem skráð eru í lágskattaríkjum og þannig er komist hjá skattlagningu hagnaðar í því landi þar sem hann varð til. Þessi háttsemi getur valdið margvíslegu tjóni fyrir almenning í þeim ríkjum sem verða af skattgreiðslum. Þannig rýrna skattstofnar svo að innheimtur skattur endurspeglar ekki umsvifin í viðkomandi hagkerfi og það kann að leiða til þess að skatthlutfall verði hærra en þörf er á. Þetta hefur bein áhrif á fjárfestingu í innviðum og velferðarkerfi samfélagsins. Ríkisskattstjóri hefur nýlega bent á að ríkið kunni að verða af um 80 milljörðum kr. skattgreiðslum á ári sem virðast vanta miðað við umsvif í hagkerfinu. Þá er einnig augljóst að háttsemin skekkir samkeppnisstöðu á markaði og að aflandsfélög hafa verið notuð, hér á landi sem annars staðar í heiminum, til að dylja eignarhald og komast undan greiðslu skatta.
    Ísland hefur á undanförnum árum tekið þátt í samstarfi ríkja OECD gegn skattaundanskotum með notkun aflandsfélaga með því að gera upplýsingasamninga við fjölda lágskattaríkja. Innan OECD hafa G20-ríkin m.a. komið á fót nýjum vettvangi til að vinna að auknu gagnsæi í skattamálum sem kallast Global Forum on Transparency and Exchange of Information for Tax Purposes. Nýlega kom fram í máli framkvæmdastjóra OECD, Angel Gurría, að tími væri kominn til að stöðva starfsemi þeirra lágskattaríkja sem ekki hafa gengist undir upplýsingasamninga OECD. Allir þyrftu að gangast undir samninga OECD um upplýsingamál án undantekninga þannig að ekki yrði hægt að fela auð í skattaskjólum lengur.
    Samtök jafnaðarmanna í Evrópu (PES) hafa nú komið fram með tillögur að aðgerðum sem hafa það að markmiði að sporna við starfsemi skattaskjóla. Tillögurnar fela m.a. í sér gerð upplýsingaskiptasamninga milli Evrópusambandsríkja og milli allra ríkja sem hafa gengist undir kvaðir OECD um upplýsingaskipti um skatta- og fjárhagsmálefni og að þau ríki sem ekki eru tilbúin að gangast undir slíka samninga og kvaðir verði beitt þvingunum. Þá er lagt til að skylda fjármálafyrirtæki til að skila upplýsingum til skattyfirvalda um reikninga í ríkjum utan Evrópusambandsins sem ekki eru tilbúin að gangast undir slíkar kvaðir eða samninga og að efla gagnsæi og upplýsingagjöf um félög sem skráð eru utan Evrópusambandsins en starfa innan svæðisins, t.d. um hverjir eru raunverulegir eigendur þeirra. Þá er lagt til að aðgerðir gegn peningaþvætti verði styrktar, að fjölþjóðleg fyrirtæki sem starfa innan Evrópusambandsins þurfi að gefa upp allar tekjur sínar til skatts og að styrkt verði refsilöggjöf varðandi aðstoð banka og annarra við skattaundanskot en sést hefur í umfjöllun hérlendis að nánast öll aflandsfélög í eigu íslenskra aðila voru stofnuð af bönkum. Þá hafa komið fram hugmyndir framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um svartan lista yfir ríki og svæði sem ekki eru tilbúin til samstarfs og að þau verði í kjölfarið beitt þvingunum og að þrýst verði á um gerð og framkvæmd samninga á vegum ESB og OECD um gagnsæi í skattamálum, m.a. OECD Base Erotion Profit Shifting Guidelines og samnings OECD um gagnkvæma aðstoð í skattamálum, Convention on Mutual Administrative Assistance in Tax Matters.
    Að mati flutningsmanna er mikilvægt að Ísland marki sér stefnu og taki forystu á alþjóðavettvangi í baráttu gegn skattaskjólum og notkun aflandsfélaga til að dylja eignarhald eða komast hjá greiðslu skatta. Um er að ræða mein í alþjóðlegu við­skipta­kerfi sem rýrir skatttekjur ríkja, ýtir undir ójöfnuð og grefur undan trausti og velferð í samfélaginu. Öllum ber að standa skil á skattgreiðslum og taka þátt í sam­eigin­legum kostnaði velferðarsamfélagsins. Ríkisstjórninni er því með þessari tillögu falið að beita sér fyrir alþjóðlegum við­skipta­þvingunum gagnvart lágskattaríkjum sem hafi þau markmið að uppræta leynd og stuðla að réttum skattskilum. Ríkisstjórninni er falin nánari útfærsla á formi þeirra þvingana og getur ríkisstjórnin jafnframt stutt og tekið þátt í aðgerðum sem þegar hafa verið kynntar af vinaþjóðum okkar í Evrópu. Þá er lagt til að forsætisráðherra geri Alþingi grein fyrir framvindu málsins á haustþingi 2016.