Ferill 617. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1290  —  617. mál.

2. umræða.


Nefnd­arálit


um frumvarp til laga um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar.

Frá meiri hluta allsherjar- og mennta­mála­nefnd­ar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur, Hinriku Söndru Ingimundardóttur og Skúla Þór Gunnsteinsson frá innanríkis­ráðu­neyti.
    Frumvarpið var áður lagt fram á 144. löggjafarþingi (463. mál) og var afgreitt með nefnd­ar­áliti meiri hluta allsherjar- og mennta­mála­nefnd­ar (þskj. 1135) en hlaut ekki frekari afgreiðslu. Nefndin hefur kynnt sér efni þeirra umsagna sem bárust um frumvarpið á síðasta löggjafarþingi en frumvarpið hefur ekki tekið efnislegum breytingum frá fyrri framlagningu þess. Afstaða nefnd­ar­innar er óbreytt frá síðasta löggjafarþingi.
    Með frumvarpinu er gerð tillaga um heildar­löggjöf sem sameini lagaákvæði sem nú eru í lögum um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða, nr. 12/2010, og ný lagaákvæði sem leiðir af skuldbindingum Íslands vegna samnings um málsmeðferð um afhendingu milli aðildarríkja Evrópusambandsins og Íslands og Noregs sem var undirritaður 28. júní 2006.
    Meiri hlutinn telur frumvarpið til þess fallið að bæta samstarf Íslands við önnur EES-ríki um meðferð saka­mála. Í nefndinni var sérstaklega rætt um 5. gr. frumvarpsins þar sem mælt er fyrir um að ákvæði laganna gildi einnig um afhendingu íslenskra ríkisborgara. Meiri hlutinn fellst á að æskilegt sé að Ísland taki með þessu móti fyllri þátt í evrópsku samstarfi um rannsókn og meðferð saka­mála, enda eru í frumvarpinu ákvæði því til tryggingar að gætt sé réttar­öryggis og mannréttinda við afhendingu saka­manna, sbr. t.d. 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins þar sem segir að synja skuli um afhendingu manns samkvæmt evrópskri handtökuskipun ef hún er í andstöðu við ákvæði mannréttindasátt­mála Evrópu og þeirra samningsviðauka sem hafa lagagildi hér á landi. Þá eru í 10. og 11. gr. frumvarpsins taldar upp heimilar synjunarástæður, t.d. ef um er að ræða stjórn­málaafbrot, sbr. 1. mgr. 11. gr.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Unnur Brá Kon­ráðsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 17. maí 2016.

Guðmundur Steingrímsson,
1. varaform.
Vilhjálmur Árnason,
frsm.
Líneik Anna Sævarsdóttir.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir. Jóhanna María Sigmundsdóttir. Haraldur Einarsson.
Svandís Svavarsdóttir.