Ferill 772. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1303  —  772. mál.




Fyrirspurn


til innanríkisráðherra um símhleranir hjá alþingismönnum.

Frá Össuri Skarphéðinssyni.


     1.      Hversu margir alþingismenn voru á meðal þeirra sem sakadómari samþykkti að sæta skyldu símhlerunum í tengslum við:
                  a.      samþykkt Alþingis á aðild að Atlantshafsbandalaginu, sbr. úrskurð sakadóms 26. mars 1949,
                  b.      heimsókn Dwight Eisenhowers, yfirhershöfðingja Atlantshafsbandalagsins og síðar forseta Bandaríkjanna, sbr. úrskurð sakadóms 17. janúar 1951,
                  c.      komu bandarísks herliðs til Íslands samkvæmt tvíhliða varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna, sbr. úrskurði sakadóms 25. apríl og 2. maí 1951,
                  d.      landhelgissamning við Breta, sbr. úrskurð sakadóms 26. febrúar 1961,
                  e.      heimsókn Lyndon B. Johnsons, varaforseta Bandaríkjanna og síðar forseta, sbr. úrskurð sakadóms 12. september 1963,
                  f.      utanríkisráðherrafund Atlantshafsbandalagsins, sbr. úrskurð sakadóms 8. júní 1968?
     2.      Eru þekkt dæmi um að sakadómari hafi hafnað ósk framkvæmdarvaldsins um heimild til símhlerana þegar alþingismenn áttu í hlut?
     3.      Telur innanríkisráðherra að svör við fyrrgreindum spurningum gefi tilefni til að bætt verði við þau stjórnarfrumvörp sem nú liggja fyrir Alþingi (658. og 659. mál) ákvæðum um þinglegt eftirlit til að torvelda að slíkum heimildum verði misbeitt gagnvart stjórnmálamönnum?


Skriflegt svar óskast.


Greinargerð.

    Frá því um miðjan áttunda áratuginn hefur ekki verið starfrækt sérstök eining öryggislögreglu og hafa öll verkefni sem lúta að innra öryggi ríkisins verið í höndum lögregluliðsins. Í frumvörpum innanríkisráðherra um skilyrði fyrir beitingu símahlustunar og eftirlit með lögreglunni (658. og 659. mál) er hvergi gert ráð fyrir lýðræðislegu/þinglegu eftirliti með framkvæmd rannsóknarheimilda, svo sem símhlerunum, eins og tíðkast í mörgum löndum Vestur-Evrópu.