Ferill 791. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1463  —  791. mál.
Nr. 40/145.


Þingsályktun

um rannsókn á erlendri þátttöku í kaupum á 45,8% eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. o.fl.


    Alþingi ályktar í samræmi við ákvæði laga um rannsóknarnefndir að fram fari rannsókn á þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA í kaupum á 45,8% eignarhlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf.
    Rannsóknin verði falin einum manni sem forseti Alþingis skipar skv. 1. mgr. 2. gr. laga um rannsóknarnefndir. Hann dragi saman og búi til birtingar upplýsingar um málsatvik og aðkomu einstakra aðila að þátttöku þýska bankans í kaupunum með tilliti til þeirra upplýsinga sem kaupendur veittu íslenska ríkinu sem seljanda og stofnunum þess.
    Rannsókninni ljúki svo fljótt sem verða má og eigi síðar en 31. desember 2016.
    Samhliða rannsókninni fari stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd yfir fyrirliggjandi gögn og upplýsingar um umfjöllun og ályktanir eftirlitsaðila um söluna á Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf., sbr. ályktun Alþingis frá 7. nóvember 2012.
    Á grundvelli niðurstöðu rannsóknarinnar, sbr. 1. mgr., og að lokinni yfirferð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sbr. 4. mgr., leggi nefndin mat á hvort hún geri tillögu um frekari rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf., sbr. fyrrgreinda ályktun frá 7. nóvember 2012 þar um.

Samþykkt á Alþingi 2. júní 2016.