Ferill 823. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1545  —  823. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 (gjaldtaka).

Flm.: Páll Valur Björnsson, Birgitta Jónsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Björt Ólafsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Óttarr Proppé, Róbert Marshall, Valgerður Bjarnadóttir.


1. gr.

    3. málsl. 1. mgr. 31. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í 1. mgr. 31. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008, er kveðið á um að kennsla í opinberum grunnskólum skuli veitt nemendum að kostnaðarlausu og að óheimilt sé að krefja nemendur eða foreldra þeirra um greiðslu fyrir kennslu, þjónustu, námsgögn eða annað efni sem nemendum er skylt að nota í námi sínu. Í 3. málsl. ákvæðisins er þó tekið fram að opinberum aðilum sé ekki skylt að leggja nemendum til gögn til persónulegra nota, svo sem ritföng og pappír.
    Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (hér eftir barnasáttmálinn) var lögfestur á Íslandi 20. febrúar 2013. Í samningnum er kveðið á um mikilvæg réttindi barna og viðurkenningu á að börn séu viðkvæmur hópur sem þarfnist sérstakrar verndar. Í 28. gr. sáttmálans er kveðið á um að öll börn eigi rétt á grunnmenntun án endurgjalds. Þá er í 2. gr. kveðið á um að ekki megi mismuna börnum sökum stöðu þeirra eða foreldra þeirra, svo sem vegna efnahags.
    Skólinn er hornsteinn jafnræðis í samfélaginu og þess vegna er mikilvægt að tryggja að börnum sé ekki mismunað á grundvelli efnahags. 3. málsl. 1. mgr. 31. gr. laganna brýtur gegn 2. gr. barnasáttmálans þar sem ákvæðið býður upp á mismunun barna á grundvelli efnahags. Ljóst er að foreldrar hafa afar mismunandi fjárhagslega burði til að standa straum af þeim kostnaði sem opinberum aðilum er heimilt að undanskilja því sem þeir skulu veita að kostnaðarlausu. Þá er ljóst að ákvæðið brýtur gegn 28. gr. sáttmálans þar sem foreldrar þurfa í reynd að greiða hluta af grunnmenntun barna sinna.
    Mikilvægt er að tryggja öllum börnum rétt til grunnmenntunar án endurgjalds og er markmið frumvarps þessa að taka af öll tvímæli um að gjaldtaka sé óheimil. Lagt er til að tekið verði alfarið fyrir alla gjaldtöku á námsgögnum nemenda, þ.m.t. á ritföngum og pappír. Slík gögn verður að telja með námsgögnum því án þeirra geta nemendur ekki stundað nám sitt.