Ferill 680. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Prentað upp.

Þingskjal 1647  —  680. mál.
Viðbót. Leiðréttur texti.

3. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum (búvörusamningar, búnaðarlagasamningur).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin fjallaði um málið eftir 2. umræðu og fékk á sinn fund Ólaf Friðriksson og Rebekku Hilmarsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Benedikt S. Benedikts­son frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Meiri hlutinn leggur til breytingartillögu við frumvarpið sem leiðir af breytingartillögu sem samþykkt var við 2. umræðu og felst í því að ný verðlagningaraðferð mjólkur verði ekki lögfest strax eins og kveðið var á um í frumvarpinu. Í þessu skyni eru lagðar til breytingar á 8. og 13. gr. búvörulaga auk þess sem lagt er til að a-liður 5. gr. frumvarpsins falli brott. Ítarlega var rætt um tilnefningu fulltrúa í verðlagsnefnd búvara. Við 2. umræðu var samþykkt breytingartillaga sem felur í sér að ráðherra tilnefni fulltrúa minni vinnslufyrirtækja mjólkur sem áheyrnarfulltrúa í nefndina. Meiri hlutinn bendir á að þetta fyrirkomulag sætir endur­skoðun í því ferli sem mun eiga sér stað til ársins 2019. Meiri hlutinn leggur ekki til frekari breytingar á tilnefningu í verðlagsnefndina en beinir því til ráðherra að leitast verði við að horfa til fjölbreyttra sjónarmiða við tilnefningu fulltrúa í nefndina. Meiri hlutinn bendir á að fjölmargir aðilar í íslenskum iðnaði hafa þörf fyrir hráefni úr mjólk og því er mikilvægt að skipan nefndarinnar endurspegli fjölbreytt sjónarmið.
    Í nefndaráliti meiri hlutans við 2. umræðu var í nokkrum liðum getið um helstu verkefni samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga og m.a. gert ráð fyrir því að loftslags- og um­hverfismál félli undir endurskoðunina. Við 2. umræðu var lögð fram breytingartillaga þess efnis að búvörusamningar yrðu metnir samkvæmt aðferðafræði umhverfismats áætlana, sbr. lög nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana. Ákvæði þeirra laga gilda um umhverfismat skipulags- og framkvæmdaáætlana sem marka stefnu er varðar leyfisveitingar til fram­kvæmda sem tilgreindar eru í lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Búvörusamn­ingar falla ekki undir lögin en nefndin telur þau markmið sem felast í umhverfismati áætlana eiga vel við í þessu samhengi og að það bæti undirbúning breytinga og endurskoðunar að hafa þau til hliðsjónar. Nefndin beinir því til ráðherra að framangreint tilheyri þeirri endur­skoðun sem fram undan er. Í áliti meiri hlutans við 2. umræðu var mælst til þess að kannaður yrði sá kostur að stefna í landbúnaðarmálum byggðist að einhverju leyti á áætlun Alþingis, t.d. líkt og samgönguáætlun, og eftir atvikum gæti slík áætlun fallið undir lög um umhverfis­mat áætlana.
    Við 2. umræðu um málið var rætt um úrræði gagnvart þeim sem brjóta gegn lögum um velferð dýra, nr. 55/2013. Í X. kafla laganna er kveðið á um heimildir Matvælastofnunar sem felast m.a. í eftirlitsheimsóknum á staði þar sem dýr eru haldin, stöðvun á starfsemi, dagsekt­um og vörslusviptingu. Í 37. gr. laganna er kveðið á um að heimilt sé að svipta umráðamann dýra vörslu þeirra ef aðilar sinna ekki fyrirmælum innan tilgreinds frests og sér Matvæla­stofnun um framkvæmd vörslusviptingar en er jafnframt heimilt að leita aðstoðar lögreglu. Vörslusviptingu er ekki beitt nema fyrirmælum stofnunarinnar hafi ekki verið sinnt innan tiltekins frests og ítrekað hafi verið brotið gegn ákvæðum laganna. Meiri hlutinn leggur til að samhliða vörslusviptingu verði Matvælastofnun heimilt að fella niður opinberar stuðn­ingsgreiðslur samkvæmt ákvæðum búvörulaga og búnaðarlaga sem nánar er fjallað um í bú­vörusamningum og búnaðarlagasamningi. Þar með verði niðurfellingu opinberra stuðnings­greiðslna í landbúnaði ekki beitt nema þegar um er að ræða ítrekuð brot á lögum um velferð dýra og að undangenginni áminningu og samhliða vörslusviptingu. Þá er mælt fyrir um að þær greiðslur sem Matvælastofnun hefur heimild til fella niður séu greiðslur er varði það dýr sem vörslusviptingin tekur til, t.d. beingreiðslur út á greiðslumark, gripagreiðslur, álags­greiðslur á gæðastýrða framleiðslu o.s.frv. Niðurfellingin skal ekki ná til opinberra stuðn­ingsgreiðslna sem ekki varða hið vörslusvipta dýr, eins og t.d. jarðræktarstuðnings sam­kvæmt búnaðarlagasamningi. Ef Matvælastofnun afléttir vörslusviptingu og umráðamanni er falin varsla dýrsins að nýju skulu opinberar stuðningsgreiðslur vegna dýrsins hefjast frá því að umráðamaður hefur fengið dýrið afhent að nýju. Nefndin bendir á að Matvælastofnun hefur nú þegar ríkar heimildir til inngripa ef dýravelferð er ábótavant skv. X. kafla laga um velferð dýra, nr. 55/2013, m.a. með stjórnvaldssektum, stöðvun starfsemi, leyfissviptingu og fleiru. Að auki liggur almenn refsiábyrgð við brotum á lögunum. Meiri hlutinn leggur til að úrræði um sviptingu opinberra stuðningsgreiðslna bætist við en leggur áherslu á að Matvæla­stofnun nýti það í samhengi við önnur úrræði sem lögin mæla fyrir um og að stofnunin leiti samráðs við beitingu þess eins og í sambærilegum tilvikum. Jafnframt telur meiri hlutinn mikilvægt að Matvælastofnun ræki leiðbeiningarhlutverk sitt og vinni í samstarfi við leið­beiningarþjónustu í landbúnaði til að tryggja að markmið laga um velferð dýra séu uppfyllt.
    Meiri hlutinn leggur jafnframt til að við bætist ný grein við frumvarpið sem felur í sér leiðréttingu á 1. mgr. 7. gr. tollalaga. Lagt er til að 3. tölul. hennar falli brott enda hefur ekki reynt á hann í framkvæmd. Þá er lagt til að 1. málsl. 11. tölul. orðist á annan veg til að skýra nánar hvaða vörur um er að ræða sem ætlaðar eru til nota í innlendar framleiðsluvörur. Einnig er lagt til að hnykkt verði á því að það er sá ráðherra sem fer með málefni landbún­aðar sem fer með heimild til lækkunar, niðurfellingar eða endurgreiðslu tolla skv. 11. tölul. Þá er lagt til að gerðar verði lagfæringar á 52. gr. frumvarpsins og nýrri málsgrein bætt við 5. gr. tollalaga í því skyni að mæla nánar fyrir um að uppfærður magntollur verði birtur opinberlega og að þau tollskrárnúmer sem heyra undir ákvæðið verði tilgreind í viðauka við lögin. Einnig er lagt til að nýtt ákvæði til bráðabirgða bætist við tollalög þar sem kveðið er á um hvernig skuli reikna út magntoll fram til fyrsta virka dags marsmánaðar 2017, sbr. áður­nefnda breytingu á 5. gr. tollalaga.
    Meiri hlutinn hefur sammælst um það við ráðherra að hraða innleiðingu á auknum kvótum vegna innflutnings á sérostum, sbr. breytingartillögu nefndarinnar við 65. gr. B búvörulaga við 2. umræðu, þannig að hún komi öll til framkvæmda á fyrsta ári gildistíma samnings Ís­lands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur. Um er að ræða sérosta sem falla undir vörulið úr 0406 samkvæmt tollskrá í viðauka I við tollalög og eru skráðir í samræmi við reglur um vernd afurðaheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinn­ar sérstöðu. Nú er tollkvótinn 20 tonn en verður samkvæmt tillögu meiri hlutans 230 tonn á fyrsta ári samningsins. Samhliða er því beint til ráðherra að aðgangsheimildum á innri mark­að Evrópusambandsins fyrir mjólkurafurðir verði einnig hraðað eins og mögulegt er enda byggjast slík ákvæði á gagnkvæmum aðgangsheimildum.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á eftir 3. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                 Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
                  a.      Orðin ,,við upphaf hvers verðlagsárs, í fyrsta sinn 1. september 1998“ í 1. málsl. 1. mgr. falla brott.
                  b.      1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Verðlagsnefnd metur framleiðslukostnað sauðfjárafurða fyrir meðalbú.
     2.      Við 4. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Á eftir orðunum ,,framleiðnikröfur til afurða­stöðva“ í 2. mgr. 13. gr. laganna kemur: og einstakra framleiðsluvara.
     3.      A-liður 5. gr. falli brott.
     4.      52. gr. orðist svo:
                 Við 5. gr. laganna bærist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Magntollur samkvæmt viðauka I með lögum þessum á vörur sem falla undir tollskrár­númer í viðauka VI með lögum þessum skal uppfærður fyrsta virka dag marsmánaðar ár hvert í réttu hlutfalli við breytingu á skráðu tollafgreiðslugengi SDR við upphaf og lok næstliðins tólf mánaða tímabils. Uppfærðan magntoll skal birta fyrir lok febrúar­mánaðar árlega í A-deild Stjórnartíðinda.
     5.      Á eftir 52. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                 Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 7. gr. laganna:
                  a.      3. tölul. fellur brott.
                  b.      1. málsl. 11. tölul. orðast svo: Af hráefni, efnivörum og hlutum sem bera magntoll (A1-tollur) úr tollnúmerum 0406.2000, 0701.9009, 1517.1009 og 1905.4000 sam­kvæmt viðauka I við lög þessi og ætluð eru í innlendar framleiðsluvörur, svo og af umbúðum fyrir slíkar vörur.
                  c.      Við 11. tölul. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Ráðherra er fer með málefni landbúnaðar skal með reglugerð kveða nánar á um skilyrði innflutnings til aðvinnslu samkvæmt þessum tölulið, m.a. um það hverjir geti sótt um undanþágu, lágmarkskröfur um bókhald leyfishafa og upplýsingagjöf leyfis­hafa til ráðherrans og tollyfirvalda. Hann getur gert það að skilyrði lækkunar eða niðurfellingar að lögð sé fram fullnægjandi trygging fyrir greiðslu aðflutningsgjalda.
     6.      Á eftir 53. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                 Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                 Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 4. mgr. 5. gr. skal magntollur samkvæmt viðauka I með lögum þessum á vörur sem falla undir tollskrárnúmer í viðauka VI með lögum þessum uppfærður fyrsta virka dag marsmánaðar 2017 í réttu hlutfalli við breytingu á skráðu tollafgreiðslugengi SDR á tímabilinu frá 26. ágúst 2016 til 28. febrúar 2017.
     7.      Á eftir 54. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                 Við lögin bætist nýr viðauki er verður viðauki VI, svohljóðandi:
             0402.1010
             0402.1090
             0402.2100
             0402.2900
             0402.9100
             0402.9900
             0406.2000
             0406.3000
             0406.4000
             0406.9000
     8.      Á eftir 54. gr. komi nýr kafli, IV. kafli, Breyting á lögum um velferð dýra, nr. 55/2013, með einni nýrri grein, svohljóðandi:
                 Við 37. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Við vörslusviptingu skv. 1. mgr. er Matvælastofnun heimilt að fella niður opinberar stuðningsgreiðslur samkvæmt ákvæðum búvörulaga, nr. 99/1993, og búnaðarlaga, nr. 70/1998, vegna þess dýrs sem vörslusviptingin tekur til. Aflétti Matvælastofnun vörslu­sviptingu dýrs og afhendi umráðamanni dýrið að nýju skulu opinberar stuðningsgreiðsl­ur vegna dýrsins hefjast að nýju frá afhendingardegi dýrsins.
     9.      Fyrirsögn frumvarpsins orðist svo: Frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, bún­aðarlögum, tollalögum og lögum um velferð dýra (búvörusamningar, búnaðarlagasamn­ingur).

Alþingi, 7. september 2016.

Jón Gunnarsson,
form.
Haraldur Benediktsson,
frsm.
Geir Jón Þórisson.
Páll Jóhann Pálsson. Þorsteinn Sæmundsson. Þórunn Egilsdóttir.