Ferill 680. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1657  —  680. mál.

3. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum (búvörusamningar, búnaðarlagasamningur).

Frá 2. minni hluta atvinnuveganefndar.


    Ýmsar jákvæðar breytingar hafa orðið á málinu eftir 2. umræðu, m.a. vegna tillagna og ábendinga frá 2. minni hluta sem fagnar þeim breytingum sem lagðar hafa verið til á frumvarpinu. 2. minni hluti telur að rétt og vel hafi verið brugðist við breytingartillögu hans um að búvörusamningar verði metnir samkvæmt aðferðafræði umhverfismats áætlana og lýsir ánægju sinni með að þetta mikilvæga skref í átt til fylgni við umhverfissjónarmið hafi verið tekið. Breytingartillaga 2. minni hluta þess efnis að heimilt verði að fella niður opinberar landbúnaðargreiðslur til þeirra sem brotið hafa lög um velferð dýra með því að gerast sekir um dýraníð var einnig tekin að hluta inn í frumvarpið. Enda þótt þar hafi verið komið til móts við það meginsjónarmið að dýraníð sé svo alvarlegt brot að réttmætt sé að fella niður opinbera styrki til þeirra sem gerst hafa brotlegir með þeim hætti og jafnframt mikilvægt til þess að hindra frekari brot var að mati 2. minni hluta ekki gengið nægilega langt til þess að tryggja að fullt gagn yrði af úrræðinu. Sökum þess mun 2. minni hluti leggja til breytingartillögu við breytingartillögu meiri hlutans á þskj. 1647, sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Breytingartillagan miðar að því að Matvælastofnun verði heimilt að fella niður allar opinberar stuðningsgreiðslur en ekki aðeins greiðslur vegna dýrs sem brot hefur beinst gegn. 2. minni hluti áréttar að heimild til að fella niður stuðningsgreiðslur verði beitt samhliða vörslusviptingu og hafi aðili þá haft tækifæri til að bæta ráð sitt. Skv. 1. mgr. er Matvælastofnun heimilt að svipta umráðamann dýra vörslu þeirra hafi fyrirmælum stofnunarinnar ekki verið sinnt innan tiltekins frests. Þá áréttar 2. minni hluti að Matvæla­stofnun skal sem endranær fylgja ákvæðum stjórnsýslulaga, til að mynda veita andmælarétt og fylgja meðalhófsreglu.
    2. minni hluti ítrekar þá afstöðu sína sem fram kom í nefndaráliti við 2. umræðu að mikilvægt sé að íslenskur landbúnaður haldi velli í samtíð og framtíð til hagsbóta fyrir alla landsmenn og að verja megi opinberu fé í þágu þessa markmiðs. Eigi þetta að ganga eftir í sátt við samfélag og náttúru er nauðsynlegt að gæta þess að tryggt sé að neytendur hafi hag af ráðstöfunum í landbúnaði og að sjónarmiða um náttúruvernd og dýravelferð sé gætt til fullnustu.
    2. minni hluti vekur einnig athygli á gagnrýni í áðurnefndu nefndaráliti á verklag við gerð samninganna sem ekki var til þess fallið að skapa þeim þann trúverðugleika sem nauðsyn­legur er til að þeir þjóni hlutverki sínu sem sáttmáli milli innlendra framleiðenda landbúnaðarafurða og almennings um framleiðslu á hollum neytendavörum í sátt við náttúru landsins. Þá vill 2. minni hluti ekki láta hjá líða að vekja athygli á því að samtímis því sem unnið var að gerð búvörusamninga og afgreiðslu þeirra var jafnframt unnið að staðfestingu samnings milli Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur sem getur ógnað markmiðum búvörusamninga. Sérfræðingar og ábyrgðaraðilar á sviði lýðheilsu og smitsjúkdóma hafa bent á að hætta geti verið á því að smitefni berist til landsins með hráum dýraafurðum og viðbúnaður hérlendis til að takast á við slíkt sé allsendis ófullnægjandi. Þetta er vissulega áhyggjuefni og ber vott um ámælisverðan skort á heildarstefnu í málefnum landbúnaðar og lýðheilsu.
    Innlend framleiðsla á matvælum er afar mikilvæg með tilliti til loftslagmála og umhverfissjónarmiða almennt. Flutningastarfsemi markar djúp vistspor og hefur óæskileg áhrif á umhverfið. Því er mikilvægt að sem skemmstur vegur sé milli framleiðenda matvöru og neytenda. Búvörusamningarnir stuðla að innlendri matvælaframleiðslu og geta því haft jákvæð áhrif á umhverfis- og loftslagsmál hér á landi en aðeins að því tilskildu að gætt sé fyrirhyggju og varúðar í landýtingu og annarri umgengni við náttúru landsins.
    Sauðfjárbúskapur er í vanda um þessar mundir og er vandinn tilfinnanlegastur á þeim svæðum þar sem bændur og fjölskyldur þeirra hafa framfæri sitt eingöngu eða að mestu leyti af fjárbúskap. Framleiðsla á lambakjöti er umtalsvert meiri en innanlandsneysla, sem hefur farið minnkandi undanfarin ár og áratugi, og nú blasir við verðlækkun á erlendum mörkuð­um. Þetta hefur leitt til þess að sláturleyfishafar hafa tilkynnt bændum um lækkun á afurðaverði til þeirra sem nemur 12%. Það segir sig sjálft að þessi kjaraskerðing er mjög tilfinnanleg fyrir sauðfjárbændur. Starfsgreinin hefur gengið úr lagi á tímum fyrri búvöru­samninga þar sem framleiðslustýring var afnumin og því miður er ekki að sjá að nýir samningar megni að rétta stefnuna af. Ástæða er til að ætla að það undirliggjandi markmið búvörusamninganna að styrkja búsetu á dreifbýlum svæðum fari forgörðum í samningunum sem nú verða gerðir og er það vitaskuld mjög verulegur ljóður á þeim.
    Að endingu ítrekar 2. minni hluti þá afstöðu sem lýst var í nefndaráliti við 2. umræðu að þrátt fyrir að málið hafi tekið mikilsverðum umbótum er það enn ærið gallað. Við atkvæða­greiðslu um málið mun 2. minni hluti því styðja þær breytingartillögur sem hann telur horfa til bóta en sitja hjá að öðru leyti.

Alþingi, 12. september 2016.

Lilja Rafney Magnúsdóttir.