Ferill 874. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.



Þingskjal 1694  —  874. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á ýmsum lögum vegna stofnunar millidómstigs.

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




I. KAFLI
Breyting á lögum um samvinnufélög, nr. 22/1991, með síðari breytingum.
1. gr.

    Í stað orðanna „héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmaður“ í 4. mgr. 62. gr. b laganna kemur: lögmaður.

II. KAFLI
Breyting á lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994, með síðari breytingum.
2. gr.

    Í stað orðanna „héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmaður“ í 2. mgr. 86. gr. laganna kemur: lögmaður.

III. KAFLI
Breyting á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, með síðari breytingum.
3. gr.

    Í stað orðanna „héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmaður“ í 2. mgr. 111. gr. laganna kemur: lögmaður.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um sölu fasteigna og skipa, nr. 70/2015, með síðari breytingum.
4. gr.

    Í stað orðanna „Hæstaréttar- og héraðsdómslögmenn“ í 2. mgr. 2. gr. laganna kemur: Lögmenn.

5. gr.

    Í stað orðanna „hæstaréttar- eða héraðsdómslögmaður“ í 3. mgr. 19. gr. laganna kemur: lögmaður.

V. KAFLI
Breyting á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986, með síðari breytingum.
6. gr.

    Á eftir orðinu „Hæstaréttar“ í 3. tölul. 1. mgr. 19. gr. laganna kemur: Landsréttar.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, með síðari breytingum.
7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, 2. mgr., svohljóðandi:
                 Við meðferð einkamáls fyrir Landsrétti skal greiða eftirfarandi gjöld í ríkissjóð:
                  1.      Fyrir kæru          50.000 kr.
                  2.      Fyrir áfrýjunarleyfi          50.000 kr.
                  3.      Fyrir útgáfu áfrýjunarstefnu:
                      a.      Af áfrýjunarfjárhæð allt að 3.000.000 kr.          25.000 kr.
                      b.      Af áfrýjunarfjárhæð frá 3.000.000 kr. að 30.000.000 kr. og vegna mála þar sem krafist er viðurkenningar á réttindum og/eða skyldu          50.000 kr.
                      c.      Af áfrýjunarfjárhæð frá 30.000.000 kr. að 90.000.000 kr.          130.000 kr.
                      d.      Af áfrýjunarfjárhæð frá 90.000.000 kr. að 150.000.000 kr.          200.000 kr.
                      e.      Af áfrýjunarfjárhæð frá 150.000.00 kr. og fjárhæðum umfram það          300.000 kr.
                  4.      Fyrir þingfestingu          25.000 kr.
                  5.      Útivistargjald          50.000 kr.
     b.      Á eftir orðunum „Fyrir kæru“ í 1. tölul. 2. mgr. kemur: eða kæruleyfi.
     c.      Í stað orðanna „1. og 2. mgr.“ í 4. mgr. kemur: 1.–3. mgr.
     d.      Í stað orðanna „1.–3. mgr.“ í 5. mgr. kemur: 1.–4. mgr.

8. gr.

    Á eftir orðinu „héraðsdómi“ í 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: Landsrétti.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „héraðsdómi“ í 1. mgr. kemur: Landsrétti.
     b.      Á eftir orðunum „kæru til“ í 1. mgr. kemur: Landsréttar og.
     c.      Í stað orðanna „í stað gjalds skv. 1. tölul.“ í 1. mgr. kemur: fyrir Landsrétti og 3. tölul. 3. mgr. 1. gr. fyrir Hæstarétti, í stað gjalds skv. 1. tölul. 2. og 3. mgr. 1. gr.
     d.      Í stað orðanna „5. mgr.“ í 5. mgr. kemur: 6. mgr.

10. gr.

    Í stað orðanna „5. mgr.“ í 5. mgr. 4. gr. laganna kemur: 6. mgr.

11. gr.

    Á eftir orðinu „Hæstarétti“ í 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: Landsrétti.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum.
12. gr.

    Á eftir orðinu „hæstaréttardómara“ í 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: landsréttardómara.

13. gr.

    Í stað orðsins „Dómstólaráð“ í 4. mgr. 15. gr. laganna kemur: Dómstólasýslan.

14. gr.

    3. tölul. 1. mgr. 22. gr. laganna orðast svo: Hæstaréttardómarar, skrifstofustjóri Hæsta­réttar, landsréttardómarar, skrifstofustjóri Landsréttar, héraðsdómarar og framkvæmdastjóri dómstólasýslunnar.

VIII. KAFLI
Breyting á lögum um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, með síðari breytingum.
15. gr.

    Í stað orðanna „2. mgr. 12. gr. laga um dómstóla, nr. 15/1998“ í 1. mgr. 141. gr. laganna kemur: 2. mgr. 29. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016.

IX. KAFLI
Breyting á lögum um kjararáð, nr. 47/2006, með síðari breytingum.
16. gr.

    Á eftir orðinu „hæstaréttardómara“ í 3. gr. laganna kemur: landsréttardómara.

X. KAFLI
Breyting á lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015.
17. gr.

     a.      Í stað orðanna „dómstólaráð og Hæstarétt Íslands“ í 3. mgr. 20. gr. og 1. málsl. 3. mgr. 21. gr. laganna kemur: dómstólasýsluna.
     b.      Í stað orðanna „dómstólaráðs eða Hæstaréttar Íslands“ í 2. málsl. 3. mgr. 21. gr. laganna kemur: dómstólasýslunnar.

XI. KAFLI
Breyting á lögum um ríkislögmann, nr. 51/1985, með síðari breytingum.
18. gr.

    Í stað orðanna „hæstaréttar- eða héraðsdómslögmönnum“ í 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: lögmönnum.

XII. KAFLI
Breyting á lögum um rannsóknarnefndir, nr. 68/2011, með síðari breytingum.
19. gr.

    Í stað orðanna „5. mgr. 31. gr.“ í 2. mgr. 2. gr. laganna kemur: 5. mgr. 52. gr.

20. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Hæstaréttar“ í lokamálslið 5. mgr. kemur: Landsréttar.
     b.      Við 5. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Um kæru á úrskurði Landsréttar gilda ákvæði XXXII. kafla laga um meðferð sakamála.

XIII. KAFLI
Breyting á upplýsingalögum, nr. 140/2012, með síðari breytingum.
21. gr.

    Í stað orðanna „12. gr.“ í 1. mgr. 21. gr. laganna kemur: 29. gr.

XIV. KAFLI
Breyting á þinglýsingalögum, nr. 39/1978, með síðari breytingum.
22. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Hæstaréttar“ í 5. mgr. kemur: Landsréttar.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Úrskurðir Landsréttar um atriði sem talin eru upp í 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sæta kæru til Hæstaréttar. Þá er unnt að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra til réttarins úrskurði Landsréttar í kærumálum samkvæmt þessum kafla sem fela í sér lokaákvörðun um ágreiningsefnið.

23. gr.

    Í stað orðanna „héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanni“ og „fulltrúum þeirra“ í 1. mgr. 22. gr. laganna kemur: lögmanni; og: fulltrúa hans.

24. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Hæstaréttar“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: Landsréttar og fer um þá kæru samkvæmt lögum um meðferð einkamála.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Aðrir úrskurðir Landsréttar en mælt er fyrir um í 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála verða ekki kærðir til Hæstaréttar.

XV. KAFLI
Breyting á lögum um horfna menn, nr. 44/1981, með síðari breytingum.
25. gr.

    Í stað orðsins „Hæstaréttar“ í 2. mgr. 1. gr. laganna kemur: Landsréttar.

26. gr.

    1. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:
    Úrskurði dómara skv. 10. og 12. gr. verður skotið til Landsréttar samkvæmt reglum laga um meðferð einkamála um kæru. Aðrir úrskurðir Landsréttar en mælt er fyrir um í 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála verða ekki kærðir til Hæstaréttar. Dómi skv. 12. gr. verður áfrýjað til æðri dóms samkvæmt reglum laga um meðferð einkamála um áfrýjun. Sóknaraðili, réttargæslumaður og erfingjar hins horfna geta skotið úrskurði eða dómi til Landsréttar, svo og aðrir þeir sem hagsmuna hafa að gæta af úrslitum máls, og enn fremur ráðuneytið.

XVI. KAFLI
Breyting á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984, með síðari breytingum.
27. gr.

    Í stað orðsins „Hæstaréttar“ í 24. gr. laganna kemur: Landsréttar.

XVII. KAFLI
Breyting á siglingalögum, nr. 34/1985, með síðari breytingum.
28. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 220. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Hæstaréttar“ í 6. mgr. kemur: Landsréttar.
     b.      Við 6. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Aðrir úrskurðir Landsréttar en mælt er fyrir um í 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála verða ekki kærðir til Hæstaréttar.

XVIII. KAFLI
Breyting á umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum.
29. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 103. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Hæstaréttar“ í 1. mgr. kemur: Landsréttar.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Um kæru á úrskurði Landsréttar gilda ákvæði XXXII. kafla laga um meðferð sakamála.

XIX. KAFLI
Breyting á lögum um samningsbundna gerðardóma, nr. 53/1989, með síðari breytingum.
30. gr.

    Í stað orðsins „Hæstaréttar“ í 4. málsl. 2. mgr. 5. gr. og 3. mgr. 6. gr. laganna kemur: æðri dóms.

31. gr.

    Í stað orðsins „Hæstaréttar“ í 5. málsl. 2. mgr. 5. gr., 2. mgr. 9. gr., 10. gr. og 3. mgr. 12. gr. laganna kemur: Landsréttar.

32. gr.

    Á eftir 1. mgr. 12. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Lög um meðferð einkamála gilda um málsóknina og málskot til æðri dóms að öðru leyti en kveðið er á um í lögum þessum.

XX. KAFLI
Breyting á lögum um aðför, nr. 90/1989, með síðari breytingum.
33. gr.

    Í stað orðanna „hæstaréttar- eða héraðsdómslögmanni“ í 7. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna kemur: lögmanni.

34. gr.

    Í stað 4. mgr. 84. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Úrskurðir héraðsdómara samkvæmt þessum kafla sæta kæru til Landsréttar. Þó verða ekki kærðir úrskurðir sem eru kveðnir upp eða ákvarðanir sem eru teknar undir rekstri máls og mundu ekki sæta kæru ef um væri að ræða einkamál sem væri rekið eftir almennum reglum. Þá verða ekki heldur kærðir úrskurðir héraðsdómara sem fela í sér lokaákvörðun hans um ágreiningsefni, nema fullnægt sé almennum skilyrðum til áfrýjunar dómi í einkamáli. Um kærufresti, kæruna sjálfa og meðferð hennar í héraði og fyrir Landsrétti gilda sömu reglur og um kæru í almennu einkamáli.
    Úrskurðir Landsréttar um atriði sem talin eru upp í 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sæta kæru til Hæstaréttar. Þá er unnt að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra til réttarins úrskurði Landsréttar í kærumálum samkvæmt þessum kafla sem fela í sér loka­ákvörðun um ágreiningsefnið.

35. gr.

    Í stað 4. mgr. 91. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Úrskurðir héraðsdómara samkvæmt þessum kafla sæta kæru til Landsréttar. Þó verða ekki kærðir úrskurðir sem eru kveðnir upp eða ákvarðanir sem eru teknar undir rekstri máls og mundu ekki sæta kæru ef um væri að ræða einkamál sem væri rekið eftir almennum reglum. Þá verða ekki heldur kærðir úrskurðir héraðsdómara sem fela í sér lokaákvörðun hans um ágreiningsefni, nema fullnægt sé almennum skilyrðum til áfrýjunar dómi í einkamáli. Um kærufresti, kæruna sjálfa og meðferð hennar í héraði og fyrir Landsrétti gilda sömu reglur og um kæru í almennu einkamáli.
    Úrskurðir Landsréttar um atriði sem talin eru upp í 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sæta kæru til Hæstaréttar. Þá er unnt að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra til réttarins úrskurði Landsréttar í kærumálum samkvæmt þessum kafla sem fela í sér loka­ákvörðun um ágreiningsefnið.

36. gr.

    Í stað 3. mgr. 95. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Úrskurðir héraðsdómara samkvæmt þessum kafla sæta kæru til Landsréttar. Þó verða ekki kærðir úrskurðir sem eru kveðnir upp eða ákvarðanir sem eru teknar undir rekstri máls og mundu ekki sæta kæru ef um væri að ræða einkamál sem væri rekið eftir almennum reglum. Þá verða ekki heldur kærðir úrskurðir héraðsdómara sem fela í sér lokaákvörðun hans um ágreiningsefni, nema fullnægt sé almennum skilyrðum til áfrýjunar dómi í einkamáli. Um kærufresti, kæruna sjálfa og meðferð hennar í héraði og fyrir Landsrétti gilda sömu reglur og um kæru í almennu einkamáli.
    Úrskurðir Landsréttar um atriði sem talin eru upp í 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sæta kæru til Hæstaréttar. Þá er unnt að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra til réttarins úrskurði Landsréttar í kærumálum samkvæmt þessum kafla sem fela í sér loka­ákvörðun um ágreiningsefnið.

XXI. KAFLI
Breyting á lögum um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991, síðari breytingum.
37. gr.

    Í stað orðanna „hæstaréttar- eða héraðsdómslögmanni“ í 2. mgr. 12. gr. laganna kemur: lögmanni.

38. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 133. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Hæstaréttar“ í 1. mgr. kemur: Landsréttar.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Úrskurðir Landsréttar um atriði sem talin eru upp í 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sæta kæru til Hæstaréttar. Þá er unnt að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra til réttarins úrskurði Landsréttar í kærumálum samkvæmt þessum kafla sem fela í sér lokaákvörðun um ágreiningsefnið.
     c.      Á eftir orðunum „og fyrir“ í 2. mgr. kemur: Landsrétti og.


XXII. KAFLI
Breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með síðari breytingum.
39. gr.

    Í stað orðanna „héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanni“ í 1. mgr. 50. gr. laganna kemur: lögmanni.

40. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 179. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Hæstaréttar“ í 1. mgr. kemur: Landsréttar.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Úrskurðir Landsréttar um atriði sem talin eru upp í 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sæta kæru til Hæstaréttar. Þá er unnt að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra til réttarins úrskurði Landsréttar í kærumálum samkvæmt þessum kafla sem fela í sér lokaákvörðun um ágreiningsefnið.
     c.      Á eftir orðunum „og fyrir“ í 2. mgr. kemur: Landsrétti og.

XXIII. KAFLI
Breyting á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991, með síðari breytingum.
41. gr.

    Í stað orðanna „héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanni“ í 3. mgr. 42. gr. og „hæstaréttar- eða héraðsdómslögmanni“ 3. mgr. 71. gr. laganna kemur: eða lögmanni; og: lögmanni.

42. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 79. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Hæstaréttar“ í 1. mgr. kemur: Landsréttar.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Úrskurðir Landsréttar um atriði sem talin eru upp í 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sæta kæru til Hæstaréttar. Þá er unnt að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra til réttarins úrskurði Landsréttar í kærumálum samkvæmt þessum kafla sem fela í sér lokaákvörðun um ágreiningsefnið.
     c.      Á eftir orðunum „og fyrir“ í 2. mgr. kemur: Landsrétti og.

43. gr.

    Í stað orðanna „1. og 2. mgr.“ í 1. mgr. 85. gr. laganna kemur: 1.–3. mgr.

XXIV. KAFLI
Breyting á hjúskaparlögum, nr. 31/1993, með síðari breytingum.
44. gr.

    Í stað orðanna „héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanni“ í 80. gr. laganna kemur: lögmanni.

XXV. KAFLI
Breyting á lögum um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 21/1994, með síðari breytingum.
45. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Hæstaréttar“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: Landsréttar.
     b.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Aðrir úrskurðir Landsréttar en mælt er fyrir um í 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála verða ekki kærðir til Hæstaréttar.

46. gr.

    Í stað orðsins „Hæstaréttar“ í 2. gr. laganna kemur: æðri dóms.

47. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Landsréttur og Hæstiréttur geta jafnan kveðið upp úrskurði, eins og lýst er í 1. og 2. mgr. 1. gr., í máli sem fyrir þeim er rekið.

XXVI. KAFLI
Breyting á lögum um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl., nr. 160/1995, með síðari breytingum.
48. gr.

    Í stað orðsins „Hæstaréttar“ í 2. mgr. 18. gr. og 4. mgr. 21. gr. laganna kemur: Landsréttar.

XXVII. KAFLI
Breyting á lögræðislögum, nr. 71/1997, með síðari breytingum.
49. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 6. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Hæstaréttar“ kemur: Landsréttar.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Aðrir úrskurðir Landsréttar en mælt er fyrir um í 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála verða ekki kærðir til Hæstaréttar.

50. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Aðrir úrskurðir Landsréttar en mælt er fyrir um í 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála verða ekki kærðir til Hæstaréttar.
     b.      Á eftir orðinu „fyrir“ í 3. mgr. kemur: Landsrétti og.
     c.      Á eftir orðinu „dómi“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: Landsréttar og; og á eftir orðunum „breytt í“ í 2. málsl. sömu málsgreinar kemur: Landsrétti eða.

51. gr.

    Á eftir orðunum „málskot til“ í 2. mgr. 17. gr. laganna kemur: Landsréttar eða.

XXVIII. KAFLI
Breyting á lögum um dómstóla, nr. 15/1998, með síðari breytingum.
52. gr.

    Í stað tölunnar „43“ í 44. gr. laganna kemur: 42; og í stað orðanna „1. janúar 2016“ í sömu grein kemur: 31. desember 2017.

53. gr.

    Í stað ártalsins „2016“ í 46. gr. laganna kemur: 2017.

XXIX. KAFLI
Breyting á lögum um lögmenn, nr. 77/1998, með síðari breytingum.
54. gr.

    Í stað orðanna „vera hæstaréttarlögmaður eða héraðsdómslögmaður“ í 1. mgr. 1. gr. lag­anna kemur: flytja mál fyrir héraðsdómstólum, Landsrétti eða Hæstarétti Íslands.

55. gr.

    Í stað orðanna „Réttindi til að vera héraðsdómslögmaður“ í 1. mgr. 6. gr. laganna kemur: Málflutningsréttindi fyrir héraðsdómstólum.

56. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „réttindi til að vera héraðsdómslögmaður“ í 1. mgr. kemur: málflutnings­réttindi fyrir héraðsdómstólum.
     b.      Í stað orðsins „lögmannsréttinda“ í 2. mgr. kemur: málflutningsréttinda fyrir héraðs­dómstólum.

57. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „leyfi til að vera héraðsdómslögmaður“ í 1. mgr. kemur: málflutnings­réttindi fyrir héraðsdómstólum.
     b.      Í stað orðanna „handa héraðsdómslögmanni“ í 2. mgr. kemur: vegna málflutnings­réttinda fyrir héraðsdómstólum.
     c.      Í stað orðsins „Héraðsdómslögmaður“ í 3. mgr. kemur: Handhafi málflutningsréttinda fyrir héraðsdómstólum.

58. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Réttindi til að vera hæstaréttarlögmaður“ í 1. mgr. kemur: Málflutnings­réttindi fyrir Landsrétti.
     b.      Í stað orðanna „réttindi til að vera héraðsdómslögmaður“ í 1. tölul. 1. mgr. kemur: málflutningsréttindi fyrir héraðsdómstólum.
     c.      Í stað „1.–3.“ í 2. tölul. 1. mgr. kemur: 1.–4.
     d.      Í stað „30“ og „10“ í 3. tölul. 1. mgr. kemur: 25; og: 15.
     e.      Í stað orðsins „Hæstaréttar“ tvisvar í 3. tölul. 1. mgr., 2. mgr. og 3. mgr. kemur: Lands­réttar.
     f.      Í stað orðsins „Hæstarétti“ í 4. tölul. 1. mgr., 2. mgr. og 3. mgr. kemur: Landsrétti.
     g.      Orðin „fyrir fimm eða sjö dómurum“ í 4. tölul. 1. mgr. falla brott.

59. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „leyfi til að vera hæstaréttarlögmaður“ í 1. mgr. kemur: málflutnings­réttindi fyrir Landsrétti.
     b.      Í stað orðanna „handa hæstaréttarlögmanni“ í 2. mgr. kemur: vegna málflutningsréttinda fyrir Landsrétti.
     c.      3. mgr. orðast svo:
                 Handhafi málflutningsréttinda fyrir Landsrétti má gæta hagsmuna aðila í málum fyrir öllum héraðsdómstólum, Landsrétti og sérdómstólum.

60. gr.

    Á eftir 10. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 10. gr. a og 10. gr. b, svohljóðandi:

    a. (10. gr. a.)
    Málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti má veita þeim sem um þau sækir og fullnægir þessum skilyrðum:
     1.      hefur haft málflutningsréttindi fyrir Landsrétti í þrjú ár,
     2.      fullnægir þeim kröfum sem er getið í 1.–4. tölul. 1. mgr. 6. gr.,
     3.      hefur flutt ekki færri en 15 mál munnlega fyrir Landsrétti, þar af a.m.k. 10 einkamál.
    Að fenginni umsögn Hæstaréttar getur sýslumaður vikið frá skilyrðum 1. og 3. tölul. 1. mgr. ef umsækjandi hefur gegnt dómaraembætti í a.m.k. tíu ár. Með sama hætti getur sýslu­maður vikið frá 1. og 3. tölul. 1. mgr. ef umsækjandi hefur um jafnlangan tíma gegnt embætti eða starfi sem fylgir lögum samkvæmt heimild til að flytja sakamál fyrir Hæstarétti.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð fyrirmæli um undanþágu frá skilyrðum 1. og 3. tölul. 1. mgr. handa þeim sem hafa öðlast hliðstæð réttindi í öðru ríki og fullnægja að öðru leyti þeim kröfum sem eru gerðar í 1.–4. tölul. 1. mgr. 6. gr., sbr. 2. og 3. mgr. sömu greinar.

    b. (10. gr. b.)
    Umsókn um málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti skal beint til sýslumanns. Skulu fylgja henni eftir þörfum gögn til staðfestingar því að umsækjandi fullnægi skilyrðum 10. gr. a til að öðlast réttindin.
    Sýslumaður gefur út leyfisbréf vegna málflutningsréttinda fyrir Hæstarétti.
    Handhafi málflutningsréttinda fyrir Hæstarétti má gæta hagsmuna aðila í málum fyrir öllum dómstólum landsins.

61. gr.

    2. mgr. 29. gr. laganna orðast svo:
    Þeim einum er heimilt að nota starfsheitið lögmaður sem hefur virk réttindi samkvæmt lögum þessum og uppfyllir ákvæði 12. gr. Lögmönnum sem hafa virk réttindi er einungis heimilt að tilgreina málflutningsréttindi sín í samræmi við það dómstig sem þeir hafa aflað sér málflutningsréttindi fyrir, sbr. ákvæði 6.–10. gr. og 10. gr. a og b. Brot gegn þessu ákvæði varðar sektum.

62. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þeir sem hafa aflað sér málflutningsréttinda fyrir Hæstarétti 1. janúar 2018 halda þeim réttindum.
    Hafi lögmaður 1. janúar 2018 lokið þremur prófmálum fyrir Hæstarétti má veita honum málflutningsréttindi fyrir Landsrétti, sbr. 9. gr. Hann telst svo uppfylla skilyrði 1. og 3. tölul. 1. mgr. 10. gr. a þegar hann hefur flutt fjögur mál munnlega fyrir Landsrétti, þar af a.m.k. þrjú einkamál.
    Hafi lögmaður 1. janúar 2018 lokið tveimur prófmálum fyrir Hæstarétti má veita honum málflutningsréttindi fyrir Landsrétti þótt hann flytji þar einungis eitt prófmál, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 9. gr. Hann telst svo uppfylla skilyrði 1. og 3. tölul. 1. mgr. 10. gr. a þegar hann hefur flutt átta mál munnlega fyrir Landsrétti, þar af a.m.k. fimm einkamál.
    Hafi lögmaður 1. janúar 2018 lokið einu prófmáli fyrir Hæstarétti má veita honum mál­flutningsréttindi fyrir Landsrétti þótt hann flytji þar aðeins tvö prófmál, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 9. gr. Hann telst svo uppfylla skilyrði 1. og 3. tölul. 1. mgr. 10. gr. a þegar hann hefur flutt tólf mál munnlega fyrir Landsrétti, þar af a.m.k. átta einkamál.

XXX. KAFLI
Breyting á lögum um ættleiðingar, nr. 130/1999, með síðari breytingum.
63. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 22. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Hæstaréttar“ í 2. mgr. kemur: Landsréttar.
     b.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                 Úrskurðir héraðsdómara samkvæmt lögum þessum sæta kæru til Landsréttar og fer um kæranleika og kæru og meðferð kærumála fyrir Landsrétti samkvæmt lögum um meðferð einkamála.
                 Aðrir úrskurðir Landsréttar en mælt er fyrir um í 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála verða ekki kærðir til Hæstaréttar.

64. gr.

    Á eftir orðunum „héraði og“ í 23. gr. laganna kemur: fyrir Landsrétti og.

XXXI. KAFLI
Breyting á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum.
65. gr.

    Í stað orðanna „héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanni“ í 1. mgr. 4. gr. og 7. mgr. 30. gr. laganna kemur: lögmanni.

66. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 15. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Hæstaréttar“ í lokamálslið kemur: Landsréttar.
     b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Unnt er að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra til réttarins úrskurð Landsréttar.

67. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 35. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Hæstarétti“ í 4. mgr. og 8. mgr. kemur: Landsrétti.
     b.      5. mgr. orðast svo:
                 Heimilt er að kæra úrskurð héraðsdómara skv. 1.–4. mgr. til Landsréttar. Um kæru­fresti, kæruna sjálfa og meðferð hennar í héraði og fyrir Landsrétti gilda sömu reglur og um kæru í almennu einkamáli. Kæra úrskurðar um farbann skv. 4. mgr. frestar þó ekki réttaráhrifum úrskurðar. Aðrir úrskurðir Landsréttar en mælt er fyrir um í 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála verða ekki kærðir til Hæstaréttar.

68. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 44. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Frestur til að áfrýja héraðsdómi til Landsréttar er fjórar vikur.
     b.      Í stað orðsins „Hæstarétti“ í lokamálslið 1. mgr. kemur: Landsrétti.


XXXII. KAFLI
Breyting á lögum um öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum, nr. 53/2006, með síðari breytingum.
69. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Hæstaréttar“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: Landsréttar.
     b.      Á eftir 1. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Aðrir úrskurðir Landsréttar en mælt er fyrir um í 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála verða ekki kærðir til Hæsta­réttar.
     c.      Á undan orðinu „Hæstarétti“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: Landsrétti og.
     d.      Í stað orðsins „Hæstarétti“ í 2. mgr. kemur: æðri dómi.

70. gr.

    Í stað orðsins „Hæstaréttar“ í 4. mgr. 20. gr. laganna kemur: Landsréttar.

XXXIII. KAFLI
Breyting á lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, með síðari breytingum.
71. gr.

    Í stað orðanna „4. mgr. 31. gr.“ í 2. mgr. 9. gr. laganna kemur: 5. mgr. 52. gr.

XXXIV. KAFLI
Breyting á lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili, nr. 85/2011, með síðari breytingum.
72. gr.

    Í stað orðanna „Um kæru gilda“ í 2. málsl. 3. mgr. 15. gr. laganna kemur: Um kæru til Landsréttar og Hæstaréttar gilda.

XXXV. KAFLI
Breyting á lögum um fullnustu refsinga, nr. 15/2016.
73. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 82. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Hæstaréttar“ í 2. mgr. kemur: Landsréttar.
     b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi. Um kæru á úrskurði Landsréttar gilda ákvæði XXXII. kafla laga um meðferð sakamála.

74. gr.

    Í stað orðanna „2. mgr. 221. gr.“ í 2. mgr. 91. gr. laganna kemur: 2. mgr. 238. gr.

XXXVI. KAFLI
Breyting á lögum um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála (millidómstig), nr. 49/2016.
75. gr.

    Í stað orðsins „dóm“ í 1. málsl. 2. mgr. a-liðar 64. gr. laganna kemur: úrskurð.

76. gr.

    78. gr. laganna orðast svo:
    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2018. Þau taka þó ekki til ólokinna mála sem skotið hefur verið til Hæstaréttar með áfrýjun eða kæru við gildistöku þeirra eða ákærði lýst yfir áfrýjun í bréflegri tilkynningu sem borist hefur ríkissaksóknara við gildistöku laganna. Sama gildir um mál sem óskað hefur verið eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja eða kæra fyrir gildistöku laga þessara.
    Í einkamálum sem dæmd hafa verið í héraðsdómi en ekki áfrýjað til Hæstaréttar fyrir gildistöku laga þessara gildir áfrýjunarfrestur eldri laga um áfrýjun til Landsréttar.
    Í málum sem dæmd hafa verið í héraði fyrir gildistöku laga þessara en munnlegar skýrslur ekki verið teknar upp í mynd skal hljóðupptaka lögð að jöfnu við myndupptöku ef málsaðilar gera ekki athugasemdir við það en munnleg skýrsla ella endurtekin fyrir Landsrétti ef Lands­réttur telur þörf á.

XXXVII. KAFLI
Breyting á lögum um dómstóla, nr. 50/2016.
77. gr.

    Í stað orðsins „hæstaréttarlögmaður“ í 7. tölul. 2. mgr. 13. gr. og 7. tölul. 2. mgr. 21. gr. laganna kemur: lögmaður með málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti.

78. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 48. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „kvörtun“ og „kvörtuninni“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: erindi; og: því.
     b.      Í stað orðanna „tvær eða fleiri kvartanir“ í 4. málsl. 1. mgr. kemur: tvö eða fleiri mál.
     c.      Í stað orðanna „kvörtun metin tæk“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: erindi metið tækt.
     d.      Í stað orðanna „kvartað er yfir“ og „kvörtunina“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: lýst er í erindi; og: erindið.
     e.      Í stað orðanna „kvörtun tæka“ í 3. mgr. kemur: erindi tækt.

79. gr.

    Í stað orðanna „þessa ákvæðis“ í ákvæði til bráðabirgða I í lögunum kemur: laga þessara.

80. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða II í lögunum orðast svo:
    Í þeim tilgangi að undirbúa starfsemi dómstólasýslunnar, þ.m.t. að skipa framkvæmda­stjóra hennar, skal skipa í stjórn dómstólasýslunnar í fyrsta skipti frá og með 1. júlí 2017. Heimilt er að skipa framkvæmdastjóra dómstólasýslunnar frá 1. október 2017.
    Þegar skipað er í fyrsta skipti í stjórn dómstólasýslunnar skv. 6. gr. skal forseti Landsréttar skipaður aðalmaður til eins árs og varaforseti Landsréttar varamaður hans til jafnlangs tíma. Annar aðalmaður ásamt varamanni skal skipaður til tveggja ára, þriðji aðalmaður ásamt vara­manni til þriggja ára og þannig koll af kolli svo að fimmti aðalmaðurinn ásamt varamanni sé skipaður til fimm ára. Skal skipunartími annarra en fulltrúa Landsréttar ákveðinn af tilviljun þegar ráðið hefur verið hverjir veljast þar til starfa.
    Við gildistöku laga þessara fellur niður skipun í dómstólaráð.

81. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða IV í lögunum:
     a.      Í stað orðsins „júlí“ í 1. mgr. kemur: júní.
     b.      Í stað 3. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                 Þeir sem hlotið hafa skipun sem dómarar við Landsrétt skulu eigi síðar en 20. júní 2017 kjósa sér forseta til fimm ára og varaforseta til sama tíma. Ráðherra tilkynnir í fyrsta sinn um kjör forseta og varaforseta Landsréttar með auglýsingu í Lögbirtinga­blaði.
                 Forseti skal skipaður dómari við Landsrétt frá 1. júlí 2017. Forseta er frá þeim tíma heimilt að taka nauðsynlegar ákvarðanir til undirbúnings starfsemi Landsréttar, þ.m.t. ráða starfsfólk til réttarins.

XXXVIII. KAFLI
Breyting á lögum um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar, nr. 51/2016.
82. gr.

     a.      Í stað orðsins „Hæstaréttar“ í 5. mgr. 14. gr., 3. mgr. 15. gr., 5. mgr. 21. gr. og 3. mgr. 22. gr. laganna kemur: Landsréttar.
     b.      Í stað orðsins „Hæstiréttur“ í 3. mgr. 15. gr. og 3. mgr. 22. gr. laganna kemur: Lands­réttur.
     c.      Í stað orðsins „dóm“ í 3. mgr. 15. gr. og 3. mgr. 22. gr. laganna kemur: úrskurð.

XXXIX. KAFLI
Breyting á lögum um opinber skjalasöfn, nr. 77/2014.
83. gr.

    Á eftir orðinu „Hæstarétt“ í 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. laganna kemur: Landsrétt.

XL. KAFLI
Breyting á sóttvarnalögum, nr. 19/1997, með síðari breytingum.
84. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Hæstaréttar“ í 3. mgr. kemur: Landsréttar.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Um kæru á úrskurði Landsréttar gilda ákvæði XXXII. kafla laga um meðferð sakamála.

XLI. KAFLI
Breyting á barnaverndarlögum, nr. 80/2002, með síðari breytingum.
85. gr.

    Á eftir orðinu „héraðsdómi“ í 1. mgr. 60. gr. laganna kemur: og fyrir Landsrétti.

86. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 64. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Hæstaréttar“ í 1. mgr. kemur: Landsréttar; og í stað orðsins „Hæstarétti“ í sömu málsgrein kemur: Landsrétti.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Úrskurðir Landsréttar um atriði sem talin eru upp í 1. mgr. 67. gr. laga um meðferð einkamála sæta kæru til Hæstaréttar. Þá er unnt að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra til réttarins úrskurði Landsréttar í kærumálum um varanlega sviptingu forsjár.

XLII. KAFLI
Breyting á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, með síðari breytingum.
87. gr.

    Á undan orðinu „Hæstarétti“ í 6. mgr. 5. gr. laganna kemur: Landsrétti og.

XLIII. KAFLI
Breyting á lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011, með síðari breytingum.
88. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Hæstaréttar“ í 3. mgr. kemur: Landsréttar.
     b.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Aðrir úrskurðir Landsréttar en mælt er fyrir um í 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála verða ekki kærðir til Hæstaréttar.

89. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Hæstaréttar“ í 4. mgr. kemur: Landsréttar.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Aðrir úrskurðir Landsréttar en mælt er fyrir um í 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála verða ekki kærðir til Hæstaréttar.

XLIV. KAFLI
Gildistaka.
90. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2018 að frátöldum ákvæðum 52. og 53. gr. og 75.–81. gr. sem taka þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Þann 26. maí 2016 samþykkti Alþingi tvö lagafrumvörp innanríkisráðherra sem koma á fót millidómstigi á Íslandi, annars vegar ný heildarlög um dómstóla, nr. 50/2016, og hins vegar lög um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála (millidómstig), nr. 49/2016. Taka framangreind lög gildi 1. janúar 2018. Frumvarp þetta er lagt fram í þeim tilgangi að laga aðra löggjöf að þeim breytingum sem stofnun millidómstigs hér á landi hefur í för með sér.
    Frumvarpið er samið í innanríkisráðuneytinu sem naut við það liðsinnis Sigurðar Tómasar Magnússonar, prófessors við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Jafnframt var haft samráð við sérstakan rýnihóp sem skipaður var Árna Kolbeinssyni, fyrrverandi hæstaréttardómara, Ólöfu Finnsdóttur, framkvæmdastjóra dómstólaráðs, Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara, Skúla Magnússyni, héraðsdómara og formanni Dómarafélags Íslands, og Stefáni A. Svenssyni hrl. Þá var haft samráð við réttarfarsnefnd sem og Lögmannafélag Íslands við undirbúning frumvarpsins.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Ljóst er að samþykkt framangreindra laga sem koma á fót millidómstigi hér á landi, er hlýtur nafnið Landsréttur, kallar á breytingar á fjölmörgum lagabálkum. Þótt stærstu skrefin hafi þannig þegar verið stigin með samþykkt nýrra heildarlaga um dómstóla og tilheyrandi breytingum á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála eru fjölmörg ákvæði í öðrum lögum sem í minna eða meira mæli lúta að réttarkerfinu og laga verður að hinni nýju löggjöf. Nauðsynlegar breytingar eru misumfangsmiklar en þær veigamestu lúta að kæruheimildum á milli dómstiga, einkum í fullnusturéttarfari, og málflutningsréttindum lögmanna. Sem fyrr greinir er frumvarp þetta samið í þeim tilgangi að aðlaga gildandi löggjöf fyrirhuguðum breytingum á íslensku réttarkerfi og er það lagt fram í beinu framhaldi af lögum þeim sem samþykkt voru á Alþingi þann 26. maí 2016.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á fjölmörgum lagabálkum sem nauðsynlegt er að laga að nýrri löggjöf um dómstólaskipunina, en einnig eru lagðar til lagfæringar á bráðabirgðaákvæðum nýrra laga um dómstóla, nr. 50/2016, sem og breyting á lagaskilaákvæði laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála (millidómstig), nr. 49/2016. Helstu breytingar eru sem hér segir:
     1.      Lagðar eru til breytingar á gildandi lögum um dómstóla, nr. 15/1998, þannig að dómarar í Hæstarétti verði 10 út árið 2017 og dómarar í héraði 42.
     2.      Lagðar eru til breytingar á bráðabirgðaákvæðum nýrra laga um dómstóla í því skyni að tryggja nægilegt svigrúm við undirbúning hins nýja dómstigs, Landsréttar, sem og dómstólasýslunnar.
     3.      Lagt er til að lagaskilaákvæði 78. gr. laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála (millidómstig), nr. 49/2016, verði breytt í þá veru að Hæstiréttur ljúki meðferð þeirra mála sem réttinum hafa borist þann 1. janúar 2018. Samkvæmt núgildandi ákvæði er ráðgert að þau mál sem Hæstiréttur hefur ekki lokið á þeim tíma færist til Landsréttar.
     4.      Lagðar eru til breytingar á þeim ákvæðum laga um lögmenn, nr. 77/1998, er varða málflutningsréttindi lögmanna. Er í þeim efnum byggt á tillögum sem samþykktar voru á félagsfundi Lögmannafélags Íslands.
     5.      Lagðar eru til breytingar og viðbætur á ákvæðum fjölmargra sérlaga, einkum á sviði fullnusturéttarfars, er varða kæruheimildir á milli dómstiga. Nánar verður vikið að þeim tillögum í næsta kafla.
    Aðrar breytingar en þær sem hér hefur verið getið eru minni háttar og varða fyrst og fremst lagasamræmingu.

IV. Nánar um kæruheimildir á milli dómstiga.
    Í lögum nr. 49/2016, um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála (millidómstig), voru gerðar þær breytingar á þessum tveimur réttarfarslagabálkum sem nauðsynlegar voru vegna stofnunar nýs millidómstigs, Landsréttar. Í þeim lögum var meðal annars tekin afstaða til kæruheimilda til Landsréttar í einkamálum og sakamálum, forms dómsúrlausna Landsréttar í kærumálum og heimilda til að skjóta dómsúrlausnum Landsréttar til Hæstaréttar.
    Sú afstaða var tekin að þar sem áður var heimild í einkamálalögum og sakamálalögum til að skjóta dómsúrlausn héraðsdóms til Hæstaréttar með kæru yrði eftir stofnun Landsréttar heimilt að skjóta slíkri dómsúrlausn til Landsréttar með kæru.
    Í 2. mgr. 26. gr. laganna, sem verður að 2. mgr. 164. gr. einkamálalaga, var tekið af skarið um að Landsréttur kvæði upp úrskurði í kærumálum en þó skyldi kveðinn upp dómur þegar svo væri mælt fyrir um í öðrum lögum. Í því samhengi er rétt að geta þess að samkvæmt gildandi lögum kveður Hæstiréttur upp dóma í öllum kærumálum og gera lög nr. 49/2016 ráð fyrir að svo verði áfram. Þá er í frumvarpinu gengið út frá þeirri algildu reglu að dómum verði áfrýjað ef áfrýjunarheimild er fyrir hendi en úrskurðir verði kærðir ef kæruheimild er fyrir hendi.
    Í athugasemdum við 2. mgr. 26. gr. í greinargerð með frumvarpinu til framangreindra laga segir eftirfarandi: „Þannig er gert ráð fyrir að úrskurðir séu að jafnaði kveðnir upp í kærumálum þar sem skotið er til réttarins úrskurðum héraðsdóms um réttarfarsatriði í almennum einkamálum. Ástæðan fyrir því að lagt er til að kærumál af þessu tagi verði til lykta leidd með úrskurði er fyrst og fremst sú að gert er ráð fyrir að unnt verði að skjóta sumum af þessum dómsathöfnum til Hæstaréttar með kæru og því þykir eðlilegra að kveðinn sé upp úrskurður í Landsrétti. Þannig verður almenna reglan áfram sú að úrskurðir verði kæranlegir til æðri réttar en dómar áfrýjanlegir. Rétt þykir að hafa annan hátt á um mál sem rekin eru fyrir héraðsdómi samkvæmt afbrigðilegri málsmeðferð á grundvelli ákvæða í sérlögum, t.d. á sviði fullnusturéttar. Til að tryggja greiða málsmeðferð í þessum málum hefur löggjafinn valið að unnt sé að skjóta þessum úrskurðum til æðri réttar með kæru en ekki áfrýjun. Mörg þeirra mála sem rekin eru fyrir dómstólum samkvæmt slíkum réttarfarsákvæðum, t.d. ágreiningsmál vegna gjaldþrotaskipta og dánarbússkipta, snúast hins vegar um efnisréttarlegan ágreining og eru þessi mál um margt lík almennum einkamálum. Ætlunin er að leggja fram sérstakt frumvarp í kjölfar þessa frumvarps þar sem lagðar eru til breytingar á réttarfarskafla laga sem kveða á um slíka afbrigðilega meðferð. Í slíku frumvarpi verður tekin afstaða til þess hvaða ágreiningsefni eru þess eðlis að rétt sé að unnt verði að skjóta úrlausn Landsréttar um þau til Hæstaréttar en í þeim tilvikum verður lagt til að kveðinn verði upp dómur í kærumáli fyrir Landsrétti. Í þeim tilvikum sem taldir eru meiri hagsmunir á að fá endanlega niðurstöðu dómstóla með skjótum hætti verður hins vegar lagt til að á kærumál fyrir Landsrétti verði lagður úrskurður. Í undantekningartilvikum verði kveðið á um að unnt sé að óska eftir heimild Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar í kærumáli vegna slíks ágreiningsmáls, sbr. 2. mgr. a-liðar 29. gr. frumvarpsins.“
    Í raun voru þannig gefnir þrír kostir við að afmarka í öðrum lögum en einkamálalögum heimildir til málskots á dómsúrlausnum Landsréttar til Hæstaréttar í kærumálum vegna úrskurða héraðsdóms um tilteknar tegundir ágreinings. Í fyrsta lagi að kveðinn yrði upp dómur í Landsrétti í kærumálum vegna tiltekinna tegunda ágreinings og þá yrði eftir atvikum unnt að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja slíkum dómi til réttarins. Í öðru lagi að kveðinn yrði upp úrskurður í Landsrétti í kærumálum vegna tiltekinna tegunda ágreinings og að unnt væri að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra slíka úrskurði Landsréttar til Hæstaréttar. Í þriðja lagi að kveðinn yrði upp úrskurður í Landsrétti um ágreiningsefnið sem ekki væri unnt að skjóta til Hæstaréttar.
    Við vinnslu þessa frumvarps gafst betra ráðrúm til að skoða hvern fyrrgreindra kosta varðandi val á tegund dómsúrlausnar í Landsrétti og hvaða heimildir til málskots væri rétt að lögfesta í hverju tilviki fyrir sig þar sem nú er mælt fyrir um heimild til málskots til Hæstaréttar í öðrum lögum en einkamálum.
    Við vinnslu frumvarpsins var horft til eftirfarandi sjónarmiða við þetta val:
     1.      Við meðferð ágreiningsmála vegna aðfarargerða og nauðungarsölu er brýn þörf á skjótri málsmeðferð svo að fullnusta lögmætra krafna dragist ekki úr hófi. Svipuð sjónarmið eiga við um ágreiningsmál vegna dánarbússkipta og gjaldþrotaskipta og raunar ágreiningsmál sem rekin eru fyrir héraðsdómi á grundvelli fleiri sérlaga. Ljóst er að heimild til málskots á dómsúrlausnum Landsréttar til Hæstaréttar í slíkum kærumálum er til þess fallin að valda enn frekari töfum, sérstaklega ef dómur yrði kveðinn upp um ágreininginn fyrir Landsrétti sem síðan væri unnt að óska eftir leyfi til að áfrýja til Hæstaréttar.
     2.      Með því að lögfesta í miklum mæli að dómur verði kveðinn upp í Landsrétti í kærumáli um tiltekin ágreiningsefni eða að unnt verði að óska eftir leyfi til að kæra úrskurð til Hæstaréttar eru talsvert aukin verkefni lögð á dómara Hæstaréttar í formi úrlausna um beiðnir um áfrýjunar- og kæruleyfi.
     3.      Mörg þeirra ágreiningsefna sem leyst er úr með úrskurði fyrir héraðsdómi á grundvelli ákvæða í öðrum lögum en einkamálalögum, og skotið verður með kæru til Landsréttar, eru sambærileg ágreiningsefnum í almennum einkamálum sem leyst er úr með dómi og skotið verður til Landsréttar, dæmd þar og síðan unnt að óska eftir að áfrýja til Hæstaréttar. Önnur þessara ágreiningsefna varða mikilvæga hagsmuni, svo sem stöðu í skiptaröð eða túlkun á mikilvægum lagaákvæðum, og kann að vera mikilvægt að Hæstiréttur geti sett mark sitt á réttarþróun á viðkomandi sviði.
     4.      Í athugasemdum við 133. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., koma fram sjónarmið sem skýra þá leið sem farin var í því frumvarpi, að allar úrlausnir héraðsdóms sem á annað borð verður skotið til æðra dóms eftir frumvarpinu sæti kæru til Hæstaréttar: „Í núgildandi reglu 2. tölul. 1. mgr. 21. gr. laga um Hæstarétt Íslands, nr. 75/1973, er gert ráð fyrir að sambærilegar úrlausnir sæti ýmist kæru eða verði áfrýjað, en greinarmunurinn milli þeirra tilvika, þar sem hvor leiðin um sig á við, er ekki fyllilega skýr. Að auki er sá umtalsverði ókostur á núverandi skipan að greint er milli mála sem sæta kæru og verður áfrýjað eftir því hvert meginefni máls telst vera hverju sinni, en sú aðgreining leiðir engan veginn sjálfkrafa til þess sem má þó vænta að hafi verið ætlast til með þessum reglum að minni mál sæti kæru og hljóti þar með skjóta meðferð en umfangsmeiri málum verði áfrýjað og sæti þá mun vandaðri og um leið seinlegri meðferð. Hefur þannig reyndin stundum orðið sú að lítilfjörleg mál hafa tafist mjög í meðförum með því að orðið hefur að fá leyst úr þeim fyrir Hæstarétti með áfrýjun, en viðamikil mál eða mál sem varða mikla hagsmuni hafa getað sætt kæru. Í þessu ljósi verður ekki séð að það þjóni teljandi tilgangi að láta núverandi reglur haldast, en að auki verður heldur ekki séð hvernig megi móta almennar reglur í þessum efnum sem geti þjónað því ætlunarverki á raunhæfan hátt að greina milli málskotsleiða eftir umfangi eða þýðingu mála og fengið samrýmst um leið þeirri almennri skipan við málskot sem nú gildir. Af þessum sökum verður varla um aðra kosti að velja en að leggja annaðhvort til að öll umrædd mál sæti kæru eða að þeim verði áfrýjað, en í ljósi þeirra hagsmuna, sem eru almennt í húfi á þessum vettvangi af því að mál hljóti úrlausn á sem skemmstum tíma, er varla nema um fyrri kostinn að ræða. Þótt þetta geti óneitanlega haft í för með sér að umfangsmikil mál sæti kæru í vissum tilvikum má benda á að Hæstiréttur getur ákveðið að kærumál verði munnlega flutt þar fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1973, og að ágrip dómsgerða verði lagt fram í slíku máli, þannig að meðferð þess verði í reynd hliðstæð því sem gerist við áfrýjun í öðrum atriðum en varða málshraða.“
    Með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum er tekin sú afstaða í frumvarpi þessu að í engum þeirra ágreiningsmála sem unnt verður að skjóta úrskurði héraðsdóms til Landsréttar með kæru væri ástæða til að Landsréttur legði dóm á kærumálið heldur kveði Landsréttur í öllum tilvikum upp úrskurð í samræmi við almennu regluna í 2. mgr. 164. gr. laga um meðferð einkamála, eins og það ákvæði mun hljóða eftir gildistöku laga nr. 49/2016. Eftir sem áður er mögulegt að kveða síðar á um það í sérlögum að kveða skuli upp dóm í Landsrétti í kærumáli tiltekinnar tegundar.
    Þá er á grundvelli sömu sjónarmiða farin sú leið í frumvarpi þessu að stilla í hóf ákvæðum í sérlögum sem heimila möguleika á að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að skjóta úrskurðum Landsréttar til Hæstaréttar með kæru. Þar blasir við sambærilegur vandi og rakinn var í framangreindum athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til laga um skipti á dánarbúum o.fl., þ.e. að erfitt er að skilgreina fyrir fram með almennum hætti eða með upptalningu þær tegundir ágreiningsefna á sviði einstakra sérlaga sem þörf er á að Hæstiréttur geti átt síðasta orðið um. Í þeim sérlögum sem á annað borð er talið heppilegt að hafa þann möguleika opinn að fá endanlegan dóm Hæstaréttar var farin sú leið að hafa heimildina mjög almennt orðaða þannig að unnt væri að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra til réttarins úrskurði Landsréttar í kærumálum samkvæmt umræddum lögum sem fela í sér lokaákvörðun um ágreiningsefnið. Nánar tiltekið, ef úrskurður Landsréttar felur í sér efnislega lokaafgreiðslu ágreiningsmálsins sem rekið var fyrir héraðsdómi, samsvarandi við efnisdóm í einkamáli, þá sé unnt að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra þann úrskurð Landsréttar til Hæstaréttar, óháð því hvert sakarefni málsins var fyrir héraðsdómi. Í þessum tilvikum þótti jafnframt rétt að taka af skarið um að úrskurðir Landsréttar um atriði sem talin væru upp í 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála, eins og það mun hljóða eftir gildistöku laga nr. 49/2016, sættu kæru til Hæstaréttar. Samkvæmt því verða ekki kærðir til Hæstaréttar aðrir úrskurðir Landsréttar um réttarfarságreining fyrir héraðsdómi. Þar undir falla t.d. úrskurðir um fresti, um öflun matsgerða fyrir héraðsdómi eða hvort vitni verði leitt fyrir héraðsdóm.
    Þessi ákvæði frumvarpsins eru nánar tiltekið b-liður 22. gr. sem mælir fyrir um breytingu á þinglýsingalögum nr. 39/1978, 2. mgr. 34., 35. og 36. gr. sem mæla fyrir um breytingar á 84., 91. og 95. gr. laga um aðför, nr. 90/1989, b-liður 38. gr. sem mælir fyrir um breytingu á 133. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991, b-liður 40. gr. sem mælir fyrir um breytingu á 179. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, b-liður 42. gr. sem mælir fyrir um breytingu á 79. gr. laga um nauðungarsölu, nr. 90/1991, og b-liður 86. gr. sem mælir fyrir um breytingu á 64. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.
    Í þeim tilvikum í frumvarpinu sem heimilt er að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar gilda ákvæði 2. mgr. 167. gr. einkamálalaga, eins og það ákvæði mun hljóða eftir gildistöku laga nr. 49/2016, um mat Hæstaréttar á því hvort samþykkja eigi kæru en óþarfi er að taka það fram í hverju tilviki fyrir sig. Nokkuð ströng skilyrði eru sett fyrir veitingu kæruleyfis en það verður síðan hlutverk Hæstaréttar að útfæra þau skilyrði.
    Til að taka af öll tvímæli er sú leið farin í nokkrum tilvikum í frumvarpinu að taka af skarið um að aðrir úrskurðir Landsréttar en mælt er fyrir um í 1. mgr. 167. gr. einkamálalaga verði ekki kærðir til Hæstaréttar, eins og það ákvæði mun hljóða. Með gagnályktun frá slíkum ákvæðum verða endanlegir úrskurðir Landsréttar um ágreiningsefnið, þ.e. þeir sem fela í sér efnislega niðurstöðu í málinu, ekki kærðir til Hæstaréttar og ekki heldur úrskurðir Landsréttar um annars konar réttarfarságreining fyrir héraðsdómi. Þar undir falla t.d. úrskurðir um fresti, um öflun matsgerða fyrir héraðsdómi eða hvort vitni verði leitt fyrir héraðsdóm.
    Óþarft þykir að taka fram í hverju tilviki fyrir sig að ákvæði einkamálalaga um umsókn um kæruleyfi, kærur og málsmeðferð í kærumálum fyrir Hæstarétti að öðru leyti gildi um kærur í ágreiningsmálum þar sem á annað borð er heimilt að óska eftir leyfi til kæru.
    Rétt þótti að nota tækifærið og færa ákvæði 84., 91. og 95. gr. laga um aðför nr. 90/1989 til samræmis við 1. mgr. 133. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991, og 1. mgr. 179. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, hvað varðar afmörkun á því hvaða úrskurðir sem kveðnir eru upp og ákvarðanir sem eru teknar undir rekstri máls í héraði og hvaða lokaákvarðanir sæti kæru til Landsréttar. Þessar breytingar er að finna í 1. mgr. 34., 35. og 36. gr. frumvarpsins.
    Í lögum nr. 49/2016, um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála (millidómstig), var tekið af skarið um að kæruheimildir til Landsréttar í sakamálum yrðu þær sömu og áður til Hæstaréttar en að kæruheimildir til Hæstaréttar yrðu hins vegar mjög takmarkaðar eða aðeins þær sem taldar eru upp í 1. mgr. 68. gr. laganna sem verður 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála. Þá var gert ráð fyrir því við vinnslu frumvarps til þeirra laga að Landsréttur kvæði upp úrskurði í öllum kærumálum í sakamálum eins og gerð er grein fyrir í athugasemdum við 64. gr. þess frumvarps. Í frumvarpsákvæði því sem varð að framangreindri grein læddist hins vegar inn sú augljósa misritun að þar var sagt að Landsréttur kvæði upp dóm en ekki úrskurð og er lagt til í 75. gr. þessa frumvarps að þessi mistök verði leiðrétt.
    Þá kom til umræðu á vinnslustigi frumvarps þess sem varð að lögum nr. 49/2016 að unnt yrði að skjóta úrlausnum Landsréttar í kærumálum vegna tiltekinna þvingunarráðstafana til Hæstaréttar og í þeim tilvikum mundi Landsréttur kveða upp dóm sem unnt yrði að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja til réttarins. Athugasemd þessa efnis rataði ranglega inn í 10. tölul. upptalningar í III. kafla almennra athugasemda í greinargerð með frumvarpinu. Vegna sjónarmiða um málshraða og að réttaröryggi væri nægilega tryggt með málskoti til Landsréttar varð niðurstaðan sú að Landsréttur kvæði upp úrskurði í kærumálum vegna þvingunarráðstafana og að þeir yrðu ekki kæranlegir til Hæstaréttar.
    Í frumvarpi þessu er að finna breytingar á ákvæðum fernra laga sem lúta að því að um kærur á úrskurði Landsréttar um tiltekin atriði gildi ákvæði XXXII. kafla laga um meðferð sakamála, eins og sá kafli mun hljóða eftir gildistöku laga nr. 49/2016. Af þessum ákvæðum leiðir að það eru aðeins úrskurðir Landsréttar um atriði sem talin eru upp í a–d-lið í 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála, eins og hún mun hljóða eftir gildistöku laga nr. 49/2016, sem sæta kæru til Hæstaréttar. Þau ákvæði frumvarps þessa sem um ræðir eru b-liður 20. gr. sem mælir fyrir um breytingu á lögum um rannsóknarnefndir, nr. 68/2011, b-liður 29. gr. sem mælir fyrir um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987, b-liður 73. gr. sem mælir fyrir um breytingu á lögum um fullnustu refsinga, nr. 15/2016, og b-liður 84. gr. sem mælir fyrir um breytingu á sóttvarnalögum, nr. 19/1997.
    Rétt er að geta þess að lokum að í ljósi þess að þau sjónarmið sem hér hafa verið rakin eiga að meginstefnu við um öll ákvæði frumvarps þessa er varða kæruheimildir verður í skýringum við einstakar greinar látið við það sitja að vísa til þessa kafla nema sérstakra skýringa annarra sé þörf.

V. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Eitt meginmarkmið upptöku millidómstigs er að tryggja að íslensk réttarfarslöggjöf uppfylli skilyrði 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um milliliðalausa sönnunarfærslu, sem aftur telst liður í réttlátri málsmeðferð. Nánar tiltekið er meginreglan um milliliðalausa sönnunarfærslu hluti meginreglunnar um milliliðalausa málsmeðferð og felur í sér að öll sönnunargögn skuli færa fram meðan á málsmeðferð stendur fyrir þeim dómurum sem dæma málið. Er frumvarpi þessu, líkt og þeim tveimur lagabálkum er Alþingi samþykkti þann 26. maí 2016 og koma á fót millidómstigi hér á landi, þannig beinlínis ætlað að tryggja að íslensk löggjöf sé í samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar. Þess hefur verið sérstaklega gætt við breytingar á lögum um lögmenn, sjá ákvæði til bráðabirgða sem lagt er til að bætist við lögin, að ekki sé gengið á rétt þeirra sem þegar hafa hafið flutning prófmála fyrir Hæstarétti þannig að brjóti í bága við ákvæði stjórnarskrár um vernd atvinnuréttinda, sbr. einkum 72. gr. stjórnarskrárinnar. Í ljósi þess að í upptöku millidómstigs hér á landi felst kerfisbreyting er óumflýjanlegt að ný löggjöf innihaldi lagaskilaákvæði, þar á meðal um tilhögun öflunar málflutningsréttinda fyrir Hæstarétti. Hvað varðar þetta atriði sérstaklega er veigamest að meðalhófs sé gætt og að nauðsynlegar breytingar á lögum um lögmenn séu ekki of íþyngjandi fyrir þann hóp lögmanna sem þegar hefur hafið flutning prófmála til öflunar málflutningsréttinda fyrir Hæstarétti. Er þessa gætt í frumvarpinu og er sú tilhögun sem lögð er til með bráðabirgðaákvæði í lögum um lögmenn í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar.

VI. Samráð.
    Frumvarp þetta ásamt þeirri löggjöf sem Alþingi samþykkti 26. maí 2016 um stofnun millidómstigs snertir allt samfélagið en þó fyrst og fremst þá fjölmörgu sem leita þurfa eftir úrlausn dómstóla eða þurfa að þola úrlausn dómstóla bæði í einkamálum og sakamálum. Þá hefur frumvarp þetta sérstaklega þýðingu fyrir lögmenn enda er í því kveðið á um hvernig málflutningsréttindum þeirra verður fyrir komið í hinu nýja réttarkerfi. Byggjast þær breytingar sem lagðar eru til á lögum um lögmenn á tillögum Lögmannafélags Íslands í þeim efnum.
    Við samningu frumvarpsins var haft samráð við fyrrnefndan rýnihóp sem getið er í I. kafla og skipaður var fulltrúum ýmissa fagaðila, sem og réttarfarsnefnd og fleiri. Að lokum var frumvarpið kynnt á vef innanríkisráðuneytisins og athygli allra fagfélaga vakin á því. Þá voru breytingartillögur á löggjöf sem heyra undir önnur ráðuneyti en innanríkisráðuneyti kynntar fyrir viðkomandi fagráðuneyti. Alls bárust þrjár umsagnir um frumvarpið, samtals frá 12 lögmönnum, og lúta þær allar að fyrirhuguðum breytingum á fyrirkomulagi við öflun málflutningsréttinda fyrir dómstólum. Samandregið kemur m.a. fram í umsögnunum að tillögur þessa efnis feli í sér verulegar breytingar sem þarfnist ítarlegri umræðu og rétt væri að ráðast í heildarendurskoðun laga um lögmenn. Þá koma þar fram sjónarmið um að ekki standi veigamikil rök til þess að greina á milli skilyrða til öflunar málflutningsréttinda fyrir Landsrétti og Hæstarétti, enda megi ætla að fyrirhuguð aðkoma lögmanna verði yfirgripsmeiri fyrir Landsrétti í hinu nýja kerfi. Þá var jafnframt bent á að tillögur að ákvæðum til bráðabirgða í lögum um lögmenn, sem gilda um þá sem hafið hafa flutning prófmála fyrir Hæstarétti þegar millidómstig tekur til starfa, standist vart ákvæði stjórnarskrárinnar um vernd atvinnuréttinda.
    Ráðherra telur ekki rétt að ráðast í heildarendurskoðun laganna á þessu stigi og að nauðsynlegt sé að gera þegar í stað breytingar á lögum um lögmenn að þessu leyti samhliða öðrum breytingum sem stofnun millidómstigs kallar á. Er það jafnframt álit ráðherra að í þeim efnum sé nauðsynlegt að gera greinarmun á réttindum fyrir Landsrétti annars vegar og fyrir Hæstarétti hins vegar. Í því sambandi er einkum litið til þess að til meðferðar Hæstaréttar munu einkum koma fordæmisgefandi mál, mál sem hafa mikla samfélagslega þýðingu eða mál sem að öðru leyti er mjög mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um. Í því ljósi er mikilvægt að tryggt sé að þeir lögmenn sem flytja mál fyrir Hæstarétti búi yfir nægilegri málflutningsreynslu. Hvað varðar bráðabirgðaákvæði það sem lagt er til að bætt verði við lög um lögmenn hefur þess verið gætt að það gangi ekki lengra en nauðsynlegt verður talið. Er í því sambandi lagt til að minnka þann fjölda mála sem þeir lögmenn sem þegar hafa flutt prófmál fyrir Hæstarétti við gildistöku laganna þurfa síðar að flytja fyrir Landsrétti.

VII. Mat á áhrifum.
    Svo sem fyrr er getið samþykkti Alþingi þann 26. maí 2016 tvö lagafrumvörp innanríkisráðherra sem miða að stofnun millidómstigs á Íslandi, annars vegar ný heildarlög um dómstóla, nr. 50/2016, og hins vegar lög um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála (millidómstig), nr. 49/2016. Taka framangreind lög gildi 1. janúar 2018 og er þetta frumvarp nauðsynlegt til að laga gildandi lög að þeim breytingum sem Alþingi hefur þegar samþykkt. Frumvarp þetta stendur þannig í órjúfanlegum tengslum við hin fyrri.
    Stofnun millidómstigs hér á landi hefur varanleg áhrif á íslenskt dómskerfi, allt réttarvörslukerfið, aðila að dómsmálum og samfélagið í heild. Færri mál munu gefa Hæstarétti svigrúm til að vanda enn frekar til dómsúrlausna og má ætla að réttarskapandi hlutverk Hæstaréttar muni eflast. Með tilkomu millidómstigs verður mögulegt að viðhafa milliliðalausa sönnunarfærslu á áfrýjunarstigi og þar með verður unnt að endurskoða mat á sönnunargildi munnlegra framburða. Þá mun þátttaka sérfróðra meðdómenda í dómstörfum í héraðsdómi og fyrir Landsrétti stuðla að vandaðri dómsúrlausnum um sérfræðileg atriði. Allar framangreindar breytingar fela í sér verulegar réttarbætur og eru til þess fallnar að bæta gæði dómsúrlausna og þar með stuðla að auknu trausti samfélagsins á dómskerfinu.
    Kostnaður vegna tilkomu millidómstigs hefur þegar verið metinn með þeim lagafrumvörpum er Alþingi samþykkti sl. vor. Einu breytingarnar aðlútandi kostnaði sem þetta frumvarp hefur í för með sér frá því sem áður hefur verið áætlað, verði það óbreytt að lögum, eru aukin launaútgjöld vegna starfa forseta Landsréttar. Frumvarpið gerir þannig ráð fyrir því að forseti Landsréttar taki til starfa þann 1. júlí 2017 og er kostnaður vegna þess metinn á 12,5 m.kr. árið 2017.
    Eftir gildistöku laganna þann 1. janúar 2018 munu tekjur ríkissjóðs aukast vegna dómsmálagjalda og útgáfu leyfisbréfa til málflutningsréttinda fyrir Landsrétti. Samkvæmt ársskýrslu Hæstaréttar Ísland fyrir árið 2015 voru innkomin mál það ár 862. Gert er ráð fyrir að málafjöldi Landsréttar verði sambærilegur þeim sem er fyrir Hæstarétti nú, enda mun flestum málum á áfrýjunarstigi ljúka fyrir Landsrétti í hinu nýja réttarkerfi. Því má gera ráð fyrir að tekjur vegna dómsmálagjalda í tengslum við málarekstur fyrir Landsrétti verði svipaðar og fyrir Hæstarétti. Í frumvarpi til laga um dómstóla, nr. 50/2016, sem samþykkt var á Alþingi sl. vor, er gert ráð fyrir að Hæstiréttur fái til meðferðar 50–100 mál á ári, eða um 6–12% af þeim málafjölda sem réttinum barst árið 2015. Tekjur vegna dómsmálagjalda vegna þeirra mála sem rekin verða fyrir Hæstrétti í hinu réttarkerfi má skoða sem viðbótartekjur vegna dómsmálagjalda miðað við núgildandi kerfi. Þó skal því haldið til haga að erfitt er að áætla nákvæmlega málafjölda Hæstaréttar í hinu nýja kerfi, og þar með tekjur vegna dómsmálagjalda, enda mun Hæstiréttur ráða miklu um hvaða mál hann tekur til meðferðar auk þess sem upphæð gjalda vegna útgáfu áfrýjunarstefnu tekur mið af þeim fjárhagslegu hagsmunum sem í húfi eru hverju sinni. Áætlað er að með tilkomu Landsréttar aukist dómsmálagjöld um 6–12% sem auka muni tekjur ríkissjóðs um 17–34 m.kr. vegna áætlaðrar fjölgunar mála sem stefnt verður fyrir dómstólum landsins. Á fjárlögum 2016 eru áætlaðar tekjur vegna dómsmálagjalda 288 m.kr.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs muni árlega aukast um 17–34 m.kr. Áætlað er að útgjöld ríkissjóðs muni aukast um 12,5 m.kr. árið 2017, sem gert er ráð fyrir að muni rúmast innan útgjaldaramma þessa málaflokks innanríkisráðuneytisins í fimm ára fjármálaáætlun.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1.–5. gr.

    Með þessum greinum er lagt til að starfsheitin héraðsdóms- og hæstaréttarlögmaður verði felld úr þeim lögum er greinarnar varða en í staðinn komi starfsheitið lögmaður. Þessi breyting er til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu á lögum um lögmenn en þar er ráðgert að framangreind starfsheiti verði aflögð. Nánar um breytingar á lögum um lögmenn vísast til athugasemda við 61. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.

    Með greininni er kveðið á um að verkfallsréttur nái ekki til starfsmanna Landsréttar og þeir verði þannig í sömu aðstöðu og starfsmenn héraðsdómstóla og Hæstaréttar.

Um 7.–11. gr.

    Í þessum greinum eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, þá einkum á I. kafla laganna sem fjallar um dómsmálagjöld. Lagt er til að dómsmálagjöld verði þau sömu fyrir Landsrétti og Hæstarétti og að miðað verði við þær upphæðir sem nú skal gjalda fyrir Hæstarétti. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að sömu reglur gildi um Landsrétt og nú gilda um héraðsdómstóla og Hæstarétt að breyttu breytanda.
    Með 11. gr. frumvarpsins er svo kveðið á um gjald fyrir útgáfu leyfis til málflutnings fyrir Landsrétti og lagt til að það verði það sama og fyrir héraðsdómstólum og Hæstarétti.

Um 12.–14. gr.

    Með þessum ákvæðum er kveðið á um réttarstöðu landsréttardómara, skrifstofustjóra Landsréttar og framkvæmdastjóra dómstólasýslunnar samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Veigamesta breytingin felst í því að samkvæmt þeim lögum munu framangreindir aðilar teljast embættismenn og er það í samræmi við réttarstöðu þeirra eins og hún er ákveðin með lögum um dómstóla, nr. 50/2016. Aðrar breytingar varða lagasamræmi og þarfnast ekki skýringa.

Um 15. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 16. gr.

    Ákvæðið kveður á um að kjararáð ákveði laun landsréttardómara líkt og gildir um héraðsdómara og dómara við Hæstarétt Íslands og þarfnast ekki skýringa.

Um 17. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016, skal dómstólasýslan, eftir að hún hefur tekið til starfa, leggja mat á og gera tillögu til ráðherra um nauðsynlegar fjárveitingar til dómstólasýslunnar, Hæstaréttar og Landsréttar og um sameiginlega fjárveitingu til héraðsdómstóla. Þannig komi dómstólasýslan fram fyrir hönd allra stofnana dómskerfisins, þ.m.t. Hæstaréttar, gagnvart ráðherra við undirbúning fjárlaga. Með þessari grein eru ákvæði laga um opinber fjármál færð til samræmis við þessa tilhögun.

Um 18. gr.

    Með þessari grein er lagt til að starfsheitin héraðsdóms- og hæstaréttarlögmaður verði felld úr lögum um ríkislögmann en í staðinn komi starfsheitið lögmaður. Þessi breyting er til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu á lögum um lögmenn en þar er ráðgert að framangreind starfsheiti verði aflögð. Nánar um breytingar á lögum um lögmönnum vísast til athugasemda við 61. gr. frumvarpsins.

Um 19. og 20. gr.

    Aðalefnisbreytingar þessara greina fela í sér að úrskurðir héraðsdómara skv. 5. mgr. 7. gr. laganna verði eftirleiðis kæranlegir til Landsréttar, en um kæru á úrskurði Landsréttar til Hæstaréttar fari eftir XXXII. laga um meðferð sakamála, eins og sá kafli mun hljóða eftir gildistöku laga nr. 49/2016, en þar er m.a. fjallað um hvaða úrskurðir Landsréttar sæta kæru til Hæstaréttar. Um þetta vísast nánar til IV. kafla almennra athugasemda við frumvarpið.

Um 21. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 22.–24. gr.

    Í þessum greinum er einkum fjallað um kæruheimildir á milli dómstiga samkvæmt þinglýsingalögum. Ítarlega er fjallað um kæruheimildir og þau sjónarmið sem liggja til grundvallar breytingum á þeim í IV. kafla almennra athugasemda við frumvarp þetta. Vísast nánar þangað um þetta atriði. Aðrar breytingar varða lagasamræmi og þarfnast ekki skýringa.

Um 25. og 26. gr.

    Í þessum greinum er einkum fjallað um kæruheimildir á milli dómstiga samkvæmt lögum um horfna menn. Ítarlega er fjallað um kæruheimildir og þau sjónarmið sem liggja til grundvallar breytingum á þeim í IV. kafla almennra athugasemda við frumvarp þetta. Vísast nánar þangað um þetta atriði. Aðrar breytingar varða lagasamræmi og þarfnast ekki skýringa.

Um 27. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 28. gr.

    Í þessari grein er einkum fjallað um kæruheimildir á milli dómstiga samkvæmt siglingalögum. Ítarlega er fjallað um kæruheimildir og þau sjónarmið sem liggja til grundvallar breytingum á þeim í IV. kafla almennra athugasemda við frumvarp þetta. Vísast nánar þangað um þetta atriði.

Um 29. gr.

    Aðalefnisbreyting þessarar greinar felur í sér að úrskurðir héraðsdómara skv. 1. mgr. 103. gr. umferðarlaga verði eftirleiðis kæranlegir til Landsréttar, en um kæru á úrskurði Landsréttar til Hæstaréttar fari eftir XXXII. laga um meðferð sakamála, eins og sá kafli mun hljóða eftir gildistöku laga nr. 49/2016, en þar er m.a. fjallað um hvaða úrskurðir Landsréttar sæta kæru til Hæstaréttar. Um þetta vísast nánar til IV. kafla almennra athugasemda við frumvarpið.

Um 30.–32. gr.

    Með þessum greinum er kveðið á um að þær ákvarðanir og úrskurðir sem fjallað er um í lögum um samningsbundna gerðardóma verði eftirleiðis skotið til Landsréttar í stað Hæstaréttar nú, en um málskot til æðra dóms fari að öðru leyti eftir lögum um meðferð einkamála. Ákvæðið þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 33.–36. gr.

    Í þessum greinum er einkum fjallað um kæruheimildir á milli dómstiga samkvæmt lögum um aðför. Ítarlega er fjallað um kæruheimildir og þau sjónarmið sem liggja til grundvallar breytingum á þeim í IV. kafla almennra athugasemda við frumvarp þetta. Vísast nánar þangað um þetta atriði. Aðrar breytingar varða lagasamræmi og þarfnast ekki skýringa.

Um 37. og 38. gr.

    Í þessum greinum er einkum fjallað um kæruheimildir á milli dómstiga samkvæmt lögum um skipti á dánarbúum o.fl. Ítarlega er fjallað um kæruheimildir og þau sjónarmið sem liggja til grundvallar breytingum á þeim í IV. kafla almennra athugasemda við frumvarp þetta. Vísast nánar þangað um þetta atriði. Aðrar breytingar varða lagasamræmi og þarfnast ekki skýringa.

Um 39. og 40. gr.

    Í þessum greinum er einkum fjallað um kæruheimildir á milli dómstiga samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti. Ítarlega er fjallað um kæruheimildir og þau sjónarmið sem liggja til grundvallar breytingum á þeim í IV. kafla almennra athugasemda við frumvarp þetta. Vísast nánar þangað um þetta atriði. Aðrar breytingar varða lagasamræmi og þarfnast ekki skýringa.

Um 41.–43. gr.

    Í þessum greinum er einkum fjallað um kæruheimildir á milli dómstiga samkvæmt lögum um nauðungarsölu. Ítarlega er fjallað um kæruheimildir og þau sjónarmið sem liggja til grundvallar breytingum á þeim í IV. kafla almennra athugasemda við frumvarp þetta. Vísast nánar þangað um þetta atriði. Aðrar breytingar varða lagasamræmi og þarfnast ekki skýringa.

Um 44. gr.

    Með þessari grein er lagt til að starfsheitin héraðsdóms- og hæstaréttarlögmaður verði felld úr hjúskaparlögum en í staðinn komi starfsheitið lögmaður. Þessi breyting er til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu á lögum um lögmenn en þar er ráðgert að framangreind starfsheiti verði aflögð. Nánar um breytingar á lögum um lögmenn vísast til athugasemda við 61. gr. frumvarpsins.

Um 45.–47. gr.

    Í þessum greinum er í fyrsta lagi fjallað um kæruheimildir á milli dómstiga samkvæmt lögum um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Ítarlega er fjallað um kæruheimildir og þau sjónarmið sem liggja til grundvallar breytingum á þeim í IV. kafla almennra athugasemda við frumvarp þetta. Vísast nánar þangað um þetta atriði. Aðrar breytingar varða lagasamræmi og þarfnast ekki skýringa.
    Í öðru lagi er lagt til að Landsréttur geti, líkt og héraðsdómstólar og Hæstiréttur, kveðið upp úrskurð um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins.

Um 48. gr.

    Með þessari grein er lagt til að úrskurðir héraðsdóms verði kæranlegir til Landsréttar í stað Hæstaréttar nú. Ítarlega er fjallað um kæruheimildir og þau sjónarmið sem liggja til grundvallar breytingum á þeim í IV. kafla almennra athugasemda við frumvarp þetta. Vísast nánar þangað um þetta atriði.

Um 49.–51. gr.

    Í þessum greinum er einkum fjallað um kæruheimildir á milli dómstiga samkvæmt lögræðislögum. Ítarlega er fjallað um kæruheimildir og þau sjónarmið sem liggja til grundvallar breytingum á þeim í IV. kafla almennra athugasemda við frumvarp þetta. Vísast nánar þangað um þetta atriði. Aðrar breytingar varða lagasamræmi og þarfnast ekki skýringa.

Um 52. gr.

    Með 52. gr. frumvarpsins er lagt til að tryggt verði að dómarar í héraði verði 42 þar til ný lög um dómstóla taka gildi þann 1. janúar 2018. Með gildistöku laga nr. 147/2009 var dómurum í héraði fjölgað tímabundið, úr 38 í 43, vegna mikils álags á dómstólana og var sú heimild framlengd þrívegis, síðast með lögum nr. 133/2014. Heimild þessi féll hins vegar niður um síðastliðin áramót og samkvæmt gildandi lögum skal ekki skipað að nýju í embætti héraðsdómara fyrr en þess gerist þörf til að ná þeirri tölu sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 12. gr. laganna, eða 38.
    Ástæðan fyrir því að þessi tillaga er lögð fram er sú að kjararáð kvað upp úrskurð þann 17. desember 2015 um laun og starfskjör dómara þar sem varð veruleg áherslubreyting varðandi símenntun og námsleyfi dómara. Fram til þess tíma sóttu dómarar endurmenntunarstyrk í endurmenntunarsjóð dómara og ríkissaksóknara en með úrskurðinum var gerð sú breyting að dómari á nú rétt á launuðu námsleyfi á fjögurra ára fresti til endurmenntunar, fyrst eftir fjögur ár í starfi og ávinnur dómari sér þriggja vikna leyfi á hverju ári. Þó getur uppsafnaður réttur mest orðið sex mánuðir og greiðist ekki út við starfslok. Samkvæmt bókun kjararáðs um endurmenntun dómara sama dag verður heimilt í reglum um námsleyfi dómara við héraðsdómstóla að takmarka rétt til námsleyfis þannig að ekki verði fleiri dómarar en tveir í leyfi á sama tíma við Héraðsdóm Reykjavíkur og ekki fleiri en einn við Héraðsdóm Reykjaness, Héraðsdóm Norðurlands eystra og Héraðsdóm Suðurlands. Ekki er óvarlegt að ætla að þegar framangreindar breytingar sem leiðir af úrskurði kjararáðs verða komnar að fullu til framkvæmda verði að jafnaði 4–5 héraðsdómarar í námsleyfi. Við því verður ekki brugðist öðruvísi en með því að nokkrir verði settir í embætti dómara í skamman tíma í senn eða með áframhaldandi fjölgun dómara í héraði.
    Setning í embætti dómara hefur verið gagnrýnd nokkuð undanfarin misseri og má nefna sérstaklega nokkur atriði í því sambandi. Í fyrsta lagi hefur verið bent á að slíkt fyrirkomulag sé varhugavert út frá meginreglum um sjálfstæði dómara og dómstóla. Ástæða þess að dómarar eru skipaðir ótímabundið í embætti er ekki síst sú að gera þeim kleift að komast að sjálfstæðri niðurstöðu í sérhverju máli án þess að þurfa að óttast um starfsöryggi sitt eða stöðu sína að öðru leyti. Við blasir að ef dómari er settur í embætti í skamman tíma getur þetta sjónarmið ekki átt við og sú hætta getur skapast almennt séð að settur dómari láti hugsanlegan framtíðarstarfsferil hafa áhrif á störf sín. Þótt ekkert bendi til að slíkt hafi gerst í raun er mikilvægt fyrir ásýnd dómskerfisins og traust til dómstóla að sjálfstæði dómara sé tryggt með lögum og verði ekki dregið í efa. Í öðru lagi má nefna að tíma tekur fyrir nýjan dómara að komast inn í starf sitt og starfsumhverfi dómstólanna með því álagi sem því fylgir. Setning til skamms tíma nýtist dómstólunum að þessu leyti ekki alltaf sem skyldi enda leiðir af eðli dómstarfa að sá sem er settur til að gegna dómaraembætti í stuttan tíma hefur takmarkaða möguleika á að ná fullum tökum á starfinu og reka mál frá upphafi til enda. Í þriðja lagi er ljóst að þeir einstaklingar sem settir eru til dómaraembættis öðlast þar með reynslu sinnar vegna nokkurt forskot á aðra þá sem hafa hug á að sækja um skipun í embætti dómara sem auglýst er laust til umsóknar. Hefur þetta fyrirkomulag verið gagnrýnt og þá sérstaklega í ljósi þess að setning til skamms tíma er ekki alltaf auglýst opinberlega. Mikilvægt er að bregðast við þessu og tryggja eftir því sem unnt er að væntanlegir umsækjendur um embætti dómara sitji við sama borð að þessu leyti. Í fjórða lagi er þess að geta að nauðsynleg setning dómara í embætti getur dregist enda tekur setningarferlið tiltekinn tíma, einkum þegar starf er auglýst laust til umsóknar opinberlega. Þess eru því dæmi að dómarar hafi verið settir til skemmri tíma en til stóð í upphafi en augaleið gefur að slíkt nýtist viðkomandi dómstól ekki nægilega vel. Í ljósi þessa er lagt til að bráðabirgðaheimild 44. gr. laga um dómstóla, nr. 15/1998, verði framlengd. Rétt er að taka fram að frá gildistöku nýrra laga um dómstóla, nr. 50/2016, þann 1. janúar 2018, verða dómarar í héraði 42.

Um 53. gr.

    Með greininni er lagt til að tryggt verði að dómarar í Hæstarétti verði tíu þar til ný lög um dómstóla taka gildi þann 1. janúar 2018. Með lögum nr. 12/2011 var dómurum í Hæstarétti fjölgað um þrjá, þ.e. úr níu í tólf. Var það gert með þeim hætti að frá og með 1. janúar 2013 skyldi ekki skipað í þau embætti dómara sem losnuðu eftir 1. janúar 2013 þar til dómarar yrðu aftur níu, en því tímamarki var náð í febrúar 2014. Í ljósi mikils álags á réttinn samþykkti Alþingi með lögum nr. 37/2015 að fjölga að nýju dómurum við Hæstarétt tímabundið, í þetta skipti úr níu í tíu og gildir sú heimild út árið 2016. Meginástæða þess að lagt er til að sú fjölgun verði framlengd um eitt ár er sú að kjararáð kvað upp úrskurð þann 17. desember 2015 um laun og starfskjör dómara þar sem varð veruleg áherslubreyting varðandi símenntun og námsleyfi dómara. Um þennan úrskurð er ítarlega fjalla í athugasemdum við 51. gr. hér á undan og vísast nánar um hann þangað, en sömu sjónarmið eiga við um dómara í héraði og í Hæstarétti að breyttu breytanda.
    Í þessu sambandi verður einnig að horfa til þess að með 75. gr. frumvarps þessa er lögð til breyting á lagaskilaákvæði 78. gr. laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála (millidómstig), nr. 49/2016, í þá veru að Hæstiréttur ljúki meðferð þeirra mála sem réttinum hafa borist þann 1. janúar 2018 þegar Landsréttur tekur til starfa. Samkvæmt núgildandi ákvæði framangreindrar 78. gr. er ráðgert að þau mál sem Hæstiréttur hefur ekki lokið á þeim tíma færist til Landsréttar. Mikilvægt er í þessu ljósi að tryggt sé að nægilegur fjöldi dómara sitji í Hæstarétti á þeim tímapunkti. Um þessa breytingu vísast nánar til skýringa við 76. gr. frumvarpsins. Eftir 1. janúar 2018 mun dómurum við Hæstarétt fækka að nýju á þann hátt að ekki verður skipað í þau embætti sem losna eftir þann tíma þar til dómarar verða sjö talsins, líkt og mælt er fyrir um í 13. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016.

Um 54. gr.

    Í 54. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á hugtakinu lögmaður í skilningi laga um lögmenn. Breytingin helgast af stofnun Landsréttar sem og því að starfsheitin héraðsdómslögmaður og hæstaréttarlögmaður munu leggjast af verði frumvarp þetta samþykkt óbreytt. Um þá breytingu er nánar fjallað í athugasemdum við 61. gr. frumvarpsins. Með lögmanni í skilningi laganna verði þannig eftirleiðis átt við þann sem hefur réttindi til að flytja mál fyrir héraðsdómstólum, Landsrétti eða Hæstarétti.

Um 55.–57. gr.

    Í þessum greinum eru lagðar til breytingar á 6.–8. gr. laga um lögmenn en þessar greinar fjalla um öflun réttinda til málflutnings fyrir héraðsdómstólum. Breytingarnar eru allar sama eðlis og felast í því að starfsheitið héraðsdómslögmaður er fellt brott. Um þá breytingu vísast nánar til athugasemda við 61. gr. frumvarpsins.

Um 58. og 59. gr.

    Í þessum greinum er fjallað um hvernig öflun réttinda til málflutnings fyrir Landsrétti verði háttað. Lagt er til að skilyrði fyrir leyfi til málflutnings fyrir Landsrétti verði í flestum atriðum hin sömu og nú gilda um öflun málflutningsréttinda fyrir Hæstarétti, enda mun ljóst að flestum málum á áfrýjunarstigi mun ljúka fyrir hinum nýja dómstól. Þó eru lagðar til breytingar. Þannig er gert ráð fyrir að fjöldi mála sem lögmaður þarf að hafa flutt fyrir héraðsdómstólum verði minni en nú gildir um öflun málflutningsréttinda fyrir Hæstarétti. Þannig þurfi lögmaður að hafa munnlega flutt þar 25 mál í stað 30 mála nú fyrir Hæstarétti. Aftur á móti er fjöldi einkamála aukinn úr 10 í 15. Þá er lagt til að lögmaður þurfi til viðbótar að flytja fjögur prófmál fyrir Landsrétti til að geta fengið málflutningsréttindi á því dómstigi. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að munnlega flutt mál þurfi að uppfylla sérstök skilyrði að öðru leyti til að geta talist prófmál. Í því felst tilslökun frá því sem nú gildir um öflun málflutningsréttinda fyrir Hæstarétti, en lögmönnum hefur reynst erfitt að afla sér prófmála til flutnings þar sökum fárra mála sem dæmd eru af fimm dómurum.

Um 60. gr.

    Með þessari grein er lagt til að tvö ný ákvæði bætist við lög um lögmenn er fjalli um öflun réttinda til málflutnings fyrir Hæstarétti.
    Með nýrri 10. gr. a er lagt til að svo að lögmaður geti öðlast málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti þurfi hann, til viðbótar við að uppfylla almenn hæfisskilyrði lögmanna, að hafa haft málflutningsréttindi fyrir Landsrétti í þrjú ár og hafa flutt þar munnlega ekki færri en 15 mál, þar af a.m.k. 10 einkamál. Ekki er hins vegar gert ráð fyrir að lögmaður þurfi að flytja sérstök prófmál fyrir Hæstarétti heldur öðlist hann rétt til málflutnings þar að uppfylltum framangreindum skilyrðum og skilyrðum laga um lögmenn að öðru leyti. Í ljósi þess að Hæstiréttur mun fyrst og fremst taka til meðferðar mál sem hafa mikið fordæmisgildi eða samfélagslega þýðingu og mál sem að öðru leyti er mikilvægt að fá úrlausn réttarins um þarf að vera tryggt að lögmenn sem flytja mál fyrir Hæstarétti búi yfir nægilegri málflutningsreynslu.
    Ný 10. gr. b þarfnast ekki skýringa.

Um 61. gr.

    Með þessu ákvæði er lagt til að starfsheitin héraðsdómslögmaður og hæstaréttarlögmaður verði aflögð sem og skammstafanirnar hdl. og hrl. Séu tillögur frumvarpsins lagðar til grundvallar er ljóst að með tilkomu þriðja dómstigsins, Landsréttar, stendur valið á milli þessa ellegar að bæta við lögin þriðja starfsheitinu, landsréttarlögmaður. Fyrrnefnda breytingin er til einföldunar og er þá jafnframt litið til þess að samræma þarf fjölmörg ákvæði annarra laga lögum um lögmenn að þessu leyti líkt og víða sér stað í frumvarpi þessu. Því er lagt til að eftirleiðis verði starfsheitið lögmaður notað í þessu sambandi og þá með nánari tilgreiningu málflutningsréttinda.

Um 62. gr.

    Með þessari grein er lagt til að við lög um lögmenn bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem fjallar um réttarstöðu þeirra lögmanna sem hafa hafið flutning prófmála til öflunar málflutningsréttinda fyrir Hæstarétti við gildistöku laga þessara, en ekki lokið þeim. Lagt er til að lögmenn í þessari aðstöðu fái að flytja þau prófmál sem út af standa fyrir Landsrétti. Til að hljóta málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti þurfi þeir hins vegar að flytja tiltekinn fjölda mála fyrir Landsrétti, en sá fjöldi ræðst af því hversu mörg prófmál þeir höfðu flutt fyrir Hæstarétti þann 1. janúar 2018. Ekki er hins vegar ráðgert að lögmenn í þessari aðstöðu þurfi að uppfylla skilyrði 1. tölul. 1. mgr. nýrrar 10. gr. a laga um lögmenn í þessu sambandi, þ.e. að hafa haft málflutningsréttindi fyrir Landsrétti í þrjú ár. Með þessari leið er gætt jafnvægis og meðalhófs gagnvart þeim lögmönnum sem bráðabirgðaákvæðið tekur til.

Um 63. og 64. gr.

    Í þessum greinum er einkum fjallað um kæruheimildir á milli dómstiga samkvæmt lögum um ættleiðingar. Ítarlega er fjallað um kæruheimildir og þau sjónarmið sem liggja til grundvallar breytingum á þeim í IV. kafla almennra athugasemda við frumvarp þetta. Vísast nánar þangað um þetta atriði. Aðrar breytingar varða lagasamræmi og þarfnast ekki skýringa.

Um 65.–68. gr.

    Í þessum greinum er einkum fjallað um kæruheimildir á milli dómstiga samkvæmt barnalögum. Ítarlega er fjallað um kæruheimildir og þau sjónarmið sem liggja til grundvallar breytingum á þeim í IV. kafla almennra athugasemda við frumvarp þetta. Vísast nánar þangað um þetta atriði. Þó skal því haldið til haga að í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem í húfi eru, er lagt til að unnt verði sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar um hvort blóðrannsókn og mannerfðafræðileg rannsókn fari fram, sbr. 15. gr. barnalaga. Í því sambandi er einnig litið til þess að slíkar rannsóknir geta ráðið úrslitum um niðurstöðu máls. Aðrar breytingar varða lagasamræmi og þarfnast ekki skýringa.

Um 69. og 70. gr.

    Í þessum greinum er einkum fjallað um kæruheimildir á milli dómstiga samkvæmt lögum um öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum. Ítarlega er fjallað um kæruheimildir og þau sjónarmið sem liggja til grundvallar breytingum á þeim í IV. kafla almennra athugasemda við frumvarp þetta. Vísast nánar þangað um þetta atriði. Aðrar breytingar varða lagasamræmi og þarfnast ekki skýringa.

Um 71. og 72. gr.

    Ákvæðin þarfnast ekki skýringa að öðru leyti en því að með 70. gr. er vísað um aldurshámark dómara til 5. mgr. 52. gr. laga um dómstóla nr. 50/2016 í stað 4. mgr., sem er sambærileg 4. mgr. 31. gr. gildandi laga um dómstóla. Í þessu felst ekki efnisbreyting heldur einungis nákvæmari tilvísun en áður.

Um 73. og 74. gr.

    Aðalefnisbreytingar þessara greina fela í sér að úrskurðir héraðsdómara skv. 2. mgr. 82. gr. laga um fullnustu refsinga verði eftirleiðis kæranlegir til Landsréttar, en um kæru á úrskurði Landsréttar til Hæstaréttar fari eftir XXXII. laga um meðferð sakamála, eins og sá kafli mun hljóða eftir gildistöku laga nr. 49/2016, en þar er m.a. fjallað um hvaða úrskurðir Landsréttar sæta kæru til Hæstaréttar. Um þetta vísast nánar til IV. kafla almennra athugasemda við frumvarpið. Aðrar breytingar varða lagasamræmi og þarfnast ekki skýringa.

Um 75. og 76. gr.

    Í 74. gr. felst einungis lagfæring enda ráðgert að Landsréttur kveði ávallt upp úrskurði í kærumálum. Um þessa breytingu vísast nánar til IV. kafla almennra athugasemda við frumvarpið.
    Í 75. gr. felst breyting á lagaskilum. Líkt og rakið hefur verið er frumvarp þetta lagt fram í tilefni þess að Alþingi samþykkti þann 26. maí 2016 frumvörp til laga sem koma á fót millidómstigi hér á landi, annars vegar ný heildarlög um dómstóla, nr. 50/2016, og hins vegar lög um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála (millidómstig), nr. 49/2016. Taka framangreind lög gildi þann 1. janúar 2018. Skv. 1. mgr. lagaskilaákvæðis 78. gr. síðarnefndu laganna taka þau þó ekki til ólokinna mála sem þegar hafa verið flutt munnlega fyrir Hæstarétti við gildistöku þeirra. Þá er þar jafnframt tekið fram að þau mál sem áfrýjað hefur verið eða kærð til Hæstaréttar fyrir gildistöku laganna skuli rekin upp frá því fyrir Landsrétti.
    Við nánari athugun er það mat ráðherra, og er undir það tekið af öllum þeim sem innanríkisráðuneytið hefur haft samráð við um efnið, að haganlegra sé að öndverð framkvæmd verði viðhöfð, þ.e. að Hæstiréttur ljúki meðferð þeirra mála sem til hans hefur verið skotið við gildistöku laga nr. 49/2016 sem og það sama gildi ef tilkynnt hefur verið um áfrýjun eða sótt um áfrýjunarleyfi. Er gerð tillaga um þetta í 1. mgr. 75. gr. frumvarps þessa og þar jafnframt gert ráð fyrir að hin nýju lög gildi ekki um meðferð slíkra mála. Með þessari tilhögun vinnst að minnsta kosti tvennt. Í fyrsta lagi er komist hjá því að þegar Landsréttur tekur til starfa bíði réttarins fjöldi ólokinna mála sem ljúka þurfi innan skamms tíma. Það aftur veitir dómurum Landsréttar nægilegt svigrúm til þess að setja sig inn í nýtt starf og undirbúa starfsemi réttarins. Í öðru lagi er með þessu tryggt að máli ljúki eftir þeim sömu réttarfarsreglum og í gildi voru þegar það hófst, en með því kann að verða komist hjá flóknum vandkvæðum tengdum réttarfarsreglum og lagaskilum.
    Í samræmi við framangreint er í 2. mgr. 75. gr. frumvarps þessa lagt til að í einkamálum sem dæmd hafa verið í héraðsdómi en ekki áfrýjað til Hæstaréttar fyrir gildistöku laga nr. 49/2016 gildi áfrýjunarfrestur eldri laga, eða þrír mánuðir, um áfrýjun til Landsréttar, en fresturinn styttist í fjórar vikur með gildistöku laga nr. 49/2016. Ekki er nauðsynlegt að kveða á um slíkt varðandi sakamál enda er frestur eldri og yngri laganna sá sami í þeim efnum.
    Að lokum er lagt til með 3. mgr. 76. gr. frumvarpsins að hafi mál verið dæmd í héraði fyrir gildistöku laga nr. 49/2016 en munnlegar skýrslur ekki verið teknar upp í mynd skuli hljóðupptaka lögð að jöfn við myndupptöku ef málsaðilar geri ekki athugasemdir við það. Ella skuli munnleg skýrsla endurtekin fyrir Landsrétti ef Landsréttur telur þörf á. Er þetta gert vegna þeirrar breyttu tilhögunar á skýrslutöku fyrir héraðsdómi sem lög nr. 49/2016 hafa í för með sér, og þá einkum í þeim tilgangi að jafna eftir því sem kostur er stöðu þeirra sem eiga í málarekstri fyrir gildistöku laganna annars vegar og eftir hins vegar.

Um 77. gr.

    Með þessari grein er lagt til að starfsheitið hæstaréttarlögmaður verði fellt úr lögum um dómstóla, nr. 50/2016. Þessi breyting er til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu á lögum um lögmenn en þar er ráðgert að framangreind starfsheiti verði aflögð. Nánar um breytingar á lögum um lögmenn vísast til athugasemda við 61. gr. frumvarpsins.

Um 78. gr.

    Með þessu ákvæði eru lagðar til smávægilegar breytingar á 48. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016. Felast þær í því að orðinu kvörtun er á nokkrum stöðum skipt út fyrir orðið erindi. Hér er fyrst og fremst um lagfæringu að ræða þar sem hugtakið erindi er víðtækara og fangar betur efnisinnihald ákvæðisins. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.

Um 79. gr.

    Með greininni er lögð til breyting á ákvæði til bráðabirgða I í lögum um dómstóla, nr. 50/2016. Breytingin er gerð í því skyni að tryggja að dómarar í Hæstarétti verði 10 út árið 2017 og helst í hendur við þær tillögur sem lagðar eru til með 53. gr. og 76. gr. frumvarpsins.

Um 80. gr.

    Með þessari grein eru lagðar til smávægilegar breytingar á fyrirkomulagi við fyrstu skipun í stjórn dómstólasýslunnar eins og því er lýst í ákvæði til bráðabirgða II í lögum um dómstóla, nr. 50/2016. Er lagt til að lögbundið verði að forseti Landsréttar verði sá aðili sem fyrstur taki sæti í stjórn dómstólasýslunnar fyrir hönd réttarins og þá til eins árs, og að varaforseti verði varamaður hans til jafnlangs tíma. Að baki þessari tillögu búa hagkvæmnisástæður enda ljóst að hlutverk stjórnar dómstólasýslunnar annars vegar og forseta Landsréttar hins vegar við undirbúning stofnunar hins nýja dómstig munu að ýmsu leyti falla saman.

Um 81. gr.

    Með þessari grein eru lagðar til breytingar á ákvæði til bráðabirgða IV í lögum um dómstóla, nr. 50/2016, í því skyni að tryggja forseta Landsréttar nægilegt svigrúm við að undirbúa stofnun réttarins. Í fyrsta lagi er lagt til að skipun dómara við Landsrétt verði lokið þann 1. júní 2017 í stað 1. júlí það ár líkt og lögin mæla nú fyrir um. Þá er ráðgert að dómarar Landsréttar kjósi forseta og varaforseta úr sínum röðum eigi síðar en þann 20. júní 2017 og forseti verði skipaður dómari frá 1. júlí það ár. Er val forseta þannig fært fram um þrjá mánuði frá því sem nú er gert ráð fyrir. Þá er lagt til að skýrt verði kveðið á um heimild forseta til að taka nauðsynlegar ákvarðanir til undirbúnings starfsemi Landsréttar, þar á meðal að ráða til hans starfsfólk. Af hagkvæmnisástæðum er að lokum lagt til að það komi í hlut ráðherra að tilkynna í fyrsta sinn um kjör forseta og varaforseta með auglýsingu í Lögbirtingablaði.

Um 82. gr.

    Með þessari grein er lagt til að úrskurðir héraðsdóms samkvæmt lögum um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar verði eftirleiðis kæranlegir til Landsréttar í stað Hæstaréttar nú. Um þetta vísast nánar til IV. kafla almennra athugasemda við frumvarpið. Greinin þarfnast að öðru leyti ekki sérstakra skýringa.

Um 83. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 84. gr.

    Aðalefnisbreyting þessarar greinar felur í sér að dómsathafnir héraðsdóms skv. 2. mgr. 15. gr. sóttvarnalaga verði eftirleiðis kæranlegar til Landsréttar, en um kæru á úrskurði Landsréttar til Hæstaréttar fari eftir XXXII. kafla laga um meðferð sakamála, en þar er m.a. fjallað um hvaða úrskurðir Landsréttar sæta kæru til Hæstaréttar. Um þetta vísast nánar til IV. kafla almennra athugasemda við frumvarpið. Greinin þarfnast að öðru leyti ekki skýringa.

Um 85. og 86. gr.

    Í þessum greinum er einkum fjallað um kæruheimildir á milli dómstiga samkvæmt barnaverndarlögum. Ítarlega er fjallað um kæruheimildir og þau sjónarmið sem liggja til grundvallar breytingum á þeim í IV. kafla almennra athugasemda við frumvarp þetta. Vísast nánar þangað um þetta atriði. Þó skal því haldið til haga að í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem í húfi eru, er lagt til að unnt verði sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar um varanlega sviptingu forsjár. Aðrar breytingar varða lagasamræmi og þarfnast ekki skýringa.

Um 87. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 88. og 89. gr.

    Í þessum greinum er einkum fjallað um kæruheimildir á milli dómstiga samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Ítarlega er fjallað um kæruheimildir og þau sjónarmið sem liggja til grundvallar breytingum á þeim í IV. kafla almennra athugasemda við frumvarp þetta. Vísast nánar þangað um þetta atriði. Aðrar breytingar varða lagasamræmi og þarfnast ekki skýringa.

Um 90. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.