Ferill 818. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1714  —  818. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Árnason frá forsætisráðuneyti, Harald Steinþórsson, Lilju Sturludóttur, Önnu Valbjörgu Ólafsdóttur og Fjólu Agnarsdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Þóreyju Þórðardóttur frá Landssam­tökum lífeyrissjóða, Halldór Árnason frá Samtökum atvinnulífsins, Róbert Farestveit frá Alþýðusambandi Íslands, Sonju Ýri Þorbergsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Björn Brynjúlf Björnsson frá Viðskiptaráði Íslands, Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hildi Jönu Júlíusdóttur og Brynjar Harðarson frá Fjármálaeftirlitinu og Hallgrím Óskarsson.
    Umsagnir bárust frá Allianz Íslandi hf., Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Birki Haukssyni, Búseta Norðurlandi, Fjármálaeftirlitinu, Hallgrími Óskars­syni, Jafnréttisstofu, Jóni Erni Árnasyni, Jóni Valgeiri Björnssyni, Landssamtökum lífeyris­sjóða, Persónuvernd, ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi ungra sjálfstæðismanna, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum leigj­enda á Íslandi, Seðlabanka Íslands og Viðskiptaráði Íslands.

Um efni frumvarpsins.
    Markmið frumvarpsins er að efla stuðning við kaupendur fyrstu íbúðar og eru helstu efnis­þættir frumvarpsins raktir ítarlega í 3. kafla athugasemda við frumvarpið. Fram kemur að frumvarpið tekur til einstaklinga sem hafa ekki verið eigendur að íbúðarhúsnæði og heimildar þeirra til skattfrjálsrar úttektar séreignarsparnaðar til kaupa á fyrstu íbúð. Í frumvarpinu er einnig lögð til framlenging á gildandi úrræði um ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á höfuðstól húsnæðisláns í tvö ár til viðbótar eða fram til 30. júní 2019. Frumvarpið sem hér er til um­fjöllunar er í mörgu áþekkt lögum nr. 40/2014, um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðisparnaðar, þó m.a. að því undanskildu að hér eru hámarks­fjárhæðir bundnar við einstakling ólíkt því sem er í gildandi kerfi. Í athugasemdum við frum­varpið segir að þegar á heildina sé litið geti umfang úrræðisins náð til 4.300–15.000 launþega sem gætu sparað í séreign árlega 1,3–5,2 milljarða kr. eða um 13–52 milljarða kr. á tíu ára tímabili.
    Loks er vert að benda á að fyrir liggur að úrræði frumvarpsins muni hafa áhrif á tekjur ríkis og sveitarfélaga til lækkunar, sérstaklega til lengri tíma litið. Í athugasemdum við frum­varpið er bent á að áhrifin á sveitarfélögin komi fyrst og fremst fram í lægri útsvarstekjum en á móti vegi óbein áhrif til hækkunar á fasteignasköttum vegna aukinna umsvifa á fast­eignamarkaði. Áhrifin á afkomu ríkissjóðs eru hins vegar flóknari, bæði til lækkunar og hækkunar. Aukinn sparnaður í þessu formi rýrir tekjuskattsstofn ríkisins í einhverjum mæli, bæði hjá einstaklingum og lögaðilum, en á móti kemur lítils háttar aukning tryggingagjalds og veltuskatta vegna meiri umsvifa.

Um tillögur að breytingum og aðrar skýringar.
2. gr. um ráðstöfun og skilyrði fyrir úttekt séreignarsparnaðar.
    Í frumvarpinu er áskilið að rétthafi eigi a.m.k. 50% eignarhlut í því húsnæði sem aflað er til að geta nýtt úrræði frumvarpsins. Bent var á að algengt sé að sambúðaraðilar eigi húsnæði í öðrum hlutföllum, t.d. 60/40, sem þýði að annar aðilinn gæti ekki nýtt sér úrræði frumvarps­ins. Til að bregðast við þessu er lagt til að lágmarkseignarhlutur rétthafa verði 30% í stað 50%.
    Með hliðsjón af umsögnum er einnig lagt til að 5. mgr. 2. gr. falli brott en samkvæmt henni gátu þeir sem höfðu eignast hlut í íbúð við arftöku ekki nýtt úrræði frumvarpsins.

3. gr. um ráðstöfun inn á óverðtryggt lán.
    Í umsögn kom fram að ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á afborgun og höfuðstól óverð­tryggðs láns, í hlutföllum sem breytast yfir tímabilið, væri flókin í framkvæmd fyrir lánveit­endur og einfaldara væri að hlutfallið yrði óbreytt allt tímabilið. Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytis frá 15. september eru tillögur um hvernig megi einfalda framkvæmdina.
    Meiri hlutinn áréttar að með hugtakinu „afborgun“ í 3. gr. er átt við bæði niðurgreiðslu höfuðstóls og vexti.

5. gr. um umsókn og ráðstöfun.
    Bent var á að í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupp­lýsinga segir að ábyrgðaraðili vinnslu persónuupplýsinga skuli gera viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar öryggisráðstafanir til að vernda persónuupplýsingar gegn ólöglegri eyði­leggingu, gegn því að þær glatist eða breytist fyrir slysni og gegn óleyfilegum aðgangi. Meiri hlutinn leggur til að orðunum „á öruggan hátt“ verði bætt við 1. málsl. 5. mgr. 5. gr. þar sem fjallað er um miðlun ríkisskattstjóra á upplýsingum.

6. gr. um ýmis ákvæði.
    Fyrir nefndinni kom fram að við fyrri aðgerðir sem tengdust útgreiðslu á viðbótarlífeyris­sparnaði hefði sérstaklega verið tiltekið í lögum að skuldheimtumönnum væri óheimilt að krefjast þess að skuldari ráðstafaði séreignarsparnaði á grundvelli laganna og lagt var til að bætt yrði sambærilegu ákvæði við fyrirliggjandi frumvarp. Meiri hlutinn vísar í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, en sam­kvæmt málsgreininni er viðbótarlífeyrissparnaður undanþeginn aðför skuldheimtumanna. Til að taka af öll tvímæli leggur meiri hlutinn þó til að bætt verði við 6. gr. nýrri málsgrein sem árétti að skuldheimtumönnum verði óheimilt að krefja skuldara um að ráðstafa séreignar­sparnaði samkvæmt lögunum.

8. gr. um gildistöku.
    Bent var á að rétt væri að gera smávægilega breytingu á 1. málsl. 3. mgr. 8. gr. og bæta við orðunum „og/eða“ á eftir orðunum „starfsemi lífeyrissjóða“ þannig að ljóst væri að sá sem keypt hefði fyrstu íbúð á fyrrnefndu tímabili og nýtt sér annaðhvort ákvæði til bráða­birgða XVI eða XVII, eða bæði, félli undir ákvæðið. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónar­mið og leggur til breytingartillögu þess efnis.

9. gr. um breytingar á öðrum lögum.
    Athygli nefndarinnar var vakin á að verði ákvæði til bráðabirgða XVI í lögum nr. 129/1997, sbr. lög nr. 40/2014, framlengt úr 30. júní 2017 í 30. júní 2019, líkt og lagt er til í b-lið 9. gr. frumvarpsins, þurfi jafnframt að framlengja ákvæði til bráðabirgða í tekjuskatts­lögum þessu tengt, ella verði ráðstöfun einstaklinga á séreignarsparnaði skattskyld eftir 30. júní 2017. Meiri hlutinn leggur því til að við a-lið 9. gr. bætist nýr liður þess efnis.
    Í minnisblaði frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu leggur ráðuneytið til framlengingu á heimild til handa þeim einstaklingum sem ekki áttu íbúð 1. júlí 2014 og hafa ekki fjárfest í nýju húsnæði fyrir 1. júlí 2017. Þá er lögð til hækkun á hámarksfjárhæðum til samræmis við framlenginguna. Um er að ræða einstaklinga sem hafa áður verið eigendur að íbúðarhúsnæði og sem hafa hafið uppsöfnun á iðgjöldum til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XVII í lögum nr. 129/1997, sbr. b-lið 1. gr. laga nr. 40/2014, en ekki nýtt sér þá heimild fyrir 1. júlí 2017. Heimildin í gildandi lögum tekur annars vegar til einstaklinga sem ekki hafa átt íbúð áður og taka lagaskilin í 8. gr. frumvarps­ins til þeirra. Hins vegar tekur heimildin til einstaklinga sem hafa áður verið eigendur að íbúðarhúsnæði og að óbreyttum lögum mun sá hópur aðeins hafa heimild til uppsöfnunar til 30. júní 2017 þótt heimild til úttektar á hinu uppsafnaða iðgjaldi sé samkvæmt gildandi lög­um til 30. júní 2019. Meiri hlutinn tekur undir með ráðuneytinu og telur rétt að fresturinn verði samræmdur því sem er í gildandi lögum og leggur til breytingartillögu þess efnis.

    Í ljósi framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 27. september 2016.

Frosti Sigurjónsson,
form., frsm.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Willum Þór Þórsson.
Sigríður Á. Andersen. Brynjar Níelsson.