Ferill 874. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1776  —  874. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um við frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna stofnunar millidómstigs.

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurð Tómas Magnússon, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, Kristínu Axelsdóttur frá innanríkisráðuneytinu, Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara, Ólöfu Finnsdóttur frá dómstólaráði og Stefán A. Svensson og Hildi Ýri Viðarsdóttur frá Lögmannafélagi Íslands.
    Á vormánuðum voru samþykkt tvö lagafrumvörp sem koma á fót millidómstigi hér á landi, annars vegar ný heildarlög um dómstóla, nr. 50/2016, og hins vegar lög um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála (millidómstig), nr. 49/2016. Taka framangreind lög gildi 1. janúar 2018. Með frumvarpi þessu eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á fjölmörgum lagabálkum til að aðlaga löggjöf að þeim breytingum sem stofnun millidómstigs hér á landi hefur í för með sér. Veigamestu breytingarnar lúta að kæruheim­ildum á milli dómstiga, einkum í fullnusturéttarfari og málflutningsréttindum lögmanna.
    Í 86. gr. frumvarpsins er fjallað um breytingar á barnaverndarlögum, nr. 80/2002, með síðari breytingum. Ákvæði 64. gr. barnaverndarlaga fjallar um málskot í málum þar sem um tímabundna vistun er að ræða, skv. 27. og 28. gr. laganna. Í þessum tilvikum ræðst málsmeð­ferð fyrir dómi af XI. kafla barnaverndarlaga. Í síðari málslið b-liðar 86. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að unnt sé að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra til réttarins úrskurði Landsréttar í kærumálum um varanlega sviptingu forsjár. Meiri hlutinn bendir á að ekki er fjallað um varanlega sviptingu forsjár í málum sem rekin eru skv. XI. kafla barnaverndarlaga og leggur til að málsgreinin falli brott.
    Á fundi nefndarinnar voru þau sjónarmið reifuð að málsmeðferðartími í málum er varða varanlega forsjársviptingu gæti orðið of langur ef þeim málum yrði áfrýjað til Hæstaréttar. Meiri hlutinn beinir því til innanríkisráðuneytisins að taka þessa athugasemd til nánari skoðunar með Barnaverndarstofu fyrir gildistöku laganna.
    Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar lagatæknilegs eðlis.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 50. gr. bætist nýr stafliður sem verði a-liður, svohljóðandi: Í stað orðsins „Hæsta­réttar“ í 1. mgr. kemur: Landsréttar.
     2.      Í stað orðanna „eða ákærði lýst yfir áfrýjun“ í 1. efnismgr. 76. gr. komi: eða mála þar sem ákærði hefur lýst yfir áfrýjun.
     3.      Við b-lið 86. gr.
                  a.      1. málsl. orðist svo: Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi.
                  b.      Í stað „67. gr.“ í 1. málsl. efnismálsgreinar komi: 167. gr.
                  c.      2. málsl. efnismálsgreinar falli brott.
     4.      90. gr. orðist svo:
                 Lög þessi taka gildi 1. janúar 2018 að frátöldum ákvæðum 52. og 53. gr., 75. og 76 gr. og 79.–81. gr. sem taka þegar gildi.

Alþingi, 10. október 2016.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form., frsm.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Elsa Lára Arnardóttir.
Jóhanna María Sigmundsdóttir. Birgir Ármannsson.