Ferill 896. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1788  —  896. mál.




Frumvarp til laga



um endurgreiðslur til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda.

Frá atvinnuveganefnd.


I. KAFLI
Markmið og gildissvið.
1. gr.

    Markmið laga þessara er að styðja við mannvirkjagerð og aðrar framkvæmdir félaga­samtaka til almannaheilla og hvetja til þess að þau efli starfsemi sína eða bæti aðstöðu sína. Undanþegin gildissviði laga þessara er mannvirkjagerð eða aðrar framkvæmdir þar sem lög­bundin starfsemi hins opinbera mun fara fram.

2. gr.

    Endurgreiða skal félagasamtökum til almannaheilla fjárhæð sem nemur virðisaukaskatti sem þau hafa greitt vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda sem miða að því að efla starfsemi eða bæta aðstöðu samtakanna.

II. KAFLI
Umsókn og skilyrði endurgreiðslu.
3. gr.

    Umsókn um endurgreiðslu byggingar- og framkvæmdakostnaðar skal send ráðuneytinu. Endurgreiðslubeiðni ásamt fylgigögnum skal berast áður en framkvæmd hefst. Ráðherra skipar þriggja manna nefnd sem fer yfir umsóknir og gerir tillögur til ráðherra um afgreiðslu. Ráðherra skipar formann nefndarinnar og skal ráðherra sem fer með fjárreiður ríkisins og fjármál tilnefna tvo fulltrúa til setu í nefndinni.

4. gr.

    Við mat á því hvort endurgreiða skuli hlutfall af byggingar- og framkvæmdakostnaði skal eftirfarandi skilyrðum vera fullnægt:
     1.      að framkvæmd þjóni sannanlega þeim tilgangi að efla starfsemi félagasamtakanna eða bæta aðstöðu þeirra,
     2.      að fyrir liggi sundurliðuð kostnaðaráætlun og áætlun um fjármögnun,
     3.      að endurskoðað kostnaðaruppgjör liggi fyrir að framkvæmd lokinni.
    Sé skilyrðum 1. mgr. ekki fullnægt er heimilt að hafna endurgreiðslubeiðni eða eftir atvik­um endurkrefja félagið um hana.
    Verði breyting á áætluðum kostnaði, sbr. 2. tölul. 1. mgr., eftir að framkvæmdir hefjast skal senda ráðuneytinu nýja kostnaðaráætlun.

III. KAFLI
Endurgreiðsla.
5. gr.

    Endurgreiðsla nemur fjárhæð virðisaukaskatts vegna mannvirkjagerðar eða annarra fram­kvæmda.

6. gr.

    Ráðherra ákvarðar endurgreiðslu samkvæmt lögum þessum. Ákvörðun um endurgreiðslu skal byggjast á endurskoðuðu kostnaðaruppgjöri.
    Endurgreiðsla fer fram að framkvæmd lokinni. Frá endurgreiðslu skal draga vangreidda skatta og gjöld til ríkis og sveitarfélaga.

7. gr.

    Endugreiðsla samkvæmt lögum þessum er óháð því hvort félagasamtökin hafa fengið styrk frá sveitarfélagi eða öðrum aðila til framkvæmdarinnar.

IV. KAFLI
Reglugerðarheimild og gildistaka.
8. gr.

    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara þar sem m.a. verði kveðið á um framkvæmd endurgreiðslna samkvæmt lögum þessum, heimildir ráðherra til að fresta endurgreiðslum sem kunna að vera umfram fjárveitingar Alþingis hverju sinni, skilyrði endurgreiðslna, umsóknir, afgreiðslu umsókna og ákvörðun um endurgreiðslu.

9. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2017.

Greinargerð.

    Í frumvarpinu er lagt til að sett verði á fót sérstakt endurgreiðslukerfi til að efla hvers kyns starfsemi félagasamtaka til almannaheilla hér á landi. Um slíka tegund félaga er vísað til frumvarps sem lagt var fram á yfirstandandi þingi (779. mál).
    Samkvæmt frumvarpi þessu er kveðið á um að heimilt verði að endurgreiða félagasamtök­um til almannaheilla fjárhæð sem nemur virðisaukaskatti vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda. Skýrt er kveðið á um þau skilyrði að um sé að ræða framkvæmdir sem bæta aðstöðu viðkomandi félags.
    Það kerfi sem lagt er til á sér fyrirmynd í lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi og hefur þá kosti að vera einfalt og gagnsætt. Markmiðið er að styðja við starfsemi félagasamtaka af þessu tagi til að mynda til að hvetja til uppbyggingar á aðstöðu ýmiss konar. Svo tekið sé dæmi af sviði íþrótta þá hefur íslenskt afreksíþróttafólk náð glæsilegum árangri á alþjóðavettvangi á undanförnum árum. Íþróttafélög hér á landi búa við mjög mismunandi aðstöðu fyrir iðkendur sína. Stuðningur sveitarfélaga við íþróttafélög hefur verið mjög mismunandi þegar kemur að uppbyggingu íþróttaaðstöðu en með frumvarp­inu er leitast við að draga úr því misvægi sem verið hefur milli sveitarfélaga í stuðningi við félögin hvað þetta varðar.
    Gert er ráð fyrir að kerfið verði byggt þannig upp að endurgreiddur verði sá kostnaður sem nemur virðisaukaskatti vegna mannvirkjagerðar eða annarra framkvæmda. Beiðni um endur­greiðslu verður að berast áður en framkvæmdir hefjast og verður metið hvort framkvæmd uppfylli skilyrði fyrir endurgreiðslu. Með umsókn skulu fylgja gögn, svo sem kostnaðaráætl­un, sem gefi glögga mynd af umfangi verksins, hvernig fjármögnun verði háttað, staðfestingu fjármögnunaraðila o.fl.
    Ráðherra sem fer með iðnaðar- og viðskiptamál skipar formann nefndar sem fer yfir um­sóknir og skal sá ráðherra sem fer með fjárreiður ríkisins tilnefna tvo fulltrúa í nefndina.
    Telji ráðuneytið viðkomandi framkvæmd falla undir skilyrði laganna gefur það út vilyrði til félagasamtakanna um endurgreiðslu. Þá skulu félagasamtökin leggja fram endurskoðað kostnaðaruppgjör þar sem fram komi skipting kostnaðar.
    Verði frumvarpið að lögum verður unnt að veita félagasamtökum til almannaheilla fjár­hagslegan stuðning við að byggja upp aðstöðu fyrir starfsemi sína.