Ferill 84. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 141  —  84. mál.


                                  

Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum og lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

Flm.: Svandís Svavarsdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Ari Trausti Guðmundsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Steinunn Þóra Árnadóttir.


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „þrjá mánuði“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: fjóra mánuði árið 2018 og fimm mánuði árið 2019 og upp frá því.
     b.      Í stað orðanna „þremur mánuðum“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: tveimur mánuðum frá og með 2019.
     c.      Í stað orðsins „níu“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: tólf.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „þrjá mánuði“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: fjóra mánuði árið 2018 og fimm mánuði árið 2019 og upp frá því.
     b.      Í stað orðsins „þrjá“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: tvo.
     c.      Í stað orðsins „níu“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: tólf.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „þrjá mánuði hvort um sig“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: fjóra mánuði hvort um sig árið 2018 og fimm mánuði hvort um sig árið 2019 og upp frá því.
     b.      Í stað orðanna „þrjá mánuði til viðbótar“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: tvo mánuði til viðbótar frá og með 2019.
     c.      Í stað orðanna „allt að níu mánuði“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: allt að ellefu mánuði árið 2018 og allt að tólf mánuði árið 2019 og upp frá því.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.
4. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „0,65%“ í 5. tölul. 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: 0,79% árið 2018, og 0,87% árið 2019.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með þessu frumvarpi eru lagðar til þær breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof að réttur til þess hækki úr núverandi níu mánuðum í tólf mánuði í tveimur þrepum á árunum 2018 og 2019. Verði frumvarpið að lögum mun heildarlengd fæðingar- og foreldraorlofs verða ellefu mánuðir 2018 og tólf mánuðir árið 2019. Gert er ráð fyrir að réttur til fæðingarorlofs skiptist þannig milli foreldra að hvort um sig hafi rétt til fimm mánaða en eigi tvo mánuði sameiginlega og geti skipt þeim með sér eins og verkast vill. Með þessu er farið að tillögum starfshóps um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum sem fram komu í skýrslu hópsins í mars 2016. 1
    Fæðingar- og foreldraorlof er greitt af Fæðingarorlofssjóði sem er fjármagnaður með tekjum af tryggingagjaldi. Samkvæmt 5. tölul. 3. gr. laga nr. 113/1990 renna nú 0,65% af gjaldstofni tryggingagjalds í Fæðingarorlofssjóð. Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að þetta hlutfall hækki til jafns við hlutfallslega lengingu fæðingar- og foreldraorlofs. Ekki er gert ráð fyrir hækkun á heildartryggingagjaldshlutfalli sem nú er 6,85%. Breytingin sem lögð er til felur því ekki í sér aukna skattheimtu en krefst endurskoðunar á forgangsröðun verkefna hins opinbera.
    Efnahagshrunið haustið 2008 olli því að draga varð verulega úr ríkisútgjöldum, þar á meðal voru greiðslur vegna fæðingarorlofs lækkaðar verulega með því að sett var þak á hámarksgreiðslur. Skerðingar á fæðingarorlofi á árunum 2008–2011 voru ætíð gerðar með því fororði að þær yrðu teknar til baka jafnskjótt og hagur ríkissjóðs vænkaðist.
    Endurreisn fæðingarorlofsins hófst í lok ársins 2012 þegar þáverandi velferðarrráðherra lagði fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum (496. mál á 141. löggjafarþingi) þar sem í senn var gert ráð fyrir hækkun hámarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og lengingu fæðingarorlofs úr níu mánuðum í tólf í áföngum eins og gert er í fyrirliggjandi frumvarpi. Frumvarp velferðarráðherra varð að lögum nr. 143/2012 með gildistöku 1. janúar 2013 en þær réttarbætur sem í því fólust voru teknar af með lögum nr. 140/2013 um ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014, sbr. 3. mál á 143. löggjafarþingi, og sýndu forvígismenn þáverandi ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks þannig hug sinn til þessarar meginstoðar velferðarsamfélagsins.
    Fæðingarorlof er styttra hér á landi en í nágrannalöndunum. Það er skoðun flutningsmanna frumvarpsins að við svo búið megi ekki standa enda er hér um að ræða mikilvægt velferðarmál ungra fjölskyldna. Samfélagið hefur vel ráð á því að bæta kjör og aðstöðu ungbarna og foreldra þeirra og ætti, allra hluta vegna, að leggja áherslu á það umfram ýmislegt annað. Breytingin sem lögð er til felur í sér breytta ráðstöfun skattfjár og verður að treysta því að stjórnvöld eygi möguleika á að koma fram þeirri forgangsröðun í þágu ungbarna og foreldra þeirra sem hækkun á hlutdeild Fæðingarorlofssjóðs í tekjum af tryggingagjaldi krefst.


1    Framtíðarstefna í fæðingarorlofsmálum. Tillögur starfshóps. Velferðarráðuneytið. Mars 2016.