Ferill 54. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 211  —  54. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Steinunni Þóru Árnadóttur um meðferð kynferðisbrota.


     1.      Hvenær er ráðgert að samráðshópur um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins, sem innanríkisráðherra skipaði í mars 2016, ljúki störfum og skili lokaskýrslu?
    Samráðshópur um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins, sem innanríkisráðherra skipaði í mars 2016, skilaði fyrstu drögum að skýrslu til ráðherra 1. júní 2016. Þar var gerð grein fyrir kortlagningu á stöðu mála og tillögum hópsins um aðgerðir. Í kjölfarið var svo unnið að kynningu á á umræddum drögum fram á haust.
    Tekist hefur að tryggja náið samráð við fagaðila sem starfa á vegum hins opinbera, einnig frjáls félagasamtök sem vinna að málaflokknum, auk fræðasamfélagsins og víðtæk sátt hefur náðst um niðurstöður samráðshópsins. Nú þegar er hafin vinna við framkvæmda- og kostnaðaráætlun og forgangsröðun aðgerða. Er áætlað að hópurinn ljúki störfum og skili lokaskýrslu og framkvæmdaáætlun til ráðherra eigi síðar en um haustið 2017.

     2.      Hvaða aðgerðir, sem byggðar eru á fyrstu tillögum samráðshópsins frá því í júní sl., eru komnar til framkvæmda?
    Aðgerðaáætlunin skiptist í sex kafla og fjallar hver kafli um aðgerðir sem snerta mismunandi einingar réttarvörslukerfisins, auk aðgerða er varða brotaþola, sakborninga, forvarnir og fræðslu. Var það mat samráðshópsins að aðgerðunum mætti skipta í tvo flokka, annars vegar þær sem hægt væri að ráðast í strax á fyrstu tveimur árum aðgerðaáætlunarinnar, hins vegar þær sem kunna að þarfnast frekari úrvinnslu og athugunar af hálfu ráðuneytisins og eru þess eðlis að þær krefjist aukins fjármagns, lagabreytinga og/eða frekari úrvinnslu.
    Nokkrar aðgerðir eiga það sameiginlegt að spanna allt kerfið í heild, t.d. hvað varðar málsmeðferðartíma, fræðslu, endurmenntun og gagnaflæði og er þeim lýst nánar í þeim köflum sem við eiga. Frá því að fyrstu tillögur samráðshópsins lágu fyrir var strax hafist handa við að koma þeim aðgerðum til framkvæmda sem kröfðust ekki frekari úrvinnslu eða íhlutunar af hálfu ráðuneytisins og er sú vinna í fullum gangi innan þeirra eininga réttarkerfisins sem aðgerðirnar snerta.
    Sem dæmi hér um má nefna vinnu við að samræma gátlista og verkferla, aðgerðir í því skyni að stytta málsmeðferðartíma innan kerfisins, bæta gagnaflæði í réttarvörslukerfinu, vinna við fullgildingu Istanbúlsamningsins og loks að koma á fót miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, í Bjarkarhlíð við Bústaðaveg, sem verður formlega opnuð í byrjun mars næstkomandi.
    Þær aðgerðir sem krefjast frekari úrvinnslu fara nú inn í framkvæmdaáætlun og verða kynntar í lokaskýrslu hópsins, ásamt með kostnaðarmati.

     3.      Er innan ráðuneytisins unnið að tillögum um að breyta réttarstöðu brotaþola í kynferðisbrotamálum til samræmis því sem tíðkast í grannríkjum á borð við Noreg, Svíþjóð og Finnland?
    Skoðað verður hvort breyta eigi réttarstöðu brotaþola í kynferðisbrotamálum til samræmis við það sem tíðkast í grannríkjum Íslands þegar samráðshópur um meðferð kynferðisofbeldis innan réttarvörslukerfisins hefur lokið störfum.