Ferill 189. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 260  —  189. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 47/2006, um kjararáð.
(lækkun launa til samræmis við launaþróun frá 2013).


Flm.: Jón Þór Ólafsson, Ásta Guðrún Helgadóttir, Birgitta Jónsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Einar Brynjólfsson, Gunnar I. Guðmundsson, Halldóra Mogensen, Smári McCarthy, Viktor Orri Valgarðsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


1. gr.

    Við 2. mgr. 6. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Talsmönnum launafólks og atvinnurekenda á vinnumarkaði skal gefinn kostur á að leggja fram skriflegar eða munnlegar greinargerðir vegna þeirra mála sem til úrlausnar eru. Ráðið getur og heimilað málsaðilum að reifa mál sitt fyrir ráðinu.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 8. og 10. gr. skal kjararáð fyrir 28. febrúar 2017 kveða upp nýjan úrskurð er feli í sér launalækkun alþingismanna og ráðherra sem samsvari því að laun þeirra fylgi almennri launaþróun frá 11. júní 2013. Ákvörðunin skal taka gildi eigi síðar en 28. febrúar 2017. Jafnframt skal kjararáð svo fljótt sem auðið er endurskoða kjör annarra er undir það heyra, til samræmis. Ákvæði þetta gildir ekki um forseta Íslands.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Hinn 29. október sl. ákvað kjararáð að laun forseta Íslands, þingfararkaup alþingismanna og launakjör ráðherra skyldu hækka frá og með 1. nóvember 2016. Þær hækkanir eru verulega umfram almenna launaþróun og gengur því ákvörðunin í besta falli gegn tilgangi laga um kjararáð.
    Í lögum um kjararáð, nr. 47/2006, er kveðið á um að kjararáð skuli „ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði“. Tilgangur þess ákvæðis er „að ekki sé hætta á að úrskurðir [kjararáðs] raski kjarasamningum þorra launafólks og stefni þar með stöðugleika í efnahagslífinu í hættu. [...] [Kjararáði] ber þannig að hafa hliðsjón af launastefnu á vinnumarkaðnum en ekki móta hana“ eins og kemur fram í athugasemdum við frumvarp til laganna. Þar er eftirfarandi sérstaklega ítrekað: „Í frumvarpinu um kjararáð sem hér er gerð grein fyrir er fylgt sömu stefnu og hún reyndar ítrekuð með því að [...] kveðið [er] enn skýrar að orði um þetta efni.“
    Heildarsamtök bæði launafólks og atvinnurekenda krefjast þess að Alþingi hafni og dragi til baka nýlegar launahækkanir sem kjararáð ákvað því annars sé hætta á upplausn á vinnumarkaði. Samtök atvinnulífsins segja að kjararáð „stuðl[i] að upplausn á vinnumarkaði“ og Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands „skora á nýtt Alþingi að hafna nýlegum ákvörðunum kjararáðs og leggja málið í sáttaferli“. Alþýðusamband Íslands segir: „ASÍ krefst þess að ákvörðun kjararáðs verði dregin til baka. [...] Að öðrum kosti verður óstöðugleiki og upplausn á vinnumarkaði í boði Alþingis.“ Úrskurður kjararáðs hefur því nú þegar skapað hættu á að raska kjarasamningum þorra launafólks og sett stöðugleika efnahagslífsins í hættu. Lögin um kjararáð eru skýr um það að ákvarðanir ráðsins skuli ekki skapa slíka hættu.
    Í ljósi þessara upplýsinga frá aðilum vinnumarkaðarins leggja flutningsmenn þessa frumvarps til að Alþingi lögleiði fyrirmæli til kjararáðs um að snúa við nýlegum hækkunum þess á launum ráðamanna.
    Meginmarkmið frumvarpsins er að minnka þann skaða sem ákvörðun kjararáðs hefur valdið með því að raska kjarasamningum þorra launafólks og setja stöðugleika efnahagslífsins í hættu. Kjarasamningar um 70% launafólks eru komnir í uppnám, m.a. vegna ákvarðana kjararáðs um tugprósenta hækkanir á launum ráðamanna. Með samþykkt frumvarpsins mundi Alþingi sýna fordæmi í átt til sátta.
    Frumvarpið mælir í fyrsta lagi fyrir um að kjararáð skuli taka nýja ákvörðun um leið og ráðið getur komið saman og eigi síðar en 28. febrúar svo að lækkunin eyði sem fyrst þeim skaðlegu áhrifum sem ákvörðun kjararáðs hefur valdið og veldur áfram á vinnumarkaði. Ákvörðunin skal fela í sér launalækkun alþingismanna og ráðherra sem samsvari því að laun þeirra fylgi almennri launaþróun frá 11. júní 2013. Kjararáð skal við ákvörðun sína nota launavísitölu Hagstofu Íslands.
    Í öðru lagi mælir frumvarpið fyrir um að kjararáð skuli svo fljótt sem auðið er kveða upp nýja úrskurði um aðra sem undir ráðið heyra til samræmis við þá launalækkun sem ákvörðuð hafi verið til handa alþingismönnum og ráðherrum. Kjararáð skal einnig útfæra þá ákvörðun í samræmi við launavísitölu Hagstofu Íslands, en tilgangurinn að baki lagabreytingunni er áfram að lækkunin minnki hættuna á að raska kjarasamningum þorra launafólks og setja stöðugleika efnahagslífsins í hættu. Ákvæðið gildir ekki um forseta Íslands. Stjórnarskráin heimilar ekki að lækka greiðslur til hans á kjörtímabili hans.
    Í þriðja lagi mælir frumvarpið fyrir um að kjararáð skuli í framtíðinni gefa talsmönnum launafólks og atvinnurekenda á vinnumarkaði kost á að leggja fram skriflegar eða munnlegar greinargerðir og að reifa mál sitt fyrir ráðinu vegna þeirra mála sem til úrlausnar eru. Ef kjararáð hefði óskað eftir upplýsingum frá aðilum vinnumarkaðarins fyrir úrskurði sína hefði verið hægt að koma í veg fyrir að Alþingi þyrfti að grípa inn í ákvarðanir kjararáðs til að afstýra upplausn á vinnumarkaði með hættu á að raska kjarasamningum þorra launafólks og stefna þar með stöðugleika í efnahagslífinu í hættu.