Ferill 150. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 278  —  150. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum (leiðrétting).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ágúst Þór Sigurðsson, Hildi Sverrisdóttur Röed og Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur frá velferðarráðuneytinu, Kára Hólmar Ragnarsson héraðsdómslögmann, Ragnhildi Helgadóttur, forseta lagadeildar Háskólans í Reykjavík, Einar Karl Hallvarðsson ríkislögmann, Ellert Schram og Gísla Jafetsson frá Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, Elísabetu Valgeirsdóttur og Hauk Ingibergsson frá Landssambandi eldri borgara og Katrínu Oddsdóttur héraðsdómslögmann.

Um efni frumvarpsins og vinnu nefndarinnar.
    Markmiðið með frumvarpinu er að leiðrétta mistök sem urðu við setningu laga nr. 116/2016 en í 1. gr. voru gerðar breytingar á 16. gr. laga um almannatryggingar í tengslum við upptöku nýs bótaflokks, ellilífeyris. Samkvæmt lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, er meginreglan sú að allar skattskyldar tekjur hafa áhrif á útreikning bóta skv. 2. mgr. 16. gr. laganna, en í 3. og 4. mgr. eru taldar upp ívilnandi undanþágur þar sem tilgreint er hvaða tekjur skuli ekki teljast til tekna lífeyrisþega þrátt fyrir 2. mgr. Eftir að lögin voru birt kom í ljós að við vinnslu frumvarpsins höfðu fyrrnefnd mistök verið gerð þannig að tilvísun í bótaflokkana ellilífeyri skv. 17. gr. og ráðstöfunarfé skv. 48. og 56. gr., sem vera átti í 4. mgr. 16. gr., færðist í 3. mgr. þeirrar greinar. 3. mgr.16. gr., sem undanskilur m.a. greiðslur úr lífeyrissjóðum við útreikning bóta, á að einskorðast við útreikning örorkulífeyris, enda voru engar breytingar gerðar á bótakerfi almannatrygginga vegna örorku með lögunum.
    Meiri hluti nefndarinnar telur brýnt að leiðrétta sem fyrst þessi lagatæknilegu mistök þar sem miklir hagsmunir eru í húfi. Verði það ekki gert gæti það haft þau áhrif að greiðslur frá lífeyrissjóðakerfinu yrðu undanskildar við útreikning hins nýja ellilífeyris og ráðstöfunarfjár. Meiri hlutinn leggur áherslu á að vilji og tilgangur löggjafans að halda óbreyttum undanþágum frá þeirri meginreglu að skattskyldar tekjur hafi áhrif á útreikning til bóta hafi komið glöggt fram í öllum lögskýringargögnum, einkum í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 116/2016. Þá telur meiri hlutinn ljóst af allri umræðu á þingi sem og í samfélaginu að engar réttmætar væntingar til frekari ellilífeyrisgreiðslna hafi skapast og því hafi enginn orðið fyrir tjóni.
    Að teknu tilliti til framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Elsa Lára Arnardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis með fyrirvara.

Alþingi, 24. febrúar 2017.

Nichole Leigh Mosty,
form.
Vilhjálmur Árnason,
frsm.
Birgir Ármannsson.
Elsa Lára Arnardóttir,
með fyrirvara.
Hildur Sverrisdóttir. Jóna Sólveig Elínardóttir.