Ferill 212. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 296  —  212. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um mótun stefnu og framkvæmdaáætlunar
um ferðamannaleiðir á Vestfjörðum.


Flm.: Lilja Rafney Magnúsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Gunnar I. Guðmundsson, Svandís Svavarsdóttir, Guðjón S. Brjánsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir.

    
    Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að skipa starfshóp til að móta stefnu og framkvæmdaáætlun um uppbyggingu akvega á Vestfjörðum með sérstöku tilliti til útsýnis, náttúrufegurðar og menningartengdrar ferðamennsku. Í starfshópnum verði fulltrúar opinberra aðila á sviði vegagerðar og skipulagsmála, fulltrúar sveitarfélaga í landshlutanum og enn fremur fulltrúi frá Skipulagsfræðingafélagi Íslands, Arkitektafélagi Íslands og Félagi leiðsögumanna.
    Ráðherra feli Vegagerðinni að sjá starfshópnum fyrir starfsaðstöðu og greiða götu hans. Ráðherra láti gera kostnaðaráætlun fyrir störf hópsins og afli fjár til greiðslu kostnaðar vegna starfa hans.
    Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins fyrir lok ársins 2017 og þær verði nýttar við gerð samgönguáætlunar og hafi þannig áhrif á vegagerð á Vestfjörðum.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi var áður flutt á 145. löggjafarþingi (273. mál) en náði ekki fram að ganga. Hún er nú endurflutt að mestu óbreytt.
    Með þessari tillögu er lagt til að hérlendis verði haldið á þá braut sem ýmis ríki í Evrópu og Vesturheimi hafa fylgt um alllangt skeið og felst í því að gefa gildi akvega fyrir ferðamennsku sérstakan gaum, skipuleggja þá og gera þá úr garði með tilliti til ferðamanna sem vilja njóta náttúrufegurðar og dýralífs og fræðast um menningu og mannlíf á þeim slóðum sem þeir fara um. Slíkir vegir gegna þannig ekki einungis því hlutverki að vegfarandinn komist greiðlega á milli áfangastaða heldur verði förin sjálf til skemmtunar, fróðleiks og yndisauka. Í þessum tilgangi er m.a. tekið tilliti til útsýnis við val á vegstæði, áningar- og útsýnisstaðir eru fleiri en ella væri og gerðar eru ráðstafanir til að kynna ferðafólki náttúru, sögu og menningu þess landsvæðis sem farið er um.
    Ástæða þess að lagt er til að uppbyggingu á Vestfjörðum verði sérstaklega sinnt í þessu tilliti er að þar er margt enn ógert í vegagerð og því næg tækifæri til að koma sjónarmiðum varðandi fagrar ferðaleiðir að í hönnun og uppbyggingu vega og mannvirkjum sem þeim tengjast. Ekki skortir á náttúrufegurð í landshlutanum og má ætla að mjög víða sé hægt að finna staði og svæði þar sem unnt er að raungera væntingar um vegagerð sem í senn virði íslenska náttúru og veiti ferðamönnum tækifæri til að njóta hennar sem best. Þyki aðferðin gefa góða raun á Vestfjörðum er að sjálfsögðu rétt að beita henni einnig við vegagerð í öðrum landshlutum.
    Víða er að finna framkvæmd og skipulag í samþættingu vegagerðar og ferðaiðnaðar sem unnt er að sækja fyrirmyndir til. Nágrannaland okkar, Noregur, býr að stórbrotinni náttúru og gríðarlega langri strandlengju. Er hin sérstæða og tignarlega náttúra Noregs meðal helstu ástæðna þess að ferðamenn sækja landið heim og njóta þess að fara þar um. Þessi staðreynd, auk vilja og viðleitni til að efla ferðaiðnað í Noregi, varð til þess að norska vegagerðin, Statens vegvesen, gekkst fyrir tilraunaverkefni á árunum 1994–1997 sem miðaði að því að móta aðferðir við að auka hlut þjóðvega landsins í upplifun ferðamanna af för um Noreg. Var þessu starfi hrundið af stað af hálfu Stórþingsins með það að markmiði að samþætta uppbyggingu samgöngumannvirkja og ferðamennsku. Tilraunaverkefnið þótti gefa góða raun og var því haldið áfram á þeirri braut sem þar var mörkuð þótt vissulega hafi verkefnið tekið ýmsum breytingum og áherslur breyst á þeim tíma sem liðinn er. Nú eru 18 ferðaleiðir um Noreg skilgreindar sem sérstakir ferðamannavegir, Nasjonale turistveger. Þessir vegir gegna að sjálfsögðu hlutverki sem almenn samgöngumannvirki en þeir liggja jafnframt um slóðir þar sem náttúra er sérstæð og mikilfengleg og lögð er áhersla á vandaða uppbyggingu áningar- og útsýnisstaða. Smám saman hafa þessar útvöldu ferðamannaleiðir Norðmanna orðið að mikilvægum þætti í ferðamálum Noregs og draga til sín fjölda ferðamanna ár hvert. Er að því stefnt að árið 2023 verði uppbyggingu norsku ferðamannaleiðanna lokið og verði þær þá alls um 2.000 km að lengd með um 250 útsýnis- og áningarstöðum. 1
    Meðal þekktustu ferðamannaleiða í Noregi er Atlantshafsvegurinn – Atlanterhavsveien – í Mæri og Raumsdal. 2 Þessi 8,3 km langi akvegur, sem liggur um eyjar og sker á leiðinni milli Eide og Averøy, var opnaður sumarið 1989. Hann er nú talinn meðal athyglisverðustu útsýnisvega í heimi og var valinn „mannvirki aldarinnar“ af norskum almenningi árið 2005.
    Skilgreining og uppbygging sérstakra ferðamannaleiða þar sem samgöngur, menning og náttúra samþættast hefur átt sér stað í ýmsum öðrum Evrópulöndum einnig. Má þar nefna Rómantíkurbrautina – Romantische Straße – í Suður Þýskalandi 3 og Vínleiðina – La Route des Vins d'Alsace um Alsace-hérað í Frakklandi. 4
    Uppbygging akvega sem ferðamannaleiða á sér enn lengri sögu í Bandaríkjum Norður- Ameríku en í Evrópu. Fjölda slíkra ferðamannaleiða – Scenic Byways – er að finna í Bandaríkjunum, 5 og fer um þróun þeirra og uppbyggingu eftir sérstakri löggjöf – National Scenic Byways Legislation – og áætlun – National Scenic Byways Program 6 – þar sem m.a. er gerð grein fyrir þeim skilyrðum sem sett eru fyrir því að bandarísk þjóðleið falli í þennan flokk, fjármögnun verkefna sem henni tengjast og ýmis umhverfismál sem sinna verður af meiri natni en ella þegar akvegur fær stöðu ferðamannaleiðar.
    Eins og bent hefur verið á í þessari greinargerð eru ferðamannaleiðir mikilvægur þáttur í uppbyggingu grunnþátta ferðamannaiðnaðar víða á Vesturlöndum og geta orðið aðdráttarafl fyrir ferðamenn í sjálfu sér þar sem aðstæður leyfa og vel tekst til við uppbyggingu þeirra. Mikil þörf er fyrir opinbera fjárfestingu og uppbyggingu hér á landi til að styrkja þær stoðir samfélagsins sem standa undir ferðamannaiðnaðinum sem á skömmum tíma hefur orðið að mikilvægri tekjulind samfélags og einstaklinga. Þar er uppbygging vega og annarra samgöngumannvirkja einkar mikilvæg og hvað Vestfirði varðar væri full þörf slíkra framkvæmda vegna hagsmuna Vestfirðinga þótt ferðamönnum hefði ekki fjölgað. En það er að sjálfsögðu brýnt viðfangsefni að byggja upp ferðamannaiðnaðinn í þessum landshluta ekki síður en annars staðar og er þingsályktunartillögunni ætlað að stuðla að því að svo verði um leið og nauðsynlegar samgöngubætur komast til framkvæmda.
1     www.nasjonaleturistveger.no/no
2     www.atlanterhavsveien.info/default.asp
3     www.romantischestrasse.de/index.php?id=erleben&L=11
4     www.route-des-vins-alsace.com/fr/
5     scenicbyways.info/
6     www.fhwa.dot.gov/hep/scenic_byways/us_code.cfm#program