Ferill 262. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 683  —  262. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um samræmd könnunarpróf og Menntamálastofnun.


     1.      Við hvaða aðila var haft samráð þegar reglum um framkvæmd samræmdra könnunarprófa var breytt til núverandi horfs?
    Við gerð breytinga á reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla nr. 173/2017, sem tók gildi í síðasta mánuði, var haft víðtækt samráð við hagsmunaaðila. Drög að reglugerðinni voru sett í opið samráð á netinu í lok árs 2016 og helstu hagsmunaðilum og almenningi gefinn kostur á að senda inn athugasemdir. Drög að reglugerðinni voru einnig tekin til umfjöllunar í samráðsnefnd leik- og grunnskóla með ýmsum helstu hagsmunaaðilum og sérstakt samráð var haft við gerð reglugerðarinnar við Menntamálastofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga. Ráðuneytinu bárust ýmsar ábendingar og athugasemdir sem tekið var tillit til.

     2.      Hvernig var háttað kynningu á síðustu breytingum á reglum um framkvæmd samræmdra könnunarprófa?
    Breytingar á reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla voru birtar í Stjórnartíðindum 2. mars 2017, kynntar með frétt á heimasíðu ráðuneytisins 6. mars 2017 og ráðuneytið sendi helstu hagsmunaaðilum upplýsingar um málið í tölvupósti. Einnig var reglugerðin kynnt með dreifibréfi til allra grunn- og framhaldsskóla í sömu viku. Menntamálastofnun sá um þá kynningu fyrir hönd ráðuneytisins. Menntamálastofnun stóð fyrir ellefu kynningarfundum um allt land í byrjun febrúar sem voru öllum opnir og auglýstir með tölvupóstum til skóla, á heimasíðu Menntamálastofnunar og á samskiptamiðli (Facebook-síðu). Að auki var boðið upp á þrjá fjarfundi. Upplýsingar um dagsetningar og fyrirkomulag prófanna voru auglýstar á heimasíðu Menntamálastofnunar og samskiptamiðli og sendar til skóla í byrjun janúar. Þá voru einnig foreldra- og nemendabréf send til skólanna í lok janúar og sett á heimasíðu og samskiptamiðil (Facebook-síðu) Menntamálastofnunar. Æfingapróf var gert aðgengilegt og auglýst í sama mánuði. Þróun og breytingar á prófunum hafa verið ræddar í sérstökum samráðshópi um samræmd könnunarpróf. Í samráðshópnum sitja fulltrúar Félags grunnskólakennara, Skólastjórafélags Íslands, Sambands íslenskra sveitafélaga, háskóla, Heimilis og skóla og Ungmennaráðs Menntamálastofnunar.
    Ákvörðun um að færa ritun úr samræmdum könnunarprófum var tilkynnt til skóla, fræðslustjóra og skólaskrifstofa 27. febrúar eftir að breytingin hafði verið rædd m.a. á fundum með hagsmunaaðilum og öllum þeim kynningarfundum sem haldnir voru í aðdraganda prófanna. Sú staðreynd að prófútgáfur eru tvær var rædd ítarlega á öllum kynningarfundum og hún kemur fram í framkvæmdahefti. Ástæða þess að notaðar eru fleiri en ein prófútgáfa er bæði til að auka próföryggi og taka frekari skref í þróun rafrænna einstaklingsmiðaðra prófa.

     3.      Hver er kostnaðurinn við prófakerfið FastTest sem Menntamálastofnun kaupir af bandarískum aðila?
    Kostnaður við notkun FastTest-prófakerfisins frá Assessment Systems er tvíþættur. Annars vegar kostnaður við starfsmenn Menntamálastofnunar og verktaka hennar sem þurfa að vinna í kerfinu og hins vegar kostnaður við próftöku hjá nemendum. Kostnaður tengdur starfsmönnum liggur í aðgangi fyrir umsjónarmenn prófagerðar, aðgangi fyrir starfsmenn og aðgangi fyrir verktaka sem vinna við þróun prófverkefna og rýni. Kostnaður við nemendur liggur í föstu gjaldi fyrir hverja próftöku eða próflotu sem nemendur þreyta. Verður sá kostnaður mjög breytilegur eftir fjölda nemenda. Keyptar eru prófeiningar og notast ein eining við hverja próftöku.
    Kostnaður vegna prófakerfisins vegna samræmdra könnunarprófa í grunnskólum skólaárið 2016–2017 sést í eftirfarandi töflu.

Dags. Ástæða Upphæð
20/06/2016 3 umsjónarmenn, 11 notendur og 26.000 prófeiningar 7.122.293 kr.
08/08/2016 Uppsetning á netþjóni á Evrópska efnahagssvæðinu 1.762.650 kr.
23/12/2016 2 umsjónarmenn og 18 notendur 1.056.154 kr.
30/01/2017 25.000 prófeiningar 5.814.100 kr.
15.755.197 kr.

     4.      Hafa niðurstöðu samræmdra prófa þýðingu fyrir umsóknir nema um framhaldsskóla?
    Framhaldsskólum er gert skylt að greina frá því með skýrum hætti á heimasíðum sínum hvaða inntökuskilyrði þeir setja, hvaða gögnum þeir óska eftir frá umsækjendum og þá einnig hvaða gögn umsækjendur mega senda með umsókninni. Nemendur og forráðamenn þeirra eru ávallt hvattir til að kynna sér inntökuskilyrði þess skóla sem nemandinn hyggst sækja um skólavist í.
    Framhaldsskólum er ekki heimilt að krefjast þess af nemendum að fá niðurstöður þeirra úr samræmdum könnunarprófum, þeir geta ekki krafist þess af grunnskólunum að fá þær og Menntamálastofnun mun ekki heldur afhenda þær framhaldsskólum. Með nýlegri breytingu á reglugerð um innritun í framhaldsskóla nr. 1199/2016 er mælt fyrir um að þegar framhaldsskólar þurfa að velja úr stórum hópi umsækjanda um skólavist er þeim heimilt að taka mið af fleiri gögnum en lokaeinkunnum úr grunnskóla. Þeim er einnig heimilt að taka mið af viðbótargögnum sem nemandi kýs að senda með umsókn sinni, eins og staðfestar upplýsingar um þátttöku og árangur í félagsstarfi, öðru námi, keppnum af ýmsu tagi, svo sem íþróttum, listum, tungumálum og raungreinum og niðurstöður samræmdra könnunarprófa.
    Ýmsar athuganir renna stoðum undir að það sé fylgni milli niðurstaðna samræmdra prófa og skólaeinkunna og lítur ráðuneytið svo á að afar sjaldan muni reyna á að niðurstöður samræmdra könnunarprófa verði teknar til sérstakrar skoðunar sem hluti viðbótargagna umsókna í framhaldsskóla. Einnig er rétt að árétta að innritun í framhaldsskóla hefur á undanförnum árum gengið vel og um 90% komast í þá skóla sem þeir velja sem 1. val og 9% í 2. val. Því mun í fáum tilvikum reyna á framangreint nýtt ákvæði í reglugerð um innritun í framhaldsskóla.
    Með hliðsjón af framangreindu lítur ráðuneytið svo á að niðurstöður samræmdra könnunarprófa hafa ekki almenna þýðingu fyrir umsóknir í framhaldsskóla en geti haft áhrif ásamt ýmsum fleiri gögnum sem nemendur kjósa að senda með umsókn sinni til framhaldsskóla þegar framhaldsskólar þurfa að velja úr stórum hópi nemenda.

     5.      Hvernig er formlegri ákvarðanatöku um málefni sem heyra undir Menntamálastofnun háttað og hvert er annars vegar hlutverk ráðgjafarnefndar og hins vegar hlutverk fagráða?
    Samkvæmt lögum um Menntamálastofnun, nr. 91/2015, ber forstjóri ábyrgð á að stofnunin starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf. Stofnunin heyrir beint undir mennta- og menningarmálaráðuneyti og hlítir stjórnvaldsfyrirmælum ráðuneytisins.
    Samkvæmt lögunum hefur forstjóri sér til ráðuneytis sjö manna ráðgjafarnefnd sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Verkefni nefndarinnar er að vera forstjóra til ráðgjafar um langtímastefnumótun um starfsemi stofnunarinnar. Tveir nefndarmanna skulu skipaðir án tilnefningar og er annar þeirra formaður, einn samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga, einn samkvæmt tilnefningu Félags íslenskra framhaldsskóla, einn samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins, einn samkvæmt tilnefningu Kennarasambands Íslands og einn samkvæmt tilnefningu Heimilis og skóla. Ráðgjafarnefnd veitir því forstjóra almenna ráðgjöf í málefnum stefnumótunar og þar sitja fulltrúar hagsmunaaðila.
    Lög um Menntamálastofnun kveða jafnframt á um að forstjóri skuli setja á fót fagráð fyrir helstu verksvið stofnunarinnar sem skipuð skulu sérfróðum aðilum á viðkomandi sviði. Fagráð skulu vera stofnuninni til ráðgjafar og aðstoðar. Í reglugerð um stofnun og starf fagráða Menntamálastofnunar nr. 530/2016 er tiltekið að við skipan í fagráð skuli hafa til viðmiðunar að viðkomandi aðili hafi faglega þekkingu og reynslu á starfssviði fagráðsins. Fagráð eru starfandi fyrir helstu starfssvið stofnunarinnar: náms- og gæðamat, gerð og miðlun námsgagna og upplýsingagjöf og þjónustu. Þar sitja sérfræðingar með fagþekkingu á viðkomandi sviðum og veita sérhæfða ráðgjöf.