Ferill 386. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
2. uppprentun.

Þingskjal 826  —  386. mál.
Nefnd.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um skortsölu og skuldatryggingar.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Kára Kárason frá fjármála- og efnahagsráðuneyti. Umsagnir bárust frá Fjármálaeftirlitinu, Kauphöll Íslands hf., Persónuvernd og Samtökum fjármálafyrirtækja. Einnig barst nefndinni álitsgerð frá dr. Andra Fannari Bergþórssyni um hvort 10. gr. frumvarpsins samræmist kröfum stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu um skýrleika refsiheimilda.
    Í 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins er lagt til að reglugerð (ESB) nr. 236/2012 um skortsölu og tiltekna þætti skuldatrygginga fái lagagildi með aðlögunum samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Í 2. mgr. sömu greinar er lagt til að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar skuli jafnframt hafa lagagildi. Að mati nefndarinnar er nægjanlegt að reglugerðin með aðlögunum samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar fái lagagildi en óþarft að lögfesta ákvörðunina í heild sinni. Nefndin leggur því til að 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins falli brott en að vísun málsgreinarinnar til EES-viðbætis við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins færist í 1. mgr. greinarinnar. Fyrir mistök er vísað í rangt hefti EES-viðbætis við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins og leggur nefndin til að það verði leiðrétt.
    Nefndin leggur til að vísanir til reglugerðar (ESB) nr. 236/2012 í töluliðum 1. mgr. 6. gr. og 10. gr. færist í inngangsmálsliði ákvæðanna til að einfalda framsetningu þeirra.
    Skv. 8. tölul. 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins munu brot gegn 1. mgr. 15. gr. reglugerðar (ESB) nr. 236/2012 varða sektum. Nefndin leggur til að ákvæðið nái einnig til 2. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar varðandi skyldu til að hafa ferli fyrir álagningu dagsekta.
    Í 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins segir að við ákvörðun stjórnvaldssekta skuli m.a. tekið tillit til allra atvika sem máli skipta. Nefndin leggur til að skammstöfunin „m.a.“ falli brott enda á við ákvörðun sektanna vart að taka tillit til annars en allra atvika sem máli skipta.
    Í 4. málsl. 5. mgr. 6. gr. segir að séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skuli greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Nefndin leggur til að skýrt verði að dráttarvextir leggist ekki á stjórnvaldssektir fyrr en að liðnum mánuði frá því að viðkomandi var tilkynnt um sektarákvörðun.
    Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja sagði að ákvæði frumvarpsins um refsiheimildir hefðu engar verknaðarlýsingar sem mörkuðu refsinæmi verknaðar þar sem ekki væri gert ráð fyrir að skortsölureglugerðin væri hluti af lögunum. Það uppfyllti tæpast kröfur stjórnarskrár og mannréttindasáttmála um skýrleika refsiheimilda. Skv. 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins skal reglugerðin hafa lagagildi hérlendis með aðlögunum samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Vísað er til birtingar í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins. Skv. 2. mgr. 2. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna, er við birtingu laga í A-deild Stjórnartíðinda sem sett eru til að lögleiða EES-reglur heimilt að vísa til birtingar í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins. Nefndin telur frumvarpið því samræmast þeim kröfum sem gerðar eru til birtingar laga.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 2. gr.
                  a.      Á eftir dagsetningunni „30. september 2016“ í 1. mgr. komi: sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 13 frá 23. febrúar 2017, bls. 53–56.
                  b.      2. mgr. falli brott.
     2.      Við 6. gr.
                  a.      Við inngangsmálslið 1. mgr. bætist: reglugerðar (ESB) nr. 236/2012 um skortsölu og tiltekna þætti skuldatrygginga.
                  b.      Orðin „reglugerðar (ESB) nr. 236/2012“ í 1.–7. og 9–13. tölul. 1. mgr. falli brott.
                  c.      8. tölul. 1. mgr. orðist svo: 15. gr. um ferli uppgjörskaupa.
                  d.      Skammstöfunin „m.a.“ í 2. mgr. falli brott.
                  e.      Á eftir orðunum „mánaðar frá“ í 5. mgr. komi: því að viðkomandi er tilkynnt um.
     3.      Við 10. gr.
                  a.      Í stað orðsins „ákvæðum“ í inngangsmálslið komi: eftirtöldum ákvæðum reglugerðar (ESB) nr. 236/2012 um skortsölu og tiltekna þætti skuldatrygginga.
                  b.      Orðin „reglugerðar (ESB) nr. 236/2012“ í 1.–3. tölul. falli brott.

    Katrín Jakobsdóttir og Smári McCarthy rita undir álitið með fyrirvara. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Rósa Björk Brynjólfsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins, en rita undir álitið samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 19. maí 2017.

Óli Björn Kárason,
form.
Brynjar Níelsson,
frsm.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Jón Steindór Valdimarsson. Katrín Jakobsdóttir,
með fyrirvara.
Lilja Alfreðsdóttir.
Vilhjálmur Bjarnason. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, með fyrirvara. Smári McCarthy,
með fyrirvara.