Ferill 385. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 858  —  385. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta, tolla og gjöld (samsköttun félaga, takmörkun á frádrætti vaxtagjalda, leigutekjur, virðisaukaskattur, vörugjald af grindarbílum o.fl.).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Valbjörgu Ólafsdóttur, Hlyn Ingason, Ingibjörgu Helgu Helgadóttur, Margréti Ágústu Sigurðardóttur og Maríönnu Jónasdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Jóhönnu Bryndísi Bjarnadóttur og Magnús K. Hannesson frá utanríkisráðuneyti, Alexander Eðvardsson og Sigurjón Högnason frá KPMG ehf., Jón Björgvin Guðnason frá Landhelgisgæslu Íslands, Elínu Ölmu Arthursdóttur, Ingvar J. Rögnvaldsson og Jón Ásgeir Tryggvason frá ríkisskattstjóra og Bergþóru Halldórsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins. Umsagnir bárust frá Ernst & Young ehf., Félagi atvinnurekenda, Júlíusi Georgssyni, KPMG ehf., ríkisskattstjóra, Samtökum atvinnulífsins, Seðlabanka Íslands og Úrvinnslusjóði. Auk þeirra barst minnisblað frá fjármála- og efnahagsráðuneyti um athugasemdir í umsögnum. Með frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á skattalögum af ólíkum toga.
    Að ósk fjármála- og efnahagsráðuneytis leggur meiri hlutinn til að 3. gr. frumvarpsins, sem varðar heimildir félaga til samsköttunar, falli niður. Ráðuneytið taldi tilefni til að endurskoða ákvæðið og hyggst leggja fram nýja tillögu fyrir Alþingi í haust. Ákvæðið á ekki að taka gildi fyrr en 1. janúar 2018 svo ekki ætti að koma að sök að lögfestingu þess seinki til haustsins.
    Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að felld verði brott undanþága frá takmörkun 1. mgr. 57. gr. b laga um tekjuskatt á frádrætti vaxtagjalda ef lánveitandi ber ótakmarkaða skattskyldu hérlendis. Í greinargerð með frumvarpinu segir að líkur séu á að hún gangi gegn EES-rétti. Samtök atvinnulífsins töldu brottfall undanþágunnar geta aftrað fyrirtækjasamstæðum frá sameiginlegri lántöku sem gæti hækkað fjármögnunarkostnað þeirra. Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt en beinir því jafnframt til fjármála- og efnahagsráðuneytisins að samhliða endurskoðun ákvæðis 3. gr. frumvarpsins verði tekið til skoðunar hvernig megi tryggja að brottfall undanþágunnar komi ekki niður á eðlilegri fjármögnun innan samstæðu sem beinist ekki að því að takmarka skattgreiðslur. Ákvæði 4. gr. frumvarpsins á ekki að taka gildi fyrr en 1. janúar 2018 svo ekki ætti að koma að sök að ákvæði um það efni verði lögfest í haust.
    Með hliðsjón af ábendingu í umsögn KPMG ehf. leggur meiri hlutinn til að í a-lið 5. gr. og 7. gr. frumvarpsins verði vísað til útleigu íbúðarhúsnæðis sem fellur undir húsaleigulög fremur en útleigu til varanlegrar búsetu leigjanda í íbúðarhúsnæði. Meiri hlutinn telur þá afmörkun skýrari.
    Með hliðsjón af tillögum í umsögn ríkisskattstjóra og minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins leggur meiri hlutinn til orðalagsbreytingar á 10., 11., 19. og 25. gr. frumvarpsins.
    Til samræmis við tillögu fjármála- og efnahagsráðuneytisins leggur meiri hlutinn til að orðið „meðferðis“ í 1. mgr. 162. tollalaga falli brott. Um leiðréttingu er að ræða en ekki efnisbreytingu.
    Meiri hlutinn leggur til að nýjar greinar í lögum um gjald af áfengi og tóbaki og lögum um gistináttaskatt skv. 19. og 25. gr. frumvarpsins verði 10. gr. a og 5. gr. a fremur en 11. og 6. gr. svo að númer síðari greina í lögunum riðlist ekki.
    Aðrar breytingartillögur skýra sig sjálfar.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 22. maí 2017.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. Brynjar Níelsson.
Jón Steindór Valdimarsson. Vilhjálmur Bjarnason.