Ferill 272. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 874  —  272. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðigjald (öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Arnór Snæbjörnsson og Jóhann Guðmundsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Erlu Friðriksdóttur og Þórólf Halldórsson frá Breiðafjarðarnefnd, Guðmund Guðmundsson frá Byggðastofnun, Einar Svein Ólafsson frá Íslenska kalkþörungafélaginu ehf., Trausta Baldursson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Róbert A. Stefánsson frá Náttúrustofu Vesturlands, Héðin Valdimarsson og Karl Gunnarsson frá Hafrannsóknastofnun, Jón Einar Jónsson frá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Snæfellsnesi, Friðrik Friðriksson og Kristján Þórarinsson frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Bryndísi Davíðsdóttur og Eyrúnu Arnarsdóttur frá Samtökum iðnaðarins, Guðrúnu Gauksdóttur fyrir hönd Æðarræktarfélags Íslands, Arnór Halldórsson og Finn Árnason fyrir hönd Þörungaverksmiðjunnar hf. og Ásgeir Gunnar Jónsson og Friðrik Jónsson. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Ásgeiri Gunnari Jónssyni og Friðrik Jónssyni, Bjarna Kristjánssyni, Breiðafjarðarnefnd, Byggðastofnun, Hafrannsóknastofnun, Íslenska kalkþörungafélaginu ehf., Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrustofu Vesturlands, Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Snæfellsnesi, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum iðnaðarins, Æðarræktarfélagi Íslands og Þörungaverksmiðjunni hf.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðigjald. Lagt er til að lögfest verði ákvæði um að öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni verði háð leyfi Fiskistofu og að öflun þangs og þara falli undir ákvæði laga á sviði fiskveiðistjórnar um m.a. útgáfu leyfis til öflunar, færslu afladagbókar, skráningu og vigtun á afla og greiðslu veiðigjalds. Þá er mælt fyrir um að móttaka þangs til vinnslu verði háð leyfi og felst í frumvarpinu nokkur heimild til stjórnunar við öflun sjávargróðurs. Á sama tíma er lagt til að Hafrannsóknastofnun verði falið að stunda rannsóknir á sjávargróðri og vera stjórnvöldum til ráðgjafar um nýtingu. Frumvarp sama efnis var lagt fram á 145. löggjafarþingi (679. mál) en varð ekki að lögum.
    Í b-lið 5. gr. frumvarpsins segir að sá sem hefur leyfi til öflunar sjávargróðurs innan netlaga sjávarjarðar þurfi að hafa náð samkomulagi við landeiganda til þess. Enginn getur því aflað þangs á landi annars manns án skýrs samþykkis eða samkvæmt samningi. Þá þarf ekki leyfi fyrir minni háttar töku á sjávargróðri svo fremi að hún nemi minna en 10 tonnum á ári, sbr. 6. mgr. a-liðar 5. gr.
    Helsta markmið frumvarpsins er að styrkja lagaumgjörðina þannig að nýting á sjávargróðri verði í sátt við náttúruna og því verði unnt að stjórna því hámarksmagni sem afla megi. Einnig er tilgangur frumvarpsins að koma á fót eftirliti og kveða á um skyldur þeirra sem stunda nýtingu. Í frumvarpinu felst því ákveðin takmörkun á athöfnum sem á með sama hætti við um þá sem eru í sömu aðstöðu.
    Í 8. gr. frumvarpsins er lagt til að veiðigjald verði lagt á öflun sjávargróðurs og mun það leggjast á eigendur skipa sem afla sjávargróðurs. Tilgangur veiðigjalda er m.a. að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, eftirlit o.fl. Eins og fram hefur komið verða rannsóknir á sjávargróðri auknar verði frumvarpið að lögum. Fram kom við umfjöllun um málið að Hafrannsóknastofnun hafi lengi stundað þörungarannsóknir og hafi á síðasta ári hafið sjálfstæða rannsókn á útbreiðslu og lífmassa þangs vegna aukins áhuga á nýtingu þess. Meiri hlutinn ítrekar mikilvægi rannsókna enda eru þang og þari mikilvæg fyrir lífríkið og bendir meiri hlutinn á að vakta þurfi áhrif aukinnar nýtingar á lífríkið og aðra hagsmuni. Í breytingartillögu frá meiri hlutanum felst útvíkkun á 4. gr. frumvarpsins í þá veru að Hafrannsóknastofnun verði einnig falið að rannsaka vistkerfi tengd sjávargróðri.
    Á 145. löggjafarþingi var nefndarálit um frumvarp sama efnis afgreitt frá atvinnuveganefnd 3. október 2016. Í nefndarálitinu var m.a. undirstrikað mikilvægi þess að horft yrði á samspil lífríkisins í heild og vísað til uppvaxtarskilyrða grásleppu. Nefndin benti einnig á mikilvægi þess að fjármagn yrði tryggt til rannsókna og nýting á sjávargróðri yrði sjálfbær. Einnig var í álitinu vísað til þeirra tækifæra sem kynnu að gefast við nýtingu á sjávargróðri, að í þeim gætu falist mikil verðmæti og möguleikar á að nýta hráefnið til virðisaukandi framleiðslu. Meiri hlutinn tekur undir framangreint og bendir á að svo virðist sem aukinn áhugi sé á nýtingu þangs og þara við Ísland og hafa a.m.k. tveir aðilar fyrirhugað að hefja starfsemi á þessu sviði. Meiri hlutinn telur brýnt að frumvarpið verði að lögum til að í gildi verði lagaumgjörð um öflun sjávargróðurs, enda er ekki stætt á því að auka sóknina án þess að henni sé stjórnað.
    Til viðbótar áðurnefndri breytingu á 4. gr. leggur meiri hlutinn til nokkrar lagfæringar á orðalagi frumvarpsins.
    Óli Björn Kárason ritar undir álit þetta með fyrirvara um að ákvæði frumvarpsins kunni að fela í sér sértæka skerðingu á eignarrétti.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á eftir orðunum „rannsóknir á sjávargróðri“ í 4. gr. komi: og vistkerfi honum tengt.
     2.      Við 5. gr.
                  a.      Í stað orðanna „annarra laga“ í 3. mgr. a-liðar komi: öðrum lögum.
                  b.      Á eftir orðunum „sem stunda öflun á sjávargróðri“ í 5. mgr. a-liðar komi: í atvinnuskyni.
                  c.      Í stað orðanna „Heimilt er að skipta“ í 2. mgr. b-liðar komi: Ráðherra er heimilt að skipta.
                  d.      Í stað orðanna „eftir því“ í 2. málsl. 3. mgr. c-liðar komi: um.

Alþingi, 22. maí 2017.

Páll Magnússon,
form.
Hanna Katrín Friðriksson,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Theodóra S. Þorsteinsdóttir. Óli Björn Kárason,
með fyrirvara.