Ferill 574. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
2. uppprentun.

Þingskjal 884  —  574. mál.
Viðbót.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um kjararáð, nr. 130/2016 (frestun á framkvæmd lagaákvæða).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


1. gr.

    1. málsl. 2. mgr. 4. gr. laganna orðast svo: Kjararáð skal ákvarða föst laun fyrir venjulega dagvinnu og önnur laun sem starfinu fylgja og kveða á um önnur starfskjör.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. tölul. 8. gr. laganna:
     a.      2. málsl. f-liðar orðast svo: Laun og önnur launakjör þeirra skrifstofustjóra í Stjórnarráði sem ekki falla undir úrskurðarvald kjararáðs, lögreglumanna, tollvarða og fangavarða skulu fara eftir kjarasamningum sem stéttarfélög eða samtök þeirra gera við ríkið, sbr. 47. gr.
     b.      Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             Ákvæði 1. málsl. 39. gr. og 1. og 2. málsl. 1. mgr., 1. og 2. málsl. 2. mgr og 5. mgr. 39. gr. a um ákvörðun grunnlaunaflokks, undirflokks og viðbótarlauna koma ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2018. Fram að þeim tíma mun kjararáð ákvarða laun forstöðumanna samkvæmt lögum nr. 47/2006, sbr. 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 130/2016.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frá síðustu áramótum hefur verið unnið að útfærslu þeirra breytinga sem verða á starfskjörum forstöðumanna í framhaldi af samþykkt nýrra laga um kjararáð í lok árs 2016. Í þeirri vinnu hafa komið upp álitamál sem eru þess eðlis að æskilegt þykir að gera breytingar á nýju lögunum.
    Það álitamál sem helst þarf að taka á snýr að samspili launaákvarðana og ákvörðunar eftirlauna til þeirra sem nýta sér svokallaða eftirmannsreglu í B-deild LSR. Hana er að finna í 1. mgr. 35. gr. laga, um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997 en þar segir: „Sjóðfélagar, sem hefja töku lífeyris í beinu framhaldi af starfi og þeir sem fá lífeyrisgreiðslur úr sjóðnum við gildistöku laga þessara, geta, þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 24. gr. laganna og 1. mgr. 34. gr. laga nr. 141/1996, valið hvort lífeyrisgreiðslur til þeirra breytist til samræmis við breytingar sem verða á launum er á hverjum tíma eru greidd fyrir það starf sem þeir gegndu síðast, eða eftir atvikum við breytingar á launum fyrir hærra launað starf samkvæmt ákvæðum 6. mgr. 24. gr. og 1. eða 2. mgr. 28. gr. laganna, eða hvort þær skuli breytast samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 24. gr. laganna.“ Í 2. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997 segir: „Upphæð ellilífeyris er hundraðshluti af þeim föstu launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót samkvæmt kjarasamningum sem við starfslok fylgja stöðu þeirri fyrir fullt starf er sjóðfélagi gegndi síðast, sbr. þó 6. mgr. 23. gr.“ Eins og segir í þessu ákvæði ákvarðast eftirlaun af þeim föstu launum fyrir dagvinnu sem greidd eru fyrir viðkomandi starf. Í þeim ákvæðum nýrra kjararáðslaga sem fjalla um ákvörðun launa, hvort heldur sem er undir formerkjum kjararáðs eða hinnar sérstöku einingar, er ekki greint á milli launa fyrir dagvinnu og annarra launa og mundi það að óbreyttu leiða til þess að eftirlaun margra hækkuðu verulega og þar með útgjöld B-deildar LSR en ekki var ætlunin að breyttar áherslur við launaákvörðun leiddu til slíkra aukinna útgjalda.
    Til þess að bregðast við þessu og koma í veg fyrir slíka aukningu útgjalda þarf tvenns konar breytingar. Annars vegar þarf að breyta 1. málsl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2016 á þann veg að þar verði kveðið á um það með sama hætti og áður að kjararáð greini á milli í ákvörðun sinni hvað teljist laun fyrir dagvinnu og hvað laun vegna annars. Hins vegar þarf að fresta framkvæmdinni á því hvenær ákvörðun um laun forstöðumanna færist frá kjararáði til þeirra aðila sem tilgreindir eru í tilteknum málsliðum í 39. gr. og 39. gr. a laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, sbr. f- og g-lið 1. tölul. 8. gr. laga um kjararáð, nr. 130/2016.
    Í 1. gr. er lagt til að 1. málsl. 2. mgr. 4. gr. verði orðaður eins og 1. mgr. 9. gr. laga um kjararáð, nr. 47/2006, en sú grein svarar til 4. gr. hinna nýju laga um kjararáð, nr. 130/2016.
    Í 2. gr. er lagt til að frestað verði framkvæmd þess að ákvörðunarvald um laun forstöðumanna færist frá kjararáði til annars vegar sérstakrar einingar innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins og til ráðuneyta eða stjórna og hins vegar til forsætisnefndar Alþingis og stjórnar dómstólasýslunnar. Lög um kjararáð, nr. 130/2016, öðlast gildi 1. júlí 2017 og í 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í þeim lögum var kveðið á um að ljúka ætti málum sem höfðu verið tekin til meðferðar fyrir þann tíma samkvæmt eldri lögum, þ.e. lögum nr. 47/2006. Rétt þykir að árétta að kjararáð skuli á tímabilinu eftir 1. júlí til 31. desember 2017 ákvarða laun forstöðumanna samkvæmt lögum nr. 47/2006 og því gildi sömu reglur um ákvarðanir um laun forstöðumanna hvort sem mál berast fyrir eða eftir 1. júlí 2017.
    Frumvarpið mun ekki hafa í för með sér neinn viðbótarkostnað umfram það sem gert var ráð fyrir með því frumvarpi sem varð að lögum 130/2016 þar sem hér er að meginstefnu til um tilfærslu á gildistöku að ræða.