Ferill 104. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


147. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 104  —  104. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988 (afnám bókaskatts).

Flm.: Lilja Alfreðsdóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Eygló Harðardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Katrín Jakobsdóttir, Logi Einarsson, Óttarr Proppé, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þórunn Egilsdóttir.


1. gr.

    Við 1. mgr. 12. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Sala bóka, jafnt frumsaminna sem þýddra, þ.m.t. nótnabóka með og án texta, sem og hljóðupptökur af lestri slíkra bóka. Sama gildir um sölu á geisladiskum og öðrum sambærilegum miðlum með bókartexta, sem og sölu á rafrænum útgáfum slíkra bóka.

2. gr.

    6. tölul. 2. mgr. 14. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2018.

Greinargerð.

    Með lögum nr. 124/2014 var neðra þrep virðisaukaskatts, þar með talið vegna sölu bóka, sbr. 6. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, hækkað úr 7% í 11%. Markmið breytinganna var að einfalda virðisaukaskattskerfið og draga úr neyslustýringu.
    Félag íslenskra bókaútgefenda lagðist eindregið gegn hækkuninni og taldi hana geta dregið þrótt úr íslenskri bókaútgáfu á skömmum tíma. Í umsögn félagsins frá 7. október 2014 kom fram að frá árinu 2008 hefði velta íslenskra bókaútgefenda dregist saman að raunvirði um 19% samkvæmt tölum Hagstofunnar og ekkert benti til viðsnúnings öfugt við flesta aðra markaði frá hruni.
    Nýjar tölur Félags íslenskra bókaútgefenda, sem unnar eru upp úr tölum Hagstofu Íslands, sýna að 11% samdráttur varð í bóksölu árið 2016 miðað við fyrra ár. Alls hefur bóksala dregist saman um 31,32% frá árinu 2008. Samdráttur í veltu fyrstu fjóra mánuði ársins var 7,83%. Hækkun neðra þreps virðisaukaskatts hefur því haft umtalsverð neikvæð áhrif á bóksölu á skömmum tíma.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að sala bóka, jafnt frumsaminna sem þýddra, verði bætt við upptalningu 12. gr. laga um virðisaukaskatt á starfsemi sem ekki telst til skattskyldrar veltu. Í því felst að salan ber ekki útskatt. Eftir sem áður verður þó heimilt að draga frá innskatt, sbr. 15. og 16. gr. laganna.

Staða íslenskrar bókaútgáfu.
    Bókaútgáfur eru einn af hornsteinum samfélagsins og gegna mikilvægu hlutverki sem menningarmiðlun. Starfsemi þeirra hefur vissa sérstöðu sem atvinnugrein á heimsvísu. Í flestum tilvikum eru þær drifnar áfram af ástríðu og hugsjón. Tekjur af metsölubókum og sísölubókum, svo sem kennslubókum, eru gjarnan nýttar til að gefa út bækur sem eiga sér færri lesendur vísa. Íslensk bókaútgáfa hefur um alllangt skeið verið mjög öflug og fjölbreytileg.
    Hér á landi hafa verið gefnar út liðlega tvöfalt fleiri bækur en í nágrannalöndum okkar miðað við höfðatölu. Af um 1.500 bókum sem eru gefnar út hér á landi eru um 75% íslensk verk en um 25% þýdd. Af þessum 1.500 bókum eru 80% rit almenns efnis, 13% barna- og unglingabækur og um 7% kennslubækur. Þýddar útgefnar bækur hérlendis eru nú um 400 á ári. Af þeim bókum eru 64% þýddar úr ensku, 24% úr Norðurlandamálum og 12% úr öðrum málum. Af þýddum bókum eru 60% sem teljast til bókmenntaverka og af þeim eru 71% þýdd úr ensku, 26% úr Norðurlandamálum og 13% úr öðrum málum.
    Bókaútgefendur á ári hverju eru um 500 talsins. 70% þeirra eða um 350 talsins gefa aðeins út eina bók. 20% útgefenda eða um 100 talsins gefa út 2−5 bækur árlega. Um 50 útgefendur gefa fleiri en 5 bækur út árlega. Um helmingur þeirra gefur út 6−10 bækur. 25 útgefendur gefa út fleiri en 10 bækur árlega, þar af er einn (Forlagið) sem gefur út yfir 100 titla á hverju ári. Mynd 1 sýnir þróunina í veltu íslenskra bókaútgefenda frá árinu 2008:

Mynd 1. Velta íslenskra bókaútgefenda 2008-2016. Uppreiknað m.v. vísitölu.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Langflest bókaforlögin eru smá í sniðum og hafa ekki haft tækifæri til að byggja upp sterka eiginfjárstöðu. Stuðningur við bókaútgáfu og rithöfunda er einkum fólginn í sjóðum á borð við launasjóði rithöfunda, Miðstöð íslenskra bókmennta, þróunarsjóð námsgagna og bókasafnasjóð. Þótt sumir af þessum sjóðum standist samanburð við aðrar þjóðir og styrkirnir komi sér jafnan vel duga þeir skammt til að fjármagna kostnaðarsöm verk. Íslensk bókaútgáfa nýtur mun minni beinna styrkja en margar aðrar listgreinar.

Virðisaukaskattur á bókum í Evrópu.
    Bækur eru almennt í lægra skattþrepi meðal þjóða heims, enda gegna þær lykilhlutverki í skólakerfinu og við varðveislu og þróun á menningu og tungu. Fimm Evrópuþjóðir hafa afnumið virðisaukaskatt á bókum til að efla læsi og vernda menningu sína og tungu, þ.e. Noregur, Færeyjar, Bretland, Írland og Úkraína. Meðaltal virðisaukaskatts á bókum í Evrópu er 7%. Þrjátíu lönd í Evrópu eru með lægri virðisaukaskatt á bókum en hér á landi. Danmörk er eina landið í Evrópu með eitt skattþrep, þ.e. 25%. Ellefu lönd í Evrópu eru með tvö skattþrep eins og raunin er hér á landi (til viðbótar við 0% þrepi). Tuttugu og þrjú lönd eru með þrjú eða fleiri skattþrep (til viðbótar við 0% þrep). Allar Evrópuþjóðir utan Danmerkur eru með a.m.k. tvö skattþrep. Aðeins fjögur lönd leggja hærri skatt á bækur en Ísland, þ.e. Lettland, Tékkland, Danmörk og Búlgaría, en þar mælist læsi lægst í allri álfunni (Tafla 1, yfirlit yfir virðisaukaskatt á bókum í nokkrum ríkjum).

Tafla 1. Yfirlit yfir virðisaukaskatt á bókum í nokkrum ríkjum.

Ríki VSK Ríki VSK
Stóra-Bretland 0% Portúgal 6%
Úkraína 0% Svíþjóð 6%
Írland 0% Grikkland 6,50%
Færeyjar 0% Þýskaland 7%
Noregur 0% Tyrkland 8%
Sviss 2,50% Eistland 9%
Lúxemborg 3% Litháen 9%
Ítalía 4% Rúmenía 9%
Spánn 4% Slóvenía 9,50%
Kýpur 5% Rússland 10%
Malta 5% Austurríki 10%
Pólland 5% Slóvakía 10%
Króatía 5% Finnland 10%
Ungverjaland 5% Ísland 11%
Frakkland 5,50% Lettland 12%
Belgía 6% Tékkland 15%
Holland 6% Búlgaría 20%
Danmörk 25%

    Í skýrslu frá Copenhagen Economics frá 2007 má sjá hver áhrifin urðu þegar stjórnvöld lækkuðu virðisaukaskatt á bókum í Svíþjóð árið 2002 úr 25% niður í 6%. Í stuttu máli jókst sala bóka um 16% fyrsta árið og áhrifin voru viðvarandi. Ekki þurfti lengur að styðja sérstaklega við bóksölu í jaðarbyggðum og fleiri fjölbreyttari bókaútgáfur spruttu upp. 1
    Árið 2009 hækkuðu stjórnvöld í Lettlandi virðisaukaskatt á bókum úr 5% í 21%. Hækkunin var skilyrt vegna láns frá Evrópusambandinu til Lettlands og hafði hækkunin afdrifaríkar afleiðingar. Bóksala dróst saman um 70% fyrstu þrjá mánuðina eftir hækkunina og á ársgrundvelli um 30%. Lettnesk stjórnvöld lækkuðu virðisaukaskattinn þegar blasti við hrun í greininni en hún hefur enn ekki náð sér á strik.
    Skýrsla Oslo Economics um áhrif virðisaukaskattsbreytinga á bækur og bóksölu, sem unnin var fyrir ráðuneyti menningarmála í Noregi árið 2012, staðfestir að hækkun á verði bóka dregur meira úr eftirspurn. Afnám virðisaukaskatts á bækur í Noregi hefur haft í för með sér lægra verð fyrir viðskiptavini og aukna breidd í útgáfu bóka. 2
    Í Noregi er rík hefð fyrir samstarfi stjórnvalda við aðila bókamarkaðarins og byggist það á traustum grunni. Ítarlegir samningar (Bokavtale) milli bóksala og bókaútgefenda eru endurnýjaðir reglulega með aðkomu stjórnvalda. 3 Verð bókar er fast í tiltekinn tíma eftir að hún kemur út sem krefst undanþágu frá samkeppnislöggjöfinni. Eins og áður hefur verið nefnt eru bækur í Noregi undanþegnar virðisaukaskatti. Stjórnvöld skuldbinda sig til að kaupa beint af útgefendum tiltekið magn af völdum bókum sem síðan er dreift á bókasöfnin út um allt land. Þetta fyrirkomulag skapar grundvöll fyrir útgáfu á dýrari verkum. Stjórnvöld styðja dyggilega við NORLA (systurstofnun Miðstöðvar íslenskra bókmennta) sem hefur m.a. gert þeim kleift að kynna norskar bækur einstaklega vel á erlendum vettvangi.

Samantekt.
    Íslendingar eru bókaþjóð. Bækur eru vettvangur nýsköpunar og grundvöllur símenntunar alla ævi. Bækur eru snar þáttur í málþroska barna. Þær gegna lykilhlutverki í menntakerfinu og miðla sögu og menningu okkar til komandi kynslóða. Menntun, skólar og bækur eru lykill að framförum og því mikilvægt að efla allt er viðkemur skapandi skrifum, lestri og útgáfu. Læsi er forsenda þekkingar og lykill að sjálfsvirðingu. Niðurstöður PISA-rannsóknar frá 2015 sýna að Ísland kemur lakast út á Norðurlöndunum í stærðfræðilæsi, lesskilningi og vísindalæsi og er auk þess undir OECD-meðaltali.
    Íslensk tunga á undir högg að sækja. Öflug útgáfa á frumsömdu og þýddu fræðslu- og kennsluefni á öllum skólastigum er nauðsynleg til að styrkja innlent fræðastarf og auðga íslenska tungu af hugtökum og íðorðum á öllum sviðum. Frumvarp þetta styður við meginmarkmið Hvítbókar um umbætur í menntun á Íslandi til ársins 2018 um að 90% grunnskólanema nái lágmarksviðmiðum í lestri.
    Tekjur af virðisaukaskatti á bóksölu voru 278.163.240 kr. árið 2014, 374.648.280 kr. árið 2015 og 353.782.280 kr. árið 2016. Gera má ráð fyrir að á móti lækkun tekna ríkissjóðs vegna afnáms virðisaukaskatts af bóksölu muni önnur jákvæð hagræn áhrif koma fram eins og aukin velta í bókaútgáfu sem mun skapa fleiri störf í samfélaginu. Þá eru ótalin önnur jákvæð áhrif af því að efla bókaútgáfu, svo sem aukinn fjölbreytileiki með auknu framboði af bókum ásamt því að styðja við íslenska tungu sem seint verður metið til fjár.

1     www.copenhageneconomics.com/dyn/resources/Publication/publicationPDF/7/7/0/6503study_reduced_VAT.pdf bls. 82.
2     www.regjeringen.no/globalassets/upload/kud/kulturvernavdelingen/rapporter_utredninger/utredning_om_litteratur-og_spraakpolitiske_virkemidler_2012.pdf bls. 78.
3     www.forleggerforeningen.no/politikk/rammebetingelser/bokavtalen/