Ferill 46. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 74  —  46. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum (heimildir Fjármálaeftirlitsins til að takmarka tjón á fjármálamarkaði).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hörpu Jónsdóttur frá Seðlabanka Íslands, Önnu Mjöll Karlsdóttur og Björk Sigurgísladóttur frá Fjármálaeftirlitinu og Katrínu Júlíusdóttur og Jónu Björk Guðnadóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Tilgangur frumvarpsins er að framlengja bráðabirgðaheimild Fjármálaeftirlitsins til að grípa til sérstakra ráðstafana við ákveðnar aðstæður til að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Sambærileg heimild var upphaflega veitt Fjármálaeftirlitinu með neyðarlögunum svokölluðu (5. gr. laga nr. 125/2008). Saga ákvæðisins er nánar rakin í greinargerð frumvarps þess sem hér er til umfjöllunar.
    Gildandi ákvæði til bráðabirgða VI í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, fellur úr gildi um komandi áramót. Við ákvörðun þess tímamarks var miðað við að innleiðingu tilskipunar 2014/59/ESB (BRRD-tilskipunarinnar) í íslenskan rétt yrði lokið fyrir þann tíma en tilskipunin kveður m.a. á um viðlíka heimildir til handa yfirvöldum og bráðabirgðaákvæðið. Innleiðingin hefur hins vegar reynst viðameiri og tímafrekari en upphaflega var áætlað og nú er stefnt að því að ljúka henni með tveimur frumvörpum sem verði lögð fram á yfirstandandi og næsta löggjafarþingi að því er fram kemur í greinargerð. Er því lagt til að gildistími ákvæðis til bráðabirgða VI í lögum um fjármálafyrirtæki framlengist um þrjú ár, til 31. desember 2020. Ekki eru lagðar til efnislegar breytingar á ákvæðinu.
    Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að við gerð þess hafi samráð verið haft við Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitið og Samtök fjármálafyrirtækja. Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið styðja framgang frumvarpsins og gera hvorugt athugasemdir við það. Samtök fjármálafyrirtækja telja nauðsynlegt að Fjármálaeftirlitið hafi áfram þau úrræði sem felast í neyðarlögunum til að bregðast við rekstrarvanda fjármálafyrirtækja. Fulltrúar þessara aðila hafa á fundi nefndarinnar staðfest stuðning sinn við að frumvarpið verði að lögum en leggja jafnframt áherslu á að vinnu við innleiðingu BRRD-tilskipunarinnar verði hraðað.
    Nefndin leggur til að málið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 21. desember 2017.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Þorsteinn Víglundsson. Brynjar Níelsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Helgi Hrafn Gunnarsson. Oddný G. Harðardóttir.
Ólafur Þór Gunnarsson. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Silja Dögg Gunnarsdóttir.