Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 95  —  1. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2018.

Frá 3. minni hluta fjárlaganefndar.


Inngangur.
    Í lögum nr. 123/2015, um opinber fjárlög, sem tóku gildi 1. janúar 2016, kemur fram í 1. gr. að markmið laganna sé að stuðla að góðri hagstjórn og styrkri og ábyrgri stjórn opinberra fjármála. Í því skyni er lögunum ætlað að tryggja:
     1.      heildstæða stefnumörkun í opinberum fjármálum til lengri og skemmri tíma,
     2.      vandaðan undirbúning áætlana og lagasetningar sem varða efnahag opinberra aðila og öflun og meðferð opinbers fjár,
     3.      skilvirka og hagkvæma opinbera fjárstjórn og starfsemi,
     4.      að opinber reikningsskil séu í samræmi við viðurkenndar bókhalds- og reikningsskilareglur,
     5.      virkt eftirlit með stjórn og ráðstöfun opinbers fjár, eigna og réttinda.
    Meðal helstu breytinga og nýjunga í lagasetningunni frá eldri lögum um fjárreiður ríkisins voru, auk áherslu á aukinni stefnumótum um opinber fjármál, breyting á framsetningu fjárlaga, bætt úrræði til að bregðast við frávikum og aðlögun að alþjóðlegum stöðlum um reikningshald ríkisins. Helstu atriðin voru að lögfest voru ítarlegri ákvæði en þá giltu um stefnumörkun í opinberum fjármálum og skipað skyldi fjármálaráð. Hlutverk þess er að leggja mat á það hvort fjármálastefna og fjármálaáætlun fylgi þeim grunngildum sem talin eru upp í 2. mgr. 6. gr. og skilyrðum 7. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál. Við framlagningu á frumvarpi til fjárlaga yrði leitað heimilda til útgjalda eftir málefnasviðum og málaflokkum í stað fjárlagaliða einstakra stofnana og verkefna. Var það algjört nýmæli.
    Í greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögum nr. 123/2015, um opinber fjármál, kom fram að starfsemi hins opinbera, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, í hagkerfinu skipti sköpum fyrir efnahagslífið í heild. Hér á landi næmu þessi umsvif um 40% af landsframleiðslu en auk þess færu opinberir aðilar með eignarhald og stjórn yfir ýmsum fyrirtækjum og stofnunum sem vægju þungt í hagkerfinu. Því væri augljóst að ákvarðanir hins opinbera um útgjöld, skatta og lántökur réðu miklu um eftirspurn í hagkerfinu. Yfirleitt er litið svo á að sökum stærðar sinnar og mikilvægis beri ríkisvaldinu að hafa í huga efnahagsleg áhrif umsvifa sinna þegar teknar eru ákvarðanir í ríkisfjármálum.
    Allt eru þetta göfug markmið, en er lögunum fylgt eftir? Það er áleitin spurning sér í lagi þegar sagan er skoðuð frá setningu laganna. Á þeim tíma hefur ríkt pólitískur óstöðugleiki og í tvígang hefur verið kosið til Alþingis að hausti. Lögin virðast ekki gera ráð fyrir að kosið sé til Alþingis nema að vori. Að mati 3. minni hluta hefði mátt standa mun betur að fjárlagavinnunni. Kjörnir fulltrúar þjóðarinnar hafa mjög litla aðkomu að þeirri fjárlagavinnu sem þeim er lögð á herðar lögum samkvæmt. Auk þess var þeim ekki ætlaður neinn tími til að setja sig inn í frumvarpið. Er það mikið umhugsunarefni, sér í lagi þegar litið er til þess að í tvígang hafa kosningar verið á óheppilegum tíma miðað við markmið laganna. Því er það fullyrt í nefndaráliti þessu að kjörnir fulltrúar víkja fyrir embættismannakerfinu sem hefur nú í tvígang sett ríkinu fjárlög. 3. minni hluti lýsir yfir miklum áhyggjum af þessum staðreyndum og leggur þunga áherslu á að litið verði svo á að um einsdæmi sé að ræða og að ekki skapist hefð um framkvæmd þessa. Það er hlutverk þingmanna að setja ríkinu fjárlög, ekki embættismanna, enda bera þingmenn alla ábyrgð á fjárlögum hvers árs. 3. minni hluti fjárlaganefndar fullyrðir að í fjárlagavinnu fyrir árið 2018 sé gengið á svig við II. kafla, um stefnumörkun í opinberum fjármálum, og III. kafla, um frumvarp til fjárlaga og fjárheimildir, laga nr. 123/2015, um opinber fjármál.

Almennt um frumvarpið.
    3. minni hluti tekur undir það sem kemur fram í umsögn Samtaka atvinnulífsins (SA) sem send var fjárlaganefnd Alþingis. Þar kemur m.a. fram að búa þurfi í haginn fyrir þjóðarbúið því uppsveiflur taki enda og að mikilvægt sé að auka afgang af rekstri ríkissjóðs meðan tekjustofnar eru sterkir. Tryggja þurfi aðhald á uppgangstímum og að snúa þurfi af þeirri braut að auka útgjöld á uppgangstímum. Þar segir jafnframt að forgangsröðun ríkisútgjalda sé nauðsynleg, að útgjöld ríkisins séu mikil í sögulegum og alþjóðlegum samanburði og að finna þurfi leiðir til að nýta betur skattfé landsmanna. Að auki tekur 3. minni hluti fjárlaganefndar undir þá skoðun SA að mikilvægt sé að halda áfram að greiða niður skuldir ríkisins því skuldir ríkissjóðs eru enn of háar og vaxtakostnaður íþyngjandi.
    Alla forgangsröðun skortir í fjárlagafrumvarpið að mati 3. minni hluta fjárlaganefndar. Hvergi er þess stað að finna í frumvarpinu að hagræða eigi í ríkisrekstri né að sameina stofnanir til sparnaðar á skattfé. Það er með ólíkindum að Sjálfstæðisflokkurinn fari með málefni fjármála ríkisins í slíku útgjaldafrumvarpi sem nú birtist nýkjörnu Alþingi sem hefur það eitt markmið að þenja út báknið án þess að forgangsraða í grunnstoðum samfélagsins. Seðlabankinn hefur m.a. sagt að frumvarpið feli ekki í sér aðhaldssama fjármálastefnu og tekur 3. minni hluti heils hugar undir það.
    Fjárlagafrumvarpið lýsir fyrst og fremst vörn fyrir ríkjandi kerfi en ekki sókn í málefnum þjóðarinnar.

Landspítalinn og heilbrigðismál.
    Í frumvarpinu er óskað eftir heimild þingsins til þess að selja land ríkisins að Keldum, Keldnaholti og við Úlfarsá. Umrætt landsvæði hefur verið í umræðunni sem hentugt svæði fyrir staðsetningu nýs Landspítala. Það skýtur því skökku við að stjórnarflokkarnir ætli nú að selja landið. Rétt er að minnast einnig á það að á árinu sem er að líða var land ríkisins að Vífilsstöðum selt. Vífilsstaðalandið var einnig inni í umræðunni sem hentug staðsetning nýs Landspítala. Af þessu verður ekki annað ályktað en að markvisst sé stefnt að því að koma í veg fyrir að nýr Landspítali rísi á nýjum stað. Stjórnarflokkarnir virðast einhuga í þeim efnum. Einn stjórnarflokkanna, Framsóknarflokkurinn, lagði áherslu á það fyrir kosningar að nýr Landspítali yrði reistur á nýjum stað. Virðist flokkurinn hafa fallið frá kosningaloforðum sínum um leið og hann settist í ríkisstjórn.
    Bygging nýs Landspítala er nauðsynlegt og þjóðhagslega hagkvæmt verkefni. Aðspurður út í núverandi húsakost Landspítala sagði forstjóri spítalans á fundi fjárlaganefndar fyrir skömmu að hann væri að grotna niður. Þekkt er vandamál vegna myglu í húsakosti spítalans og sagði forstjórinn jafnframt að það væri langtímaverkefni að losa húsnæðið við myglu. Landspítalinn fær í þessum fjárlögum 2,2 milljarða kr. vegna viðhalds. Heildarfjárþörf spítalans vegna viðhalds og fjárfestinga fyrir árið 2018 er 3,9 milljarðar kr. Þetta eru miklir peningar og undirstrikar enn frekar það sem Miðflokkurinn hefur lagt áherslu á í sínum málflutningi sem er nauðsyn þess að ráðast strax í að reisa nýjan spítala á nýjum stað. Það er ábyrgðarhluti af stjórnendum Landspítalans að halda uppi vörnum fyrir skipulag og húsakost sem er jafnvel eldri en sum hús á Árbæjarsafninu í stað þess að leggjast á sveif með þeim sem vilja nýtt þjóðarsjúkrahús á nýjum stað. Því má spyrja hvort það viðhaldsfjármagn sem beðið er um fari raunverulega í viðhald eða aðra þætti í rekstri spítalans. Það er flestum ljóst að Landspítalinn er í einokunarstöðu hvað varðar samkeppni um starfsfólk í öllum geirum heilbrigðisþjónustunnar og er það hættuleg þróun. Starfsumhverfi heilbrigðisstarfsmanna er ekki síður mikilvægt og sú þjónusta sem veitt er á Landspítalanum. 3. minni hluti telur einsýnt að starfsaðstæðum heilbrigðisstarfsfólks og sjúklinga verði til framtíðar best borgið með byggingu nýs Landspítala á nýjum stað og telur afleitt að fjármagni skuli ekki vera varið til þess verkefnis í frumvarpi til fjárlaga 2018 og að þess í stað skuli haldið áfram að takmarka möguleika á byggingu hans eins og áður sagði.
    Frumvarpið tekur ekki á vanda heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Af þeim 8.555 millj. kr. sem meiri hlutinn hyggst setja aukalega inn í heilbrigðiskerfið er viðbót til stofnana á landsbyggðinni smávægileg. Með svo bjagaðri forgangsröðun er verið að brjóta á íbúum landsbyggðarinnar og það er óásættanlegt.
    Í máli forstöðumanna heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni, sem komu á fund fjárlaganefndar, kom fram að fyrirspurnum þeirra til embættismanna heilbrigðisráðuneytisins væri ekki svarað. Ef þeim er svarað, eru dæmi þess að það taki meira en hálft ár. Þetta er ótækt. Ekkert samráð var haft við forstöðumenn um fjármál þessara stofnana og forstöðumenn fá t.d. ekkert að tjá sig um forsendur reiknireglna embættismanna ráðuneytisins. Það færir sönnur á að fjárlagagerð ríkisins er á sjálfstýringu, með öðrum orðum embættismannakerfið ræður för.
    Á vef stjórnarráðsins segir að sjúkrahúsþjónusta á landsbyggðinni verði efld. Þessi fjárlög standa ekki undir því, raunin er önnur. Það er verið að byggja upp sérfræðiþjónustu í Reykjavík á kostnað grunnþjónustu á landsbyggðinni. Afar mikilvægt er að hugsa þjónustuna upp á nýtt og eins og fram kom í máli eins þingmanna Miðflokksins við umræður um stefnuræðu forsætisráðherra. Við upphaf 148. löggjafarþings er nauðsynlegt að gera gangskör að því að flytja lækna út á land, nær sjúklingum, í stað þess að sjúklingar komi til höfuðborgarinnar með tilheyrandi kostnaði. Fullyrt er að slíkt fyrirkomulag væri ódýrara fyrir ríkið og mundi skapa minna rask fyrir þá sem þjónustuna þurfa.
    3. minni hluti fjárlaganefndar lýsir miklum áhyggjum af stöðu geðheilbrigðismála og sinnuleysi stjórnvalda í þeim málaflokki. Komið hefur fram að nýgengi öryrkja er hvað mest vegna þessa málaflokks og sker Ísland sig úr miðað við Norðurlöndin hvað þetta varðar. Ekki verður séð að í frumvarpi til fjárlaga 2018 sé tekið á þessum vanda eins og þörf er á.
    Óskiljanlegt er hve uppbygging hjúkrunarrýma hefur verið hæg bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Hefur sá seinagangur reynst ríkinu mjög dýrkeyptur. Í nokkur ár hafa yfir 100 hjúkrunarrými á Landspítalanum verið upptekin fyrir aðila sem eiga heima í öðrum úrræðum. Langdýrasta úrræðið er notað í stað þess að gera gangskör að málinu. Má líkja þessu ástandi við meðvitundarleysi í ríkisfjármálum og þjónustu við aldraðra. Á meðan fljóta milljarðar króna til minna brýnni verkefna sem eru til þess fallin að fóðra gæluverkefni í stað þess að sinna brýnni gunnþjónustu. Ef ekki verður tekið á þessu máli nú þegar, þá á þetta verkefni eftir að vaxa ríki og sveitarfélögum yfir höfuð, því aldurssamsetning þjóðarinnar er á þann veg að lífaldur þjóðarinnar fer sífellt hækkandi.


Tryggingagjald.
    Í fjárlagafrumvarpinu er ekki gert ráð fyrir lækkun tryggingagjalds eins og Sjálfstæðisflokkurinn hafði boðað fyrir kosningar og sætir það nokkurri furðu að flokkurinn skuli ekki standa við eitt af þeirra stærstu kosningamálum fyrir þessar kosningar. Flokkur sem eitt sinn hafði slagorðið „Flokkur alvöru atvinnulífs“. Öll skilyrði eru fyrir því að lækka gjaldið nú þegar atvinnuleysi er í sögulegu lágmarki en gjaldið hefur ekki lækkað í hlutfalli við minnkandi atvinnuleysi. Fram undan eru kjaraviðræður og er viðbúið að verðbólguþrýstingur aukist vegna samninga. Mikilvægt er að grípa til mótvægisaðgerða. Lækkun tryggingagjalds er árangursríkur þáttur í mótvægi við samningsbundnar launahækkanir og slægi á verðbólguþrýsting. Kjarasamningar koma til með að hækka gjaldstofn tryggingagjaldsins og þar með skatttekjur ríkisins. Það má því færa rök fyrir því að tekjuhlið ríkissjóðs lækki ekki þó svo að gjaldið verði lækkað.
    Það er hagsmunamál fyrir launþega að gjaldið lækki. Það hefur bein áhrif á kjör þeirra og getu fyrirtækja til að greiða laun og ráða fólk í vinnu.
    Hér er um mikilvæga ráðstöfun að ræða sem grípa ætti til strax á nýju ári. Miðflokkurinn vill hag atvinnulífsins sem mestan, það er hagur allra landsmanna. Flokkurinn mun leggja fram breytingartillögu við fjárlagafrumvapið þess efnis að tryggingagjald verði lækkað strax á nýju ári. Lækkun tryggingagjaldsins var eitt af aðal áherslumálum Miðflokksins í sl. kosningum.

Löggæslan og rannsóknir.
    Brýnt er að auka fjárheimildir til rannsóknardeilda lögreglunnar. Verkefnum hefur fjölgað verulega á síðustu árum m.a. vegna mikillar fjölgunar ferðamanna og erlendra borgara er starfa á landinu, eins og nýleg dæmi sýna. Að sama skapi hefur rannsóknarlögreglumönnum ekki verið fjölgað. Álagið á starfandi rannsóknarlögreglumenn er mikið, t.d. hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Brýnt er að auka sérfræðikunnáttu, þjálfun og menntun rannsóknarlögreglumanna. Auk þess þarf að endurnýja búnað til rannsókna. Mál sem heyra undir rannsóknardeildir lögreglunnar eru almennt orðin flóknari og umfangsmeiri. Mun meiri tími fer í rannsókn mála vegna þessa. Mörg dæmi eru þess að mál hafi fyrnst af þessum sökum. Fjárlagafrumvarpið felur ekki í sér neinar auknar áherslur hvað þennan mikilvæga málaflokk varðar. Miðflokkurinn mun leggja fram breytingartillögu við frumvarpið þar sem lögð er áhersla á auknar fjárheimildir til rannsókna á skipulagðri glæpastarfsemi og fjölgun rannsóknarlögreglumanna.

Menntun.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir auknum framlögum til menntunar og ber að fagna því. Hins vegar er ekki að finna nægilega skynsamlega stefnumörkun með þessu aukna framlagi. Háskólamenntun er gert of hátt undir höfði á kostnað iðn- og tæknimenntunar. Mikill skortur er á iðnmenntuðu fólki á vinnumarkaði. Frá árinu 2000 hefur háskólamenntuðum sem sækja út á vinnumarkaðinn fjölgað um rúmlega 140% á meðan störfum fyrir sama hóp hefur einungis fjölgað um 50%. Engin framlög eru til fræðslumála þeirra sem litla menntun hafa og eru úti á vinnumarkaði. Alþýðusamband Íslands hefur m.a. lagt áherslu á mikilvægi þess að styðja vel við þennan hóp.

Málefni eldri borgara.
    Það eru mikil vonbrigði að í frumvarpinu er ekki gengið nægilega langt í því að rétta kjör eldri borgara og öryrkja. Miðflokkurinn mun flytja breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að atvinnutekjur ellilífeyrisþega skerði ekki lífeyrisgreiðslur. Ætla má að raunútgjöld ríkissjóðs vegna þessarar ráðstöfunar verði ekki há þar sem aukið svigrúm til atvinnuþátttöku þýðir aukinn tekjuskatt af launatekjum ellilífeyrisþega. Auk þess má leiða líkur að því að auknum kaupmætti þessa hóps fylgi aukin velta með tilheyrandi hækkun virðisaukaskatts. Þess utan má ætla að aukin atvinnuþátttaka aldraðra dragi úr félagslegri einangun og bæti lífskjör þeirra á allan hátt.

Vegamál.
    Skera á nýframkvæmdir í vegamálum niður um 7 milljarða kr. samkvæmt samgönguáætlun sem samþykkt var 2016 þrátt fyrir að í ríkisstjórnarsáttmála sé boðuð stórsókn í þeim málaflokki og ljóst að því mun fjöldi aðkallandi samgönguverkefna enn bíða. Miðflokkurinn leggur áherslu á að ráðist verði í það brýna verkefni að tvöfalda Reykjanesbraut innan Hafnarfjarðar, frá Kaldárselsvegi að mislægum gatnamótum Krýsuvíkurvegar. Framkvæmdir í vegamálum innan höfuðborgarsvæðisins hafa allt of lengi setið á hakanum. Hér er um mjög brýnt samfélagsverkefni að ræða á svæði þar sem umferðarþungi er mjög mikill. Miðflokkurinn leggur til að settar verði rúmar 800 millj. kr. í þessa framkvæmd á árinu 2018 og framkvæmdin verði fjármögnuð með því að fella niður ívilnun á vörugjöldum fyrir bílaleigur. Breytingartilllaga Miðflokksins í þessu máli eykur því ekki halla ríkissjóðs.

Ívilnun til fyrirtækja sem reka bílaleigur.
    Ekki verður hjá því komist í þessu áliti að minnast á þá undarlegu áherslu ríkisstjórnarinnar að viðhalda ívilnun á vörugjöldum til bílaleiga. Ríkissjóður verður af miklum tekjum með þessari ráðstöfun. Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er lagt til að ívilnun vörugjalds á slíkar bifreiðar verði áfram við lýði en hún lækkuð úr 500.000 kr. í 250.000 kr. að hámarki á bifreið. Til stóð að ívilnunin félli alfarið niður núna um áramótin og bílaleigur greiddu sambærilegt vörugjald og greitt er af fólksbílum almennt. Tillaga 3. minni hluta um að fella ívilnunina niður nú á því ekki að koma rekstraraðilum á óvart sem hafa haft viðunandi tíma til undirbúnings. Af gögnum frá Samgöngustofu má sjá að bílaleigur hafa flutt inn mikinn fjölda bifreiða á síðustu mánuðum ársins, gagngert til þess að fá afsláttinn. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að framlengja áðurnefnda ívilnun kostar ríkissjóð 1.500 millj. kr.
    Rekstur bílaleiga hér á landi hefur gengið mjög vel undanfarin ár í því góðæri sem ríkt hefur innan ferðaþjónustunnar, en um tvær milljónir ferðamanna heimsækja Ísland árlega. Engin haldbær rök eru fyrir því að ívilna bílaleigum með þessum hætti lengur. Þvert á móti verður að telja að sá rökstuðningur sem kemur fram í greinargerð með ívilnunarfrumvarpi ríkisstjórnarinnar, breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993, með síðari breytingum, varpi ljósi á nauðsyn þess að fella þessa heimild niður en í greinargerðinni segir „að vísbendingar séu um að ökutækjaleigur hafi offjárfest í fólksbifreiðum að undanförnu“. Það verður að teljast mjög sérkennilegur rökstuðningur að skattgreiðendur eigi að borga fyrir offjárfestingar tiltekinna aðila í rekstri. Hinn almenni borgari getur ekki vænst þess að ríkissjóður veiti honum sérstaka skattaívilnun ef hann fer fram úr sér og offjárfestir t.d. í bifreiðakaupum. Það sætir nokkurrar furðu að fjármálaráðherra, gæslumaður ríkissjóðs, skuli ganga fram með þessum hætti.
    Miðflokkurinn hyggst flytja breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að ívilnunin verði felld brott. Jafnframt mun flokkurinn flytja tillögur þess efnis að þær 1.500 millj. kr., sem koma inn í ríkissjóð við það að ívilnunin falli niður, verði nýttar til brýnna samfélagsverkefna eins og tækjakaupa fyrir heilbrigisstofnanir á landsbyggðinni, mikilvægar vegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og til loftslagsmála, þ.e. kolefnisbindingar með skógrækt og landgræðslu. Tillögurnar auka því ekki halla ríkissjóðs.

Loftslagsmál.
    Eitt af stóru málum ríkistjórnarinnar eru loftslagsmálin. Eitt fyrsta embættisverk nýs forsætisráðherra var að ferðast til Parísar og tilkynna að ríkisstjórn Íslands hygðist gera betur í loftslagsmálum heldur en svokallað Parísarsamkomulag kveður á um og Ísland er aðili að. Þessi fögru fyrirheit raungerast ekki í fjárlagafrumvarpinu. Frumvarpið kveður á um að einungis verði settar rúmar 80 millj. kr. í kolefnisbindingu, með skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis. Umhverfisráðherra sagði, þegar hann kom á fund fjárlaganefndar, að þetta væru ekki metnaðarfullar tölur og tekur 3. minni hluti undir það. Miðflokkurinn mun leggja til breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að fjárveitingar til skógræktar og landgræðslu verði hækkaðar um samtals 200 millj. kr. Tillagan mun ekki auka halla ríkissjóðs.

Niðurlag.
    Þegar frumvarp til laga um opinber fjármál var til umfjöllunar var því m.a. haldið á lofti að fjáraukalög heyrðu jafnvel sögunni til nema ef til kæmi stórkostlegur forsendubrestur, svo sem náttúruhamfarir eða nýtt bankahrun. Skuldir margra stofnana ríkisins voru felldar niður þegar lög nr. 123/2015 voru innleidd. Forstöðumenn ríkisstofnana halda áfram að reiða sig á eftirlátsemi fjárveitingarvaldsins í ljósi tíðra alþingiskosninga. Þeim hefur tekist býsna vel upp miðað við þau fjárlagafrumvörp sem birst hafa landsmönnum í sl. tvennum kosningum síðan lögin voru innleidd. Því má segja að sú vinna sem þingheimur fór í við innleiðingu laganna hafi verið til einskis því kerfið hagar sér á þann veg eins og að engin ný lög um fjárreiður ríkisins hafi verið samþykkt. Þetta eru harkaleg skilaboð til löggjafans og sýnir það eitt að ríkisreksturinn er á sjálfstýringu án markmiða um sparnað eða ráðdeild. Aðkoma kjörinna fulltrúa er lítil og því er lýðræðið á Íslandi í hættu.
    Það er kerfinu til framdráttar að hafa fjárlagafrumvarpið óskýrt, illlæsilegt og flókið í framsetningu. Einnig telur 3. minni hluti fjárlaganefndar það mjög bagalegt að samanburður milli ára, stofnana og málaflokka er útilokaður. Slíkt gerir nýjum þingmönnum ókleift að mynda sér skoðanir á ákveðnum málaflokkum og málefnasviðum. Það gerir aðkomu kjörinna fulltrúa Alþingis að fjárlagavinnunni óþarflega flókna. Bragur væri að því að framsetning frumvarpsins væri einfölduð til betra aðgengis fyrir almenning og þingheim.

Alþingi, 22. desember 2017.

Birgir Þórarinsson.