Ferill 3. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 110  —  3. mál.

3. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2018.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


Frádráttur vaxtagjalda og affalla.
    Í 1. mgr. 57. gr. b laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, eru sett takmörk á heimildir lögaðila til að draga frá skattskyldum tekjum vaxtagjöld og afföll vegna lánaviðskipta við tengda aðila. Skv. b-lið 3. mgr. greinarinnar á ákvæðið ekki við ef lánveitandi ber ótakmarkaða skattskyldu hérlendis. Sú undanþága fellur brott 1. janúar 2018 skv. 3. gr. laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta, tolla og gjöld, nr. 59/2017, sbr. 2. tölul. 26. gr. sömu laga, þar sem talið var vafasamt að hún samræmdist skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp það sem varð að lögum nr. 59/2017 (385. mál á 146. löggjafarþingi) kom fram að bent hefði verið á að brottfall undanþágunnar gæti aftrað fyrirtækjasamstæðum frá sameiginlegri lántöku sem gæti hækkað fjármögnunarkostnað þeirra. Lagt var til að brottfall undanþágunnar yrði samþykkt en því jafnframt beint til fjármála- og efnahagsráðuneytisins að tekið yrði til skoðunar hvernig mætti tryggja að það kæmi ekki niður á eðlilegri fjármögnun innan samstæðna sem beindist ekki að því að takmarka skattgreiðslur.
    Í áliti meiri hluta fyrir 2. umræðu um fyrirliggjandi frumvarp kom fram að unnið væri að breytingartillögu til að mæta fyrrgreindum sjónarmiðum varðandi brottfall b-liðar 3. mgr. 57. gr. b laga um tekjuskatt. Í kjölfar 2. umræðu barst nefndinni breytingartillaga frá fjármála- og efnahagsráðuneyti þess efnis að heimilt yrði að yfirfæra vaxtagjöld og afföll sem ekki nýttust til frádráttar sökum takmörkunar 1. mgr. 57. gr. b á næstu fimm tekjuár. Að mati meiri hlutans nægir breytingartillagan ekki til að mæta fyrrgreindum sjónarmiðum þar eð takmörkun 1. mgr. 57. gr. b gæti eftir sem áður komið niður á lánsfjármögnun samstæðu ef vaxtagjöld og afföll eru að staðaldri umfram þau mörk sem þar eru tilgreind.
    Meiri hlutinn leggur því til að brottfalli b-liðar 3. mgr. 57. gr. b laga um tekjuskatt verði að sinni frestað um ár, til 1. janúar 2019, til að frekari tími gefist til að móta tillögu sem samræmist skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið án þess þó að koma niður á eðlilegri fjármögnun samstæðna sem ekki beinist að því að takmarka skattgreiðslur.

Gjaldtaka framhaldsskóla.
    Í kjölfar 2. umræðu barst nefndinni erindi frá mennta- og menningarmálaráðuneyti þar sem farið var fram á að nefndin legði til að ákvæði til bráðabirgða V og VI í lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008, yrðu framlengd. Í bráðabirgðaákvæðunum eru framhaldsskólum veittar rýmri heimildir til gjaldtöku vegna efniskostnaðar og náms utan reglubundins daglegs starfstíma framhaldsskóla og í fjarnámi heldur en gert er ráð fyrir í b-lið 1. mgr. 45. gr. og 4. mgr. 45. gr. laganna. Í fylgiriti með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018 er ekki gert ráð fyrir auknum framlögum vegna efniskaupa og til kennslu í kvöldskóla og fjarnámi til að mæta kostnaði skv. b-lið 1. mgr. 45. gr. og 4. mgr. 45. gr. laga um framhaldsskóla. Með tilliti til þessa leggur meiri hlutinn til að bráðabirgðaákvæðin gildi skólaárin 2017–2018, 2018–2019 og 2019–2020. Heimildin gildir þó aðeins fram á við og tekur því ekki til þess hluta skólaársins 2017–2018 sem þegar verður liðinn þegar framlengingin tekur gildi.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við bætist nýr kafli, XXIV. kafli, Breyting á lögum um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta, tolla og gjöld, nr. 59/2017, með einni grein, svohljóðandi:
                      Í stað „1. janúar 2018“ í 2. tölul. 26. gr. laganna kemur: 1. janúar 2019.
     2.      Við bætist nýr kafli, XXV. kafli, Breyting á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008, með síðari breytingum, með tveimur greinum, svohljóðandi:
                  a.      (49. gr.)
                      Í stað orðanna „og 2015–2016“ í ákvæði til bráðabirgða V í lögunum kemur: 2015–2016, 2017–2018, 2018–2019 og 2019–2020.
                  b.      (50. gr.)
                      Á eftir orðunum „2015–2016“ í ákvæði til bráðabirgða VI í lögunum kemur: og frá skólaárinu 2017–2018 fram til loka skólaársins 2019–2020.

Alþingi, 28. desember 2017.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Bryndís Haraldsdóttir. Brynjar Níelsson.
Ólafur Þór Gunnarsson. Silja Dögg Gunnarsdóttir.