Ferill 3. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 111  —  3. mál.

3. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2018.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Fyrir 2. umræðu um frumvarpið skiluðu þeir stjórnmálaflokkar sem skipa minni hluta nefndarinnar hver um sig nefndaráliti þar sem pólitískar áherslur hvers flokks ásamt breytingartillögum voru kynntar. Fyrir 3. umræðu sameinast flokkarnir um breytingar á viðmiðum fyrir barnabætur og vaxtabætur.

Barnabætur.
    Annars staðar á Norðurlöndum og víðar í Evrópu hefur ríkt mikil sátt um gildi stuðnings til barnafjölskyldna en hér hefur markvisst verið dregið úr vægi þeirra. Barnabætur annars staðar á Norðurlöndum eru föst upphæð á barn en stuðningur á Íslandi er ekki aðeins háður fjölda og aldri barna heldur einnig tekjum foreldra og hjúskaparstöðu. Mikil skerðing barnabóta strax við lágar tekjur, líkt og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur leggur til, stuðlar að meiri fátækt meðal vinnandi fólks. Hjón sem bæði eru í launaðri vinnu en á lágum launum fá litlar barnabætur hér á landi. Það er meðal þess sem veldur því að barnafjölskyldur eru líklegri til að búa við fátækt hérlendis en barnlausar fjölskyldur.
    Ríkisstjórnin leggur til að viðmiðum til úthlutunar barnabóta verði aðeins lítillega breytt þannig að foreldrar með minna en 242.000 kr. í mánaðarlaun fái óskertar barnabætur í stað 225.000 kr. á árinu 2017. Greiðslur með fyrsta barni hækka aðeins samkvæmt þessu um 1.447 kr. á mánuði og greiðslur hækka um 1.758 kr. á mánuði við hvert barn eftir það. Ríkisstjórnin leggur þetta til þótt barnabætur hafi dregist saman um 23% að raunvirði frá árinu 2008 og að þeim fjölskyldum sem njóta barnabóta hafi fækkað um rúmlega 12 þúsund frá árinu 2013.
    Minni hlutinn leggur til sem málamiðlun milli norræna fyrirkomulagsins og tillagna ríkisstjórnarinnar að skerðingarmörk barnabóta árið 2018 miðist við lágmarkslaun, sem verða þá 300.000 kr. á mánuði. Foreldrar með lægri tekjur en það fái því óskertar barnabætur.
    Í töflum og stöplaritum hér fyrir aftan eru bornar saman barnabætur miðað við núverandi skerðingarviðmið (barnabætur 2017), þau viðmið sem ríkisstjórnin leggur til (barnabætur 2018: tillaga VDB) og viðmið samkvæmt breytingartillögu minni hlutans (barnabætur 2018: skerðing við lágmarkslaun).

Barnabætur fyrir hjón eða fólk í sambúð með eitt barn á aldrinum 7–18 ára.
Mánaðarlaun hjóna/fólks í sambúð Barnabætur 2017 Barnabætur 2018: tillaga VDB Barnabætur 2018: skerðing við lágmarkslaun
450.000 kr. 17.153 kr. 18.608 kr. 18.608 kr.
483.334 kr. 15.820 kr. 18.608 kr. 18.608 kr.
600.000 kr. 11.153 kr. 13.941 kr. 18.608 kr.
700.000 kr. 7.153 kr. 9.941 kr. 14.608 kr.
800.000 kr. 3.153 kr. 5.941 kr. 10.608 kr.
900.000 kr. 0 kr. 1.941 kr. 6.608 kr.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Barnabætur fyrir einstæð foreldri með eitt barn á aldrinum 7–18 ára.
Mánaðarlaun einstæðra foreldra Barnabætur 2017 Barnabætur 2018: tillaga VDB Barnabætur 2018: skerðing við lágmarkslaun
225.000 kr. 28.578 kr. 31.008 kr. 31.008 kr.
241.667 kr. 27.912 kr. 31.008 kr. 31.008 kr.
300.000 kr. 25.578 kr. 28.675 kr. 31.008 kr.
400.000 kr. 21.578 kr. 24.675 kr. 27.008 kr.
500.000 kr. 17.578 kr. 20.675 kr. 23.008 kr.
600.000 kr. 13.578 kr. 16.675 kr. 19.008 kr.
700.000 kr. 9.578 kr. 12.675 kr. 15.008 kr.
800.000 kr. 5.578 kr. 8.675 kr. 11.008 kr.
900.000 kr. 1.578 kr. 4.675 kr. 7.008 kr.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Áætlað er að útgjöld ríkissjóðs aukist um 1,8 milljarða kr. verði tillagan samþykkt.

Vaxtabætur.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að tímabundnar útreikningsreglur og viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta í ákvæði til bráðabirgða XLI í lögum um tekjuskatt verði framlengdar um eitt ár. Greiddar vaxtabætur ríkissjóðs hafa lækkað verulega á undanförnum árum. Vegur þar þungt að eignaviðmiðum hefur ekki verið breytt þrátt fyrir miklar hækkanir á fasteignaverði. Er nú svo komið að einstaklingar og sambúðarfólk með lágar árstekjur (3. tekjutíund) í hóflegu húsnæði njóta lítilla sem engra vaxtabóta. Miðað við sambærilegar tekjur og eignarhlutdeild í eign árið 2008 fékk þessi hópur vaxtabætur sem námu um 30-40% vaxtagjalda sinna en í dag eru þær hverfandi.
    Minni hlutinn leggur til að eignaviðmið einstaklinga og hjóna og samskattaðs sambúðarfólks samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu hækki um 5,2 millj. kr. Samkvæmt minnisblaði sem fjármála- og efnahagsráðuneytið tók saman fyrir nefndina mundi hækkun vaxtabóta vegna hækkunar á eignaviðmiðum skerðinga um 5 millj. kr. koma lægstu þremur tekjutíundum best.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Áætlað var að útgjöld ríkissjóðs ykjust um 1,3 milljarða kr. við hækkun á eignaviðmiðum skerðinga um 5 millj. kr.
    Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað „5.800.000 kr.“ og „2.900.000 kr.“ í b-lið 4. gr. komi: 7.200.000 kr.; og: 3.600.000 kr.
     2.      Við 8. gr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Í stað „4.500.000 kr.“ og „7.300.000 kr.“ í 4. mgr. kemur: 9.700.000 kr.; og: 12.500.000 kr.
     3.      Á eftir 6. mgr. 48. gr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
             Ákvæði c-liðar 8. gr. kemur til framkvæmda við ákvörðun vaxtabóta í fyrirframgreiðslu og við álagningu opinberra gjalda á árinu 2018.

    Ólafur Ísleifsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 28. desember 2017.

Oddný G. Harðardóttir,
frsm.
Helgi Hrafn Gunnarsson. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Þorsteinn Víglundsson.