Ferill 84. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 151  —  84. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES fyrir árið 2017.


1. Inngangur.
    Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) og Evrópska efnahagssvæðið (EES) gegna veigamiklu hlutverki sem grunnstoðir íslenskrar utanríkisverslunar. Með aðildinni að EES njóta Íslendingar að langmestu leyti sömu viðskiptakjara og 30 önnur Evrópuríki með um 500 milljóna manna markað. Auk þess að koma að rekstri EES-samningsins hefur EFTA byggt upp öflugt net fríverslunarsamninga við ríki utan ESB eða svonefnd þriðju ríki.
    Í umfjöllun þingmannanefnda EFTA og EES um EES-samninginn og rekstur hans var að venju annars vegar farið yfir þann fjölda ESB-gerða á sviði innri markaðarins sem bíður upptöku í EES-samninginn og hins vegar var fjallað um svonefndan innleiðingarhalla EES/EFTA-ríkjanna sem mælir hversu hratt ríkin innleiða þær gerðir sem þegar hafa verið teknar upp í EES-samninginn. Mikilvægi þess að upptaka gerða í samninginn og innleiðing í EES/EFTA-ríkjunum gangi snurðulaust fyrir sig felst í því að tryggja lagalegt samræmi á innri markaðnum sem er ein forsenda virkni hans.
    Fríverslunarsamningagerð EFTA við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki, var ofarlega á dagskrá þingmannanefndar EFTA að venju. EFTA hefur verið í fararbroddi á heimsvísu í gerð fríverslunarsamninga og eru gildir samningar nú 27 talsins og taka til 38 ríkja. EFTA á nú í virkum fríverslunarviðræðum við níu ríki, þar á meðal Argentínu, Brasilíu, Indland og Indónesíu. Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga EFTA og beitir sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð slíkra samninga. Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA heimsótti í þessu skyni Kanada og Mexíkó á árinu og átti viðræður við þarlend stjórnvöld, þingnefndir, stofnanir og hagsmunaaðila um fríverslunarmál og aukið efnahagslegt samstarf við EFTA. Fríverslunarsamningur EFTA og Mexíkó frá árinu 2001 og fríverslunarsamningur EFTA og Kanada frá árinu 2009 taka einungis til vöruskipta og vill EFTA uppfæra og útvíkka samningana til fleiri sviða eins og þjónustuviðskipta, fjárfestinga og hugverkaréttinda.
    Væntanleg útganga Bretlands úr ESB, Brexit, kom ítrekað til umfjöllunar á árinu. Framtíðarskipan viðskipta við Bretland eftir útgöngu úr ESB, og þar með EES, er gríðarlegt hagsmunamál fyrir ríki EFTA en Bretland er stærsti viðskiptaaðili bæði Íslands og Noregs innan EES. Fjórir möguleikar voru einkum nefndir. Í fyrsta lagi að EFTA-ríkin gerðust aukaaðilar að samkomulagi ESB og Bretlands um framtíðarsamband en enn væri alls óljóst hvort slíkt samkomulag tækist eða hvernig það kynni að líta út og hvort EFTA-ríkjunum stæði slík aukaaðild til boða. Í öðru lagi sá möguleiki að EFTA-ríkin fjögur gerðu saman samning við Bretland. Í þriðja lagi kæmi til greina að EFTA/EES-ríkin þrjú án Sviss hefðu samflot um slíkan samning og í fjórða lagi gæti sú staða komið upp að hvert EFTA-ríki fyrir sig gerði tvíhliða samning við Bretland.
    Af fleiri málum sem voru ofarlega á baugi þingmannanefnda EFTA og EES á árinu má nefna þróun í alþjóðaviðskiptum, þvingunaraðgerðir gegn Rússlandi, málefni norðurslóða, jafnréttismál og fríverslun og upplýsingafrelsi og fríverslun.

2. Almennt um þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES.
    Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES myndar sendinefnd Alþingis bæði í þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES. Þá myndar Íslandsdeildin ásamt fjórum þingmönnum úr utanríkismálanefnd sendinefnd Alþingis í sameiginlegri þingmannanefnd Íslands og ESB.

Þingmannanefnd EFTA.
    Þingmannanefnd EFTA var stofnuð árið 1977 með það meginhlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA. Aðild að EFTA eiga nú Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss. Þjóðkjörnir fulltrúar þessara ríkja sitja í þingmannanefndinni. Starfsemi nefndarinnar hefur aukist jafnt og þétt, í samræmi við aukin umsvif EFTA, bæði hvað varðar samskipti við ESB og samstarf við svokölluð þriðju ríki, þ.e. ríki utan ESB. Starfssvið nefndarinnar jókst til muna með tilkomu EES-samningsins sem tók gildi 1. janúar 1994. Með gildistöku hans varð nefndin að formi til tvískipt þar sem Svisslendingar ákváðu að standa fyrir utan Evrópska efnahagssvæðið. Nefndin skiptist því annars vegar í fjögur ríki sem aðild eiga að EFTA og hins vegar í þau þrjú aðildarríki EFTA sem aðild eiga að EES. Þingmannanefnd EFTA fundar þó ávallt í einu lagi, en Svisslendingar sitja sem áheyrnarfulltrúar þegar málefni sem varða EES-samninginn eru tekin fyrir. Í frásögnum af fundum hér á eftir verður fjallað um þessar tvær formlegu þingmannanefndir EFTA sem eina heild.
    Alþingi á fimm fulltrúa í þingmannanefnd EFTA líkt og önnur aðildarríki. Þingmannanefnd EFTA heldur fundi að jafnaði þrisvar til fjórum sinnum á ári og á þremur fundum sínum á hún auk þess fund með ráðherraráði EFTA og utanríkisráðherrum EES/EFTA-ríkjanna. Nefndin fjallar almennt um starfsemi EFTA, málefni EES og ESB, gerð og framkvæmd fríverslunarsamninga og viðskiptamál í víðu samhengi. Nefndin á einnig samstarf við þing þeirra ríkja sem EFTA hefur gert fríverslunar- eða samstarfssamninga við.
    Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA undirbýr starf nefndarinnar og gefur álit á fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA, auk þess að fjalla um aðkallandi mál. Framkvæmdastjórnin kemur oft fram fyrir hönd þingmannanefndarinnar í samskiptum við þjóðþing þriðju ríkja. Í framkvæmdastjórn mega sitja tveir fulltrúar frá hverju EFTA-ríki en einungis annar þeirra hefur atkvæðisrétt á fundum. Auk formanns hefur af hálfu Íslandsdeildar einn fulltrúi stjórnarandstöðu sótt fundi framkvæmdastjórnarinnar.

Þingmannanefnd EES.
    Þingmannanefnd EES var komið á fót skv. 95. gr. EES-samningsins og er hluti af stofnanakerfi hans. Í þingmannanefnd EES eru 24 þingmenn, tólf frá Evrópuþinginu og tólf frá EFTA-ríkjunum sem aðild eiga að EES (EFTA-hluti sameiginlegrar þingmannanefndar EES). Af þessum tólf fulltrúum á Ísland fjóra, Noregur sex og Liechtenstein tvo. Þingmannanefndin fylgist með framkvæmd og þróun EES-samningsins og gefur álit sitt á EES-málum. Nefndin heldur fundi tvisvar á ári en framkvæmdastjórn hennar hittist á milli funda eftir þörfum. Í framkvæmdastjórninni sitja sex fulltrúar, einn frá hverju EES-aðildarríki EFTA og þrír frá Evrópuþinginu. EFTA-hluti hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES og Evrópuþingið skiptast á um formennsku í nefndinni á milli ára.
    Þingmannanefnd EES lætur til sín taka á öllum sviðum EES-samstarfsins. Hún tekur ákveðin málefni til skoðunar, skrifar um þau skýrslur og samþykkir ályktanir. Skýrslugerð um mál sem tekið er fyrir er í höndum tveggja framsögumanna, annars úr hópi EFTA-þingmanna og hins úr hópi Evrópuþingmanna. Skýrsla framsögumanna er alfarið á þeirra eigin ábyrgð en nefndin samþykkir venjulega ályktun þegar umfjöllun um málið er lokið. Ályktanir nefndarinnar eru sendar til ráðherraráðs EES, sameiginlegu EES-nefndarinnar, Evrópunefnda þjóðþinga ESB, Evrópuþingsins og þjóðþinga EFTA/EES-ríkja. Þingmannanefndin fylgist náið með því hvernig mál sem hún hefur tekið fyrir þróast og þegar hún telur að framvinda mála sé ófullnægjandi tekur hún þau upp aftur. Nefndin beinir einnig sjónum sínum sérstaklega að áhrifum þjóðþinga EFTA-ríkjanna á EES-samninginn og lagasetningu í tengslum við hann. Fulltrúar ráðherraráðs EFTA og embættismenn stofnana EFTA og ESB mæta á fundi nefndarinnar til að skýra frá framvindu mála og svara spurningum nefndarmanna.

Sameiginleg þingmannanefnd Íslands og ESB.
    Sameiginlegri þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins var komið á fót í október 2010 og er hún skipuð níu þingmönnum frá Evrópuþinginu og níu alþingismönnum. Af hálfu Alþingis sitja fimm nefndarmenn úr Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES og fjórir nefndarmenn úr utanríkismálanefnd í hinni sameiginlegu þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins.
    Þegar sameiginlega þingmannanefndin var stofnuð, í tengslum við aðildarviðræður Íslands og ESB, leysti hún af hólmi tvíhliða fundi Alþingis og Evrópuþingsins sem haldnir höfðu verið árlega frá árinu 1987. Á fundi nefndarinnar 9. febrúar 2016 var gerð breyting á starfsreglum hennar og vísun í aðildarferlið tekin út. Eftir breytinguna er skilgreint hlutverk nefndarinnar að fjalla um samskipti Íslands og ESB á breiðum grunni.
    Sameiginlega þingmannanefndin kom framan af saman tvisvar á ári, til skiptis á Íslandi og í starfsstöðvum Evrópuþingsins í Brussel eða Strassborg. Í kjölfar þess að aðildarviðræðum við ESB var hætt var fundum nefndarinnar fækkað í einn á ári líkt og tíðkaðist fyrir tíma aðildarumsóknar. Sameiginlega þingmannanefndin tekur fyrir einstök málefni sem varða samskipti Íslands og Evrópusambandsins og getur hún sent frá sér tilmæli þeim viðvíkjandi. Tilmæli verða aðeins samþykkt með því að meiri hluti fulltrúa jafnt Evrópuþingsins sem Alþingis veiti þeim stuðning. Tilmælum sameiginlegu þingmannanefndarinnar er beint til Evrópuþingsins, framkvæmdastjórnar og ráðs Evrópusambandsins, Alþingis og ríkisstjórnar Íslands. Alla jafna sitja fulltrúar ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar og ráðs Evrópusambandsins fundi sameiginlegu þingmannanefndarinnar. Á vettvangi nefndarinnar gefst alþingismönnum því kostur á að eiga formbundnar og milliliðalausar viðræður við Evrópuþingmenn auk fulltrúa framkvæmdastjórnar og ráðs ESB. Nefndin er því mikilvægur vettvangur fyrir alþingismenn til að fjalla um samskipti Íslands og Evrópusambandsins.

3. Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES.
    Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES var kosin á þingfundi 26. janúar 2017. Aðalmenn voru kosnir Hanna Katrín Friðriksson, formaður, þingflokki Viðreisnar, Vilhjálmur Bjarnason, varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Páll Magnússon, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Smári McCarthy, þingflokki Pírata, og Svandís Svavarsdóttir, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Varamenn voru kosnir Jón Steindór Valdimarsson, þingflokki Viðreisnar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Óli Björn Kárason, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ásta Guðrún Helgadóttir, þingflokki Pírata, og Andrés Ingi Jónsson, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Ritari Íslandsdeildar var Stígur Stefánsson, deildarstjóri alþjóðadeildar.
    Íslandsdeild var venju samkvæmt mjög virk í starfi þingmannanefnda EFTA og EES á árinu og lét að sér kveða í öllum helstu málum sem komu til umræðu í nefndunum. Á árinu áttu Hanna Katrín Friðriksson og Smári McCarthy frumkvæði að skýrslum um annars vegar jafnréttissjónarmið og fríverslun og hins vegar um upplýsingafrelsi og fríverslun. Kynntu þau skýrslurnar á fundi þingmannanefndar EFTA í Genf 23. nóvember 2017 (sjá nánar umfjöllun um fundi á árinu 2017).
    Hinn 14. desember 2017 var ný Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES kosin þegar Alþingi kom saman í kjölfar kosninganna 28. október. Aðalmenn voru kosnir Smári McCarthy, formaður, þingflokki Pírata, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Brynjar Níelsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Hanna Katrín Friðriksson, þingflokki Viðreisnar, og Jón Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru kosnir Halldóra Mogensen, þingflokki Pírata, Andrés Ingi Jónsson, þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Páll Magnússon, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Þorsteinn Víglundsson, þingflokki Viðreisnar, og Vilhjálmur Árnason, þingflokki Sjálfstæðisflokks.

4. Fundir þingmannanefndar EFTA, þingmannanefndar EES og sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og ESB á árinu 2017.
    Starfsemi nefndanna var með hefðbundnum hætti á árinu 2017. Þingmannanefnd EFTA kom saman til fundar fjórum sinnum, þar af þrisvar í tengslum við fundi nefndarinnar með ráðherrum EFTA. Enn fremur átti framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA fundi með þingnefndum, ráðuneytum og stofnunum í Ottawa og Mexíkóborg um fríverslunarmál.
    Þingmannanefnd EES kom að venju tvisvar saman til fundar á árinu.
    Þá hélt sameiginleg þingmannanefnd Íslands og ESB einn fund á árinu.
    Hér á eftir er gerð grein fyrir fundum þingmannanefnda EFTA og EES á starfsárinu sem Íslandsdeildin sótti í tímaröð, auk fundar sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og ESB.

Fundur þingmannannefndar EFTA í Brussel 22. mars 2017.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Hanna Katrín Friðriksson, formaður, Smári McCarthy, Svandís Svavarsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason, auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Fundurinn var annars vegar helgaður Brexit, útgöngu Bretlands úr ESB, og hins vegar viðskiptastefnu ESB. Tilgangur fundarins var að veita þingmönnum EFTA innsýn í Brexit-ferlið sem fram undan var og fríverslunarsamningagerð ESB með viðræðum við framkvæmdastjórn ESB, Evrópuþingmenn og fulltrúa hugveitna og fræðasamfélags.
    Hosuk Lee-Makiyama fór yfir horfur í alþjóðaviðskiptum. Í erindi hans og umræðum sem á eftir fylgdu kom m.a. fram að tómarúm ríkti um forustu í alþjóðaviðskiptum. Bandaríkin hefðu stigið til hliðar með nýrri ríkisstjórn Trumps sem dró Bandaríkin út úr fríverslunarsamningi hóps Kyrrahafsríkja (e. Trans Pacific Partnership). ESB hefði ekki trúverðugleika til þess að taka við því forustuhlutverki. Þá væri alls óljóst um framtíð fríverslunarviðræðna yfir Atlantshafið milli Bandaríkjanna og ESB, TTIP (e. Transatlantic Trade and Investment Partnership). Hvað varðar líkur á viðskiptastríði vegna mögulegrar verndarstefnu Bandaríkjastjórnar í viðskiptum kom fram að einhliða tollahækkunum á innfluttar vörur til Bandaríkjanna yrði væntanlega svarað strax og af krafti, ekki síst af hálfu Kína. Því væri ólíklegt að hugmyndir í þá veru kæmu til framkvæmda. Þá væri ólíklegt að Bandaríkjastjórn gerði alvöru úr því að krefjast þess að endursamið yrði um fríverslunarsamning Norður-Ameríku, NAFTA, því þá þyrfti að endursemja við Kanada um innflutning á ýmsum bandarískum vörum úr viðkvæmum atvinnugeirum eins og timburframleiðslu.
    Bresku Evrópuþingmennirnir Ian Duncan frá Íhaldsflokknum og Catherine Stihler frá Verkamannaflokknum fjölluðu um Brexit. Stihler sagði stóra málið vera borgararéttindi, þar lægi mannlegi þátturinn sem snerti milljónir, eða alla þá Breta sem byggju í löndum ESB og þá ESB-borgara sem tekið hefðu upp búsetu á Bretlandseyjum. Stórir hópar fólks væru mjög óöruggir um stöðu sína, m.a. einstaklingar frá ESB-ríkjum sem búið hefðu í Bretlandi um áratuga skeið, jafnvel alla ævi og ættu bresk börn. Taldi Stihler að breska stjórnin hefði strax átt að ábyrgjast að ekki yrði breyting á réttindastöðu ESB-borgara í Bretlandi eftir útgönguna úr ESB. Duncan sagði David Cameron, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, hafa gert mistök með þjóðaratkvæðagreiðslunni um Brexit. Hún hefði klofið þjóðina í tvær nánast jafnstórar fylkingar. Í kosningabaráttunni hefði fólki verið talin trú um að við útgöngu gæti Bretland eftir sem áður verið aðili að innri markaði ESB en nú væri útlitið frekar fyrir svokallað hart Brexit, þ.e. án nýrra samninga sem tryggðu sambærileg viðskiptakjör við ESB og áður. Það væru þó hagsmunir ESB jafnt sem Bretlands að ná samkomulagi um framtíðarskipan viðskipta með minnstri mögulegri truflun. Þá hefði í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar ekki verið rætt um stórar fjárkröfur sem ESB kynni að eiga á Bretland við útgönguna. Hvað borgararéttindi varðaði væri hægt að ljúka því máli hratt og vel með samkomulagi um gagnkvæm réttindi Breta sem búa innan ESB og ESB-borgara sem búa í Bretlandi en andstaða tiltekinna aðildarríkja ESB hefði staðið í veginum fyrir slíku samkomulagi. Breska stjórnin hefði ekki getað tryggt einhliða réttindi ESB-borgara á Bretlandi án þess að sambærilegar tryggingar hefðu komið á móti um stöðu breskra þegna sem búa innan ESB.
    Cecilia Malmström, viðskiptastjóri ESB (e. EU Trade Commissioner), kom á fundinn og ræddi stöðu samskipta ESB og Bandaríkjanna í viðskiptamálum. Ýmsar misvísandi yfirlýsingar hefðu komið frá nýrri Bandaríkjastjórn um viðskiptamál og m.a. verið uppi tal um verndarstefnu og verulega hækkun tolla. Slíkt virtist ganga þvert gegn reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, en ESB mundi ekki taka afstöðu fyrr en formlegar tillögur Bandaríkjanna lægju fyrir. Þá ræddi Malmström gerðardóma í deilum milli ríkja og fjárfesta (e. Investor-State Dispute Settlement) sem tengjast fríverslunarsamningum en hugmyndir um slíka dóma hefðu verið afar umdeildar á meðal almennings í ESB-ríkjum á borð við Þýskaland og Austurríki. Hún lagði áherslu á að slíkir gerðardómar væru ekki nýir af nálinni og að framkvæmdastjórnin hefði lagt fram tillögu um alþjóðlegan viðskiptadómstól til að koma í stað slíkra gerðardóma. Slíkur viðskiptadómstóll mundi auka öryggi og gagnsæi en hann kæmi þá í stað a.m.k. 20 ólíkra og misgagnsærra útfærslna á gerðardómum. ESB skoðaði nú ásamt Kanada og fleiri aðilum möguleikana á að koma alþjóðlegum viðskiptadómstóli á fót. Loks greindi Malmström frá undirbúningi fríverslunarviðræðna ESB við Ástralíu og Síle og vinnu við fjárfestingarsamning við Kína.

11. fundur sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og Evrópusambandsins í Brussel 23. mars 2017.
    Af hálfu Alþingis sóttu fundinn Hanna Katrín Friðriksson, formaður, Bryndís Haraldsdóttir, Jóna Sólveig Elínardóttir, Oddný G. Harðardóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Smári McCarthy, Svandís Svavarsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason auk Stígs Stefánssonar og Gunnþóru Elínar Erlingsdóttur ritara. Fyrir hönd Evrópuþingsins sátu fundinn þingmennirnir Jasenko Selimovic, varaformaður, Tibor Szanyi, Paul Rübig, Julia Pitera og Daniel Dalton.
    Fundinum stýrðu Hanna Katrín Friðriksson og Jasenko Selimovic. Helstu dagskrármál voru samskipti Íslands og ESB, fjármála- og efnahagshorfur á Íslandi og í ESB, þvingunaraðgerðir gegn Rússlandi, fyrirhuguð úrganga Bretlands úr Evrópusambandinu og fríverslunarviðræður við þriðju ríki. Í upphafsávarpi sínu lagði Hanna Katrín áherslu á mikilvægi samstarfsvettvangs sameiginlegu þingmannanefndarinnar. Þá vakti hún athygli á hinni miklu endurnýjun sem varð á Alþingi í kosningunum 29. október 2016 sem endurspeglaðist í því að einungis einn íslenskur þingmaður úr hópi viðstaddra, Vilhjálmur Bjarnason, hefði áður sótt fundi nefndarinnar.
     Fyrsti dagskrárliður fundarins fjallaði að venju um samskipti Íslands og ESB og hófst með ávörpum íslenskra stjórnvalda, fulltrúa Möltu sem gegnir formennsku í ráði ESB og fulltrúa stofnana ESB. Bergdís Ellertsdóttir sendiherra lagði áherslu á náin samskipti Íslands og ESB og undirstrikaði mikilvægi EES-samningsins. Þá benti hún á þá miklu viðskiptahagsmuni sem Ísland á undir vegna fyrirhugaðrar úrgöngu Bretlands úr ESB og mikilvægi þess að sú lausn sem fundin verður fyrir ríkisborgara ESB gildi einnig fyrir íslenska ríkisborgara. Rylan Patissier, fulltrúi Möltu, minntist á líkindi Möltu og Íslands sem fámennra eyja í Evrópu og ítrekaði þá góðu samvinnu sem Ísland og ESB hafa átt, m.a. í tengslum við rannsóknir, nýsköpun og nýtingu á jarðvarma. Þá kom fram í máli Claude Maerten, fulltrúa utanríkisþjónustu ESB, að Ísland væri samkvæmt mælingu Eftirlitsstofnunar EFTA enn með mestan innleiðingarhalla allra ríkja EES. Maerten ítrekaði að EES-samningurinn væri þungamiðjan í samvinnu Íslands og ESB. Þá væri jákvætt að gjaldeyrishöftunum hefði verið aflétt og að búið væri að afnema tolla á tæplega 90% þeirra landbúnaðarvara sem fluttar eru til Íslands frá ríkjum ESB. Maerten lýsti jafnframt yfir mikilvægi þess að Ísland gerðist aðili að makrílsamningi ESB, Noregs og Færeyja. Í kjölfarið lýstu þingmenn Íslands stefnu sinna flokka í Evrópumálum.
    Talsverðar umræður sköpuðust um þróun efnahagsmála. Í framsögu sinni greindi Vilhjálmur Bjarnason frá því að sá mikli hagvöxtur sem mældist á Íslandi byggðist á sterkum stoðum. Gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu væru langt umfram aðrar hefðbundnar greinar og verðbólga lág. Þá hefðu matsfyrirtæki hækkað mat á greiðslugetu Íslands. Smári McCarthy sagði varhugavert að stór hvati erlendra fjárfestinga á Íslandi væri hár vaxtamunur og að lífeyrissjóðskerfið væri of stórt. Rósa Björk Brynjólfsdóttir sagði mikilvægt að Ísland tæki varfærin skref og að halda bæri til haga þeim ytri þáttum sem stuðluðu að hagvextinum, svo sem makrílgengd og vexti ferðaþjónustu. Svandís Svavarsdóttir tók undir með Rósu Björk og sagði mikilvægt að halda til haga að sá mikli vöxtur sem verið hefði í ferðaþjónustu hefði aukið verulega álag á íslenska náttúru. Náttúruvernd og ferðaþjónusta þyrfti að haldast í hendur. Daniel Dalton sagði aðdáunarvert hve hratt landið hefði verið reist við og velti upp þeirri spurningu hvort vera Íslands utan ESB og íslenska krónan hefðu stuðlað að hraðari efnahagsbata en ella. Oddný G. Harðardóttir svaraði því til að sem fjármálaráðherra á árunum eftir hrun gæti hún vottað um að aðgerðir þeirrar ríkisstjórnar hefðu skipt sköpum. Þó mætti ekki líta fram hjá því að hagstæðar ytri aðstæður hefðu spilað stórt hlutverk við endurreisn þjóðarbúsins. Mætti þar nefna makrílveiðar, lágt olíuverð og fjölgun ferðamanna.
    Í umræðu um fiskveiðar fór Jacques Verborgh, fulltrúi framkvæmdastjórnarinnar, yfir helstu fiskveiðisamninga sem ESB hefur gert síðustu ár. Svandís Svavarsdóttir hélt í framsögu sinni á lofti mikilvægi sjálfbærnisjónarmiða. Nauðsynlegt væri að ná samkomulagi um fiskveiðar. Aukinn hagnaður í greininni gæti ekki verið á kostnað ofveiði heldur yrði að stafa af tækniframförum, vöruþróun og markaðssetningu. Þá hefðu áhrif af hlýnun jarðar á súrnun sjávar ekki fengið nægilega mikla athygli í rannsóknum. Bryndís Haraldsdóttir tók undir orð Svandísar varðandi súrnun sjávar og benti á samstarf Íslands og ESB á sviði rannsókna og nýsköpunar þar sem sérstaklega væri horft til áhrifa loftslagsbreytinga á hafið.
    Undir dagskrárliðnum um framtíðaráskoranir innri markaðarins var fyrirhuguð útganga Bretlands úr ESB í brennidepli. Jasenko Selimovic benti á að Bretland væri enn aðili að ESB og ekki væri búið að virkja 50. gr. Lissabonsáttmálans. Því væri ómögulegt að ræða nánar einstök atriði tengd fyrirhugaðri útgöngu. Hann væri eftir sem áður talsmaður þess að hugað yrði að hagsmunum EES-ríkjanna í fyrirhuguðum samningaviðræðum. Hanna Katrín fór í framsögu sinni yfir þau umtalsverðu efnahagslegu áhrif sem Brexit gæti haft á Ísland. Í fyrirhuguðum samningaviðræðum væri mikilvægt að réttindi ríkisborgara Íslands sem búsettir eru í Bretlandi yrðu þau sömu og borgara ESB.
    Í umfjöllun um þvingunaraðgerðir ESB gegn Rússlandi fór Petteri Vuorimäki, fulltrúi framkvæmdastjórnarinnar, yfir stöðu mála. Þá upplýsti Tibor Szanyi um ályktun Evrópuþingsins frá 16. mars sl. um úkraínska fanga í Rússlandi og stöðuna á Krímskaga. Þar kom fram að ESB viðurkenndi ekki innlimun Rússlands á Krímskaga og voru rússnesk stjórnvöld hvött til að láta lausa þá úkraínsku ríkisborgara sem eru ólöglega í haldi yfirvalda. Rússar voru auk þess beðnir um að veita stofnunum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), Evrópuráðsins og Sameinuðu þjóðanna tafarlaust aðgang að Krímskaga. Í framsögu Smára McCarthy sagði hann þvingunaraðgerðirnar ekki skila nægjanlegum árangri. Nauðsynlegt væri að tryggja að Rússland gæti ekki með krókaleiðum komist fram hjá aðgerðunum. Gagnaðgerðir Rússa hefðu haft talsverð áhrif á íslensk fyrirtæki og samstaða þeirra ríkja sem standa að aðgerðunum væri sérstaklega mikilvæg.
    Fjallað var um utanríkismál á Norður-Atlantshafssvæðinu. Fulltrúi utanríkisþjónustu ESB sagði að óvissa væri ríkjandi um stöðu fríverslunarviðræðna ESB og Bandaríkjanna (e. Transatlantic Trade and Investment Partnership, TTIP), sérstaklega í ljósi nýyfirstaðinna forsetakosninga í Bandaríkjunum. Í framsögu Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur minntist hún á mikilvægi samvinnu á Norður-Atlantshafssvæðinu, bæði í sögulegu og menningarlegu samhengi. Vaxandi einangrunarhyggja og þjóðernishyggja í stjórnmálum beggja vegna Atlantshafsins væri áhyggjuefni. Þá væri sú áhersla varhugaverð sem Bandaríkjaforseti hefur talað fyrir innan Atlantshafsbandalagsins (NATO) um að NATO-ríkin þyrftu að auka framlög sín til varnarmála.
    Loks var rætt um utanríkismál gagnvart þriðju ríkjum þar sem Stephanie Vadde og Maurizio Cellini, fulltrúar framkvæmdastjórnarinnar, fóru yfir stöðu mála í helstu fríverslunarviðræðum ESB. Jóna Sólveig Elínardóttir var framsögumaður og lagði áherslu á að ESB væri mikilvægasti viðskiptaaðili Íslands og að EES-samningurinn væri því mikilvægasti fríverslunarsamningurinn. Af 40 fríverslunarsamningum sem Ísland væri aðili að hefðu 38 verið gerðir að undirlagi EFTA-samstarfsins. Þá hefði Ísland gert tvo tvíhliða fríverslunarsamninga, við Kína og Færeyjar, en frekari tvíhliða samningar væru ekki í farvatninu.
     Í lok fundar var fjallað um starfsreglur sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og ESB, þar sem ESB lagði til að fundum sameiginlegu þingmannanefndarinnar yrði fækkað og haldinn yrði einn fundur á ári framvegis.

Fundir framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA í Ottawa og Mexíkóborg 8.–12. maí 2017.
    Markmið heimsóknar þingmannanefndar EFTA til Ottawa og Mexíkóborgar var að eiga viðræður við þingmenn, ráðherra, stofnanir og hagsmunaaðila í Kanada og Mexíkó um fríverslunarmál og aukið efnahagslegt samstarf við EFTA. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA áttu sæti í sendinefndinni Hanna Katrín Friðriksson og Smári McCarthy auk Stígs Stefánssonar ritara. Fríverslunarsamningur EFTA og Kanada tók gildi árið 2009 en tekur einungis til vöruskipta. Könnunarviðræður standa yfir um að hefja formlegar samningaviðræður um að uppfæra og útvíkka fríverslunarsamninginn til fleiri sviða. Fríverslunarsamningur EFTA og Mexíkó tók gildi árið 2001 og standa formlegar viðræður yfir um uppfærslu og útvíkkun hans.
    Fríverslunarsamningum hefur fjölgað ört á undanförnum árum og hafa samtök ríkja og einstök lönd beint sjónum sínum að gerð tvíhliða eða marghliða fríverslunarsamninga. EFTA hefur verið í fararbroddi á þessu sviði og eru gildir fríverslunarsamningar EFTA nú 27 talsins og taka til 38 ríkja. Þingmannanefnd EFTA hefur stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga samtakanna og hefur beitt sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð fríverslunarsamninga við EFTA.
    Eitt af markmiðum EFTA með því að byggja upp net fríverslunarsamninga er að tryggja samkeppnishæfni fyrirtækja innan EFTA-ríkjanna gagnvart fyrirtækjum innan ESB á viðkomandi markaði. Í ljósi fríverslunarsamnings ESB og Kanada, CETA, sem var í fullgildingarferli, hefur verið ríkur vilji hjá EFTA að uppfæra fríverslunarsamninginn við Kanada. CETA er víðtækur fríverslunarsamningur sem nær til vöruviðskipta, þjónustuviðskipta, hugverkaréttinda, opinberra innkaupa, leiða til að útkljá deilumál o.fl. á meðan fríverslunarsamningur EFTA við Kanada einskorðast við vöruskipti. Könnunarviðræður sem eru nauðsynlegur undanfari formlegra viðræðna um endurskoðun fríverslunarsamnings EFTA og Kanada hófust árið 2016.
    Í Ottawa átti sendinefnd EFTA-þingmanna fundi í neðri deild kanadíska þingsins með Bruce Stanton varaforseta, Pamelu Goldsmith-Jones, aðstoðarráðherra viðskiptamála, alþjóðaviðskiptanefnd og iðnaðar-, vísinda- og tækninefnd. Þá áttu EFTA-þingmenn fund með utanríkismála- og alþjóðaviðskiptanefnd öldungadeildar þingsins. Meginskilaboð sendinefndar EFTA á öllum fundum voru þau að þó að fríverslunarsamningur EFTA og Kanada hefði gagnast vel þá væri hann takmarkaður og næði ekki yfir vaxtarsvið í viðskiptum ríkjanna. Samningurinn væri mun takmarkaðri en fríverslunarsamningur Kanada og ESB og því óskuðu EFTA-ríkin eftir uppfærslu samningsins þannig að hann næði einnig til þjónustuviðskipta, fjárfestinga, opinberra innkaupa og hugverkaréttinda. Kanada væri mikilvægur viðskiptaaðili EFTA, viðskipti ríkjanna hefðu numið 7 milljörðum bandaríkjadala árið 2016 og miklir möguleikar væru í framtíðarþróun þeirra.
    Auk þess sem formaður þingmannanefndar EFTA hélt framsögu með fyrrnefndum meginskilaboðum á öllum fundum í Ottawa gafst formönnum einstakra landsdeilda færi á að ræða tvíhliða viðskiptatengsl við Kanada. Hanna Katrín Friðriksson minnti á djúp söguleg tengsl Íslands og Kanada frá því að fjórðungur íslensku þjóðarinnar flutti vestur um haf á árunum 1870–1914, en flestir fóru vesturfararnir til Manitobafylkis í Kanada. Þá ættu ríkin í margvíslegu samstarfi nú svo sem á sviði menningar, norðurslóðamála og öryggis- og varnarmála eins og virk þátttaka kanadíska flughersins í loftrýmisgæslu á Íslandi bæri vitni um. Hanna Katrín sagði vaxtarmöguleika í viðskiptum Íslands og Kanada og að stórbættar samgöngur, síðan nýr loftferðasamningur var gerður árið 2013, hlytu að greiða fyrir viðskiptum enda væri nú beint flug á milli Íslands og fimm áfangastaða í Kanada. Loks lýsti Hanna Katrín áhuga Íslands á formlegu samkomulagi um ungmennaskipti við Kanada.
    Kanadískir viðræðuaðilar sendinefndar EFTA voru jákvæðir gagnvart uppfærslu á fríverslunarsamningi EFTA og Kanada en lögðu áherslu á að samningsaðilar yrðu að koma sér gróflega saman um ramma og dýpt slíkrar uppfærslu í könnunarviðræðum áður en formlegar viðræður hæfust. Kanada liti á samning sinn við ESB sem fyrirmynd að fríverslunarsamningum í framtíðinni og vildi hafa nýja samninga víðtæka. Ljóst væri að landbúnaðargeirinn væri viðkvæmur hjá EFTA-ríkjunum og að þau væru íhaldssöm þegar kæmi að fríverslun með landbúnaðarvörur. Þó væri mikilvægt fyrir Kanada að fríverslunarsamningar tækju einnig til ákveðinna sviða landbúnaðar.
    Í Mexíkóborg átti sendinefndin m.a. fundi með viðskipta- og iðnaðarnefnd öldungadeildar mexíkóska þingsins, Ildefonso Guajardo Villarreal efnahagsráðherra og Francisco del Rio, yfirmanni Evrópudeildar utanríkisráðuneytisins. Meginskilaboð sendinefndar EFTA á öllum fundum voru þau að þó að fríverslunarsamningur EFTA og Mexíkó frá árinu 2001 hefði gagnast vel til að lækka tolla og greiða fyrir vöruviðskiptum þá væri það í takt við þróun viðskipta á milli ríkjanna að uppfæra samninginn þannig að hann næði einnig til þjónustuviðskipta, fjárfestinga, opinberra innkaupa og hugverkaréttinda. Viðskipti Mexíkó og EFTA hefðu aukist á síðasta áratug og numið 2,7 milljörðum bandaríkjadala árið 2016 og enn frekari aukningar væri að vænta. Þá væri mikilvægt fyrir EFTA-ríkin að uppfærsla fríverslunarsamningsins tryggði svipuð viðskiptakjör á milli Mexíkó og EFTA og þau sem vænta mætti í fríverslunarsamningi Mexíkó og ESB sem viðræður stæðu yfir um.
    Líkt og á fundum í Kanada gafst formönnum landsdeilda tækifæri til að ræða tvíhliða samskipti á fundunum í Mexíkóborg. Hanna Katrín Friðriksson minnti á að sérstök bókun við tvíhliða samning Íslands og Mexíkó um tollaívilnanir fyrir landbúnaðarvörur biði fullgildingar í Mexíkó. Umrædd bókun er frá árinu 2014 og kveður annars vegar á um niðurfellingu tolla af íslensku vatni til Mexíkó og hins vegar tollfrelsi fyrir vindla frá Mexíkó til Íslands. Ísland hefði fullgilt bókunina í apríl 2015 en enn biði hún fullgildingar í mexíkóska þinginu.
    Mexíkóskir viðræðuaðilar sendinefndar EFTA voru jákvæðir gagnvart uppfærslu á fríverslunarsamningi EFTA og Mexíkó. Þeir lögðu áherslu á að uppfærslan endurspeglaði breytingar í alþjóðaviðskiptum og umbætur í mexíkósku efnahagslífi og tæki m.a. til fjarskipta- og orkugeirans. Vonuðust þeir til að uppfærslu á samningi EFTA og Mexíkó gæti lokið samhliða því að Mexíkó lyki viðræðum sínum við ESB um fríverslunarsamning sem vonast væri til fyrir lok árs 2017. Þá kom fram að Mexíkó hefði ríka hagsmuni af fríverslun með landbúnaðarvörur og að vonast væri til að EFTA-ríkin gerðu tilslakanir á því sviði. Á öllum fundum komu málefni NAFTA, fríverslunarsamnings Bandaríkjanna, Mexíkó og Kanada, til tals enda framtíð samningsins óviss eftir að ríkisstjórn Trumps forseta tók við völdum í Bandaríkjunum. Mexíkóskir viðmælendur lögðu áherslu á mikilvægi viðskiptasambands landsins við Bandaríkin en undirstrikuðu jafnframt að Mexíkó yrði að dreifa utanríkisviðskiptum sínum á fleiri markaði til þess að dreifa áhættu og vera ekki um of háð einum markaði.

48. fundur þingmannanefndar EES í Reykjavík 23. maí 2017.
    Fundur þingmannanefndar EES var haldinn í ráðstefnuhúsinu Hörpu. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Hanna Katrín Friðriksson, formaður, Smári McCarthy, Svandís Svavarsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason, auk Stígs Stefánssonar og Gunnþóru Elínar Erlingsdóttur ritara. Helstu dagskrármál fundarins voru staða EES-samstarfsins, væntanleg útganga Bretlands úr ESB (Brexit), orkusamband Evrópu og málefni norðurslóða.
    Á fundinum var fulltrúum stofnana ESB og EFTA að venju boðið að hafa framsögur í umræðum um þróun og framkvæmd EES-samningsins. Til máls tóku Oda Helen Sletnes fyrir hönd formennsku EFTA í EES-ráðinu og sameiginlegu EES-nefndinni, Rylan Patissier fyrir hönd formennsku ESB í EES-ráðinu, Claude Maerten fyrir hönd ESB í sameiginlegu EES-nefndinni og Sven Erik Svedman, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Í umfjöllun þeirra kom m.a. fram að um 500 ESB-gerðir biðu upptöku í EES-samninginn sem væri of mikið. EFTA/EES-ríkin yrðu að grípa til aðgerða til að hraða upptöku þeirra. Margar þessara gerða væru á sviði eftirlits með fjármálamörkuðum. Þá var stuttlega rædd staða fiskveiðistjórnunar og deilistofna á Norður-Atlantshafi sem ekki hafa náðst samningar um.
    Í umfjöllun um Brexit flutti Dag Wernø Holter, aðstoðarframkvæmdastjóri EFTA, framsögu um áhrif Brexit á EES. Í umræðunni kom m.a. fram að lagalega gætu einungis aðildarríki ESB og EFTA verið í EES svo að útilokað væri að Bretland gæti verið áfram á Evrópska efnahagssvæðinu eftir útgöngu úr ESB. Útgangan verður því jafnframt útganga úr EES. ESB viðurkennir að miklir hagsmunir EFTA/EES-ríkjanna séu í húfi og hefur skuldbundið sig til upplýsingagjafar og samráðs við EFTA/EES-ríkin á meðan á viðræðum um útgöngu stendur. Þær viðræður beinast fyrst um sinn að helstu málum tengdri útgöngunni, svo sem borgararéttindum og fjárhagslegum skuldbindingum. Fyrst þegar viðræður um þau mál verði komin á góðan rekspöl verði ESB reiðubúið að hefja viðræður um framtíðarskipan samskipta ESB og Bretlands. Í þessu sambandi sé afar mikilvægt fyrir EFTA/EES-ríkin hvernig viðræður um réttindi ESB-borgara í Bretlandi og Breta í ESB þróist enda njóti borgarar EFTA/EES-ríkja sömu réttinda og borgarar ESB í Bretlandi. Breski Evrópuþingmaðurinn Catherine Stihler sagði tal stjórnvalda í London um að enginn samningur væri betri en slæmur samningur eða „hart Brexit“ ylli áhyggjum því það gæti falið í sér að ekkert samkomulag yrði um borgararéttindamálin. Þó væri hugsanlegt að þau mál yrðu tekin fyrir í sérsamkomulagi sem stæði þó ekki næðist samningur um annað. Þetta væri áhyggjuefni milljóna borgara ESB í Bretlandi og Breta á meginlandi Evrópu. Nokkuð var rætt um framtíðarskipan sambands EFTA-ríkjanna við Bretland og voru fjórir möguleikar nefndir. Í fyrsta lagi að EFTA-ríkin gerðust einhvers konar aukaaðilar að samkomulagi ESB og Bretlands um framtíðarsamband en enn væri alls óljóst hvernig slíkt samkomulag kynni að líta út og því síður hvort EFTA-ríkjunum stæði yfirhöfuð slík aukaaðild til boða. Í öðru lagi væri sá möguleiki að EFTA-ríkin fjögur gerðu saman samning við Bretland. Í þriðja lagi kæmi til greina að EFTA/EES-ríkin þrjú án Sviss hefðu samflot um slíkan samning og í fjórða lagi gæti sú staða komið upp að hvert EFTA-ríki fyrir sig gerði tvíhliða samning við Bretland.
    Í umfjöllun um orkumál fór Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, yfir orkulandslagið á Íslandi og þá sérstöðu sem felst í afar háu hlutfalli endurnýjanlegrar orku á íslenskum raforkumarkaði og jafnframt gríðarlega mikilli orkuframleiðslu miðað við höfðatölu. Megan Richards, frá stjórnardeild framkvæmdastjórnar ESB um orkumál, flutti einnig framsögu um tillögur framkvæmdastjórnarinnar um hreina orku fyrir alla Evrópubúa, (e. Clean Energy for all Europeans). Tillögurnar taka til skilvirkari orkunýtingar, endurnýjanlegrar orku, skipulags raforkumarkaða, orkuöryggis og regluverks orkusambandsins (e. Energy Union). Tillögurnar styðja við markmið ESB í orku- og loftslagsmálum sem kveða á um 40% minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 og eru í samræmi við Parísarsamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál.
    Að lokum var umræða um málefni norðurslóða þar sem Níels Einarsson, forstöðumaður Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, og Fernando Garces de los Fayos, sérfræðingur hjá Evrópuþinginu, fluttu framsögur. Níels fjallaði um áhrif hraðra efnahagslegra og félagslegra breytinga á samfélög á norðurslóðum m.a. út frá fjölþjóðlegri rannsóknarskýrslu um mannlífsþróun á norðurslóðum (e. Arctic Human Development Report) sem Stofnun Vilhjálms Stefánssonar hefði haft forustu um að vinna. Fayos fjallaði um norðurslóðastefnu ESB en þrjú forgangssvið hennar eru loftslagsbreytingar og umhverfisvernd, sjálfbær þróun í og við norðurslóðir og stuðningur við alþjóðlega samvinnu um málefni norðurslóða.
    Þingmannanefnd EES samþykkti eina ályktun á 48. fundi sínum um ársskýrslu sameiginlegu EES-nefndarinnar um framkvæmd EES-samningsins árið 2016.

Fundur þingmannanefndar og ráðherra EFTA á Svalbarða 26. júní 2017.
    Hefðbundinn sumarfundur þingmannanefndar og ráðherra EFTA fór fram í Longyearbyen á Svalbarða auk þess sem þingmannanefndin hélt fund með ráðgjafanefnd EFTA og eiginlegan nefndarfund. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundina Hanna Katrín Friðriksson, formaður, Andrés Ingi Jónsson, Smári McCarthy og Vilhjálmur Bjarnason auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Málefni er varða útgöngu Bretlands úr ESB, Brexit, voru í brennidepli á öllum fundunum. Á fundi þingmannanefndar og ráðgjafanefndar EFTA fluttu sendiherrar EFTA-ríkjanna gagnvart ESB framsögur þar sem dregin var upp mynd af ferlinu fram undan og áherslumálum EFTA-ríkjanna. Þau eiga það sameiginlegt að vilja tryggja að Brexit leiði ekki til lakari viðskiptakjara við Bretland, minni samvinnu á sviði menningar- og menntamála og lakari réttinda borgara EFTA sem búsettir eru í Bretlandi og öfugt. EFTA-ríkin fylgjast grannt með gangi mála á milli Bretlands og ESB og halda öllum möguleikum opnum þar til ferlið skýrist nánar. Fram kom að óvissa væri mikil, breska ríkisstjórnin hefði ekki birt nein skjöl svo sem samningsafstöðu eða samningsleiðbeiningar frá því 50. gr. Lissabonsáttmálans um útgöngu var virkjuð 29. mars 2017. Ráð ESB samþykkti aftur á móti samningsleiðbeiningar 29. apríl og samningsumboð að tillögu framkvæmdastjórnarinnar 22. maí. Eiginlegar samningaviðræður hófust 19. júní og ráðgert var að aðalsamningamenn hittust mánaðarlega. ESB mundi ekki ljá máls á því að ræða framtíðarfyrirkomulag sambands ESB við Bretland fyrr en viðræður um útgöngusamninginn væru komnar vel á veg en stærstu málin þar eru annars vegar réttindi borgara ESB-ríkja sem búsettir eru í Bretlandi og Breta sem búa í ESB-ríkjum og hins vegar hinn fjárhagslegi viðskilnaður. Þess væri vænst að ESB mæti í október hvort tímabært væri að hefja viðræður um framtíðarfyrirkomulag samskipta við Bretland. Líklegt væri talið að EFTA/EES-ríkin mundu eiga þess kost að ganga inn í eða geta gert sambærilegt samkomulag við það sem tekst á milli ESB og Bretlands um borgararéttindi. Um önnur svið yrði líklega að semja sérstaklega við Bretland, svo sem sjávarútvegsmál, þegar Bretar hverfa frá sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB. Óljóst væri hvort takast muni að ljúka samningum um framtíðarfyrirkomulag sambands ESB og Bretlands áður en að útgöngu Betlands kemur vorið 2019. Líklegt yrði þó að teljast að einhvers konar bráðabirgðasamkomulag yrði gert til að brúa bilið frá útgöngu þar til samningur um framtíðarsamskipti hefði verið gerður til að lágmarka truflun samskipta í millitíðinni. Að sama skapi ríkti óvissa um það hvort EFTA-ríkin, eða a.m.k. EES/EFTA-ríkin, gætu með einhverjum hætti gengið inn í slíkt samkomulag.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA var áfram fjallað um Brexit og lögð fram ítarleg skýrsla skrifstofu EFTA um viðskipti EFTA-ríkjanna og Bretlands. Farið var yfir tölfræði viðskiptanna og vægi þeirra. Fram kom að vöruskiptajöfnuður allra EFTA-ríkjanna við Bretland er jákvæður en myndin snýst við hvað varðar þjónustuviðskipti. Þar sker Ísland sig reyndar úr hinum EFTA-ríkjunum með jafnvægi í þjónustuviðskiptum sem skýrist af mjög aukinni ásókn breskra ferðamanna til Íslands. Á fundinum gerði Hanna Katrín Friðriksson stuttlega grein fyrir stjórnmálalegri og efnahagslegri þróun á Íslandi og kom inn á að Íslendingum væri mjög umhugað um áhrif Brexit. Veiking pundsins samfara styrkingu krónunnar hefði haft neikvæð áhrif á samkeppnishæfni íslensks útflutnings á Bretlandsmarkaði, mikilvægasta útflutningsmarkaði Íslands. Þá hefði nýleg greining sýnt að 40% dýrara væri fyrir breska ferðamenn að koma til Íslands en ári áður og hlyti það að hafa áhrif á aðsókn þarlendra ferðamanna til landsins.
    Á fundi þingmanna og ráðherra EFTA var að venju fjallað annars vegar um fríverslunarmál og hins vegar um EES-samstarfið. Þá var Brexit bætt við sem sérstökum dagskrárlið. Monica Mæland, viðskiptaráðherra Noregs, fór yfir stöðu fríverslunarviðræðna EFTA. Fram kom að um 14% af útflutningi EFTA færu til ríkja sem fríverslunarsamningar ná til sem væri umtalsverð hækkun miðað við tæp 10% árið 2007. Mikill kraftur hefði verið settur í að byggja upp fríverslunarnet EFTA í Asíu og ættu samtökin í viðræðum við Indland, Indónesíu, Malasíu og Víetnam. Þá væru fríverslunarviðræður nýhafnar við Mercosur sem er tollabandalag fjögurra Suður-Ameríkuríkja, Argentínu, Brasilíu, Paragvæ og Úrugvæ. Að auki ætti EFTA í viðræðum við Ekvador. Hvað aðra heimshluta snerti hefðu fríverslunarviðræður legið niðri við tollabandalag Rússlands, Kasakstans og Hvíta-Rússlands frá árinu 2014 vegna átakanna í Úkraínu. Viðræður við Tæland hefðu að sama skapi legið niðri frá árinu 2006 vegna stjórnmálaástandsins í landinu. Þá var fjallað um uppfærslu á eldri fríverslunarsamningum en slíkar uppfærslur snúa einkum að því að samningar sem áður tóku einungis til vöruviðskipta taki einnig til þjónustuviðskipta, fjárfestinga, opinberra innkaupa og hugverkaréttinda. Slíkar viðræður stæðu yfir um uppfærslu samninga við Tyrkland frá árinu 1992 og Mexíkó frá árinu 2000. Þá hefðu átt sér stað könnunarviðræður við Kanada um hvort grundvöllur væri fyrir uppfærslu á fríverslunarsamningi aðilanna frá árinu 2008. Fríverslunarsamningur ESB og Kanada frá árinu 2014 er mun víðtækari en samningur Kanada við EFTA-ríkin svo uppfærsla er æskileg til að tryggja samkeppnisstöðu EFTA gagnvart ESB í viðskiptum við Kanada.
    Í umræðu þingmanna og ráðherra EFTA um fríverslunarmál beindi Hanna Katrín Friðriksson því til ráðherranna að skoða það að fella jafnrétti og kynjasjónarmið inn í fríverslunarsamninga rétt eins og kveðið er á um mannréttindi, vinnuvernd og sjálfbæra þróun í formálsorðum nýlegri samninga EFTA. Kvað Hanna Katrín slík sjónarmið mikilvæg í efnahags- og viðskiptamálum og benti á nýlega fyrirmynd í fríverslunarsamningi Kanada og Síle þar sem sérstaklega er fjallað um jafnréttismál. Andrés Ingi Jónsson tók undir með Hönnu Katrínu og lagði áherslu á að fríverslunarsamninga mætti nota til að styrkja mannréttindi, lýðræði og réttarríkið samhliða viðskiptum. Spurði hann ráðherrana með hvaða hætti mætti tryggja að formálsorð fríverslunarsamninga í þá veru væru virt af gagnaðilum EFTA. Sagði Andrés Ingi það orka tvímælis að gera fríverslunarsamning við Filippseyjar þegar nýr forseti landsins stæði blygðunarlaust fyrir stórfelldum mannréttindabrotum. Ráðherrarnir tóku undir tillögu Hönnu Katrínar varðandi jafnréttismál og kynjasjónarmið í fríverslunarsamningum og yrði hún tekin til nánari skoðunar. Þá kom fram að EFTA hefði ekki yfir neinum tækjum að ráða til að tryggja að ákvæðum samninga um mannréttindamál væri framfylgt. Ríkin beittu sér í mannréttindamálum á öðrum vettvangi, m.a. í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna.
    Þá var sem fyrr sagði fjallað um EES-mál og samskiptin við ESB á fundi þingmanna og ráðherra EFTA. Þar kom m.a. fram að svonefndur upptökuhalli, sem mælir tafir á upptöku gerða ESB í EES-samninginn, og innleiðingarhalli, sem mælir hvort gerðir sem teknar hafa verið upp í samninginn séu innleiddar í EFTA/EES-ríkjunum innan tilgreindra tímamarka, hefðu verið háir misserin á undan. Brugðist hefði verið við því með því að bæta verkferla bæði á skrifstofu EFTA og í EFTA/EES-ríkjunum.
    Loks var rætt um Brexit á fundi þingmanna og ráðherra EFTA. Í umfjölluninni kom m.a. fram að EFTA-ríkin fylgdust grannt með þróun mála og ættu náið samráð sín á milli og enn fremur við samningateymi ESB. Ljóst væri að ríkin þyrftu að finna nýtt fyrirkomulag á sambandi sínu við Bretland en á meðan samningaviðræður ESB og Bretlands um útgöngu og framtíðarfyrirkomuleg samskipta væru skammt á veg komnar væri óljóst hvort EFTA-ríkin gætu gengið inn í samning ESB og Bretlands eða hvort þau semdu saman við Bretland, í minni hópum (EFTA/EES-ríkin) eða hvert um sig. Ef um beinar samningaviðræður EFTA eða einstakra EFTA-ríkja við Bretland yrði að ræða gætu þær ekki hafist formlega á meðan Bretland væri enn aðildarríki ESB.

Fundir þingmannanefndar EFTA í Brussel 14. nóvember 2017 og 49. fundur þingmannanefndar EES í Strassborg 15.–16. nóvember 2017.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundina í Brussel og Strassborg Hanna Katrín Friðriksson og Smári McCarthy, auk Stígs Stefánssonar ritara. Málefni er varða væntanlega útgöngu Bretlands úr ESB (Brexit) voru áberandi á dagskrá fundanna.
    Í Brussel voru haldnir þrír fundir, fundur þingmannanefndar EFTA um Brexit, fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA um fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA fyrir árið 2018 og fundur þingmannanefndar EFTA og utanríkisráðherra EES/EFTA-ríkjanna. Á fyrstnefnda fundinum var André Sapir, frá hugveitunni Bruegel, frummælandi. Í framsögu hans og umræðum sem fylgdu í kjölfarið kom m.a. fram að mikil samstaða 27 aðildarríkja ESB (ESB27) í samningaviðræðum við Bretland hefði komið mörgum á óvart samhliða sundrungu Bretlands megin sem kæmi t.d. fram í að afstaða Breta væri enn á reiki varðandi marga þætti útgöngunnar. Bretland hefði viljað hefja 2. stig viðræðnanna, þ.e. um framtíðarfyrirkomulag samskipta eftir útgöngu, en hefði ekki enn kynnt sýn sína á slíkt fyrirkomulag. Ýmsar fyrirmyndir lægju fyrir í samstarfi ESB við önnur náin samstarfsríki, eða allt frá EES-samstarfinu, tvíhliða samningakerfi við Sviss, tollabandalagi við Tyrkland og fríverslunarsamningum við Úkraínu og Kanada. ESB-megin væri Brexit orðið tæknilegt úrlausnarefni embættismanna og væri ekki rætt mikið af stjórnmálamönnum eða í almennri umræðu á meginlandinu.
    Á fundi þingmanna og utanríkisráðherra EES/EFTA-ríkjanna gerðu ráðherrarnir m.a. grein fyrir niðurstöðum fundar í EES-ráðinu fyrr um daginn. Auk ráðherranna sóttu fund EES-ráðsins fulltrúar ráðs, framkvæmdastjórnar og utanríkisþjónustu ESB, þar á meðal Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB um Brexit. Niðurstöður fundarins lutu m.a. að áframhaldandi samráði um Brexit enda ljóst að útganga Bretlands mundi hafa mikil áhrif á alla aðila innri markaðarins, jafnt ESB sem EES/EFTA-ríkin. Ekki væri gert ráð fyrir að það næðist að semja um framtíðarfyrirkomulag sambands Bretlands og ESB áður en Bretland gengi úr sambandinu. Næðist samningur um útgönguna sjálfa væri búist við að einhvers konar millibilssamkomulag yrði gert um efnahagslegt samstarf þar til framtíðarskipan hefði verið ákveðin. Ef svo yrði væri líklegt að EES/EFTA-ríkin gætu orðið aðilar að slíku samkomulagi. Færi hins vegar svo að Bretar yfirgæfu ESB án útgöngusamnings mundu samskipti stýrast af reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar WTO. Loks var farið yfir stöðu upptöku gerða í EES-samninginn.
    Í Strassborg voru haldnir tveir fundir, annars vegar fundur með fulltrúum viðskiptanefndar Evrópuþingsins og hins vegar 49. fundur þingmannanefndar EES. Á þeim fyrrnefnda var m.a. fjallað um stöðu alþjóðaviðskipta í ljósi þess að Bandaríkin hefðu látið af leiðtogahlutverki sínu á því sviði með því að draga sig út úr svæðisbundnum marghliða fríverslunarsamningum og aðgerðum á vettvangi WTO. ESB ynni hins vegar áfram af krafti að gerð fríverslunarsamninga, samningur við Kanada hefði nýverið tekið gildi og vonast væri eftir niðurstöðu í samningaviðræðum við Singapúr, Víetnam og Japan í náinni framtíð. Því næst lægi fyrir að semja við Ástralíu og Nýja Sjáland. Þá var rætt um vinnuskýrslu um stefnu í stafrænum viðskiptum þar sem bent væri á að ESB þyrfti að bregðast hratt við ætlaði sambandið ekki að láta alþjóðlegum stórfyrirtækjum eftir að móta leikreglur í alþjóðlegum stafrænum viðskiptum.
    Á 49. fundi þingmannanefndar EES voru helstu dagskrármál staða EES-samstarfsins, Brexit, samskipti ESB og Sviss og þátttaka EES/EFTA-ríkjanna í stofnunum ESB. Á fundinum var fulltrúum stofnana ESB og EFTA að venju boðið að hafa framsögur í umræðum um þróun og framkvæmd EES-samningsins. Til máls tóku Sabine Monauni, fyrir hönd formennsku EFTA í EES-ráðinu og sameiginlegu EES-nefndinni, Elina Viilup, fyrir hönd formennsku ESB í EES-ráðinu, og Claude Maerten, fyrir hönd ESB í sameiginlegu EES-nefndinni. Í umfjöllun þeirra kom m.a. fram að of hægt hefði gengið að taka gerðir á sviði fjármálamarkaða upp í EES-samninginn, en um 250 gerðir biðu upptöku. Grípa þyrfti til aðgerða til þess að hraða þeirri vinnu. Á þessu sviði sem öðrum væri alvarlegt þegar mikið magn gerða biði upptöku í EES-samninginn enda tefði það að nauðsynleg einsleitni næðist í regluverki sameiginlega markaðarins sem tryggði skilvirkni. Þó væru ánægjuleg dæmi um gerðir sem innleiddar væru samtímis í ESB og í EES/EFTA-ríkjunum eins og tilskipun um niðurfellingu gjalda fyrir reikiþjónustu sem væri mikil hagsbót fyrir farsímanotendur sem ferðast á EES-svæðinu. Þá var fjallað um samkomulag um uppbyggingarstyrki EFTA og Noregs til fátækari ríkja ESB sem hefðu það markmið að auka félagslegan jöfnuð innan álfunnar. Í september hefði tekið gildi nýtt samkomulag um styrkjatímabilið 2014–2021 og unnið væri að samkomulagi við hvert styrkþegaríki fyrir sig um ramma og verkefni komandi styrkveitinga.
    Á fundinum gerðu fulltrúar í stýrihópi Evrópuþingsins vegna Brexit grein fyrir starfsemi hópsins og sýn sinni á stöðu samningaviðræðna um útgöngu Bretlands úr ESB. Fyrir hönd hópsins töluðu Evrópuþingmennirnir Philippe Lamberts, Elmar Brok og Danuta Hübner. Í máli þeirra kom m.a. fram gagnrýni á bresk stjórnvöld fyrir að hafa nýtt tímann illa frá því 50. gr. Lissabonsáttmálans um útgöngu úr ESB var virkjuð í mars 2016 sem gefur tvö ár til þess að semja um útgöngu. Viðræður ESB og Bretlands væru skammt á veg komnar vegna þess að samningsstefnu skorti af hálfu Breta. ESB hefði lagt fram skýra samningsafstöðu um borgararéttindi, fjárhagsskuldbindingar og landamæri á Írlandi sem fyrsta stig samningaviðræðna sneru að, þ.e. útgöngusamningnum. Ekki yrði farið á annað stig samningaviðræðna, þ.e. um framtíðarskipan sambands ESB og Bretlands, fyrr en viðræður um útgöngusamning væru vel á veg komnar. Bresk stjórnvöld hefðu kynnt afstöðu sína um borgararéttindi en tillögur skorti um fjárhagsskilnaðinn og landamæri. Því væri með öllu óljóst hvenær hægt yrði að hefja annað stig samningaviðræðna sem Bretar hefðu annars knúið mjög á um að hefja. Samningateymi ESB væri reiðubúið til áframhaldandi viðræðna um útgöngusamninginn en Bretar væru ekki tilbúnir að dagsetja næsta samningafund eða leggja fram tillögur um tvö af þremur aðalviðfangsefnum útgöngusamningsins. Hvað fjárhagsskuldbindingar varðaði væri útgangspunktur ESB að Bretland greiddi sinn hlut í öllum kostnaði sem Bretland hefði tekið þátt í að ákveða að efna til.
    Þrír breskir Evrópuþingmenn, þau David Campbell Bannerman, Rupert Matthews og Catherine Stihler, tóku þátt í umræðunni. Þeir fyrstnefndu vísuðu gagnrýninni á bug og töldu að rétt hefði verið að hefja samningaviðræður um framtíðarskipan sambands ESB og Bretlands strax í byrjun eins og breska ríkisstjórnin hefði viljað. Það hefði verið krafa ESB að skipta samningaviðræðunum í fyrrnefnd tvö stig. Ekki væri hægt að ná niðurstöðu um landamæri á Írlandi og fjárhagsmálin fyrir en ljóst væri hvernig framtíðarsamband Bretlands og ESB yrði. Fjárhagsmálin tefðu og ef ESB héldi kröfum sínum til streitu gæti farið svo að Bretar gengju úr ESB án útgöngusamnings og mundu þá reiða sig á reglur WTO. Stihler gagnrýndi aftur á móti hvernig bresk stjórnvöld hefðu haldið á málum í viðræðunum og sagði að Brexit mundi valda miklum skaða til margra ára í Bretlandi.
    Í umfjöllun um samskipti ESB og Sviss kom m.a. fram að Svissneski þjóðarflokkurinn ynni að því að koma á takmörkunum á flæði fólks frá ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á nýjan leik og líklegt væri að slík atkvæðagreiðsla færi fram á árinu 2020. Aðrir stjórnmálaflokkar í Sviss væru á móti málinu og óttuðust að það kynni að setja samskipti við ESB í uppnám.
    Loks var fjallað um þátttöku EES/EFTA-ríkjanna í stofnunum ESB. Svein Roald Hansen kynnti skýrslu um efnið þar sem fram kom að stofnanir ESB hefðu í auknum mæli reglugerðar- og inngripsvald sem reyndi mjög á tveggja stoða kerfi EES-samningsins. Skýrasta dæmið væru stofnanir sem hefðu eftirlit með fjármálamörkuðum en lausnin þar væri að fela Eftirlitsstofnun EFTA eftirlitsverkefnin EFTA-megin.

Fundir þingmannanefndar EFTA í Genf 23.–24. nóvember 2017.
    Í Genf fór annars vegar fram fundur þingmannanefndar EFTA og hins vegar fundur þingmannanefndar og ráðherraráðs EFTA. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundina Hanna Katrín Friðriksson og Smári McCarthy, auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA voru helstu umfjöllunarefni viðskipti við ríki utan fríverslunarnets EFTA, jafnréttissjónarmið og fríverslun, landbúnaðarmál í fríverslunarsamningum EFTA, upplýsingafrelsi og fríverslun, og horfur í alþjóðaviðskiptum.
    Aslak Berg flutti framsögu um viðskipti EFTA-ríkjanna við ríki utan fríverslunarnets samtakanna en í viðskiptum við þau gilda reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Árið 2016 voru 56% viðskipta EFTA við ESB, 14% við ríki sem EFTA hefur gert fríverslunarsamninga við og 6% við ríki sem EFTA á í fríverslunarviðræðum við. Einstök EFTA-ríki hafa einnig gert tvíhliða fríverslunarsamninga og eru samningar við Kína, Japan og Færeyjar dæmi þar um. Tæplega 9% af viðskiptum EFTA eru við slík ríki. Tæp 14% viðskipta EFTA eru við ríki utan fríverslunarnetsins og telur þar mest 9,5% við Bandaríkin. Önnur stór viðskiptaríki utan netsins eru m.a. Ástralía, Taívan og Venesúela. Yfirgnæfandi meiri hluti viðskipta EFTA er því við ríki innan fríverslunarnetsins en séu tvíhliða samningar einnig taldir með nær netið yfir 86% viðskiptanna. Þá kom fram að nauðsynlegt væri að uppfæra þá eldri fríverslunarsamninga EFTA sem enn taka einungis til vöruviðskipta svo þeir taki einnig til fjárfestinga og þjónustuviðskipta.
    Hanna Katrín Friðriksson var framsögumaður skýrslu um jafnréttissjónarmið í fríverslunarsamningum. Hún benti á að frá árinu 2010 hefði EFTA tekið upp sérstaka kafla um sjálfbæra þróun og vinnuvernd í fríverslunarsamninga og jafnframt að í formálsorðum samninga væri vísun í lýðræði, mannréttindi og réttarríkið. Tími væri kominn til að taka upp ákvæði um kynjajafnrétti en alþjóðleg þróun í þá átt hefði orðið á síðustu misserum. Þannig var ítarlegum kafla um jafnréttismál bætt við fríverslunarsamning Kanada og Síle vorið 2017. Umræða um nauðsyn kynjajafnréttis í viðskiptum ætti sér stað innan ESB, Sameinuðu þjóðanna, OECD og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Framkvæmdastjóri ESB á sviði viðskiptamála, Cecilia Malmström, hefði lýst því yfir að til skoðunar væri að bæta ákvæðum um kynjajafnrétti inn í fríverslunarsamninga sambandsins. Tilgangur slíkra ákvæða væri að tryggja að efnahagslegur ávinningur viðskipta gagnaðist öllum auk þess sem sýnt hefði verið fram á að aukin þátttaka kvenna í viðskiptum hefði jákvæð áhrif á hagþróun ríkja. Hanna Katrín minnti á að hún hefði tekið málið upp á fundi þingmanna og ráðherra EFTA í júní 2017 og að þrír af fjórum ráðherrum hefðu tekið jákvætt í málið. Þá kvæði formennskuáætlun Liechtenstein í EFTA fyrir síðari hluta árs 2017 á um að skoða málið nánar. Hanna Katrín lagði fram drög að ályktun um málið en skiptar skoðanir voru um hana í nefndinni. Norska sendinefndin studdi málið en sendinefndir Sviss og Liechtenstein voru á móti. Ákveðið var að fresta afgreiðslu ályktunarinnar en fela Hönnu Katrínu að taka málið upp á fundi þingmanna og ráðherraráðs EFTA.
    Í umfjöllun um landbúnaðarmál og fríverslun fluttu Alf Vederhus, Christian Etter og Andri Júlíusson framsögur. Í máli þeirra og umræðunni á eftir kom m.a. fram að við gerð fríverslunarsamninga EFTA semdi hvert EFTA-ríki fyrir sig við samningsaðilann um landbúnaðarmál. Þessi háttur væri hafður á þar sem hagsmunir EFTA-ríkjanna í landbúnaði væru mjög ólíkir. Samningsaðilar í fríverslunarviðræðum væru oft stórir útflytjendur landbúnaðarvara með miklar væntingar um markaðsaðgang. Af hálfu Íslands og Noregs væru sérkenni landbúnaðar á norðurslóðum kynnt fyrir samningsaðilum með áherslu á kalt loftslag, litla framleiðslu á þröngu sviði og háan kostnað sem gerði það að verkum að landbúnaður á norðurslóðum væri ekki samkeppnishæfur við lönd þar sem aðstæður væru betri. Lögð væri áhersla á þörfina til að vernda landbúnaðinn vegna fæðuöryggis og byggðasjónarmiða. Af hálfu Íslands væri einnig lögð áhersla á smæð hins íslenska markaðar og að á honum væru því lítil tækifæri fyrir ríki sem væru stór á sviði útflutnings á landbúnaðarvörum.
    Smári McCarthy var framsögumaður skýrslu um upplýsingafrelsi og fríverslun. Í máli hans kom m.a. fram að eftir því sem upplýsingasamfélagið og deilihagkerfið yxu að vægi væri æ mikilvægara að tryggja upplýsingafrelsi í alþjóðlegum viðskiptum. Upplýsingafrelsi væri mikilvægt fyrir aðila á markaði til þess að meta framboð og eftirspurn eftir vöru og þjónustu. Ógagnsæir markaðir gætu leitt til kerfisbundinnar óskilvirkni. Á Vesturlöndum væri ástandið gott og víða tryggt með lögum að netið væri hlutlaus vettvangur frjáls streymis upplýsinga. Í ýmsum öðrum ríkjum væri pólitísk þróun í átt að því að stjórnvöld hömluðu upplýsingastreymi nánast að geðþótta sem samræmdist ekki nethlutleysi. Dæmi um slíkt væri þegar stjórnvöld takmörkuðu aðgang að tiltekinni vefsíðu eða fyrirtæki sem hamlaði þannig viðkomandi að bjóða vöru og þjónustu á viðkomandi markaðssvæði eða þegar stjórnvöld eða fjarskiptafyrirtæki hægðu á aðgangi að einstöku fyrirtæki á netinu og drægju þannig úr samkeppnishæfni þess í samkeppni við innlenda keppinauta. Lagði Smári til að EFTA tæki upp ákvæði um upplýsingafrelsi í fríverslunarsamninga þar sem m.a. væri kveðið á um nethlutleysi, aðgengi að upplýsingum um regluverk markaða og bann við hvers kyns ritskoðun. Smári lagði drög að ályktun fyrir fundinn og var ákveðið að fela honum að vinna hana frekar til umfjöllunar á næsta fundi nefndarinnar.
    Loks kom Arancha González, forstjóri Alþjóðaviðskiptamiðstöðvarinnar (e. International Trade Center), á fund þingmannanefndarinnar og fór yfir horfur í alþjóðaviðskiptum. Hún sagði viðskiptakerfið vera að veikjast og að sú veiking kæmi jafnt að innan sem utan. Stærsta viðskiptaríkið sem hefði haft forystu um uppbyggingu WTO hefði dregið sig í hlé. Stjórn Trumps Bandaríkjaforseta sæi kerfið sem hamlandi og vildi vera frjálsari í athöfnum sínum og ekki vera háð þeim gerðardómum sem WTO byði upp á til að greiða úr ágreiningsmálum. Hinn risinn í alþjóðaviðskiptum, Kína, hefði ekki viljað taka fullan þátt og forystu á þessu sviði. Samanlagt stæðu Bandaríkin og Kína fyrir um helmingi viðskipta í heiminum og því væri það til mikillar veikingar WTO að hvorugur aðilinn væri þar í leiðtogahlutverki. ESB hefði horft inn á við á undanförnum árum og misserum og verið upptekið við evrukreppu, vanda Grikklands og nú síðast Brexit. Þó væru teikn á lofti um að ESB horfði í auknum mæli út á við. González sagði um árlegan ráðherrafund WTO sem ráðgerður væri í desember að sá fundur væri varnarbarátta sem beindist að því að ekki yrðu tekin skref aftur á bak. Loks greindi hún frá vinnu við drög að ályktun um kynjajafnrétti og fríverslun sem hópur ríkja, þar á meðal Ísland, hefði unnið að og vonaðist væri til að yrði samþykkt á ráðherrafundinum.
    Á fundi þingmanna og ráðherra EFTA var fjallað um gerð fríverslunarsamninga EFTA, en það er fastur dagskrárliður á slíkum fundum. Fríverslunarsamningar EFTA eru nú 27 talsins við 38 ríki og ná yfir 14,3% af vöruskiptum EFTA-ríkjanna. Í framsöguræðu sinni fór Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein og formaður ráðherraráðs EFTA, yfir stöðu fríverslunarviðræðna en EFTA á í virkum viðræðum við Indónesíu, Malasíu, Víetnam, Indland og Mercosur sem er tollabandalag fjögurra Suður-Ameríkuríkja, Argentínu, Brasilíu, Paragvæ og Úrugvæ. Vonast er til að viðræðum ljúki við Indónesíu á árinu 2018. Þá á EFTA í viðræðum um uppfærslu samninga við Tyrkland frá árinu 1992 og Mexíkó frá árinu 2000 en slíkar uppfærslur snúa einkum að því að samningar sem áður tóku einungis til vöruviðskipta taki einnig til þjónustuviðskipta, fjárfestinga, opinberra innkaupa og hugverkaréttinda.
    Hanna Katrín Friðriksson greindi ráðherrunum frá umfjöllun þingmannanefndar EFTA um jafnréttissjónarmið í fríverslunarsamningum og spurði Frick um stöðu vinnu ráðherranna á þessu sviði í ljósi þess að málið væri til skoðunar samkvæmt formennskuáætlun Liechtenstein í ráðherraráði EFTA. Frick staðfesti að málið væri forgangsmál í formennskutíð sinni og að sérfræðingahópur væri með það til skoðunar.

5. Ályktanir árið 2017.
Ályktanir þingmannanefndar EES:
          Ályktun um ársskýrslu um framkvæmd EES-samningsins árið 2016, samþykkt í Reykjavík 23. maí 2017.

Alþingi, 16. janúar 2018.

Smári McCarthy,
form.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, varaform. Brynjar Níelsson.
Hanna Katrín Friðriksson. Jón Gunnarsson.