Ferill 105. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 173  —  105. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 160/2008, um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga (endurgreiðsla vegna gleraugnakaupa barna).

Flm.: Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.


1. gr.

    Við 1. mgr. 4. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Enn fremur annast stofnunin umsýslu vegna þátttöku ríkisins í kostnaði við gleraugnakaup barna

2. gr.

    Á eftir 4. gr. laganna kemur ný grein, 4. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Gleraugnakaup barna.

    Ráðherra skal setja reglugerð þar sem kveðið er á um þátttöku ríkisins í kostnaði við kaup á gleraugum. Þar skal m.a. mæla fyrir um að:
     1.      börn njóti greiðsluþátttöku við kaup á gleraugum allt að tvisvar á ári til tíu ára aldurs,
     2.      börn frá 11 ára aldri að 18 ára aldri njóti greiðsluþátttöku við kaup á gleraugum annað hvert ár,
     3.      fjárhæð endurgreiðslu sé 75% af verði sjónglerja í hverjum verðflokki og 75% af verði umgjarðar,
     4.      börn til tíu ára aldurs, sem hafa þörf fyrir gleraugu sem hluta læknismeðferðar til að sjón þeirra þroskist eins eðlilega og kostur er, njóti fullrar greiðsluþátttöku við kaup á gleraugum tvisvar á ári (sjónglerja og umgjarðar) enda sé umgjörð valin í samráði við augnlækni eða sjóntækjafræðing.
    Sá aðili sem annast þjónustu við sjónskerta fyrir hönd ríkisins leitar árlega tilboða í sjóngler og umgjarðir hjá gleraugnasölum og miðast fjárhæð greiðsluþátttöku við lægsta tilboðsverð.

3. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2019.

Greinargerð.

    Frumvarp sama meginefnis og fyrirliggjandi þingmál var lagt fram á 145. löggjafarþingi (361. mál) af Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur en varð ekki útrætt. Eftir að mælt hafði verið fyrir málinu voru sendar umsagnarbeiðnir vegna þess til 23 aðila.
    Þar sem málið varð ekki útrætt á 145. löggjafarþingi var það endurflutt á 146. þingi (215. mál) með nokkrum breytingum. Enn fór svo að það náði ekki fram að ganga og er það því endurflutt með einni breytingu frá síðasta flutningi sem felst í því að í 2. tölul. er nú gert ráð fyrir því að börn á aldrinum 11 til 18 ára njóti greiðsluþátttöku annað hvert ár í stað árlega.
    Í umsögn Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga frá 8. apríl 2016 var áætlað að samþykkt frumvarpsins sem lagt var fram á 145. löggjafarþingi myndi verða til þess að auka útgjöld ríkissjóðs um 167 millj. kr. vegna aukinnar þátttöku í gleraugnakaupum barna og einnig vegna aukins kostnaðar við starfsemi stofnunarinnar vegna verkefna sem hljótast myndu af breyttu hlutverki hennar á þessum vettvangi sem gæti numið einu stöðugildi. Í umsögn stofnunarinnar frá 28. apríl 2017 er talið að árlegur kostnaður ríkissjóðs vegna endurgreiðslna til gleraugnakaupa yrði nálægt 197 millj. kr. Með því að gera ráð fyrir endurgreiðslu til barna á aldrinum 11 til 18 ára annað hvert ár lækkar þessi heildartala eitthvað.
    Aðrar breytingar sem lagðar eru til við lög nr. 160/2008, um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, en þær sem fyrr var getið umeru hinar sömu og í frumvarpinu sem lagt var fram á 145. löggjafarþingi og því 146. Lagt er til að við lögin bætist ný grein þar sem kveðið verði skýrt á um þátttöku ríkisins í kostnaði við kaup á gleraugum. Breytingin miðar að því að rýmka reglur um greiðsluþátttöku ríkisins þannig að börn njóti greiðsluþátttöku við kaup á tvennum gleraugum á ári til tíu ára aldurs. Sjónþroski barna undir tíu ára aldri getur krafist þess að þau skipti um gleraugu oftar en einu sinni á ári og því eðlilegt að ríkið taki þátt í kostnaði við kaup á gleraugum tvisvar á ári á þessu aldursskeiði. Jafnframt er lagt til að frá 11 ára aldri og þar til börn ná 18 ára aldri taki ríkið þátt í kostnaði við kaup á einum gleraugum á ári.
    Í 4. tölul. er kveðið á um fulla endurgreiðslu vegna gleraugnakaupa fyrir börn sem þurfa gleraugna við til þess að sjón þeirra þroskist eðlilega. Í þessum tilvikum eru viðeigandi gleraugu svo þýðingarmikil fyrir eðlilegan þroska barnsins að rétt virðist að þau séu greidd að fullu úr sameiginlegum sjóði landsmanna þannig að tryggt verði að ekkert barn þurfi að vera án þeirra enda eru gleraugu fyrir þennan hóp barna í rauninni hluti læknismeðferðar en ekki hjálpartæki.
    Í gildandi reglugerð um þátttöku ríkisins í kostnaði við gleraugu, nr. 1155/2005, er kveðið á um þátttöku ríkisins í kostnaði við kaup á gleraugum barna tvisvar á ári til loka þriðja aldursárs, árlega frá fjögurra til átta ára aldurs og annað hvert ár á aldrinum 9 til 17 ára aldurs. Breytingin sem lögð er til í frumvarpinu felst í því að auka til muna greiðsluþátttöku ríkisins við kaup á gleraugum fyrir börn að 11 ára aldri og er það gert með tilliti til þess að á þeim tíma taka þau út mikilvægan sjónþroska sem getur verið háður því að þau fái viðeigandi gleraugu þegar þeirra er þörf.
    Lagt er til að greiðsluþátttaka ríkisins verði 75% af tilboðsverði á sjónglerjum og gleraugnaumgjörðum sem sá aðili sem annast þjónustu við sjónskerta aflar árlega með útboði eða lætur afla fyrir sína hönd. Gæti vafalaust komið til mála að Ríkiskaup annaðist þennan þátt.
    Engin ákvæði eru í gildandi reglugerð um uppfærslu eða endurskoðun fjárhæðarinnar vegna verðlagsbreytinga og hafa engar slíkar breytingar verið gerðar frá því að reglugerðin tók gildi í desember 2005, sbr. þskj. 335 á 145. löggjafarþingi. Þetta hefur orðið til þess að gildi stuðnings hins opinbera við gleraugnakaup barna hefur rýrnað í samræmi við verðbólguþróun og markmið aðgerðarinnar þannig farið forgörðum að nokkru leyti. Flutningsmaður telur því bæði rétt og tímabært að gera þá breytingu að greiðsluþátttaka verði miðuð við ákveðið hlutfall af kostnaði eins og að framan greinir.