Ferill 270. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 558  —  270. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um nöfn sveitarfélaga.


    Í 5. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, eru ákvæði um heiti sveitarfélags:
    „Sveitarstjórn ákveður heiti sveitarfélags að fenginni umsögn örnefnanefndar. Skal það samrýmast íslenskri málfræði og málvenju. Ef könnun er gerð meðal íbúa á viðhorfi til breytingar á nafni sveitarfélags eða á nafni nýs sveitarfélags skal leita umsagnar örnefnanefndar um þau nöfn sem um ræðir.
    Ekki má breyta nafni sveitarfélags eða gefa nýju sveitarfélagi nafn nema með staðfestingu ráðuneytisins. Þegar nýtt heiti sveitarfélags hefur verið ákveðið skal samþykkt um stjórn sveitarfélagsins, sbr. 9. gr., breytt til samræmis og tekur nýtt heiti gildi við gildistöku hennar.“
    Þá er í 124. gr. sveitarstjórnarlaga m.a. kveðið á um að við birtingu ákvörðunar um sameiningu sveitarfélaga skuli greina frá nafni hins nýja sveitarfélags:
    „Þegar ráðuneytið hefur staðfest sameiningu sveitarfélaga samkvæmt framanskráðu skal það gefa út tilkynningu um sameininguna sem birta skal í B-deild Stjórnartíðinda. Þar skal greint frá nafni hins nýja sveitarfélags, hvaða sveitarfélög hafa verið sameinuð, tölu sveitarstjórnarmanna og gildistöku sameiningar og kosningum skv. 125. gr. Samhliða skal birt samþykkt um stjórn og fundarsköp hins nýja sveitarfélags sem öðlast skal gildi um leið og nýtt sveitarfélag tekur til starfa skv. 125. gr.“

     1.      Hvert er opinbert nafn sveitarfélagsins þar sem höfuðborg Íslands er staðsett?
    Reykjavík er höfuðborg Íslands, sbr. 2. mgr. 10. gr. sveitarstjórnarlaga. Heiti sveitarfélagsins er Reykjavíkurborg, sbr. samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, nr. 715/2013.

     2.      Hvert er nafn sameinaðs sveitarfélags Grímseyjar, Hríseyjar og Akureyrar?
    Heiti sveitarfélagsins er Akureyrarkaupstaður, sbr. samþykkt um stjórn og fundarsköp Akureyrarkaupstaðar, nr. 99/2013, sbr. einnig auglýsingar nr. 610/2004 og nr. 487/2009.

     3.      Hvert er nafn sameinaðs sveitarfélags Norðfjarðar, Mjóafjarðar, Eskifjarðar, Reyðarfjarðar, Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar?
    Heiti sveitarfélagsins er Fjarðabyggð, sbr. samþykkt um stjórn Fjarðabyggðar og fundarsköp bæjarstjórnar, nr. 567/2013, sbr. einnig auglýsingar nr. 798/1998 og nr. 167/2006.