Ferill 408. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


148. löggjafarþing 2017–2018.
Þingskjal 575  —  408. mál.




Fyrirspurn


til fjármála- og efnahagsráðherra um eftirlit með vátryggingaskilmálum.

Frá Birni Leví Gunnarssyni.


     1.      Telur ráðherra að með fyrirvaranum „eftir því sem kostur er“ í 1. mgr. 65. gr. laga nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi, felist nægjanleg neytendavernd miðað við þær kröfur sem ráðherra gerir til slíkrar verndar?
     2.      Telur ráðherra fyrrgreindan fyrirvara í samræmi við þau sjónarmið að styrkja beri stöðu neytenda gagnvart flóknum vátryggingaskilmálum sem ætla má að neytendum geti reynst tímafrekt og jafnvel flókið að skilja?
     3.      Telur ráðherra koma til greina að fella fyrirvarann niður til að styrkja neytendavernd þannig að í lögum sé gerð sú eðlilega krafa til Fjármálaeftirlitsins að stofnunin hafi eftirlit með vátryggingaskilmálum og gæti þess að þeir séu í samræmi við lög og góða viðskiptahætti? Ef svo er, hyggst ráðherra leggja fram slíka breytingu á lögunum?
     4.      Styður ráðherra slíka breytingu á lögunum verði tillaga um hana lögð fram? Ef ekki, hver er ástæðan? Svarið óskast rökstutt.
     5.      Er ráðherra sammála fyrirspyrjanda um að eðlilegt sé að Fjármálaeftirlitið birti á heimasíðu sinni allar ábendingar, fyrirvara og athugasemdir sem eftirlitið gerir við tillögur að vátryggingaskilmálum vátryggingafélaganna eða kröfur um breytingar á þeim? Ef svo er ekki, er óskað eftir að ráðherra geri grein fyrir afstöðu sinni.
     6.      Hvernig skilgreinir Fjármálaeftirlitið „eðlilegan rekstrarkostnað“ vátryggingafélaga eins og því ber að gera skv. 2. mgr. 65. gr. fyrrgreindra laga?
     7.      Hvernig leggur Fjármálaeftirlitið mat á hvað teljast góðir viðskiptahættir vátryggingafélaga, sbr. 2. mgr. 6. gr. fyrrgreindra laga?
     8.      Telur ráðherra það í samræmi við góða viðskiptahætti að vátryggingafélögin hafi ekki gjaldskrá sýnilega í afgreiðslusölum sem aðgengilegir eru almenningi eða á netinu? Telur ráðherra að félögunum sé ekki skylt að sýna verðlagningu á þjónustu sinni og vörum með skýrum hætti eins og t.d. verslunum og olíufélögum?


Skriflegt svar óskast.