Ferill 211. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 529  —  211. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um rafræna birtingu á álagningu skatta og gjalda.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Ingu Torfadóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á níu lögum þess efnis að tekið verði fram að heimilt sé að senda tilkynningar um álagningu ýmissa skatta eða gjalda rafrænt. Er þar með stigið skref í átt að eflingu rafrænnar stjórnsýslu en sætt hefur gagnrýni hversu skammt íslensk stjórnsýsla er á veg komin hvað það varðar, m.a. í samanburði við önnur Norðurlönd.
    Í umsögnunum sem nefndinni bárust er lýst stuðningi við framgang frumvarpsins. Jafnframt hvetja umsagnaraðilar til þess að gengið verði lengra og að stjórnsýslulög sæti endurskoðun með það að markmiði að skýrt verði að rafræn stjórnsýsla sé meginreglan varðandi öll samskipti hins opinbera við almenning. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga segir m.a.: „Til þess að rafræn stjórnsýsla nái festu hér á landi og sé raunhæfur kostur í öllum tegundum stjórnsýslumála er mikilvægt að stjórnsýslulögin séu skýr og ekki þurfi að taka fram í sérlögum hvort heimilt sé að birta ákvörðun rafrænt eða ekki. í ljósi þess að nú er talin þörf á að setja sérstaklega í lög að heimilt sé að birt álagningu skatta rafrænt vaknar sú spurning hvort sérstaklega þurfi að taka slíkt fram varðandi aðrar stjórnvaldsákvarðanir. […] Með hliðsjón af þeim tækniframförum er átt hafa sér stað á síðustu 15 árum og þeim möguleikum er rafræn stjórnsýsla býður upp á í dag er lagt til að forsætisráðuneytið hefji endurskoðun á stjórnsýslulögum svo skýrt sé að allar stjórnvaldsákvarðanir megi birta rafrænt og að ekki þurfi að tilgreina slíkt sérstaklega í öðrum lögum.“
    Í umsögn Viðskiptaráðs er tekið í sama streng og bent á að Ísland komi illa út í alþjóðlegum samanburði á innleiðingu tækni í opinberri þjónustu. Á mælikvarða Global Innovation Index fyrir stafvæðingu hins opinbera sé Ísland í 60. sæti af 126 ríkjum, á milli Perú og Bangladesh. Í umsögninni er að finna eftirfarandi mynd sem sýnir stöðu Íslands samanborið við önnur Norðurlönd samkvæmt skýrslunni:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Nefndin telur frumvarp þetta til bóta og mælir með samþykkt þess en tekur jafnframt undir framangreind sjónarmið um að betur megi ef duga skuli. Telur nefndin þá ábendingu réttmæta að hætta sé á að sú leið sem farin er með frumvarpinu, að tiltaka sérstaklega í sérlögum að heimilt sé að senda ákveðnar opinberar tilkynningar rafrænt, veki spurningar um hvort rétt sé að gagnálykta á þá leið að rafræn birting sé óheimil nema hún sé sérstaklega heimiluð. Þetta telur nefndin bagalegt og beinir því til forsætisráðuneytis að fram fari heildræn endurskoðun, m.a. á ákvæðum IX. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um rafræna meðferð stjórnsýslumála, sem miði að því að skýrt verði að rafræn samskipti séu meginreglan en ekki undantekningin, þ.m.t. þegar kemur að álagningu skatta og gjalda.
    Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um álagningu skatta og gjalda (rafræn birting).

    Álfheiður Eymarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 22. nóvember 2018.

Óli Björn Kárason,
form.
Þorsteinn Víglundsson,
frsm.
Bryndís Haraldsdóttir.
Hildur Sverrisdóttir. Ásgerður K. Gylfadóttir. Oddný G. Harðardóttir.
Ólafur Þór Gunnarsson. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.