Ferill 178. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 560  —  178. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr (íslenskukunnátta).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Elísabetu Önnu Jónsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Sigurð Eyþórsson frá Bændasamtökum Íslands, Charlottu Oddsdóttur og Guðbjörgu Þorvarðardóttur frá Dýralæknafélagi Íslands og Sigurborgu Daðadóttur frá Matvælastofnun. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Bændasamtökum Íslands, Dýralæknafélagi Íslands og frá Gunnari Þorkelssyni og Jarle Reiersen.
    Með frumvarpinu er lagt til að fallið verði frá kröfu 5. mgr. 6. gr. gildandi laga um að dýralæknar í opinberri þjónustu hafi vald á íslenskri tungu. Lagt er til í 1. gr. frumvarpsins að heimilt verði að gera kröfu um íslenskukunnáttu í reglugerð ef slík kunnátta er talin nauðsynleg í starfi. Fyrir liggur álit umboðsmanns Alþingis nr. 9510/2017 um að ekki samræmist lögum að Matvælastofnun ráði til starfa eftirlitsdýralækna sem hafa ekki vald á íslensku. Frumvarpið er því lagt fram til að svigrúm verði fyrir hendi til að manna stöður dýralækna án þess að farið sé á svig við lög.
    Við umfjöllun um málið í nefndinni kom fram að nauðsynlegt væri að dýralæknar í opinberum störfum hefðu vald á íslenskri tungu. Einnig var lýst áhyggjum af starfsumhverfi dýralækna hér á landi, að mikið álag væri í störfum þeirra og að ekki nema um helmingur nýútskrifaðra dýralækna erlendis sneri til Íslands til starfa. Einnig var við meðferð málsins vísað til þess að hafin væri heildarendurskoðun laga um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr og að brýnt væri að þeirri vinnu yrði haldið áfram.
    Nefndin tekur undir framangreint og hvetur til þess að þessari vinnu verði hraðað og þar tekið tillit til sjónarmiða sem fram komu í umsögnum við frumvarpið og horft til skýrslu starfshóps um endurskoðun löggjafar um dýrasjúkdóma og dýralækna frá því í október 2017. Hins vegar telur nefndin að Matvælastofnun verði að vera kleift að ráða dýralækna til starfa svo að hún geti sinnt lögbundnu eftirlitshlutverki sínu. Á öðrum sviðum hefur verið þörf fyrir starfsfólk erlendis frá og hefur m.a. landlæknir mat um það þegar starfsleyfi er veitt erlendum heilbrigðisstarfsmönnum hvort krefjast eigi kunnáttu í íslensku.
    Nefndin telur mikilvægt að þeir sem sæta eftirliti skilji mál þeirra sem sinna eftirlitinu og telur nefndin brýnt að vel takist til við að kynna erlendum dýralæknum íslensk lög og reglur líkt og kveðið er á um í ákvæðinu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

    Njáll Trausti Friðbertsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið í samræmi við heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.
    Þorgerður K. Gunnarsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk áliti þessu.


Alþingi, 29. nóvember 2018.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Kolbeinn Óttarsson Proppé,
frsm.
Inga Sæland.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir. Ásmundur Friðriksson.
Njáll Trausti Friðbertsson. Sigurður Páll Jónsson.