Ferill 2. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 638  —  2. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga fyrir árið 2019 (tekjuskattur einstaklinga, persónuafsláttur, barnabætur, vaxtabætur, tryggingagjald).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hlyn Hallgrímsson, Steinar Örn Steinarsson, Ingibjörgu Helgu Helgadóttur og Maríönnu Jónasdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Elínu Ölmu Arthursdóttur og Matthildi Magnúsdóttur frá ríkisskattstjóra, Bergþóru Halldórsdóttur og Ásdísi Kristjánsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Róbert Farestveit frá Alþýðusambandi Íslands og Sigríði Ingólfsdóttur og Sigurjón Unnar Sveinsson frá Öryrkjabandalagi Íslands. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá ríkisskattstjóra, Félagi atvinnurekenda, Hagsmunasamtökum heimilanna, Landssambandi eldri borgara, Öryrkjabandalagi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Seðlabanka Íslands og Viðskiptaráði Íslands.

Persónuafsláttur og skattþrep.
    Í frumvarpinu er lagt til að breyting á fjárhæðarmörkum efra skattþreps taki mið af breytingu vísitölu neysluverðs frá upphafi til loka hvers árs en ekki launavísitölu líkt og gert er samkvæmt gildandi lögum. Með þessu er ætlunin að samræmi sé á milli uppfærslu persónuafsláttar og skattþrepsins en persónuafsláttur tekur breytingum miðað við vísitölu neysluverðs.
    Meiri hlutinn telur æskilegt að stuðst sé við samræmda aðferðafræði við breytingu fjárhæðamarka í tekjuskattskerfinu. Galli breytingartillögu frumvarpsins er hins vegar augljós. Þar sem launavísitala hækkar nær undantekningalaust meira en vísitala neysluverðs færast fleiri skattgreiðendur en áður í efra þrep tekjuskattsins vegna þess að fjárhæðarmörk hækka minna samkvæmt neysluverðsvísitölu en launavísitölu. Stöðugt fleiri einstaklingar með millitekjur greiða því tekjuskatt í efra þrepi og að lokum, að öðru óbreyttu, færist nær allt launafólk í efra þrep tekjuskattsins.
    Með því að miða breytingu fjárhæða, hvort heldur persónuafsláttar eða efra þreps tekjuskatts, við vísitölu neysluverðs en ekki almenna launaþróun, er búið til innbyggt ferli skattahækkana. Hækki persónuafsláttur í takt við verðlag en ekki hækkun launa, leiðir það óhjákvæmilega til þess að skattbyrði allra verður þyngri. Þessi innbyggði skattahækkunarferill er þegar til staðar í gildandi lögum. Breytingin sem lögð er til í frumvarpinu um útreikning fjárhæða efra skattþreps felur í raun í sér að komið er fyrir öðru innbyggðu ferli sem leiðir til þyngri skattbyrði, ekki síst á millitekjuhópa.
    Hækkun persónuafsláttar um 1% umfram lögbundna hækkun í samræmi við vísitölu neysluverðs er jákvæð og vinnur gegn innbyggðum galla tekjuskattskerfisins. Miðað við forsendur fjárlaga ætti persónuafsláttur að hækka úr 53.895 kr. á mánuði í 56.067 kr. eða um rúmlega 4%. Þar með hækka skattleysismörk, að teknu tilliti til 4% iðgjalds í lífeyrissjóð, um 6.125 kr. og verða 158.103 kr. á mánuði.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að lækka tekjuskatt í neðra þrepi til að tryggja farsæla niðurstöðu kjarasamninga. Í fjármálaáætlun 2019-2023, sem samþykkt var á Alþingi 6. júní 2018, kemur fram að unnið sé að heildarendurskoðun á tekjuskattskerfinu samhliða endurskoðun bótakerfa. Við endurskoðunina er haft að leiðarljósi að auka sérstaklega ráðstöfunartekjur lágtekjuhópa og þeirra sem eru með lægri millitekjur. Þessi vinna fer fram í samráði við aðila vinnumarkaðarins.
    Nefndin hefur verið upplýst um að í fjármála- og efnahagsráðuneytinu sé til athugunar að búa til nýtt viðmið fyrir breytingar á persónuafslætti og fjárhæðarmörkum þrepa samhliða endurskoðun tekjuskattskerfisins sem er ekki lokið. Ekki síst í því ljósi telur meiri hlutinn rétt að breyting sú sem kveðið er á um í 1. gr. frumvarpsins verði tímabundin og falli úr gildi 31. desember 2019. Meiri hlutinn undirstrikar mikilvægi þess að við endurskoðun tekjuskattskerfisins sé hugað að því að samræma aðferðafræði um hækkun fjárhæða persónuafsláttar og skattþrepa en um leið koma í veg fyrir innbyggða sjálfkrafa hækkun skattbyrði.

Barnabætur.
    Í frumvarpinu eru lagðar til viðbótarhækkanir á tekjuviðmiðum barnabóta umfram forsendur fjármálaáætlunar. Gert er ráð fyrir að árleg tekjumörk einstæðra foreldra hækki úr 2,9 millj. kr. í 3,6 millj. kr. eða um 29% á milli ára. Tekjumörk hjá hjónum og sambýlisfólki verða tvöfalt hærri, þ.e. fara úr 5,8 millj. kr. á ári í 7,2 millj. kr. Jafnframt verða tekjutengdar barnabætur með hverju barni undir 18 ára aldri hækkaðar um 5%.
    Í frumvarpinu er hert á tekjuskerðingu barnabóta þegar tilteknu tekjumarki er náð til þess að tryggja að hækkun barnabóta gangi ekki upp allan tekjuskalann heldur gagnist fyrst og fremst þeim fjölskyldum sem hafa lægri tekjur. Samkvæmt gildandi lögum er tekjuskerðingarhlutfall barnabóta 4% með einu barni, 6% með tveimur börnum og 8% með þremur börnum eða fleiri þegar tekjurnar fara umfram tekjuskerðingarmörkin. Í frumvarpinu er hins vegar lagt til að skerðingarhlutföllin hækki þegar tilteknum tekjum er náð, þ.e. 5,5 millj. kr. hjá einstæðu foreldri og 11 millj. kr. hjá hjónum og sambýlisfólki, og verði 5,5% með einu barni, 7,5% með tveimur börnum og 9,5% með þremur börnum. Engar breytingar eru lagðar til á skerðingarhlutfalli tekjutengdra barnabóta með börnum yngri en sjö ára sem nú er 4%, en lagt er til að bótafjárhæðin sjálf hækki á sama hátt og aðrar barnabætur um 5%. Heildarútgjöld ríkissjóðs vegna þessara breytinga eru áætluð 12,1 milljarður kr. árið 2019 sem er hækkun um 1,8 milljarð kr. á milli ára. Það svarar til 17,5% hækkunar milli ára, eða um 14% að raungildi.
    Skerðingarmörk barnabóta skv. 3. málsl. 4. mgr. A-liðar 68. gr. tekjuskattslaga taka samkvæmt gildandi lögum mið af þeim fjárhæðum sem þar koma fram, þ.e. án þeirrar þrepaskiptingar sem lögð er til í frumvarpinu. Í umsögn sinni til nefndarinnar benti ríkisskattstjóri á að í samræmi við þá breytingu að skerðingarhlutfallið verði þrepaskipt miðað við tekjur væri nauðsynlegt að skýrt kæmi fram í lagaákvæðinu við hvaða fjárhæðir skyldi miða útreikning á 4% skerðingu viðbótar barnabóta vegna barna yngri en sjö ára. Í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins kemur fram að skerðingarhlutfall tekjutengdra barnabóta með börnum yngri en sjö ára verði áfram 4% óháð tekjum. Nefndin leggur því til að við ákvæðið verði bætt texta þess efnis að skerðingin taki mið af tekjuskattsstofni umfram 7,2 millj. kr. hjá hjónum og umfram 3,6 millj. kr. hjá einstæðu foreldri.

Vaxtabætur.
    Útreikningsreglur vaxtabóta sem tóku gildi í lok árs 2010 áttu að gilda í tvö ár en hafa hins vegar verið framlengdar árlega án breytinga. Unnið er að heildarendurskoðun á húsnæðisstuðningi stjórnvalda í samhengi við tekjuskatt og stuðning við barnafjölskyldur. Í því ljósi er í frumvarpinu lagt til að reglurnar verði framlengdar í eitt ár í viðbót en um leið að nettóeignamörk bótanna hækki um 10% og fjárhæðir hámarksvaxtagjalda og -vaxtabóta um 5%.
    Áætlað er að útgjöld vegna vaxtabóta nemi alls 3,4 milljörðum kr. á næsta ári borið saman við nálægt 3 milljarða kr. á þessu ári. Hækkunin er um 13,3%. Óskertar vaxtabætur fara úr 400 þús. kr. á einstakling í 420 þús. kr., úr 500 þús. kr. á einstætt foreldri í 525 þús. kr. og úr 600 þús. kr. hjá hjónum í 630 þús. kr. Þetta á við ef nettóeign fjölskyldu (heildareignir að frádregnum heildarskuldum) fer ekki fram úr 5,2 millj. kr. hjá einstaklingi og einstæðu foreldri og 8,3 millj. kr. hjá hjónum.
    Frá miðju ári 2014 hefur einstaklingum verið veitt tímabundin heimild til að taka út séreignarlífeyri skattfrjálst til að kaupa íbúðarhúsnæði eða greiða inn á veðlán sem hvílir á viðkomandi húsnæði. Á næsta ári fellur niður almenn heimild íbúðareigenda, að uppfylltum vissum skilyrðum, til að nýta skattfrelsi séreignarsparnaðar með þessum hætti. Einstaklingar sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð njóta þess áfram að geta nýtt séreignarsparnað skattfrjálst. Sá stuðningur er varanlegur og gildir í tíu ár fyrir hvern einstakling að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
    Á árinu 2018 er áætlaður heildarstuðningur í formi skattleysis séreignarsparnaðar um 5,5 milljarðar kr., þar af um 3,5 milljarðar kr. í lægri tekjum fyrir ríkissjóð og rúmlega 2 milljarðar kr. fyrir sveitarfélög í formi lægra útsvars.

Tryggingagjald.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lækkun tryggingagjalds sagt forgangsmál. Í samræmi við það er lagt til í frumvarpinu að almennt tryggingagjald verði lækkað um 0,25% frá 1. janúar 2019 og um 0,25% frá 1. janúar 2020.
    Gert er ráð fyrir að lækkun tryggingagjaldsins leiði til þess að tekjur ríkissjóðs lækki um 4 milljarða kr. á næsta ári og samtals um 8 milljarða kr. árið 2020.
    Meiri hlutinn styður lækkun tryggingagjalds, sem styrkir samkeppnishæfni atvinnulífsins og gefur fyrirtækjum aukið svigrúm í komandi kjarasamningum. Þá ber að fagna því að fyrirsjáanleiki sé aukinn með því að binda strax í lög lækkun gjaldsins árið 2020.

Breytingartillögur meiri hlutans.
    Auk þeirra breytinga sem framar er getið og varða tímabindingu ákvæðis 1. gr. frumvarpsins annars vegar og aukinn skýrleika við útreikning skerðingar barnabóta samkvæmt ábendingu ríkisskattstjóra hins vegar leggur meiri hlutinn til nokkrar breytingar tæknilegs eðlis sem þarfnast ekki útskýringar. Að þessu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingartillögum sem lagðar eru fram í sérstöku skjali.

Alþingi, 6. desember 2018.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Bryndís Haraldsdóttir. Brynjar Níelsson.
Ólafur Þór Gunnarsson. Ásgerður K. Gylfadóttir.