Ferill 68. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 728  —  68. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á þinglýsingalögum, lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu og lögum um aukatekjur ríkissjóðs (rafrænar þinglýsingar).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur, Þorvald Heiðar Þorsteinsson og Guðmund Bjarna Ragnarsson frá dómsmálaráðuneyti, Ástríði Jóhannesdóttur og Ásdísi Höllu Arnardóttur frá Þjóðskrá Íslands, Jón Einarsson frá sýslumanninum á Vesturlandi, Kristínu Þórðardóttur og Lárus Bjarnason frá Sýslumannafélagi Íslands, Gunnar Dofra Ólafsson frá Viðskiptaráði Íslands, Herdísi Björk Brynjarsdóttur frá Íbúðalánasjóði, Tryggva Axelsson frá Neytendastofu, Yngva Örn Kristinsson, Magnús Fannar Sigurhansson og Martein M. Guðgeirsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Bergþóru Sigmundsdóttur og Bryndísi Bachmann frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, Bjarna Stefánsson og Björn Inga Óskarsson frá sýslumanninum á Norðurlandi vestra og Grétar Jónasson og Þóru Birgisdóttur frá Félagi fasteignasala.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Félagi fasteignasala, Íbúðalánasjóði, Neytendastofu, Persónuvernd, Samtökum fjármálafyrirtækja, Sýslumannafélagi Íslands, sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, sýslumanninum á Norðurlandi vestra, sýslumanninum á Vesturlandi, Viðskiptaráði Íslands og Þjóðskrá Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að heimilað verði að þinglýsa réttindum með rafrænni færslu samhliða venjubundinni færslu skjals í þinglýsingabók. Þannig er stefnt að aukinni sjálfvirkni við þinglýsingar.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Nefndin fjallaði um ýmis atriði sem viðkoma málinu, þar á meðal mikilvægi undirbúningsvinnu, en jafnframt mikilvægi þess að stíga skrefið í átt að staðvæðingu þjónustu hins opinbera, skjalavörslu, hugtakanotkun og forgangsáhrif þinglýsingar. Við meðferð málsins var lögð sérstök áhersla á að með frumvarpinu er ekki verið að leggja af fyrri framkvæmd heldur að jafnframt verði heimilt að þinglýsa meginatriðum skjals með rafrænni færslu.

Undirbúningsvinna.
    Fyrir nefndinni var lögð mikil áhersla á að fram færi vandaður og nauðsynlegur undirbúningur og samhliða þeirri vinnu þyrfti ákveðin grunnvinna að eiga sér stað, t.d. er varðar hugbúnað og tengingar við ýmsar skrár og kerfi. Auk þess var bent á mikilvægi þess að sýslumannsembætti ljúki yfirferð kvaða- og misræmisskráningar fasteigna. Þá var kostnaðarmat frumvarpsins gagnrýnt. Á fundum nefndarinnar var bent á að gerðir verði sameiginlegir verkferlar í þinglýsingum fyrir sýslumannsembættin vegna yfirferðar kvaðaskráninga, svo sem skönnun og skráning þeirra, og skráning misræmiseigna. Þá verði verkefnum forgangsraðað og hægt verði að sía út þær eignir sem helst krefjast yfirferðar. Jafnframt breyti innleiðing þinglýsingar með rafrænni færslu ekki þeirri vinnu þar sem færa þarf fasteignir úr gömlu þinglýsingabókunum og spjöldunum og yfir í rafrænar þinglýsingabækur embættanna, en þar er skjölum þinglýst og þau staðfest. Einnig var nefndinni bent á að það yrði aðeins við þinglýsingu fyrstu rafrænnar færslu á blað eignar sem staðfesta þyrfti yfirferð kvaðaskráningar. Eftir það færi færslan sjálfvirkt í gegnum þinglýsingu, að lagaskilyrðum uppfylltum.
    Nefndin tekur undir sjónarmið um nauðsyn þess að innviðir samfélagsins, svo sem sýslumannsembætti, fjármálastofnanir og fasteignasölur, verði í stakk búnir að takast á við verkefni sem þetta. Jafnframt leggur nefndin áherslu á að tryggja sýslumannsembættum fjármagn til að ljúka yfirstandandi yfirferð kvaðaskráningar og skráningu misræmiseigna í rafræna þinglýsingabók. Nefndin áréttar að með frumvarpinu er lögð til heimild til að þinglýsa með rafrænni færslu. Frumvarpið kveður ekki á um skyldu til að hefja slíka framkvæmd frá og með 1. mars 2019. Með hliðsjón af því telur nefndin mikilvægt að nauðsynleg undirbúningsvinna eigi sér stað áður en heimildin verði nýtt og tekur undir mikilvægi þess að verkefnið verði unnið í áföngum en jafnframt þurfi að hafa til hliðsjónar reynslu Dana og Norðmanna í þeim efnum. Til að mæta athugasemdum og tryggja fullnægjandi svigrúm til undirbúnings leggur nefndin því til að lögin taki ekki gildi fyrr en 1. apríl 2019.

Skjalavarsla.
Upplýsingalög.
    Fyrir nefndinni var rætt um vörslu skjala sem rafræn færsla mun byggjast á. Fram komu sjónarmið um rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum, nr. 140/2012, ábyrgð sýslumanna á vörslu skjala og afhendingarskyldu til Þjóðskjalasafnsins, sbr. lög um opinber skjalasöfn, nr. 77/2014, og um aðgengi almennings að heimildarskjölum.
    Í 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga kemur fram að lögin gilda m.a. ekki um þinglýsingu. Nefndin telur að um misskilning sé um að ræða. Þinglýsing felur í sér opinbera skráningu réttinda yfir tilteknum eignum til þess að þau njóti réttarverndar gagnvart þriðja manni. Þar sem um opinbera skráningu er að ræða þarf þess vegna aðgengi að slíkum upplýsingum að vera til staðar.

Lög um opinber skjalasöfn.
    Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga um opinber skjalasöfn teljast sýslumenn afhendingarskyldir aðilar. Hlutverk opinberra skjalasafna er m.a. að taka við og heimta inn skjöl og varðveita þau og önnur gögn frá afhendingarskyldum aðilum sem hafa að geyma upplýsingar sem þýðingu hafa fyrir stjórnsýslu eða hagsmuni og réttindi borgaranna eða hafa sögulegt gildi, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. laganna.
    Nefndin áréttar að þinglýsing er í eðli sínu réttindaskráning en um leið er um að ræða eina af grunnstoðum í viðskiptalífinu. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að í því tilfelli sem um þinglýsingu með rafrænni færslu er að ræða sé ekkert skjal afhent þinglýsingarstjóra heldur er beiðni um þinglýsingu með rafrænni færslu með þeim upplýsingum sem þar á að greina send rafrænt til þinglýsingarstjóra. Samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn bera afhendingarskyldir aðilar aðeins ábyrgð á skjölum sem eru afhent þeim vegna lögmæltra verkefna. Rafræn færsla verður eðli máls samkvæmt aðeins varðveitt rafrænt en ekki á pappír. Nefndin telur mikilvægt að í reglugerð um framkvæmd þinglýsinga með rafrænni færslu komi m.a. fram nánari útfærsla á rafrænni varðveislu þar sem um er að ræða upplýsingar sem hafa þýðingu fyrir hagsmuni og réttindi borgaranna. Þá leggur nefndin áherslu á að undirbúningur fyrir öflun samþykkis Þjóðskjalasafns Íslands fyrir rafrænni skjalavörslu verði lokið áður en heimildarákvæði frumvarpsins um þinglýsingu með rafrænni færslu verði nýtt.

Vistun heimildarskjals.
    Við meðferð málsins fyrir nefndinni var nokkuð rætt um að með frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að heimildarskjal verði vistað hjá þinglýsingarstjóra, hvorki skjalið sem rafræna færslan byggist á né samrit eða afrit skjalsins. Í því samhengi voru álitaefni um aðgengi almennings. Á fundum nefndarinnar kom fram að þar sem um er að ræða þinglýsingu meginatriða skjals með rafrænni færslu fer skjalið sjálft ekki til þinglýsingarstjóra og verður þannig ekki aðgengilegt almenningi. Hins vegar verður tryggt að almenningur getur óskað eftir staðfestingu af færslunni þar sem fram koma upplýsingar um öll atriði sem fylgja henni, svo sem undirskriftir, innsigli, skráð meginatriði o.s.frv. Nefndin áréttar einnig mikilvægi þess að í reglugerð verði kveðið nánar á um hvaða upplýsingar skuli koma fram þegar óskað er eftir staðfestingu af færslunni.

Tvöföld framkvæmd.
    Við meðferð málsins var jafnframt bent á að skjölum verður áfram þinglýst, hvort sem þau verða á pappír eða rafrænu formi, til að framkvæmdin ógni ekki öryggi viðskiptalífsins og skapi hættu á réttaróvissu. Þá sé þinglýsingarvottorð eina staðfestingin á rafrænni færslu. Aftur á móti komu fram sjónarmið um að þinglýsingarvottorð væri ekki eina skjalið sem staðfesti rafræna færslu, enda gætu báðir aðilar sótt færsluna sjálfir og óskað eftir staðfestingu á henni. Færslurnar fá einkvæmt númer og verða því rekjanlegar í þeim stafræna grunni sem verið er að boða með frumvarpinu. Þá er ekki talin þörf á þinglýsingu skjalsins í heild sinni. Nú er þinglýsing tvíþætt, annars vegar opinberun skjals í heild og hins vegar skráning réttinda samkvæmt meginatriðum skjals. Með frumvarpinu er unnt að breyta þessari framkvæmd þannig að með rafrænni færslu er einungis þinglýst réttindum og skyldum samkvæmt skjalinu en fallið verður frá því að opinbera skjalið í heild sinni og skjalið sjálft berst ekki til þinglýsingarstjóra. Viðskiptalífinu er ekki ógnað með þessari breytingu á framkvæmd þinglýsinga og við undirbúninginn var haft samráð við fjármálafyrirtækin.
    Á fundum nefndarinnar komu fram sjónarmið um að frumvarpið gengi ekki nógu langt. Með frumvarpinu sé ekki verið að boða rafrænar þinglýsingar heldur þann möguleika að viðskiptalífið geti slegið inn ákveðnar upplýsingar, þ.e. meginefni skjala. Fram komu sjónarmið um að móta þyrfti heildarstefnu um rafræn viðskipti, rafræna stjórnsýslu og rafræna samninga í íslenskri lagaframkvæmd og gera ráð fyrir notkun slíkra samninga. Einnig var bent á að með frumvarpinu þyrftu fjármálafyrirtæki áfram að gefa út veðskjöl á pappír, auk þess að fylla út rafræna færslu til þinglýsinga. Æskilegt væri að fleiri skref yrðu tekin til þess að mögulegt væri að útgáfa veðskjala yrði einnig rafræn sem og stjórnsýsla tengd þeim. Nefndinni var bent á að frumvarp þetta væri aðeins eitt af mörgum skrefum í innleiðingu rafrænnar stjórnsýslu.
    Nefndin bendir á að með frumvarpinu er ekki verið að leggja af fyrri framkvæmd þinglýsinga en þess í stað er lagt til að einnig verði heimilt að þinglýsa með rafrænni færslu. Í ljósi þess að ákveðna undirbúningsvinnu þarf er því óhjákvæmilegt að fyrst um sinn verði framkvæmdin tvöföld en að því hefur verið stefnt að allt ferlið verði orðið rafrænt við innleiðingu reglugerðar ESB nr. 910/2014 um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti á innri markaðinum eða hina svokölluðu eIDAS-reglugerð. Frumvarp þessa efnis er á þingmálaskrá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og stefnt að framlagningu þess í febrúar 2019. Ólíklegt er því að þinglýsingarferlið verði að fullu orðið rafrænt þegar þau lög taka gildi.
    Hagræðing af rafrænni þinglýsingu verður þó ótvíræð þar sem m.a. verður hægt að stytta biðtímann úr allt að tveimur vikum niður í sekúndur. Nefndin bendir á að gert er ráð fyrir að fyrst um sinn verði hin rafræna þinglýsing bundin við veðskjöl. Í ljósi þess telur nefndin þess vegna nauðsynlegt að leggja til breytingar á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991, svo enginn vafi sé um heimild gerðarbeiðanda til þess að krefjast nauðungarsölu á grundvelli þinglýsingar með rafrænni færslu um veðrétt í eign, sé öðrum lagaskilyrðum fullnægt. Þannig verði tryggt að kröfuhafar nái að fullnusta kröfur sínar eftir að meginatriðum veðskjalsins hefur verið þinglýst með rafrænni færslu. Nefndin tekur fram að sú breytingartillaga hafi ekki áhrif á málsmeðferðina hjá sýslumanni þar sem gerðarbeiðandi muni áfram þurfa að afhenda sýslumanni frumrit veðskuldabréfs, sem rafræna færslan byggist á, sbr. 3. mgr. 11. gr. laga um nauðungarsölu.

Hugtakanotkun.
Þinglýsing með rafrænni færslu.
    Við meðferð málsins var gerð athugasemd við hugtakið „þinglýsing með rafrænni færslu“. Nefndinni var bent á að skv. 1. og 2. mgr. 9. gr. þinglýsingalaga fer þinglýsing þannig fram að meginatriði úr skjali því sem þinglýsa á eru færð í þinglýsingabók, auk dagsetningar dagbókarfærslu. Við þinglýsingu er stöðu skjals breytt úr „dagbókarfært“ í „þinglýst“. Þegar skjal hefur verið fært í þinglýsingabók ritar þinglýsingarstjóri vottorð um þinglýsinguna á eintök skjalsins, sem er þinglýsingarvottorð. Þess í stað ætti að nota hugtakið „rafræn skjöl“ í stað „rafrænnar færslu“. Þá komu fram athugasemdir um að ekki væri gerð krafa um að rafræn færsla þyrfti að standast skilyrði 7. gr. þinglýsingalaga.
    Nefndin áréttar að með frumvarpinu er lagt til heimildarákvæði til að þinglýsa rafrænt meginatriðum skjala og með þeirri framkvæmd verði vikið frá hefðbundinni þinglýsingu, þ.e. þinglýsingu skjala á pappírsformi. Nefndin telur því ekki tilefni til að breyta orðalaginu þar sem ekki stendur til að þinglýsa skjali í heild sinni, heldur aðeins meginatriðum þess með rafrænni færslu. Nefndin leggur þó til orðalagsbreytingar á 10. gr. frumvarpsins til að gæta samræmis við aðrar greinar frumvarpsins þannig að fjallað verði um þinglýsingu „með rafrænni færslu“ frekar en þinglýsingu „á rafrænni færslu“. Nefndin undirstrikar að verið sé að þinglýsa meginatriðum skjalsins skv. 9. gr. laganna með rafrænni færslu. Hvorki er því verið að þinglýsa rafrænni færslu né skjali, heldur að lýsa aðferðinni við þinglýsingu meginatriða skjals sem er gert rafrænt. Þá er ætlunin að tölvukerfið verði forritað í samræmi við þau lagaskilyrði sem gilda fyrir þinglýsingu, þar á meðal 7. gr. þinglýsingalaga.

Rafræn auðkenning og traustþjónusta.
    Á fundum nefndarinnar var nokkuð rætt um mikilvægi þess að notuð væru samræmd hugtök. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að lög um rafrænar undirskriftir, nr. 28/2001, gildi um undirskriftir með rafrænni færslu og fullgildar rafrænar undirskriftir en þeirri löggjöf hafi verið ætlað að innleiða tilskipun Evrópusambandsins nr. 1999/93/EB um rafrænar undirskriftir. Þessari löggjöf hefur verið breytt með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 910/2014 frá 23. júlí 2014 um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti á innri markaðinum (eIDAS-reglugerðin). Reglugerðin hefur víðtækara gildissvið en fyrri tilskipun og fjallar um rafræn auðkenni, innsigli, tímastimplanir o.s.frv. Við gerð frumvarpsins hefur verið litið til þeirrar reglugerðar við útfærslu 2. gr. frumvarpsins enda ljóst að reglugerðin verði leidd í íslenskan rétt á næstu misserum og mun í reynd ákvarða þær tæknilegu kröfur sem gerðar verða við rafræna þinglýsingu skjala. Fyrir liggur að frumvarp til laga um rafræna auðkenningu og traustþjónustu sem mun innleiða reglugerðina verður lagt fram í byrjun árs 2019. Í frumvarpinu er kveðið á um mikilvæg hugtök, svo sem um rafræna undirskrift og rafrænt innsigli.
    Nefndin leggur áherslu á að gæta innra samræmis við hugtakanotkun sem og við eIDAS-reglugerðina. Með hliðsjón af því leggur nefndin til breytingar á 2. gr. frumvarpsins sem miða að því að samræma notkun hugtakanna.

Þinglýsing í viðeigandi umdæmi.
    Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um að koma upp einni rafrænni þinglýsingabók fyrir landið allt þar sem ein sameiginleg tæknilausn yrði notuð í öllum umdæmum. Á móti voru þau sjónarmið að skynsamlegt væri að hafa þinglýsingar áfram hjá hverju embætti fyrir sig, sérstaklega með vísan til þeirrar undirbúningsvinnu sem þarf áður en sjálfvirkar þinglýsingar verða mögulegar fyrir öll skjöl.
    Nefndin tekur fram að þinglýsingarstjórar notast í dag við sama skráningarkerfi þó að umdæmin séu níu. Skráningar fara því í sameiginlegan gagnagrunn en hvert umdæmi hefur sinn rafræna aðgang. Þannig er unnt að skoða ákveðnar upplýsingar milli umdæma en einungis þinglýsa skjölum sem varða eignir innan umdæmis. Nefndin telur frumvarpið ekki gefa tilefni til þess að nauðsynlegt verði að sameina þinglýsingaumdæmin í eitt. Það að umdæmin séu níu hefur engin áhrif á réttarstöðu þinglýsingarbeiðenda, enda er með frumvarpinu lagt til að um verði að ræða sjálfvirka ákvarðanatöku við þinglýsingar þar sem þinglýsing verði framkvæmd á fáeinum sekúndum án mannshandar ef formskilyrðum laga er fullnægt.

Greiðsla fyrir þinglýsingu með rafrænni færslu.
    Á fundum nefndarinnar var bent á að greiðsla fyrir þinglýsingu rafrænna færsla væri háð tæknilausnum hverju sinni og þyrfti því að mæla fyrir um útfærslu hennar í reglugerð. Í 1. mgr. 14. gr. þinglýsingalaga er greiðsla fyrir meðferð skjals gerð að skilyrði fyrir þinglýsingu þess. Þar sem frumvarpið víkur frá fyrri framkvæmd og felur í sér þinglýsingu meginatriða skjals með rafrænni færslu gildi önnur sjónarmið við meðferð þeirra þinglýsingarbeiðna. Lýsing á greiðslufyrirkomulagi í reglugerð muni því takmarkast við þinglýsingu með rafrænni færslu og hafa að geyma sérreglu sem víki frá áskilnaði 1. mgr. 14. gr. laganna.
    Nefndin tekur undir mikilvægi þess að fyrirkomulag um greiðslu verði útfært í reglugerð og leggur til breytingar þess efnis á 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Þá bendir nefndin á mikilvægi þess að í áframhaldandi undirbúningsvinnu verði jafnframt hugað að aðgengi almennings með rafrænum skilríkjum og því hver sjái um slíkt aðgengi að opinberri réttindaskráningu.

Framkvæmd þinglýsinga.
    Með 5. gr. frumvarpsins er eru lagðar til breytingar á 9. gr. þinglýsingalaga sem fjallar um framkvæmd þinglýsinga. Við meðferð málsins var bent á að skýringar í athugasemdum við 5. gr. frumvarpsins væru ekki fyllilega réttar. Þinglýsing skjala á pappírsformi héldist óbreytt enda væru ekki lagðar til breytingar á öðrum ákvæðum laganna þar sem fjallað er um þinglýsingu skjala á pappírsformi.
    Nefndin tekur undir framangreint og áréttar að þinglýsing skjala á pappírsformi helst óbreytt, enda sé ekki verið að breyta öðrum ákvæðum laganna sem mæla fyrir um þá framkvæmd.

Forgangsáhrif.
    Í 8. og 9. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að þinglýsing með rafrænni færslu hafi forgang fram yfir skjöl sem berast á pappír. Einnig miðast forgangsáhrif þinglýsingar við tímastimplun en ekki dagsetningu. Þá er ákvæði um að ef tvö skjöl fá sömu tímastimplun séu þau jafnstæð. Þetta á við um öll pappírsskjöl sem berast sama dag og fá því sömu tímastimplun en tryggt að rafræn þinglýsingafærsla fái einkvæma tímastimplun, þ.e. ekki verði mögulegt að tvær eða fleiri færslur fái sama tímastimpil. Þá er lagt til að forgangsáhrif aðfarargerða og kyrrsetningargerða falli niður.
    Á fundum nefndarinnar var rætt um hvort tímastimplun hafi í för með sér aukinn hvata fyrir þinglýsingarbeiðenda til að velja rafræna þinglýsingu til þess að komast fram fyrir fullnustugerð í veðröðinni. Fram kom að innleiðing rafrænnar þinglýsingar ætti ekki að hafa áhrif á slíkt. Í dag geti þinglýstir eigendur farið þessa leið, enda eigi aðför sér langan aðdraganda og því hafi þinglýstur eigandi rúman tíma til að veðsetja eignina á undan aðfarargerðinni.
    Nefndin telur að breyting á forgangsáhrifum muni ekki leiða til fjölgunar á svokölluðum undanskotsgerningum með hliðsjón af þeirri staðreynd að um slíka gerninga geta gilt ákvæði almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og riftunarreglur samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991.
    Við meðferð málsins var nokkuð fjallað um brottfall forgangsáhrifa aðfarargerða og kyrrsetningargerða. Meginreglan samkvæmt gildandi þinglýsingalögum er sú að ef tvö skjöl eða fleiri eru afhent samdægurs til þinglýsingar eru þau jafnstæð að þinglýsingargildi. Þó ganga aðfarðargerðir og kyrrsetningar fyrir rétti, sem stafar af öðrum atvikum, sbr. 3. og 4. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna. Með e-lið 9. gr. frumvarpsins er lagt til að forgangsáhrif þessara gerða falli niður en frumvarpið gerir enn þá ráð fyrir að ef skjöl um tvær aðfarargerðir (kyrrsetningargerðir) eða fleiri séu afhent samtímis, sé hin elsta þeirra rétthæst, sbr. 5. málsl. 1. mgr. 15. gr. þinglýsingalaga.
    Nefndinni var bent á mögulegt innra misræmi í 9. gr. frumvarpsins, annars vegar að rafræn færsla hafi forgang en hins vegar gildi áfram forgangsáhrif tveggja eða fleiri aðfarargerða sem séu afhentar samtímis. Rétt væri samhliða brottfalli 4. málsl. 1. mgr. 15. gr. þinglýsingalaga að 5. málsl. sama ákvæðis félli brott enda þjóna ákvæðin minni tilgangi eftir að rafrænar þinglýsingar verða komnar á. Nefndin áréttar að fyrst um sinn verði hin rafræna þinglýsing bundin við veðskjöl en áréttar mikilvægi þess að aðfarargerðirnar geti farið jafnóðum í rafræna þinglýsingu. Þar sem ekki liggur fyrir hvenær aðfarargerðum og kyrrsetningum verði hægt að þinglýsa rafrænt telur nefndin þörf á að enn verði kveðið á um forgangsáhrif tveggja slíkra skjala sem afhent eru samtímis.

Vottun rafrænnar undirskriftar.
    Með 10. gr. frumvarpsins er lagt til að rafræn undirritun staðfesti dagsetningu og undirritun en fjárræði verði kannað með rafrænni uppflettingu í skrá yfir lögræðissvipta menn hafi útgefandi náð lögræðisaldri. Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 22. gr. þinglýsingalaga skal votta undirskrift og fjárræði aðila. Á fundum nefndarinnar kom fram ábending um að tengja þyrfti þinglýsingarkerfið við fleiri opinberar skrá, svo sem fyrirtækjaskrá, þjóðskrá og bifreiðaskrá. Þá þyrfti einnig að yfirfæra lögræðisskrár og uppfæra þær reglulega til að hægt yrði að treysta á slíka skráningu. Nauðsynlegt væri að fjalla um fleiri opinberar skrár í frumvarpinu en annars sleppa umfjöllun um lögræðisskrána.
    Ákvæði 22. gr. þinglýsingalaga gerir það að skilyrði fyrir þinglýsingu að vottar staðfesti m.a. fjárræði útgefanda skjals. Með frumvarpinu er miðað við að þegar þinglýst verður með rafrænni færslu verði lögræði útgefenda sannreynt með því að tengja færsluna við skrá yfir lögræðissvipta menn. Nefndin tekur undir að huga þarf að tengingu við fleiri opinberar skrár en þær snúa þó ekki að umræddu ákvæði þinglýsingalaga sem kveður sérstaklega á um lögræði. Nefndin telur því nægja að fjallað verði um tengingar við þær skrár í reglugerð en tekur undir mikilvægi þess að þessar skrár verði uppfærðar reglulega.

Aflýsingar.
    Á fundum nefndarinnar var rætt um mikilvægi þess að kröfuhöfum standi til boða að aflýsa veðbréfi annaðhvort rafrænt eða á pappír. Nefndin bendir á að með frumvarpinu er miðað við að kröfuhafar hafi allt að ári frá gildistöku laganna til að leiðrétta skráningu kröfuhafa. Nefndin leggur þess vegna til að gerðar verði breytingar á 12. gr. frumvarpsins þess efnis að gera það að skilyrði að leiðrétting skráðra kröfuhafa sé afstaðin áður en þinglýstur rétthafi geti gefið út staðfestingu á samþykki til aflýsingar án framvísunar áritaðs frumrits.

Ábyrgð á rangri færslu.
    Við meðferð málsins fyrir nefndinni var fjallað um að kveða þyrfti á um hver beri ábyrgð á rangri færslu í þinglýsingakerfið, þ.e. hvort það væru þinglýsingarbeiðendur sem senda beiðnir rafrænt eða þinglýsingarstjóri. Á fundum nefndarinnar kom fram að forritun tölvukerfisins ætti að koma í veg fyrir mistök. Í greinargerð með frumvarpinu kemur jafnframt fram að tekið hafi verið til athugunar hvort ástæða væri til að gera breytingar á bótaákvæðum VIII. kafla þinglýsingalaga. Niðurstaðan hafi verið sú að þess væri ekki þörf þar sem gildandi ákvæði og almennar reglur skaðabótaréttar væru nægilegar. Nefndin leggur áherslu á að undirbúningur verði vandaður og að tölvukerfið verði með þeim hætti að hægt verði að koma í veg fyrir mistök. Verði gerð mistök þá verði hægt að leiðrétta þau á grundvelli laganna.

Til skoðunar.
    Við meðferð málsins var nefndinni bent á ýmis álitaefni sem þyrfti að huga að áður en heimildin til að þinglýsa með rafrænni færslu yrði nýtt. Þá var nefndinni einnig bent á að tilefni væri til þess að fara í heildarendurskoðun á þinglýsingalögum. Nefndin beinir því til dómsmálaráðuneytisins að fara yfir þau álitaefni sem fram hafa komið í umsögnum um málið og taka tillit til þeirra í undirbúningsvinnunni sem er fram undan og að sú yfirferð verði í samráði við hlutaðeigandi aðila. Í þeirri yfirferð taki ráðuneytið jafnframt til skoðunar hvort endurskoða þurfi þinglýsingalögin, sérstaklega í ljósi þess að stefnan er sú að öll þinglýsing verði rafræn.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 2. gr.
                  a.      Í stað orðanna „með fullgildri rafrænni undirskrift“ í 1. efnismgr. b-liðar komi: með fullgildum rafrænum hætti.
                  b.      Á eftir orðinu „innsigli“ í 2. efnismgr. b-liðar komi: greiðslu.
     2.      Í stað orðsins „rafrænnar“ í 10. gr. komi: með rafrænni.
     3.      Við a-lið 12. gr. bætist: enda hafi skráning kröfuhafa verið leiðrétt, sbr. ákvæði til bráðabirgða II í lögum um aukatekjur ríkissjóðs.
     4.      Við bætist nýr kafli, IV. kafli, Breyting á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991, með síðari breytingum, með einni grein, 19. gr., svohljóðandi:
             Á eftir orðunum „þinglýstum samningi“ í 2. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna kemur: eða rafrænni færslu.
     5.      Í stað dagsetningarinnar „1. mars 2019“ í 19. gr. komi: 1. apríl 2019.

    Guðmundur Ingi Kristinsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 12. desember 2018.

Páll Magnússon,
form., frsm.
Anna Kolbrún Árnadóttir. Birgir Ármannsson.
Guðmundur Andri Thorsson. Helgi Hrafn Gunnarsson. Jón Steindór Valdimarsson.
Steinunn Þóra Árnadóttir. Willum Þór Þórsson.