Ferill 471. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 750  —  471. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nr. 88/1995, með síðari breytingum (starfsmenn þingflokka og aðstoðarmenn formanna stjórnmálaflokka).

Frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helga Bernódusson, skrifstofustjóra Alþingis, og Þórhall Vilhjálmsson, forstöðumann lagaskrifstofu Alþingis.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nr. 88/1995, með síðari breytingum, að því er varðar starfsmenn þingflokka og formanna stjórnmálaflokka. Lagt er til að heimilt verði að ráða starfsmenn fyrir þingflokka eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum hvers árs.
    Frumvarpið er liður í áætlun um að styrkja Alþingi og starf þess. Tilgangur þess er að auka aðstoð við þingmenn og einkum þá sem enga beina aðstoð hafa. Starfsmenn þingflokka munu vinna margvísleg undirbúningsstörf fyrir þingmenn, t.d. við gerð þingmála, aðstoða við gagnaöflun og nefndastörf auk samskipta við aðila utan þings fyrir hönd þingmanna. Með frumvarpinu er lögð áhersla á að þingflokkarnir hafi sem mest frelsi til að ákveða um störf starfsmannanna enda áherslur og þarfir mismunandi eftir þingflokkum.

Réttindi og skyldur.
    Nefndin fjallaði um réttindi og skyldur starfsmanna þingflokka en í frumvarpinu er lagt til að um þá gildi ekki ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, hvað varðar auglýsingu starfs sbr. 7. gr., áminningu, sbr. 21. gr., og starfslok sem rekja má til sakar starfsmanns eða brots í starfi, sbr. 44. og 45. gr. Fyrir nefndinni kom fram að þetta er lagt til vegna séreðlis þeirra starfa sem starfsmenn þingflokka inna af hendi. Gert er ráð fyrir að aðrar reglur starfsmannalaga gildi um réttindi og skyldur þeirra svo sem lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Nefndin tekur fram að um ákvarðanir sem tengjast þessum starfsmönnum og varða starfsskilyrði þeirra, þ.m.t. starfslok, gildi almennar reglur um meðferð opinbers valds, m.a. að gæta þurfi að málefnalegum sjónarmiðum.

    Nefndin telur að frumvarpið sé til þess fallið að styrkja Alþingi og þingmenn í störfum þeirra sem og að vanda vinnubrögð og auka gæði lagasetningar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Alþingi, 13. desember 2018.

Helga Vala Helgadóttir,
form., frsm.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Jón Þór Ólafsson.
Brynjar Níelsson. Jón Steindór Valdimarsson. Kolbeinn Óttarsson Proppé.
Óli Björn Kárason. Þorsteinn Sæmundsson. Þórunn Egilsdóttir.