Ferill 525. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 855  —  525. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2018.


1. Inngangur.
    Af þeim fjölmörgu og margþættu málum sem fjallað var um á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) á árinu 2018 eru nokkur atriði sem Íslandsdeildinni þykja standa upp úr með tilliti til markmiða sambandsins sem eru að vinna að friði og samstarfi meðal þjóða og treysta lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing í sessi.
    Fyrst ber að nefna umræðu um hvernig efla megi hnattrænar lausnir fyrir innflytjendur og flóttamenn. Í ályktun Alþjóðaþingmannasambandsins um efnið var lögð áhersla á að fylgt væri bestu starfsháttum, m.a. hvað varðar aukin fyrirsjáanleg framlög til lengri tíma, og aukna samhæfingu mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu. Auk þess var sjónum beint að konum sem flóttamönnum með áherslu á réttindi þeirra í móttökulandinu og möguleika á atvinnu og aðlögun.
    Á árinu var enn fremur í brennidepli umræða um baráttuna gegn loftslagsbreytingum og ályktaði sambandið um málið. Voru þingmenn hvattir til að beita sér fyrir þjóðarátaki til að berjast gegn hlýnun jarðar og kallað var eftir aðgerðum aðildarríkjanna við að innleiða Parísarsáttmála Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem samþykktur var árið 2016.
    Jafnframt var ályktað um varanlegan frið sem forsendu sjálfbærrar þróunar þar sem sýnt er fram á tengsl milli árangursríkrar innleiðingar á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og varanlegs friðar og að uppbygging sterkra innviða og stofnana eins og þjóðþinga sé þar nauðsynlegur þáttur. Þá var rætt um það hvernig virkja mætti einkageirann til aukinnar þátttöku í innleiðingu þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna með áherslu á endurnýtanlega orku.
    Einnig var almenn umræða um hlutverk þjóðþinga við að stuðla að friði og framþróun á tímum nýsköpunar og tæknivæðingar. Lögð var áhersla á að koma þyrfti í veg fyrir að bilið milli vísinda og stjórnmála héldi áfram að breikka, ekki síst í ljósi þess að stefnumörkun væri í auknum mæli lituð lýðskrumi og tilfinningarökum í stað staðreynda og sannana. Þá var ítrekað rætt um stöðu kvenna í þjóðþingum heims og hvernig auka mætti aðgengi þeirra að þátttöku í stjórnmálum.
    Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar á þingum Alþjóðaþingmannasambandsins árið 2018 má nefna öryggismál í netheimum, útbreiðslu kjarnorkuvopna og aðkomu einkageirans að því að auka endurnýtanlega orkugjafa. Einnig fór fram umræða um tæknivæðingu hergagna og kynferðislegt ofbeldi í friðargæsluverkefnum Sameinuðu þjóðanna. Þá var kynnt skýrsla og niðurstöður viðamikillar rannsóknar IPU og Evrópuráðsþingsins á kynjamismunun, kynbundnu ofbeldi og áreitni gegn konum í þjóðþingum Evrópu. Niðurstöður rannsóknarinnar voru sláandi þar sem 85% þingkvennanna höfðu upplifað einhvers konar kynbundið andlegt ofbeldi á þjóðþingum. Skýrslan er sú fyrsta í röð svæðisbundinna rannsókna sem Alþjóðaþingmannasambandið stendur fyrir um kynbundið ofbeldi og áreitni gagnvart konum í þjóðþingum heims.
    Að lokum ber að nefna mikilvægt starf IPU við að efla lýðræði en mörg aðildarþing sambandsins eru ekki lýðræðislega kjörin og í sumum fer ekkert eiginlegt löggjafarstarf fram. Sem dæmi um slíkt starf árið 2018 má nefna svæðisbundnar málstofur um innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Enn fremur gefur Alþjóðaþingmannasambandið út handbækur og skýrslur fyrir þingmenn til að hjálpa þeim að hafa áhrif í ólíkum málaflokkum. Á árinu 2018 var m.a. gefin út handbók fyrir þingmenn um tjáningarfrelsið.

2. Almennt um IPU.
    Aðild að IPU eiga nú 178 þjóðþing en aukaaðild að sambandinu eiga 12 svæðisbundin þingmannasamtök. Markmið IPU er að stuðla að skoðanaskiptum þingmanna frá öllum heimshornum um alþjóðleg málefni, vinna að friði og samstarfi meðal þjóða og treysta lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing í sessi. Áhersla er lögð á að standa vörð um mannréttindi í heiminum sem eins af grundvallarþáttum lýðræðis og þingræðis. Þá vinnur IPU að styrkingu þjóðþinga og aðstoðar við þróun lýðræðislegra vinnubragða innan þeirra. Sambandið styður starfsemi Sameinuðu þjóðanna og á margvíslegt samstarf við stofnanir þeirra. Höfuðstöðvar sambandsins eru í Genf, en sambandið rekur jafnframt skrifstofu í New York.
    IPU heldur tvö þing á ári, þing að vori sem haldið er í einu af aðildarríkjum sambandsins og þing að hausti sem haldið er í Genf, nema annað sé ákveðið sérstaklega. Auk þess heldur sambandið alþjóðlegar ráðstefnur og málstofur á ári hverju, oft um málefni sem eru efst á baugi hjá Sameinuðu þjóðunum hverju sinni og þá gjarnan í tengslum við tiltekna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þá eru haldnar námsstefnur fyrir þjóðþing sem óska eftir slíku um ýmsa þætti löggjafarstarfsins og eflingu lýðræðis.

    Fjórar fastanefndir starfa innan Alþjóðaþingmannasambandsins:
     1.      nefnd um friðar- og öryggismál,
     2.      nefnd um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál,
     3.      nefnd um lýðræði og mannréttindamál,
     4.      nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna.

    Ráð IPU, sem í eiga sæti þrír fulltrúar frá hverri landsdeild (fulltrúum fækkar í tvo ef í sendinefndinni eru ekki fulltrúar beggja kynja í fleiri en þrjú þing í röð), markar stefnu samtakanna og hefur umsjón með starfi nefnda og vinnuhópa. Á milli funda hefur 17 manna framkvæmdastjórn umsjón með daglegum rekstri samtakanna, undirbýr fundi ráðsins og fylgir eftir ákvörðunum þess. Auk fastanefnda sambandsins skila aðrar nefndir og vinnuhópar sem starfa innan sambandsins skýrslum til ráðsins til afgreiðslu, en um er að ræða nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna, nefnd um mannréttindi þingmanna, nefnd um málefni Miðausturlanda, vinnuhóp um málefni Kýpur, nefnd til að auka virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum, undirbúningsnefnd kvennafundar IPU og vinnuhóp um samstarf kynjanna.
    Nefnd um mannréttindi þingmanna vinnur mikið starf á milli þinga og gefur út skýrslu fyrir hvert þing IPU þar sem fjallað er um brot á mannréttindum þingmanna, hvort sem um er að ræða fangelsun, hótanir, barsmíðar, mannshvarf eða dauðsfall. Nefndin heimsækir viðkomandi ríki, ræðir við málsaðila og aflar gagna. Málum er fylgt eftir, oft árum saman, þar til niðurstaða fæst. Nefndin hefur það að markmiði að styrkja þjóðþing við að tryggja öryggi og friðhelgi þingmanna svo þeir geti sinnt starfi sínu á lýðræðislegan og öruggan hátt. Ráð IPU samþykkir á hverju þingi ályktanir sem grundvallast á skýrslu nefndarinnar.
    Ályktanir IPU eru ekki bindandi fyrir þjóðþing aðildarríkjanna. Þær endurspegla hins vegar umræðu um mikilvæg málefni sem hinar ýmsu þjóðir glíma við. Vegna virkrar þátttöku þingmanna í umræðum á þingum IPU og ólíkra sjónarmiða þeirra hafa alþjóðastofnanir lagt áherslu á að fylgjast vel með ályktunum IPU, enda hefur í þeim iðulega verið bent á nýjar leiðir og hugmyndir að lausn mála.

3. Skipan og starfsemi Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Aðalmenn Íslandsdeildar árið 2018 voru Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Ágúst Ólafur Ágústsson, þingflokki Samfylkingar. Varamenn voru Bergþór Ólason, þingflokki Miðflokks, Helga Vala Helgadóttir, þingflokki Samfylkingar, og Jón Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Arna Gerður Bang var alþjóðaritari deildarinnar. Íslandsdeildin hélt þrjá fundi á árinu 2018 sem voru aðallega undirbúningur fyrir þátttöku í þingum IPU.

4. Fundir IPU 2018.
    IPU heldur tvo þingfundi árlega, vorþing og haustþing. Þá sækir fjöldi IPU-þingmanna árlegan fund IPU sem er haldinn í febrúar í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar. Tveir norrænir samráðsfundir eru haldnir árlega til að fara yfir málefni komandi þings og samræma afstöðu Norðurlanda eins og hægt er. Norðurlöndin skiptast á að fara með formennsku í norræna hópnum og gegndi Svíþjóð formennsku á árinu. Báðir fundirnir voru haldnir í Svíþjóð, sá fyrri 6. mars í Uppsala og sá síðari 20. september í Kiruna. Jafnframt heldur IPU reglulega ráðstefnur og fundi á milli þingfunda.
    Árið 2018 tók Íslandsdeildin þátt í vor- og haustþingi, norrænum samráðsfundum auk þess sem Ágúst Ólafur Ágústsson sótti árlegan fund IPU og Sameinuðu þjóðanna í New York í febrúar. Hér á eftir fylgja í tímaröð frásagnir af fundum sem Íslandsdeildin sótti.

Norrænn samráðsfundur í Uppsölum 9. mars.
    Fyrri norræni samráðsfundurinn var haldinn í Uppsölum 9. mars til undirbúnings þátttöku í 138. vorþingi IPU sem haldið var í Genf 24.–28. mars 2018. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundinn Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Hér á eftir fer stutt yfirlit yfir helstu málefni sem voru til umræðu á fundinum. Krister Örnfjäder, formaður sænsku landsdeildarinnar, stýrði fundinum.
    Fyrsta mál á dagskrá var umræða um niðurstöður haustþings IPU í Pétursborg í október 2017 og annarra ráðstefna og funda sem nefndarmenn höfðu sótt á vegum IPU-þingsins síðustu sex mánuðina. Þá greindi fulltrúi norræna hópsins í framkvæmdastjórn IPU frá áherslum og umræðum framkvæmdastjórnar og stýrihóps tólfplús-hópsins. Þar var m.a. rætt um breytingartillögur sem nýr forseti IPU hefur lagt fram og snúa m.a. að aukinni túlkaþjónustu þar sem túlkað yrði á fleiri tungumál en nú er gert. Það hefði aukinn kostnað í för með sér og höfðu nefndarmenn efasemdir um að aðildarríkin gætu réttlætt slíka hækkun á árgjöldum heima fyrir. Forseti IPU er mjög hlynntur þessum tillögum en andstaða hefur verið við þær í framkvæmdastjórn sambandsins.
    Nefndarmenn voru sammála um mikilvægi þess að norrænu ríkin ættu fulltrúa á sem flestum fundum hjá IPU, ekki síst hjá ungum þingmönnum, en sá umræðuvettvangur er mjög virkur og hefur vaxið á undanförnum misserum. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir tekur þátt í þeim fundum fyrir hönd Íslandsdeildar. Þá kynnti sænski þingmaðurinn Krister Örnfjäder vinnu undirnefndar um fjármál IPU þar sem hann gegnir formennsku. Hann sagði að fjármál IPU hefðu verið eitt aðalumræðuefni stjórnarnefndar tólfplús-hópsins síðustu ár með áherslu á niðurskurð sem hefði gengið eftir að mestu leyti. Örnfjäder gegnir einnig stöðu innri endurskoðanda IPU og greindi frá störfum nefndarinnar.
    Enn fremur var farið yfir helstu umræðuefni haustþingsins og skiptingu þingmanna í fastanefndir. Umræðuefni fastanefndanna eru m.a. hvernig virkja megi einkageirann til aukinnar þátttöku í innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, með áherslu á endurnýtanlega orku, varanlegan frið sem forsendu sjálfbærrar þróunar og hvernig takast eigi á við slaka þátttöku kvenna í stjórnmálum.
    Á vorþingi 2018 var almenn umræða um hvernig styrkja mætti hnattrænar lausnir fyrir innflytjendur og flóttamenn. Magnus Öberg, prófessor í alþjóðastjórnmálafræði við Uppsalaháskóla, hélt erindi um efnið og svaraði spurningum nefndarmanna. Hann sagði að hlutverk þingmanna væri m.a. að bregðast við hatursáróðri og ögrunum, stuðla að friðaruppbyggingu í milliríkjaátökum og stuðla að auknu samstarfi milli þjóðþinga. Þá sagði hann mikilvægt að horfa til frumkvæðis heimamanna við friðargæslu.
    Undir lok fundar bauð formaður sænsku landsdeildarinnar norrænu landsdeildunum til hádegisverðar í Genf mánudaginn 26. mars. Þá bauð hann nefndarmenn velkomna til norræns undirbúningsfundar í september 2018 í Svíþjóð, en Svíþjóð tók við formennsku í norræna hópnum eftir lok haustþingsins í Genf.
    Að lokum var rætt um framtíðarfyrirkomulag norrænu samráðsfundanna sem haldnir hafa verið tvisvar á ári, til skiptis í norrænu ríkjunum, til þess að undirbúa vor- og haustþing IPU. Voru nefndarmenn sammála um að núverandi fyrirkomulag væri ákjósanlegt þar sem fundirnir væru haldnir í höfuðborg eða nágrenni viðkomandi formennskuríkis.

138. þing IPU í Genf 24.–28. mars.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar IPU sóttu fundinn Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður, Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar.
    Helstu mál á dagskrá voru ályktun um varanlegan frið sem forsendu sjálfbærrar þróunar, hvernig virkja mætti einkageirann til aukinnar þátttöku í innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og hvernig byggja mætti upp sjálfbær samfélög. Jafnframt var almenn umræða um hvernig styrkja mætti hnattrænt fyrirkomulag fyrir innflytjendur og flóttamenn.
    Þá fór fram utandagskrárumræða um afleiðingar yfirlýsingar Bandaríkjastjórnar um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraelsríkis og um réttindi Palestínumanna í Jerúsalem í ljósi ályktunar Sameinuðu þjóðanna þar sem þess er krafist að Bandaríkjastjórn dragi til baka ákvörðun sína. Enn fremur var haldinn kvennafundur dagana 24. og 27. mars í tengslum við þingið þar sem m.a. var rætt um stöðu kvenna í þjóðþingum heims. Um 1.500 þátttakendur sóttu þingið, þar af um 740 þingmenn (216 þingkonur) frá 137 ríkjum og 65 þingforsetar.
    Tólfplús-hópurinn, sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja, hittist að venju flesta morgna meðan á þinginu stóð. Á þeim fundum var farið yfir helstu mál þingsins og afstaða sendinefnda samræmd eins og hægt var, en auk þess voru valdir fulltrúar hópsins í embætti og störf á vegum IPU. Fulltrúar tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn og stýrihópum IPU kynntu helstu niðurstöður síðustu funda stjórnarinnar og fundar stjórnarnefndar.
    Sérstök nefnd um mannréttindi þingmanna gegnir veigamiklu hlutverki innan IPU og eru þingmenn kosnir til fimm ára setu í nefndinni. Nefndin gefur út viðamikla skýrslu fyrir hvert þing. Á grundvelli skýrslunnar samþykkir ráð IPU fjölmargar ályktanir um brot á mannréttindum þingmanna. Nefndin vinnur mikið starf á milli þinga þar sem hún fer yfir mál þingmanna sem mannréttindi hafa verið brotin á, hvort sem um er að ræða fangelsun, hótanir, barsmíðar, mannshvarf eða dauðsfall.
    Átta tillögur að neyðarályktun voru lagðar fram við upphaf þingsins. Aðeins er hægt að taka fyrir eitt mál utan dagskrár á hverju þingi samkvæmt reglum IPU. Fyrir valinu varð tillaga um afleiðingar yfirlýsingar Bandaríkjastjórnar um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraelsríkis og um réttindi Palestínumanna í Jerúsalem í ljósi ályktunar Sameinuðu þjóðanna þar sem þess er krafist að Bandaríkjastjórn dragi ákvörðun sína til baka. Í ályktuninni er hafnað hvers konar einhliða ákvörðunum sem ganga gegn ályktunum Sameinuðu þjóðanna og öðrum alþjóðasamningum sem fjalla um málefni Jerúsalem. Jafnframt er alþjóðasamfélagið hvatt til að stuðla að varðveislu sögulegra minja í Jerúsalem. Þá voru málsaðilar hvattir til að endurvekja friðarferlið með það að markmiði að stuðla að tveggja ríkja lausn á grundvelli landamæranna frá árinu 1967. Einnig var lögð áhersla á skuldbindingar IPU til að auðvelda samræður og samstarf þingmanna frá Ísrael og Palestínu, m.a. með störfum nefndar um málefni Mið-Austurlanda. Þá ítrekuðu þingmenn nefndarinnar frá bæði Ísrael og Palestínu stuðning sinn við viðleitni IPU til að koma á varanlegum friði á svæðinu. Líflegar umræður sköpuðust um ályktunina sem endurspeglaði kjarna umræðunnar og var samþykkt.
    Þá var almennt rætt um pólitískt, efnahagslegt og félagslegt ástand í heiminum og var sjónum beint að því hvernig efla mætti hnattrænar lausnir fyrir innflytjendur og flóttamenn. Skoðuð voru tvö ferli sem unnið er samkvæmt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, annars vegar Global Compact for Safe, Orderly and Regular Migration í New York og hins vegar Global Compact for Refugees í Genf. Lögð er áhersla á að fylgja bestu starfsháttum, m.a. hvað varðar aukin fyrirsjáanleg framlög til lengri tíma og aukna samhæfingu mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu. Einnig er lögð áhersla á að horft sé til þess að aðstoð sé kyngreind og að tölulegar upplýsingar liggi fyrir. Mikilvægt er einnig að styðja við þau ríki sem taka á móti miklum fjölda flóttamanna, t.d. Líbanon og Úganda.
    Við lok almennrar umræðu samþykkti þingið yfirlýsingu þar sem helstu áhersluatriði umræðunnar voru dregin saman. Lögð var áhersla á að koma þyrfti í veg fyrir skort á umburðarlyndi, vantraust og ofbeldi. Í yfirlýsingunni er áhersla lögð á aukið gagnsæi, ábyrgð og virðingu fyrir mannréttindum og lögum sem nauðsynlegan grunn fyrir sjálfbær og fjölbreytt samfélög. Þá var lögð áhersla á nauðsyn þess að koma í veg fyrir mismunun og mannréttindabrot vegna trúar eða þjóðaruppruna og skapa grundvöll fyrir fjölmenningarleg samfélög, bæta menntun og styrkja þjóðþing.
    Cuevas Barron, forseti IPU, hélt erindi á lokadegi þingsins þar sem hún fjallaði um mikilvægi þess að aðildarríki IPU hefðu það að sameiginlegu markmiði að efla umburðarlyndi, berjast gegn hatursorðræðu og stuðla að friði. Enn fremur var rætt um málefni Sameinuðu þjóðanna, öryggismál í netheimum, útbreiðslu kjarnorkuvopna og aðkomu einkageirans að því að auka endurnýjanlega orkugjafa.
    Í fastanefndum var fjallað um fyrir fram ákveðin mál. Í 1. nefnd, um frið og alþjóðleg öryggismál, var samþykkt ályktun um varanlegan frið sem forsendu sjálfbærrar þróunar. Ályktunin sýnir fram á tengsl milli árangursríkrar innleiðingar á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og varanlegs friðar. Lögð er áhersla á nauðsyn þess að byggja upp sterka innviði og stofnanir eins og þjóðþing.
    Í 2. nefnd, um sjálfbæra þróun og efnahags- og viðskiptamál, var samþykkt ályktun um hvernig virkja mætti einkageirann við innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, með sérstakri áherslu á endurnýtanlega orku. Í 3. nefnd, um lýðræði og mannréttindi, var rætt um að styrkja samstarf þjóðþinga varðandi innflytjendur og flóttamenn í ljósi innleiðingar Global Compact for Safe, Orderly and Regular Migration hjá Sameinuðu þjóðunum. Þá var rætt um nýtt umræðuefni nefndarinnar er varðar hlutverk þjóðþinga við að binda enda á mismunun á grundvelli kynferðis og kynhneigðar og tryggja virðingu fyrir mannréttindum LGBTI-fólks. Líflegar umræður sköpuðust um efnið og var atkvæðagreiðslu frestað til haustþings IPU í október.
    Ráð IPU kom tvisvar saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Aðildarríki IPU eru nú 178 talsins. Rætt var um fjárhagsáætlun fyrir árin 2018 og 2019 og var hún samþykkt auk þess sem yfirlit yfir skipulagða fundi var kynnt. Nefnd um mannréttindi þingmanna kynnti skýrslur um brot á mannréttindum þingmanna og samþykkti ráðið ályktanir á grundvelli þeirra.

Norrænn samráðsfundur í Kiruna 20. september.
    Síðari norræni samráðsfundurinn var haldinn 22. september í Kiruna til undirbúnings þátttöku í 139. haustþingi IPU í Genf 14.–18. október 2018. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundinn Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar.
    Fyrsta mál á dagskrá var kynning fulltrúa fjármálaskrifstofu IPU á fjárhagsáætlun og fjármögnun IPU. Farið var yfir þróun mála varðandi fjármál IPU síðustu áratugina og greint frá helstu áherslum og breytingum þar að lútandi. Sambandið hefur markvisst dregið úr kostnaði og lækkað árgjöld aðildarríkjanna jafnt og þétt undanfarin ár, í samræmi við kröfur aðildarríkjanna. Þá hefur aukin áhersla verið lögð á frjáls framlög til starfseminnar og hefur Svíþjóð verið þar í fararbroddi.
     Því næst fór fram umræða um niðurstöður vorþings IPU í Genf í mars 2018 og annarra ráðstefna og funda sem nefndarmenn hafa sótt á vegum IPU-þingsins síðustu sex mánuðina. Örnfjäder greindi frá áherslum og umræðum funda stýrihóps tólfplús-hópsins þar sem ítrekað hefur verið fjallað um breytingartillögur sem forseti IPU hefur lagt fram og greidd verða atkvæði um á vorþinginu í Genf. Tólfplús-hópurinn hefur lagt fram athugasemdir við breytingartillögurnar og lýstu fundarmenn yfir stuðningi við þær.
    Norrænu ríkin hafa átt fulltrúa í trúnaðarstörfum í flestum nefndum IPU auk framkvæmdastjórnar undanfarin ár og var mikilvægi þess ítrekað. Sérstaklega var rætt um mikilvægi umræðuvettvangs ungra þingmanna hjá IPU en Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir greindi frá því að allir þrír þingmenn Íslandsdeildar tilheyrðu hópi ungra þingmanna samkvæmt skilgreiningu sambandsins og mundu taka þátt í þeim fundum í tengslum við haustþingið í Genf.
    Þá greindi sænski þingmaðurinn Anti Avsan frá vinnu nefndar um málefni Sameinuðu þjóðanna þar sem hann gegnir formennsku. Nefndin mun m.a. standa fyrir pallborðsumræðum um möguleika í samstarfi þjóðþinga og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) sem leiðandi stofnunar Sameinuðu þjóðanna í heilbrigðismálum í heiminum. Jafnframt kynnti Örnfjäder helstu störf sérstakrar nefndar um fjármál IPU þar sem hann gegnir formennsku. Hann skýrði nefndarmönnum frá tillögum að auknum niðurskurði í starfsemi sambandsins sem lagðar verða fyrir framkvæmdastjórn síðar í mánuðinum. Enn fremur gegnir Örnfjäder stöðu innri endurskoðanda IPU og greindi frá störfum nefndarinnar sem kynnt verða nánar á haustþinginu eftir að framkvæmdastjórn IPU hefur farið yfir niðurstöður nefndarinnar.
    Jafnframt var farið yfir helstu umræðuefni haustþingsins og skiptingu þingmanna í fastanefndir. Umræðuefni fastanefndanna eru m.a. hlutverk frjálsra og óháðra viðskipta og fjárfestinga við að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og hvernig styrkja megi samstarf þjóðþinga varðandi innflytjendur í ljósi innleiðingar samkomulags Sameinuðu þjóðanna um Global Compact for Safe, Orderly and Regular Migration. Einnig verða greidd atkvæði um hvort umræðuefnið um það hvert hlutverk þjóðþinga sé við að binda enda á mismunun á grundvelli kynferðis og kynhneigðar og tryggja virðingu fyrir mannréttindum LGBTI-fólks verði tekið á dagskrá. Líflegar umræður sköpuðust um það hvort málefnið yrði tekið til umræðu hjá 3. fastanefnd IPU um lýðræði og mannréttindi á vorþingi IPU í mars 2018 og tóku fulltrúar allra landfræðihópa til máls og voru skoðanir mjög skiptar. Í kjölfarið var tekin ákvörðun um að fresta atkvæðagreiðslu til haustþings IPU í október. Í millitíðinni hefur landsdeild Írans sent harðort bréf til framkvæmdastjóra IPU þar sem þess er krafist að efnið verið ekki rætt á vettvangi IPU. Framkvæmdastjóri IPU hefur fengið lögfræðing til að skoða málið sem á sér ekki fordæmi hjá sambandinu og verður greint frá niðurstöðum þeirrar athugunar á haustþinginu í Genf. Fundarmenn voru sammála um að norrænu þjóðirnar mundu styðja það að málefnið yrði á dagskrá vorþings IPU sem haldið verður í apríl 2019. Það sé ekki síst mikilvægt í ljósi meginmarkmiða IPU sem er að stuðla að bættum mannréttindum og lýðræði í heiminum. Niðurstaða fundarmanna var að e.t.v. væri rétt að endurskoða tilgang sambandsins ef ekki væri hægt að ræða umdeild mál á þingum Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Jafnframt lagði danski þingmaðurinn Søren Søndergaard til að norrænu landsdeildirnar skrifuðu bréf til forseta IPU þar sem lýst yrði áhyggjum af tæplega fimm ára fangelsisdómi yfir stjórnarandstöðuþingmanninum Selahattin Demirtas í Tyrklandi fyrr í mánuðinum. Enn fremur yrði óskað eftir því að mannréttindanefnd IPU tæki málið til skoðunar. Fundarmenn fögnuðu tillögunni og var ritara sænsku landsdeildarinnar falið að senda drög að bréfi til samþykktar til formanna landsdeilda sem fyrst.
    Undir lok fundar bauð formaður sænsku landsdeildarinnar norrænu landsdeildunum til hádegisfundar í Genf mánudaginn 15. október. Þá greindi hann frá því að ný landsdeild Svíþjóðar tæki við innan skamms í kjölfar þingkosninga í Svíþjóð 9. september 2018. Enn fremur bauð fulltrúi norsku landsdeildarinnar nefndarmenn velkomna til norræns undirbúningsfundar í Noregi 15. mars 2019, en Noregur tekur við formennsku í norræna hópnum eftir lok haustþingsins í Genf.

139. þing IPU í Genf 14.–18. október 2018.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar IPU sóttu fundinn Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður, Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar.
    Helstu mál á dagskrá voru ályktun um hlutverk frjálsra og óháðra viðskipta og fjárfestinga við að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og hvernig styrkja mætti samstarf þjóðþinga varðandi innflytjendur í ljósi innleiðingar samkomulags Sameinuðu þjóðanna um Global Compact for Safe, Orderly and Regular Migration. Jafnframt var almenn umræða um hlutverk þjóðþinga við að stuðla að friði og framþróun á tímum nýsköpunar og tæknivæðingar.
    Þá fór fram utandagskrárumræða um baráttuna gegn loftslagsbreytingum og var samþykkt ályktun á grundvelli hennar. Enn fremur var haldinn kvennafundur dagana 14. og 17. október í tengslum við þingið þar sem m.a. var rætt um konur sem flóttamenn með áherslu á réttindi þeirra í móttökulandinu og möguleika á atvinnu og aðlögun og um það hvernig verja mætti konur sem flytjast búferlum fyrir mansali og ofbeldi. Um 1.500 þátttakendur sóttu þingið, þar af um 750 þingmenn (248 þingkonur eða 33%) frá 149 ríkjum og 58 þingforsetar. Þá var í fyrsta sinn mæld þátttaka ungra þingmanna (undir 45 ára) og voru þeir 143 eða 19%.
    Tólfplús-hópurinn, sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja, hittist að venju flesta morgna meðan á þinginu stóð. Fulltrúar tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn og stýrihópum IPU kynntu helstu niðurstöður síðustu funda stjórnarinnar og fundar stjórnarnefndar.
    Fjórar tillögur að neyðarályktun voru lagðar fram við upphaf þingsins. Fyrir valinu varð tillaga um baráttuna gegn loftslagsbreytingum sem bar yfirskriftina: Loftslagsbreytingar – göngum ekki of langt. Ályktunin fylgdi í kjölfar skýrslu Sameinuðu þjóðanna ( UN Intergovernmental Panel) sem kom út í byrjun október um loftslagsbreytingar. Í skýrslunni er krafist aðkallandi og fordæmislausra breytinga á öllum þáttum samfélagsins eigi að takast að takmarka hlýnun jarðar við 1,5°C.
    Í ályktun IPU eru þingmenn hvattir til að beita sér fyrir þjóðarátaki til að berjast gegn loftslagsbreytingum. Jafnframt er kallað eftir aðgerðum aðildarríkjanna við að innleiða Parísarsáttmála Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem samþykktur var árið 2016 og til einföldunar aðgengis að fjármagni til að berjast gegn hlýnun jarðar. Einnig var lögð áhersla á aukið alþjóðlegt samstarf, ekki síst með láglendum eyríkjum í Kyrrahafi, svo að mögulegt yrði að afstýra verstu afleiðingum loftslagsbreytinga. Líflegar umræður sköpuðust um ályktunina sem endurspeglaði kjarna umræðunnar og var samþykkt.
    Almenn umræða fór fram um pólitískt, efnahagslegt og félagslegt ástand í heiminum og var sjónum beint að hlutverki þjóðþinga við að stuðla að friði og framþróun á tímum nýsköpunar og tæknivæðingar. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir tók þátt í umræðunum fyrir hönd Íslandsdeildar. Hún lagði í ræðu sinni áherslu á mikilvægi jafnréttis og menntunar þegar horft væri til framþróunar í tækni- og nýsköpunarmálum. Það væri nauðsynlegt að bæði kynin hefðu jöfn tækifæri á öllum sviðum samfélagsins og ungt fólk, ekki síst ungar konur, væru hvattar til þátttöku í tækni- og nýsköpunargeiranum. Þá sagði hún nýsköpun og menntun grundvallarþætti í íslensku samfélagi sem ásamt rannsóknum og tækniþróun væru lyftistöng fyrir efnahagsvöxt landsins, ykju lífsgæði og gegndu lykilhlutverki við að skapa fjölbreyttan atvinnumarkað. Við lok almennrar umræðu samþykkti þingið yfirlýsingu þar sem helstu áhersluatriði umræðunnar voru dregin saman. Lögð var áhersla á að koma þyrfti í veg fyrir að bilið milli vísinda og stjórnmála héldi áfram að breikka, ekki síst í ljósi þess að stefnumörkun væri í auknu mæli lituð lýðskrumi og tilfinningarökum í stað staðreynda og sannana.
    Enn fremur var kynnt skýrsla og niðurstöður viðamikillar rannsóknar IPU og Evrópuráðsþingsins á kynjamismunun, kynbundnu ofbeldi og áreitni gegn konum í þjóðþingum Evrópu. Niðurstöður rannsóknarinnar voru sláandi þar sem 85% þingkvennanna höfðu upplifað einhvers konar kynbundið andlegt ofbeldi á þjóðþingum. Þá eru þingkonur undir 40 ára líklegri til að verða fyrir áreiti og kvenkyns starfsmenn þinga verða frekar fyrir kynferðislegu ofbeldi en þingkonur. Þá er í meiri hluta þjóðþinga ekki farvegur fyrir konur til þess að tjá sig um ofbeldið. Skýrslan er sú fyrsta í röð svæðisbundinna rannsókna sem IPU stendur fyrir um kynbundið ofbeldi og áreitni gagnvart konum í þjóðþingum heims. Hún byggist á víðtækum viðtölum við 123 konur frá 45 Evrópuríkjum, þar af var 81 þingkona og 42 voru starfsmenn þjóðþinga.
    Í fastanefndum var fjallað um fyrir fram ákveðin mál. Í 1. nefnd, um frið og alþjóðleg öryggismál, var umræða um afvopnunarmál og tæknivæðingu hergagna og um kynferðislegt ofbeldi í friðargæsluverkefnum Sameinuðu þjóðanna. Í 2. nefnd, um sjálfbæra þróun og efnahags- og viðskiptamál, fór fram umræða um hlutverk frjálsra og óháðra viðskipta og fjárfestinga til að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna með áherslu á að virkja einkageirann við innleiðingu þeirra. Í 3. nefnd, um lýðræði og mannréttindi, var samþykkt ályktun um að styrkja samstarf þjóðþinga í málefnum innflytjenda í ljósi innleiðingar sáttmála Sameinuðu þjóðanna, Global Compact for Safe, Orderly and Regular Migration.
    Þá voru greidd um það atkvæði á þingfundi hvort fara mætti fram umræða um hlutverk þjóðþinga við að binda enda á mismunun á grundvelli kynferðis og kynhneigðar og tryggja virðingu fyrir mannréttindum LGBTI-fólks. Tekið var fram að ekki yrði ályktað um málið heldur færu aðeins fram pallborðsumræður. Heitar umræður höfðu orðið um það hvort taka mætti málið á dagskrá nefndar um lýðræði og mannréttindi á vorþingi IPU í mars 2018 sem lauk með því að málinu var vísað til þingfundar til atkvæðagreiðslu. Tillagan var felld í atkvæðagreiðslunni með 636 atkvæðum gegn 499. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir greiddi fyrir hönd Íslandsdeildar atkvæði með tillögunni, ásamt flestum ríkjum Evrópu.
    Ráð IPU kom tvisvar saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Rætt var um fjárhagsáætlun fyrir árin 2018 og 2019 og var hún samþykkt auk þess sem yfirlit yfir skipulagða fundi var kynnt. Nefnd um mannréttindi þingmanna kynnti skýrslur um brot á mannréttindum 295 þingmanna í 13 löndum og samþykkti ráðið ályktanir á grundvelli þeirra. Þá gaf IPU út handbók fyrir þingmenn um tjáningarfrelsið. Næsta þing IPU verður haldið í Doha, höfuðborg Katar 6.–10. apríl 2019.

5. Ályktanir og yfirlýsingar IPU árið 2018.
    Ályktanir 138. þings IPU vörðuðu eftirfarandi efni:
     *      Varanlegan frið sem forsendu sjálfbærrar þróunar.
     *      Hvernig virkja megi einkageirann til aukinnar þátttöku í innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
     *      Afleiðingar yfirlýsingar Bandaríkjastjórnar um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraelsríkis og um réttindi Palestínumanna í Jerúsalem í ljósi ályktunar og sáttmála Sameinuðu þjóðanna.

    Yfirlýsing 138. þings IPU:
     *      Um hvernig styrkja megi hnattrænar lausnir fyrir innflytjendur og flóttamenn.

    Ályktanir 139. þings IPU vörðuðu eftirfarandi efni:
     *      Hvernig styrkja megi samstarf þjóðþinga varðandi innflytjendur í ljósi innleiðingar sáttmála Sameinuðu þjóðanna um Global Compact for Safe, Orderly and Regular Migration.
     *      Loftslagsbreytingar – göngum ekki of langt.

    Yfirlýsing 139. þings IPU:
     *      Í tilefni af 70 ára afmæli mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna.

Alþingi, 29. janúar 2019.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.