Ferill 486. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1015  —  486. mál.
3. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og lögum um gjaldeyrismál (aflandskrónulosun og bindingarskylda á fjármagnsinnstreymi).

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Málið felur í sér algjört og endanlegt fráhvarf frá aðgerðaáætlun stjórnvalda frá árinu 2015 um losun hafta og endurreisn efnahagslífsins. Sú áætlun byggðist á þremur meginstoðum sem ráðast skyldi í sem eina heild þar sem allir legðu sitt af mörkum til endurreisnarinnar. Ein stoðanna þriggja var lausn aflandskrónuvandans. Sá hluti hefur enn ekki verið kláraður og áform stjórnvalda nú ganga þvert á þá lausn sem unnið var að. Grundvallaratriði varðandi þann þátt var að leggja fram afgerandi lausn sem væri varanleg og myndaði sterkan hvata til að taka þátt í lausninni með því að leggja sitt af mörkum. Það að sitja hjá og taka ekki þátt í lausninni væri ótækur valkostur. Þannig yrði sams konar aðferðafræði beitt og í tilviki slitabúanna, en þó sniðinni að eðli aflandskrónuvandans.
    Frá því vorið 2016 hefur verið vikið frá áætluninni skref fyrir skref. Brugðist hefur verið við andstöðu aflandskrónueigenda með eftirgjöf sem hefur kallað á enn frekari kröfur um eftirgjöf sem fylgt hefur verið eftir með hótunum um lögsóknir. Lagalegar aðgerðir aflandskrónueigenda, m.a. kvartanir til Eftirlitsstofnunar EFTA, skiluðu þeim ekki árangri heldur staðfestu þvert á móti lagalegan rétt íslenska ríkisins og getu til að leiða mál til lykta á þann hátt sem áformað var samkvæmt upprunalegum áætlunum. Engu síður hélt eftirgjöf áfram og verður nú algjör með einhliða afléttingu hafta af þeim sem hafa ekki samþykkt að taka þátt í neinni þeirra lausna sem boðist hafa til þessa. Með þessu móti koma þeir aðilar sem fyrstir voru reiðubúnir til að taka þátt í aðgerðum stjórnvalda að jafnaði verr út en þeir sem sýndu engan samstarfsvilja. Það gengur þvert gegn því sem lagt var upp með.
    Grundvallaratriði í aðgerðaáætlun sem kynnt var 2015 var að eitt yrði látið yfir alla ganga og komið í veg fyrir að „eftirlegukindur“ neituðu að taka þátt í aðgerðunum en nytu ágóðans af árangrinum. Með frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar og breytingum á áformum frá því vorið 2016 er horfið frá því.
    Rök um að efnahagsástandið nú sé það gott að það réttlæti ekki aðgerðir sambærilegar þeim sem lagt var upp með 2015 eða 2016 standast ekki enda eru horfur í efnahagsmálum nú ekki eins góðar og 2016. Einnig eru slík rök í andstöðu við þá staðreynd að þegar heildaraðgerðin var kynnt var markmiðið augljóslega að efnahagsástand mundi lagast hratt og því lá fyrir, út frá jafnræðissjónarmiðum, að kröfurnar til allra þyrftu að byggjast á ástandinu sem verið væri að bregðast við í upphafi en ekki þeirri stöðu sem stefnt var að því að ná.
    Árangur heildaraðgerðanna framan af var einstakur á heimsvísu. Ekkert ríki hefur náð eins miklum og hröðum efnahagslegum viðsnúningi, a.m.k. ekki í seinni tíð, og Ísland gerði vegna umræddra aðgerða. Það sætir því furðu að stjórnvöld skuli hafa horfið frá því að ljúka aðgerðunum samkvæmt áætlun. Raunar hefur þeim verið snúið upp í andhverfu sína með því að verðlauna þá sem harðast hafa streist á móti aðgerðum stjórnvalda. Með því frumvarpi sem nú er til umræðu er eftirgjöf stjórnvalda fullkomnuð með einhliða afléttingu hafta af þeim sem hafa ekki verið reiðubúnir til að leggja neitt af mörkum við haftalosunina líkt og áður segir. Margítrekuð eftirgjöf stjórnvalda gagnvart vogunarsjóðunum sætir furðu, ekki síst í ljósi framgöngu þeirra undanfarin ár. Skemmst er að minnast þess þegar áróðursmenn aflandskrónueigenda reyndu að hafa áhrif á niðurstöðu Alþingiskosninga, m.a. með blaðaauglýsingum.
    Eftirgjöfin sem felst í frumvarpinu nú nemur hæglega tugum milljarða króna miðað við það sem þeir aðilar sem eftir standa hefðu þurft að greiða í álag samkvæmt upprunalegum áformum og miðað við það sem lagt var á aðra sem þó reyndust viljugri til samstarfs við íslensk stjórnvöld. Í mati Ásgeirs Jónssonar hagfræðings og Hersis Sigurgeirssonar stærðfræðings á uppgjöri bankahrunsins kemur fram að ef aðgerðir vegna losunar aflandskróna hefðu gengið eftir eins og þær voru kynntar 2016 hefðu þær skilað 86 milljörðum kr. í ríkissjóð.
    Að lokum skal tekið fram að áformin sem kynnt eru með þessu frumvarpi eru til þess fallin að rýra trúverðugleika íslenskra stjórnvalda og sýna fram á að hægt sé að knýja þau til að hverfa frá yfirlýstri stefnu sinni. Að mati minni hlutans er það hættulegt fordæmi.

Alþingi, 28. febrúar 2019.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.