Ferill 638. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1044  —  638. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um bindandi álit í skattamálum, nr. 91/1998, með síðari breytingum (gildistími útgefinna álita, hækkun gjalds).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



1. gr.

    Orðin „og viðkomandi skattyfirvalds“ í 1. málsl. 4. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      1. málsl. orðast svo: Ríkisskattstjóri skal leggja bindandi álit til grundvallar skattlagningu álitsbeiðanda.
     b.      Við bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Gildistími bindandi álita sem ríkisskattstjóri gefur út skv. 4. gr. er fimm ár. Hafi álitsbeiðandi ekki gert ráðstafanir sem fjallað er um í álitinu innan þess tíma fellur það niður.

3. gr.

    Í stað „75.000 kr.“ í 2. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna kemur: 150.000 kr.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í samráði við ríkisskattstjóra. Það hefur að geyma tillögur að breytingum á lögum um bindandi álit í skattamálum sem í fyrsta lagi fela í sér tillögu að ákveðnum gildistíma útgefinna álita og í öðru lagi nauðsynlega verðlagshækkun á gjaldi sem greiða þarf fyrir gerð slíkra álita. Að auki eru lagðar til nokkrar lagfæringar sem tengjast breytingu á skattkerfinu árið 2009 þegar landið var gert að einu skattumdæmi.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni frumvarpsins er að hækka þarf gjald fyrir bindandi álit sem hefur verið óbreytt frá desember 2009. Þá er gengið út frá því í lögunum að bindandi álit séu almennt ótímabundin en slíkt getur verið óheppilegt ef langur tími líður frá því að óskað er eftir bindandi áliti þar til af skattalegum ráðstöfunum verður. Breytingar á forsendum geta átt sér stað án þess að upp komi þau tilvik sem talin eru upp í lögunum. Að auki er talið nauðsynlegt að laga nokkur ákvæði laganna að breyttu skattkerfi.

3. Meginefni frumvarpsins.

    Frumvarpið felur í sér breytingar á núgildandi lögum um bindandi álit í skattamálum. Breytingarnar má flokka í þrennt. Þær taka til eftirfarandi atriða.
     1.      Lagt er til að gildistími útgefinna bindandi álita verði fimm ár. Í gildandi lögum er gengið út frá því að bindandi álit sem ríkisskattstjóri gefur út séu almennt ótímabundin. Slíkt getur verið óheppilegt ef langur tími líður frá því að álit er gefið út og þar til verður af skattalegum ráðstöfunum sem felast í álitinu. Kemur þessi takmörkun til viðbótar við takmarkanir sem er að finna í lögunum. Nú þegar er gert ráð fyrir því að álit sé ekki bindandi fyrir skattyfirvöld hafi málsatvik sem álitið byggist á breyst. Sama gildir ef lögum hefur verið breytt áður en ráðstöfun er gerð. Sú lagabreyting tekur til atriða sem álitið byggist á. Hins vegar geta forsendur breyst að öðru leyti, svo sem með dómaframkvæmd. Við gerð frumvarps sem varð að lögum um bindandi álit í skattamálum var að mestu litið til danskrar fyrirmyndar frá árinu 1982. Nú hafa dönsku lögin að geyma ákvæði sem kveður á um fimm ára gildistíma frá því að álitsbeiðandi fékk bindandi álit. Samsvarandi ákvæði gilda í ýmsum öðrum ríkjum Evrópu, t.d. í Finnlandi, Frakklandi, Hollandi og Þýskalandi.
     2.      Lögð er til hækkun á gjaldi fyrir beiðni um bindandi álit en gjaldið hefur verið óbreytt frá desember 2009. Frá upphafi hefur verið talið nauðsynlegt að gjaldtakan standi straum af kostnaði sem ríkisskattstjóri hefur af gerð slíkra álita. Álitaefni þau sem undir eru í beiðnum um gerð bindandi álita eru oft og tíðum flókin og umfangsmikil og tímafrekt að vinna þau. Hækkunin sem lögð er til í frumvarpinu tekur mið af launavísitölu en eðlilegast þykir að miða við hana þegar gjald byggist á vinnuframlagi starfsmanna.
     3.      Lagðar eru til tvær breytingar á orðalagi sem taka mið af þeirri skattkerfisbreytingu sem hrundið var í framkvæmd með lögum nr. 136/2009, um breytingum á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, en þá var landið gert að einu skattumdæmi.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að það stangist á við stjórnarskrá.

5. Samráð.
    Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu en við vinnslu þess var haft samráð við embætti ríkisskattstjóra. Áform um lagasetninguna voru kynnt á vettvangi ráðuneytisstjóra og í opinni samráðsgátt stjórnvalda 11.–25. janúar 2019. Þá voru drög að frumvarpinu kynnt í samráðsgáttinni 31. janúar – 14. febrúar 2019. Umsögn barst frá Samtökum atvinnulífsins þar sem lagt er til að heimilt verði að framlengja gildistíma bindandi álits í skattamálum.

6. Mat á áhrifum.
    Lagabreytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu munu ekki hafa teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að niðurlag 1. málsl. 4. gr. verði fellt á brott þar sem landið er nú eitt skattumdæmi.

Um 2. gr.

    Í a-lið er kveðið á um að 1. málsl. 6. gr. verði felldur brott og nýr málsliður komi í staðinn sem tekur mið af því að landið er nú eitt skattumdæmi.
    Í b-lið er kveðið á um að gildistími bindandi álita verði tímabundinn og að álitin falli niður að tilteknum tíma loknum fari álitsbeiðandi ekki í þær ráðstafanir sem álitið tekur til.

Um 3. gr.

    Lögð er til hækkun á grunngjaldi fyrir bindandi álit í skattamálum.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.