Ferill 685. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1104  —  685. mál.




Beiðni um skýrslu


frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um nýtingu og vistfræðilega þýðingu loðnustofnsins 2000–2019.

Frá Ingu Sæland, Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, Birni Leví Gunnarssyni, Einari Kárasyni, Guðjóni S. Brjánssyni, Guðmundi Andra Thorssyni, Guðmundi Inga Kristinssyni, Halldóru Mogensen, Helgu Völu Helgadóttur, Hönnu Katrínu Friðriksson, Jóni Þór Ólafssyni, Jóni Steindóri Valdimarssyni, Loga Einarssyni, Oddnýju G. Harðardóttur, Smára McCarthy, Söru Elísu Þórðardóttur og Þorsteini Víglundssyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra flytji Alþingi skýrslu um nýtingu og vistfræðilega þýðingu loðnustofnsins 2000–2019. Í skýrslunni komi m.a. fram eftirfarandi upplýsingar:
     1.      Heildarloðnuveiðar á tímabilinu, sundurliðaðar eftir veiðiþjóðum, árum og mánuðum.
     2.      Loðnuafli eftir veiðarfærum (nót og flotvörpu) á tímabilinu, sundurliðaður eftir veiðiþjóðum, árum og mánuðum.
     3.      Útgefinn loðnukvóti ár hvert, bæði í heild og hvernig hann skiptist milli þjóða.
     4.      Ráðlagður heildarloðnuafli ár hvert. Með fylgi þær dagsetningar er sú ráðgjöf lá fyrir.
     5.      Kort sem sýni hvar loðna var veidd, annars vegar með flotvörpu og hins vegar í nót, eftir árum.
     6.      Fjöldi skipa, innlendra og erlendra, sem stunduðu loðnuveiðar í íslenskri lögsögu, flokkaður eftir árum og þjóðum.
     7.      Magn loðnu sem landað var á tímabilinu, flokkað eftir árum, mánuðum og höfnum hér á landi.
     8.      Skrá yfir leitar- og loðnumælingarleiðangra, sem farnir voru á vegum Hafrannsóknastofnunar á tímabilinu, sundurliðuð eftir árum. Henni fylgi kort með leiðarlínum skipa, þéttleikakort loðnunnar samkvæmt niðurstöðum mælinga og samantekt á áætluðum stofnstærðum í leiðöngrum hverju sinni.
     9.      Magn loðnu sem fór til frystingar, hrognatöku og í bræðslu hér á landi eftir árum.
     10.      Útflutningsverðmæti loðnuafurða eftir árum, flokkað eftir afurðum (fryst loðna, hrogn, mjöl og lýsi).
     11.      Magn loðnuafurða og útflutningsverðmæti, flokkað eftir árum og löndum sem flutt var út til.
     12.      Hlutfall heildarverðmætis loðnuafurða af heildarverðmæti sjávarafurða sem fluttar voru út frá Íslandi, flokkað eftir árum.
     13.      Stutt greinargerð um framtíðarhorfur í þróun stofnstærðar loðnustofnsins út frá því sem vitað er um stærð árganga.
     14.      Stutt greinargerð um tengsl loðnu og þorsks við Ísland. Einkum verði rætt hvort greina megi vísbendingar um tengsl milli breytinga í meðalþyngd þorsks og magns loðnu á grunnslóðinni ár hvert við Ísland.
     15.      Stutt greinargerð um tengsl loðnu og stórhvala, einkum hnúfubaks, í hafinu norður af Íslandi. Einkum verði rætt um þróun í fjölda hvala á uppvaxtar- og ætisslóðum loðnu norður í Dumbshafi og um afrán hvala á loðnustofninum.
     16.      Stutt greinargerð um tengsl loðnu og sjófugla við Ísland.
     17.      Stutt greinargerð um hugsanleg áhrif hlýnunar sjávar á vöxt, göngur og útbreiðslu loðnu við Ísland og í hafinu norður af landinu.

Greinargerð.

    Ört dvínandi vonir eru nú um að nokkuð verði úr loðnuvertíð. Þrátt fyrir umfangsmikla leit á stórum hafsvæðum hefur Hafrannsóknastofnun ekki tekist að finna og mæla nægilega mikið af loðnu til að heimila loðnuveiðar. Einungis hafa verið mæld rúm 200.000 tonn.
    Um langan aldur hefur aflaregla loðnu verið sú að aldrei megi veiða meira en svo að um 400.000 tonn af kynþroska loðnu séu skilin eftir til hrygningar. Ljóst er að menn eru víðs fjarri því að finna nægilega mikið af loðnu til að veiðar verði heimilaðar og litlar vonir til að meira finnist úr því sem komið er. Vísbendingar eru um að loðnustofninn hafi átt erfitt uppdráttar um nokkurra ára skeið. Þar eru aflatölur skýrasta vitnið og sýna að þessi kreppa hófst upp úr aldamótum.
    Niðursveifla loðnustofnsins og jafnvel hrun hans eru reiðarslag fyrir hag þjóðarinnar. Samkvæmt nýlegri úttekt hagfræðideildar Landsbankans frá 21. febrúar 2019 er loðnan næstmikilvægasta útflutningsfisktegundin á eftir þorski og hefur verið það frá 2012. * Í fyrra var útflutningsverðmæti loðnuafurða alls 17,8 milljarðar kr. Árlegt útflutningsverðmæti loðnu var að meðaltali 23,2 milljarðar kr. árin 2012–2018. Þetta voru um 9,4% af heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða á tímabilinu.
    Loðnubrestur mun þannig hafa töluverð neikvæð áhrif á landsframleiðslu þjóðarinnar og þar með tekjur fjölda fólks, bæði sjómanna og þeirra sem starfa við vinnslu. Auk þess verða ríki, sveitarfélög og fyrirtæki í sjávarútvegi fyrir miklum tekjumissi.
    Af framansögðu er ljóst að loðnan skiptir miklu máli fyrir efnahag þjóðarinnar mælt í beinum tekjum af loðnuveiðum. Annað, og ekki síður mikilvægt, er þýðing loðnunnar fyrir vistkerfi náttúru Íslands, bæði sjófugla en ekki síður lífríkið í hafinu. Langvarandi niðursveifla og mögulegt brotthvarf loðnu af Íslandsmiðum er því mikið áhyggjuefni út frá náttúrufarslegum sjónarmiðum.
    Með þessari skýrslubeiðni er farið fram á að Alþingi fái í greinargóðri samantekt upplýsingar um veigamikla þætti í nýtingu loðnu á Íslandsmiðum frá síðustu aldamótum og um framtíðarhorfur. Um leið er kallað eftir upplýsingum um vistfræðileg tengsl loðnu við þorskstofninn, stórhveli og sjófugla, sem og um hugsanleg áhrif vegna hlýnunar sjávar.
*     umraedan.landsbankinn.is/Uploads/Documents/Hagsja/2019-02-21-lodnuveidar-2018.pdf