Ferill 600. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1197  —  600. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni um ábyrgð á vernd barna gegn einelti.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða aðilar sem heyra undir ráðherra bera ábyrgð á því að börn verði ekki fyrir einelti í ljósi þess að ráðherra fer með jafnréttismál og málefni umboðsmanns barna, auk þess sem hann ber ábyrgð á stjórnskipan Stjórnarráðs Íslands í heild, sbr. 1. gr. forsetaúrskurðar nr. 119/2018? Óskað er eftir því að tilgreindir verði allir aðilar sem bera ábyrgð á því að koma í veg fyrir einelti og vernda þolendur þess, hvernig ábyrgð þeirra skiptist og samkvæmt hvaða lögum og reglum sú ábyrgð hvílir á þeim.

Umboðsmaður barna.
    Umboðsmaður barna starfar samkvæmt lögum nr. 83/1994. Samkvæmt 1. gr. laganna hefur embættið það hlutverk að bæta hag barna og standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi þeirra, m.a. samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og fleiri alþjóðasamningum, sem nánar greinir í lögunum. Umboðsmaður barna er í störfum sínum óháður fyrirmælum frá öðrum, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laganna tekur umboðsmaður barna ekki til meðferðar ágreining milli einstaklinga en ber að leiðbeina þeim sem til hans leita með slík mál um leiðir sem færar eru innan stjórnsýslu og hjá dómstólum. Verkefni umboðsmanns barna eru nánar skilgreind í 3. gr. laganna en samkvæmt 1. mgr. þess ákvæðis skal hann vinna að því að stjórnvöld, einstaklingar, félög og önnur samtök einstaklinga og fyrirsvarsmenn lögpersóna taki fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna barna. Þá skal umboðsmaður barna jafnframt setja fram ábendingar og tillögur um úrbætur sem snerta hag barna á öllum sviðum samfélagsins og eru eineltismál þar meðtalin.
    
Jafnréttisstofa og kærunefnd jafnréttismála.
    Jafnréttisstofa starfar samkvæmt lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. einnig lög nr. 85/2018, um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.
    Samkvæmt 1. gr. laga nr. 10/2008, er markmið þeirra að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Allir einstaklingar skulu eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni. Í 22. gr. laganna er fjallað um skyldur atvinnurekenda og yfirmanna stofnana og félagasamtaka til að gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað, stofnun, í félagsstarfi eða skólum. Í 23. gr. laganna er fjallað um menntun og skólastarf en þar er fjallað um kynjasamþættingu sem gæta skal við alla stefnumótun og áætlanagerð, fræðslu um jafnréttismál, um að kennslu- og námsgögn skulu þannig úr garði gerð að kynjum sé ekki mismunað. Í 28. gr. laganna er kveðið á um að í skólum og öðrum mennta- og uppeldisstofnunum sé hvers konar mismunun á grundvelli kyns óheimil og að skylt sé að gæta þessa í námi og kennslu, starfsháttum og daglegri umgengni við nemendur.
    Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2018, er hvers kyns mismunun vegna kynþáttar eða þjóðernisuppruna óheimil í skólum og öðrum mennta- og uppeldisstofnunum. Skylt er að gæta þess í námi, kennslu, starfsháttum og daglegri umgengni við nemendur.
    Einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök í eigin nafni eða fyrir hönd félagsmanna sem telja að ákvæði laganna hafi verið brotin gegn sér geta leitað atbeina kærunefndar jafnréttismála sbr. 6. gr. laga nr. 10/2008 og 6. gr. laga nr. 85/2018.
    Birtingarmynd eineltis getur falist í mismunun og getur með þeim hætti m.a. reynt á hlutverk Jafnréttisstofu og kærunefndar jafnréttismála í eineltismálum.

Önnur stjórnvöld.
    Einelti og vernd barna gegn slíku atferli snertir málefnasvið margra ráðuneyta og stofnana og ekki síður málefna- og verkefnasvið sem eru á ábyrgð sveitarfélaga. Fyrirspyrjandi hefur auk þeirrar fyrirspurnar sem hér um ræðir og afmörkuð er, eins og vera ber, við málefnasvið sem heyra undir forsætisráðherra og forsætisráðuneytið, beint fyrirspurnum um sama málefni til félags- og barnamálaráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og dómsmálaráðherra og er þess að vænta að í svörum þeirra verði gerð grein fyrir þeim aðilum sem að þessum málum koma og starfa á málefnasviðum þeirra.