Ferill 411. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1297  —  411. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003, með síðari breytingum (samfjármögnun alþjóðlegra rannsóknaráætlana og sjálfstæð stjórn Innviðasjóðs).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.

    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ásdísi Jónsdóttur, Eirík Stephensen og Jón Vilberg Guðjónsson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Eirík Steingrímsson og Sigríði Klöru Böðvarsdóttur frá Lífvísindasetri Háskóla Íslands, Hafliða Pétur Gíslason frá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands og Sveinbjörn Gizurarson prófessor.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Háskóla Íslands, Lífvísindasetri Háskóla Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Raunvísindastofnun Háskólans og Sveinbirni Gizurarsyni.
    Með frumvarpinu er lagt til að stjórn Innviðasjóðs verði aðskilin frá stjórn Rannsóknasjóðs og að hún verði skipuð sameiginlega af vísindanefnd og tækninefnd Vísinda- og tækniráðs, að formanni undanskildum sem skipaður verði af ráðherra, einnig að stjórn Rannsóknasjóðs fái heimild til þess að taka þátt í samfjármögnun alþjóðlegra rannsóknaráætlana í samstarfi við erlenda rannsóknarsjóði.

Rannsóknasjóður.
    Samhljómur var á meðal gesta um mikilvægi alþjóðlegs samstarfs. Hins vegar komu fram sjónarmið um nauðsyn þess að tryggja meira fjármagn í Rannsóknasjóð og tryggja að árangurshlutfall sjóðsins verði að lágmarki 25% ef samfjármögnun rannsóknarverkefna eigi ekki að hafa mögulega neikvæð áhrif á vísindastarf hér á landi. Þá komu fram sjónarmið um hvort setja ætti þak á sjóðinn.
    Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins tekur stjórn sjóðsins ákvarðanir um fjárveitingar úr Rannsóknasjóði að fengnum umsögnum fagráða sem skipuð eru skv. 5. gr. laganna. Stjórnin leitar ráðgjafar umfram það sem fagráð sjóðsins getur veitt ef þurfa þykir. Nefndin bendir á að gert er ráð fyrir að stjórn Rannsóknasjóðs hafi almennar áherslur Vísinda- og tækniráðs til viðmiðunar við úthlutun jafnhliða faglegu mati. Þær gætu til dæmis falið í sér tímabundnar áherslur á tiltekin rannsóknasvið eða mikilvægi þátttöku í alþjóðlegum verkefnum. Nefndin áréttar að með ákvæðum frumvarpsins er Rannsóknasjóði heimild veitt til að taka þátt í alþjóðlegri samfjármögnun en ekki er um að ræða skuldbindingu stjórnar til þátttöku. Útfærsla á þeirri heimild yrði síðan mótuð af vísindanefnd og stjórn Rannsóknasjóðs með úthlutunarstefnu, svo sem skilyrði þess að sjóðurinn taki þátt í alþjóðlegum verkefnum og þess háttar, en að svo stöddu liggur ekki fyrir hvert umfangið verður á slíkri samfjármögnun.

Umsóknar- og samningsferli.
    Við meðferð málsins var nefndinni bent á að framhaldsnemendur eiga ekki að geta skuldbundið verkefnastjóra eða stofnanir án þeirra samþykkis enda beri þeir ekki rekstrarlega ábyrgð á innviðum eða rannsóknarbúnaði. Þessir aðilar þurfi því að senda inn sameiginlega umsókn.
    Nefndin tekur fram að þessi athugasemd snýr ekki beinlínis að 1. gr. frumvarpsins heldur á í raun við verklag Rannsóknamiðstöðvar Íslands í umsóknar- og samningsferli Rannsóknasjóðs. Samkvæmt leiðbeiningum Rannsóknamiðstöðvarinnar til umsækjenda um styrki úr Rannsóknasjóði kemur fram að með umsókn þurfi að fylgja undirrituð samstarfsyfirlýsing þeirra sem skráðir eru sem meðumsækjendur. Þannig ætti leiðbeinandi að vera skráður sem meðumsækjandi þegar framhaldsnemi sækir um styrk í sjóðinn gegnum rafrænt umsóknarkerfi. Meðumsækjandi sé síðan upplýstur um umsóknina enda fái hann tilkynningu um að umsókn hafi verið send inn í samstarfi hans og viðkomandi framhaldsnema. Þá þarf framhaldsnemi einnig að skila inn staðfestingu á því að hann hafi verið samþykktur inn í nám og greitt skólagjöld.
    Að mati nefndarinnar ætti þetta fyrirkomulag að koma í veg fyrir að nemi geti skuldbundið nokkurn án samþykkis en beinir því til mennta- og menningarmálaráðuneytis að tryggja að verklag umsókna sé með þeim hætti að ávallt liggi fyrir samþykki meðumsækjenda. Að auki telur nefndin það gott fyrirkomulag að kveðið sé á um slíkar verklagsreglur í reglum um umsóknir, málsmeðferð þeirra og úthlutun sem stjórn sjóðsins gefur út, sbr. 5. gr. frumvarpsins. Nefndin beinir því til mennta- og menningarmálaráðuneytis að farið verði yfir reglur sjóðsins og eftir atvikum að þær verði uppfærðar með hliðsjón af framangreindu.

Þróunaraðstoð.
    Á fundum nefndarinnar var rætt um þann möguleika að setja upp sjóð sem styrkir vísindarannsóknir og þróunarverkefni sem eiga að gagnast þeim þjóðum sem þarfnast þróunaraðstoðar. Slíkur sjóður hefur verið settur á fót í Bretlandi (e. Global Challenges Research Fund). Sá sjóður styrkir rannsóknarverkefni sem gagnast vanþróuðum ríkjum en styrkurinn telst jafnframt hluti af fjármagni sem ríkið leggur fram í formi þróunaraðstoðar. Þannig gæti íslenska ríkið eyrnamerkt hluta af þeim fjármunum sem fari til „opinbers stuðnings við vísindarannsóknir“ í styrki til að efla rannsóknir sem hafi bein áhrif á þau lönd sem þarfnast þróunaraðstoðar. Nefndin telur þó það mál annars eðlis en það sem efni frumvarpsins lýtur að og þarfnast óhjákvæmilega nánari skoðunar og samráðs hlutaðeigandi ráðuneyta. Nefndin beinir því þess vegna til mennta- og menningarmálaráðuneytisins, í samvinnu við utanríkisráðuneytið, að taka þetta atriði til nánari skoðunar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Anna Kolbrún Árnadóttir, Birgir Ármannsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 2. apríl 2019.

Páll Magnússon,
form.
Willum Þór Þórsson,
frsm.
Andrés Ingi Jónsson.
Anna Kolbrún Árnadóttir. Birgir Ármannsson. Guðmundur Andri Thorsson.
Jón Steindór Valdimarsson,
með fyrirvara.
Steinunn Þóra Árnadóttir. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.