Ferill 846. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1347  —  846. mál.




Beiðni um skýrslu


frá forsætisráðherra um tjón af völdum myglusvepps á húseignum, opinberri þjónustu og heilsu manna.

Frá Álfheiði Ingadóttur, Ólafi Þór Gunnarssyni, Höllu Signýju Kristjánsdóttur, Guðmundi Andra Thorssyni, Hönnu Katrínu Friðriksson, Óla Birni Kárasyni, Jónínu Björk Óskarsdóttur, Halldóru Mogensen, Páli Val Björnssyni, Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, Þórarni Inga Péturssyni, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, Jóni Steindóri Valdimarssyni, Unu Maríu Óskarsdóttur, Oddnýju G. Harðardóttur og Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur.


    Með vísan til 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að forsætisráðherra láti taka saman og flytji Alþingi skýrslu um tjón af völdum myglusvepps á húseignum, opinberri þjónustu og heilsu manna. Í skýrslunni komi eftirfarandi fram:
     1.      Hver hefur verið kostnaður ríkis og sveitarfélaga á hverju ári undanfarin 10 ár vegna viðgerða, niðurrifs og endurbyggingar húsnæðis í opinberri eigu af völdum myglusvepps og hvaða kostnaður er fyrirséður í þeim efnum? Hvað er vitað um tjón einstaklinga vegna myglusvepps á heimilum sínum á sama tíma, bæði sem húseigenda og leigjenda?
     2.      Hver hefur verið fjöldi starfsmanna undanfarin 10 ár sem vinna á myglumenguðum vinnustöðum og hversu mörg skólabörn á landinu hafa orðið að víkja úr skólastofum sínum vegna myglu á sama tíma? Hvað er vitað um áhrif á heilsu starfsmanna og nemenda til lengri og skemmri tíma, um útgjöld heilbrigðiskerfisins og útgjöld vegna örorku og vinnutaps af þessum orsökum?
     3.      Hvaða útgjöld hafa orðið undanfarin 10 ár vegna truflunar á opinberri þjónustu í skólum, heilbrigðisstofnunum og öðrum opinberum stofnunum í kjölfar lokunar og rýmingar vegna myglusvepps?
     4.      Hvað er vitað um ástæður þess að húseignir á Íslandi skemmast af völdum myglusvepps? Er skýringa að leita í aldri bygginga, byggingarefni, hönnun, einangrun eða skorti á viðhaldi og eftirliti?
     5.      Hver er réttarstaða einstaklinga sem verða fyrir tjóni af völdum myglusvepps miðað við nágrannalöndin? Hver er ábyrgð seljanda fasteignar, ábyrgð fagaðila við byggingarstarfsemi, ábyrgð seljanda byggingarefnis og ábyrgð eftirlitsaðila með byggingarframkvæmdum?
     6.      Hvernig er unnt að auka tryggingavernd og bæta réttarstöðu neytenda í ljósi þess mikla kostnaðar og heilsutjóns sem mygla á heimilum hefur í för með sér? Er í bígerð að koma á byggingargallatryggingu við nýbyggingar og eigendaskiptatryggingu við fasteignakaup að danskri fyrirmynd?
     7.      Telja stjórnvöld nauðsyn á því að taka á ný upp efnahagslega hvata til að auðvelda húseigendum viðgerðir og fyrirbyggjandi viðhald á húseignum sínum og heimilum, svo sem fulla endurgreiðslu virðisaukaskatts eða nýtingu séreignarsparnaðar?
     8.      Eru frekari aðgerðir á þessu sviði í bígerð í hlutaðeigandi ráðuneytum?

Greinargerð.

    Undanfarin ár hafa verið fluttar nær stöðugar fréttir í fjölmiðlum af húsum sem þurft hefur að rýma vegna tjóns af völdum myglusvepps. Málið heyrir undir mörg ráðuneyti; félagsmálaráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og menntamálaráðuneytið. Því er skýrslubeiðninni beint til forsætisráðherra. Mikið er til af gögnum um málið en verulega skortir á yfirsýn yfir umfang vandans.