Ferill 633. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1411  —  633. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, með síðari breytingum (gjald fyrir þinglýsingar með rafrænni færslu).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Helgu Helgadóttur, Rakel Jensdóttur, Guðrúnu Ingu Torfadóttur og Ásu Ögmundsdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Guðmund Ragnarsson frá dómsmálaráðuneyti, Heiðrúnu Björk Gísladóttur frá Samtökum atvinnulífsins, og Yngva Örn Kristinsson og Ara Teitsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjármálafyrirtækja og Viðskiptaráði Íslands.

Efni frumvarpsins.
    1. apríl sl. tóku gildi lög nr. 151/2018, um breytingu á þinglýsingalögum og fleiri lögum, þar sem kveðið er á um heimild til að þinglýsa réttindum með rafrænni færslu. Samhliða gildistöku laganna var sett reglugerð um rafrænar þinglýsingar, nr. 360/2019, þar sem framkvæmd þeirra er nánar lýst. Í 1. mgr. 8. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, er kveðið á um að greiða skuli 2.500 kr. fyrir þinglýsingu skjala. Í frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar er lagt til að sama gjald skuli greiða fyrir þinglýsingu með rafrænni færslu.

Gjald vegna rafrænna þinglýsinga (breytingartillaga).
    Við umfjöllun nefndarinnar komu fram sjónarmið um að kostnaður hins opinbera af þinglýsingum mundi lækka eftir því sem rafrænar þinglýsingar yrðu algengari og að eðlilegt væri að gjaldtaka vegna rafrænna þinglýsinga tæki mið af því. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að áðurnefndum lögum nr. 151/2018 kemur fram að greiningarvinna í tengslum við innleiðingu rafrænna þinglýsinga hafi leitt í ljós að umtalsverður samfélagslegur ávinningur felist í upptöku rafrænna þinglýsinga en erfitt sé að meta með áreiðanlegum hætti hver sú hagræðing kunni að verða. Þá sé ekki stefnt að því að allar þinglýsingar verði rafrænar nú þegar og því taki nokkurn tíma að meta þá hagræðingu sem breytingin hafi í för með sér.
    Nefndin telur rétt að neytendur og þinglýsingarbeiðendur njóti þeirrar hagræðingar sem felst í upptöku rafrænna þinglýsinga og leggur í því skyni til að gjald fyrir þinglýsingu með rafrænni færslu verði 40% lægra en gjald vegna hefðbundinnar þinglýsingar skjals. Jafnframt telur nefndin að með auknum hvata til að nota rafrænar þinglýsingar verði stuðlað að hraðari innleiðingu hins nýja kerfis.
    Þar sem hagræðingaráhrif af rafrænum þinglýsingum koma ekki fram samstundis, auk þess sem gert hefur verið ráð fyrir óbreyttu þinglýsingargjaldi við tekjuáætlun ríkissjóðs fyrir yfirstandandi ár, leggur nefndin til að gjald fyrir þinglýsingu með rafrænni færslu verði jafnt gjaldi fyrir þinglýsingu skjala, þ.e. 2.500 kr., fram til 1. janúar 2020. Ljóst er að sú breytingartillaga sem að framan er lýst hefur áhrif til skerðingar á tekjum ríkisins af þinglýsingum, en tekjur af þeim stofni námu 240 millj. kr. á árinu 2018 og voru áætlaðar 328 millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 2019. Umfang skerðingarinnar ræðst af hlutfalli þinglýsinga sem framkvæmdar verða rafrænt en á móti henni koma hagræðingaráhrif líkt og áður var getið.
    Sú krónutala sem nefndin leggur til að greiða skuli fyrir þinglýsingu með rafrænni færslu byggist ekki á nákvæmu mati á raunkostnaði hins opinbera af rafrænum þinglýsingum enda liggja upplýsingar þar að lútandi ekki fyrir. Nefndin hvetur til þess að þegar reynsla verður komin á framkvæmd rafrænna þinglýsinga fari fram mat á raunkostnaði að baki þeim með það fyrir sjónum að gjaldið taki mið af raunkostnaði. Nefndin ítrekar þá afstöðu sem kom fram í nefndaráliti meiri hluta hennar um 4. mál á yfirstandandi löggjafarþingi að nauðsynlegt sé að fylgja þeirri meginreglu við ákvörðun á gjöldum fyrir opinbera þjónustu að þau endurspegli tilkostnað viðkomandi stofnana. Það sé réttlætismál að almenningur njóti þess beint þegar kostnaður stofnana lækkar m.a. með aukinni sjálfvirkni og rafrænni þjónustu.
    Í umsögnum sem nefndinni hafa borist um málið er bent á að kostnaður þinglýsingarbeiðanda af þinglýsingu með rafrænni færslu geti orðið hærri en af hefðbundinni þinglýsingu skjals í tilvikum þar sem skjali er þinglýst á fleiri en eina eign. Að höfðu samráði við fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og dómsmálaráðuneyti telur nefndin ljóst að ekki verði breyting á núverandi fyrirkomulagi gjaldtöku vegna þinglýsinga þar sem réttindum er lýst á fleiri en eina eign. Samkvæmt rafrænu meðferðinni sendir þinglýsingarbeiðandi eina rafræna færslu sem hefur m.a. að geyma upplýsingar um þær eignir sem eiga í hlut. Þinglýsingarbeiðandi greiðir aðeins eitt þinglýsingargjald þrátt fyrir að þinglýsing varði t.d. veðsetningu fleiri en einnar eignar svo framarlega sem þær eru innan sama umdæmis. Hið sama á við um hefðbundna þinglýsingu skjala. Um framkvæmd rafrænna þinglýsinga vísar nefndin að öðru leyti til framangreindrar reglugerðar um rafrænar þinglýsingar, einkum 8. og 10. gr.
    Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      1. gr. orðist svo:
                 Við 1. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Fyrir þinglýsingu með rafrænni færslu skal greiða 1.500 kr.
     2.      Á eftir 1. gr. komi ný grein, er orðist svo:
                 Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                 Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. skal greiða 2.500 kr. fyrir þinglýsingu með rafrænni færslu fram til 1. janúar 2020.

    Brynjar Níelsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið samkvæmt heimild í 3. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda.
    Smári McCarthy skrifar undir álitið með fyrirvara sem hann hyggst gera grein fyrir í ræðu.

Alþingi, 30. apríl 2019.

Óli Björn Kárason,
form.
Brynjar Níelsson, frsm. Þorsteinn Víglundsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Einar Kárason. Ólafur Þór Gunnarsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Silja Dögg Gunnarsdóttir. Smári McCarthy, með fyrirvara.