Ferill 530. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Prentað upp.

Þingskjal 1495  —  530. mál.
Leiðrétt form.

2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til innleiðingar á tilskipun (ESB) 2015/1794 um breytingu á tilskipunum 2008/94/EB, 2009/38/EB, 2002/14/EB, 98/59/EB og 2001/23/EB (um farmenn).

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn Gunnar Þorberg Gylfason, Jón Þór Þorvaldsson og Þór Hauksson Reykdal frá félagsmálaráðuneytinu.
    Engar umsagnir bárust um málið.
    Frumvarpið felur í sér lagabreytingar sem nauðsynlegar eru til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/1794 frá 6. október 2015 um breytingu á tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2008/94/EB, 2009/38/EB og 2002/14/EB og tilskipunum ráðsins 98/59/EB og 2001/23/EB, um farmenn. Markmið tilskipunarinnar er að farmenn geti nýtt sér að fullu rétt sinn til sanngjarnra og réttlátra vinnuskilyrða við hópuppsagnir og aðilaskipti á hafskipum og rétt til upplýsingamiðlunar og samráðs. Um er að ræða réttarbót fyrir farmenn sem gert er ráð fyrir að hafi hvorki áhrif á stjórnsýslu ríkisins né útgjöld ríkissjóð.
    Nefndin leggur til nokkrar tæknilegar breytingar, sem felast fyrst og fremst í samræmingu orðalags og fyrirsagna í þeim lögum sem frumvarpið snýr að. Breytingartillögur nefndarinnar hafa ekki efnisleg áhrif á frumvarpið.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 2. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Fyrirsögn 36. gr. a laganna orðast svo: Innleiðing tilskipana.
     2.      Við 4. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Fyrirsögn 11. gr. laganna orðast svo: Innleiðing tilskipana.
     3.      6. gr. orðist svo:
                  Í stað orðsins „svæðisvinnumiðlun“ tvívegis í 2. málsl. 3. gr., 2. mgr. 6. gr., 3. mgr. 7. gr. og 1. og 2. mgr. 8. gr. og í stað orðanna „svæðisvinnumiðlun í því umdæmi þar sem viðkomandi starfsmenn vinna“ í 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna kemur: Vinnumálastofnun.
     4.      Á eftir 6. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  Fyrirsögn III. kafla laganna verður: Tilkynning til Vinnumálastofnunar.
     5.      7. gr. orðist svo:
                  Á eftir 13. gr. laganna kemur ný grein, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi, og breytist greinatala samkvæmt því:

        Innleiðing tilskipunar.

                  Lög þessi eru sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/1794 frá 6. október 2015 um breytingu á tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2008/94/EB, 2009/38/EB og 2002/14/EB og tilskipunum ráðsins 98/59/EB og 2001/23/EB, um farmenn, sem vísað er til í XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar nr. 258/2018 frá 5. desember 2018.

    Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.


Alþingi, 6. maí 2019.

Halldóra Mogensen,
form.
Ásmundur Friðriksson, frsm. Ólafur Þór Gunnarsson.
Andrés Ingi Jónsson. Sigurður Páll Jónsson. Guðmundur Andri Thorsson.
Guðmundur Ingi Kristinsson. Halla Signý Kristjánsdóttir. Vilhjálmur Árnason.