Ferill 415. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1627  —  415. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um Höfðaborgarsamninginn um alþjóðleg tryggingarréttindi í hreyfanlegum búnaði og bókun um búnað loftfara.

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur og Þorvald Heiðar Þorsteinsson frá dómsmálaráðuneyti, Ástríði Scheving Thorsteinsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Karl Alvarsson og Kolbrúnu Söru Másdóttur frá Isavia ohf., Kristínu Helgu Markúsdóttur og Sigrúnu Henríettu Kristjánsdóttur frá Samgöngustofu og Bryndísi Bachmann frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Nefndinni barst umsögn frá Isavia ohf.
    Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að fullgilda af Íslands hálfu Höfðaborgarsamninginn um alþjóðleg tryggingarréttindi í hreyfanlegum búnaði og bókun um búnað loftfara. Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að ákvæði samningsins um búnað loftfara sem honum fylgir skuli hafa lagagildi hér á landi í samræmi við þær yfirlýsingar sem Ísland gerir samkvæmt samningnum. Hins vegar er ekki ætlunin að breyta núgildandi reglum um skráningu réttinda í loftförum, þ.e. að því marki sem slík réttindi falla utan gildissviðs laganna.

Innleiðing og gildistaka.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að heppilegra hefði verið að innleiða Höfðaborgarsamninginn með þeim breytingum sem ráðgerðar væru í I.–III. kafla frumvarpsins í samfelldum lagatexta en að nota þá aðferð sem hér væri lögð til sem leiddi til þess að flókið yrði að vinna með lagatextann í heild. Þá var bent á að í samningnum (sbr. fylgiskjal I) væri sérstakur fyrirvari í 2. tölul. 6. gr. um að ákvæði bókunar við samninginn gengi honum framar. Vegna þeirrar aðferðar sem valin væri við innleiðingu og þar sem Höfðaborgarsamningurinn og bókun við samninginn mundu hafa lagagildi væri eðlilegt að kveða á um að ef misræmi yrði milli lagatextans og ákvæða samningsins og bókunar gengi lagatextinn framar.
    Meiri hluti nefndarinnar telur ástæðu til að árétta þær skýringar sem koma fram í greinargerð með frumvarpinu um að Höfðaborgarsamningurinn sjálfur hafi að geyma almennar reglur og geti ákvæði hans gilt um fjármögnun þriggja tegunda búnaðar, þ.e. búnað loftfara og járnbrauta og geimbúnað. Um hverja tegund munu gilda sérstakar bókanir við samninginn. Einungis bókunin um búnað loftfara hefur tekið gildi. Þessi tveggja skjala aðferð gerir ríkjum kleift að láta sömu meginreglur gilda um fjármögnun þessara þriggja tegunda hreyfanlegs búnaðar en jafnframt er hægt, með tegundargreindum bókunum, að taka tillit til ólíkra hagsmuna framleiðenda og fjármögnunaraðila mismunandi tegunda búnaðar. Þá beri að lesa Höfðaborgarsamninginn og viðeigandi bókun saman eins og um einn gerning væri að ræða. Meiri hlutinn tekur undir að þessi framsetning samningsins í tveimur og síðar fleiri bókunum gerir hann fremur óaðgengilegan en þó hefur verið samin greinargerð með skýringum á ákvæðum samningsins og bókunarinnar. Höfðaborgarsamningurinn og bókunin mun hafa lagagildi í heild sinni með þeim aðlögunum sem lögin tilgreina. Lögunum er ekki ætlað að raska innbyrðis rétthæð ákvæða samningsins og bókunarinnar. Þá ítrekar meiri hlutinn að frumvarpið mælir einungis fyrir um lögfestingu einnar þeirra bókunar sem hefur verið gerð við samninginn og ekki er útilokað að síðar meir verði lögfestar aðrar bókanir við hann.
    Á fundum nefndarinnar var einnig rætt um gildistökuákvæði frumvarpsins. Þar er kveðið á um að önnur ákvæði en 1. gr. og 1. og 2. tölul. 12. gr. laganna öðlist gildi um leið og Höfðaborgarsamningurinn og bókun um búnað loftfara öðlist gildi að því er Ísland varðar. Í skýringum í greinargerð kemur fram að samningurinn hafi tekið gildi 1. mars 2006 gagnvart þeim ríkjum sem þá höfðu fullgilt hann og bókunina. Samningurinn taki hins vegar gildi fyrir ný aðildarríki fyrsta mánaðardag þremur mánuðum eftir að UNIDROIT (International Institute for the Unification of Private Law) hafi móttekið tilkynningu þeirra um fullgildingu. Í ljósi þess að gildistakan er bundin við það tímamark þegar fullgildingarskjöl eru afhent vörsluaðila telur meiri hlutinn æskilegt að ráðherra birti auglýsingu í Stjórnartíðindum um gildistökuna. Meiri hlutinn leggur áherslu á að fullgildingu samningsins verði hraðað eins og kostur er og að um leið og gildistaka liggi fyrir skuli ráðherra auglýsa hana. Meiri hlutinn leggur því til breytingar þess efnis á 11. gr. frumvarpsins.

Aðlaganir að Höfðaborgarsamningnum.
    Við meðferð málsins var bent á að í 1. tölul. 2. gr. frumvarpsins væri vísað til krafna skv. 1. gr. og XII. kafla Höfðaborgarsamningsins. Fram komu sjónarmið um að vísa með almennari hætti til laganna, m.a. þar sem 1. gr. samningsins hafi að geyma skilgreiningar en ekki sjálfstæðar kröfur.
    Nefndinni var bent á að yfirlýsing skv. 53. gr. Höfðaborgarsamningsins lýtur að því að tilgreina dómstóla eða gerðardóma sem eru bærir til að fjalla um kröfur samkvæmt samningnum og bókuninni. Skilgreiningu á hugtakinu „dómstóll“ er að finna í h-lið 1. gr. Höfðaborgarsamningsins. Sú yfirlýsing sem gerð er lýtur að því að tilgreina Héraðsdóm Reykjavíkur sem bæran dómstól. Meiri hlutinn tekur undir framangreint og telur því ekki ástæðu til að fella brott tilvísunina í 1. tölul. 2. gr. frumvarpsins eins og lagt var til.

Lög um loftferðir.
    Nefndinni var bent á að ekki væri sérstaklega vikið að lögveði í loftförum eða loftfarshlutum í c-lið 2. tölul. 12. gr. frumvarpsins líkt og í d-lið 2. tölul. sama ákvæðis. Því var lagt til að bæta tölulið við c-liðinn þar sem kveðið verði á um að fyrir liggi staðfesting tilgreindra rekstraraðila skv. 1. og 2. mgr. laga um loftferðir, nr. 60/1998, á því að engar kröfur með lögveði séu á loftfarinu eða loftfarshlutum.
    Í 3. gr. frumvarpsins er vikið að lögbundnum réttindum eða tryggingarréttindum, sbr. s-lið 1. gr. og 39. gr. Höfðaborgarsamningsins, en þar geta fallið undir svo sem lögveð, sem kann að hafa stofnast samkvæmt íslenskum lögum. Nefndinni var bent á að lögveð væru iðulega óskráð veðréttindi og ætti það líka við um þau lögbundnu réttindi eða tryggingarréttindi sem Höfðaborgarsamningurinn tæki til. Í skýringum í greinargerð við 3. gr. frumvarpsins kemur fram að slík réttindi haldi gildi sínu án skráningar í alþjóðlegu skrána og njóti forgangs fram yfir aðrar skráðar kröfur. Hafa beri þó í huga að þessi forgangur kunni aðeins að eiga við hér á landi hvað varði íslensk lögbundin réttindi eða tryggingarréttindi, nema í þeim tilvikum sem erlendir dómstólar viðurkenni slíkar kröfur á grundvelli alþjóðlegra lagaskilareglna. Þá var nefndinni jafnframt bent á að 40. gr. Höfðaborgarsamningsins gerði þó ráð fyrir að hægt væri að skrá skráningarhæf, lögbundin réttindi eða tryggingarréttindi, eins og þau væru skilgreind í dd-lið 1. gr. samningsins, sem stofnast hefðu með aðfarargerð hér á landi, þ.e. fjárnámi, kyrrsetningu eða löggeymslu. Slík skráning, í samræmi við reglur Höfðaborgarsamningsins, mundi því tryggja að samþykki slíkra skráðra réttinda lægi fyrir við afskráningu loftfars.
    Að því sögðu telur meiri hlutinn að framangreind tillaga eigi ekki samleið með þeim ákvæðum Höfðaborgarsamningsins sem lagt er til að verði lögfest, þ.e. hafi lögbundin réttindi eða tryggingarréttindi ekki verið skráð í samræmi við 40. gr. Höfðaborgarsamningsins megi ætla að ekki verði hægt að upplýsa um tilvist þeirra við afskráningu loftfars.

Ávinningur flugrekenda.
    Við meðferð málsins fyrir nefndinni var nokkuð rætt um ávinning flugrekenda á Íslandi ef Ísland gerist aðili að Höfðaborgarsamningnum. Líkt og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er meginmarkmið Höfðaborgarsamningsins að auðvelda fjármögnun viðskipta milli landa með hreyfanlegan búnað. Þannig muni samningurinn að öllum líkindum minnka kostnað íslenskra flugrekenda við kaup á flugvélum og ekki auka ríkisútgjöld. Auk þess kemur fram að flugrekendur hafa lýst því yfir að aðild Íslands að samningnum muni af þessum sökum hafa umtalsverð jákvæð áhrif á fjármögnunarkjör þeirra við kaup á loftförum og loftfarshlutum sem undir hann falla.
    Flugrekendur lýstu yfir eindregnum stuðningi við að frumvarpið næði fram að ganga þegar nefndin óskaði eftir afstöðu þeirra til þess enda væri það til þess fallið að bæta kjör íslenskra flugrekenda við fjármögnun loftfara og loftfarshluta. Meiri hlutinn tekur undir að frumvarpið feli í sér ávinning fyrir flugrekendur.
    Að lokum leggur meiri hluti nefndarinnar til minni háttar lagfæringar á tilvísunum í 2., 8. og 9. gr. frumvarpsins sem og orðalagsbreytingar á 1., 3., og 12. gr. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðanna „eru gerðar í 2. gr.“ í 1. mgr. 1. gr. komi: af lögum þessum leiðir.
     2.      Við 2. gr.
                  a.      Í stað orðanna „XXX(1) gr.“ í 3. tölul. komi: 1. mgr. XXX. gr.
                  b.      Í stað orðanna „XXX(2) gr.“ í 4. tölul. komi: 2. mgr. XXX. gr.
                  c.      Í stað orðanna „XXX(3) gr.“ í 5. tölul. komi: 3. mgr. XXX. gr.
                  d.      Í stað orðanna „XXX(5) gr.“ í 6. tölul. komi: 5. mgr. XXX. gr.
     3.      Orðin „samkvæmt 1. mgr.“ í lok 2. mgr. 3. gr. falli brott.
     4.      Í stað orðanna „IX(5) gr.“ í 8. gr. komi: 5. mgr. IX. gr.
     5.      Í stað orðanna „I. gr. c“ í 9. gr. komi: c-lið 2. mgr. I. gr.
     6.      Við 2. mgr. 11. gr. bætist: og skal ráðherra birta auglýsingu í Stjórnartíðindum um gildistökuna.
     7.      Í stað orðanna „sbr. 134. gr.“ í 1. tölul. 12. gr. komi: skv. 134. gr.


    Anna Kolbrún Árnadóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Jón Steindór Valdimarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 24. maí 2019.

Páll Magnússon,
form., frsm.
Andrés Ingi Jónsson. Birgir Ármannsson.
Guðmundur Andri Thorsson. Halla Gunnarsdóttir. Hjálmar Bogi Hafliðason.
Jón Steindór Valdimarsson.