Ferill 776. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1653  —  776. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, nr. 151/1996, með síðari breytingum (stjórn veiða á makríl).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gunnar Atla Gunnarsson, Arnór Snæbjörnsson og Ernu Jónsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Bárð Guðmundsson frá Samtökum smærri útgerða, Örn Pálsson og Axel Helgason frá Landssambandi smábátaeigenda, Óttar Gaut Erlingsson frá Fiskistofu, Ragnar H. Hall og Einar Þór Sverrisson fyrir hönd Vinnslustöðvarinnar hf., Sigurbjörn Magnússon og Stefán A. Svensson fyrir hönd Ísfélags Vestmannaeyja, Berg Þór Eggertsson og Almar Þór Sveinsson frá Nesfiski hf., Heiðar Hrafn Eiríksson og Eirík Óla Dagbjartsson frá Þorbirni hf., Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Unnstein Þráinsson, Lúðvík Börk Jónsson, Davíð Jónsson, Eið Ólafsson og Pétur Matthíasson frá Félagi makrílveiðimanna, Alexander Kristinsson frá Sjávariðjunni og Stefán Friðriksson, Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson og Sindra Viðarsson frá Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja.
    Umsagnir bárust frá Félagi makrílveiðimanna, Ísfélagi Vestmannaeyja, Landssambandi smábátaeigenda, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Vinnslustöðinni hf., Samtökum smærri útgerða og Þorbirni hf., Ramma hf. og Nesfiski hf.
    Með frumvarpinu er lagt til að aflamarksstjórn verði tekin upp við veiðar á makríl og að aflahlutdeild verði úthlutað til skipa á grundvelli tíu bestu aflareynsluára þeirra á árunum 2008–2018, að báðum árum meðtöldum. Fram til þessa hefur stjórn veiða á stofninum lotið reglugerðum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og leyfum frá Fiskistofu sem sett hafa verið til eins árs í senn. Frumvarpinu er m.a. ætlað að bregðast við dómum Hæstaréttar frá 6. desember 2018 svo sem nánar er rakið í greinargerð með frumvarpinu.
    Nokkur gagnrýni kom fram á það fyrirkomulag sem lagt er til í frumvarpinu og þá einna helst vegna mismunandi stöðu skipa eftir veiðarfærum og mikils munar á reynslu smærri og stærri útgerða sem miða á við í hinu nýja fyrirkomulagi. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að í frumvarpinu væri ekki brugðist með fullnægjandi hætti við dómum Hæstaréttar auk þess sem mjög mundi halla á smærri báta og þá sem frumkvæði hefðu haft að makrílveiðum, ósanngjarnt væri að þeir sem rutt hefðu brautina fengju ekki að njóta þess heldur væru festar í sessi reglur sem umbunuðu þeim sem á eftir hefðu komið. Fyrir nefndinni voru reifaðar nokkrar tillögur til að rétta af þann halla sem væri milli smærri og stærri útgerða. Meiri hlutinn telur mikilvægt að komið sé á einu skýru og fyrirsjáanlegu kerfi sem taki mið af því að styðja við fjölbreytileika í útgerð jafnt í veiðum sem og vinnslu á makríl, hvort sem veitt er við strendur landsins eða á úthafsmiðum. Nauðsynlegt er að það fyrirkomulag sem lögfest verður tryggi sem best jafnræði og mismunandi útgerðarmynstur og rekstrargrundvöll þeirra báta sem veitt hafa makríl með línu og handfærum innan sama kerfis. Leggur meiri hlutinn því til að skipum sem veiða makríl verði skipt í tvo flokka, A-flokk sem í eru skip sem veiða með öðrum veiðarfærum en handfærum og línu og B-flokk sem í eru skip sem veiða með handfærum og línu. Þá leggur meiri hlutinn til breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, þess efnis að við lögin bætist ný grein, 10. gr. b, sem kveði á um að ráðherra ráðstafi ár hvert 4.000 lestum af makríl til skipa í B-flokki, sem stunda makrílveiðar með línu og handfærum. Eftir 15. september verði leyfilegt að ráðstafa því sem eftir er til skipa í A-flokki gegn gjaldi. Hvert skip á kost á að fá úthlutað allt að 35 lestum af makríl í senn gegn gjaldi sem á hverjum tíma skal nema sömu fjárhæð og veiðigjald fyrir makríl. Ráðherra skal með reglugerð setja nánari reglur um framkvæmd úthlutunar. Leggur meiri hlutinn áherslu á að úthlutun að öðru leyti en að framan greinir skuli vera í samræmi við þá úthlutun sem var í reglugerð nr. 762/2018. Af þessu leiðir að hin hefðbundna aflamarks/ krókaaflamarksskipting mun ekki gilda um veiðiheimildir í makríl heldur ræðst hún af A- og B-flokki.
    Tímamarkið 15. september miðast við þann tíma sem veiðar með handfærum og línu eru hættar og því eðlilegt að leyfa eftir það úthlutun ónýttra lesta til skipa í A-flokki sem nýta sér önnur veiðarfæri.
    Samkvæmt framangreindum tillögum mundi skipting makrílafla í A- og B-flokk miðað við úthlutun heildarafla árið 2018 vera eftirfarandi:

Aflamark flokka að meðtöldum 4.000 lesta potti Hlutfall af úthlutun að meðtöldum 4.000 lesta potti
Leyfilegur heildarafli 2018 132.134
Skiptimarkaður/byggðaráðstafanir 7.142
Til úthlutunar í aflamarki + 4.000 lesta pottur 124.992
A Línu- og handfærabátar, aflamark og 4.000 lesta pottur 6.747 5,40%
B Skip m/aflamark 118.245 94,60%

    Með hliðsjón af framangreindum tillögum meiri hlutans leggur hann til þrjár viðbótarbreytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem eru tvíþættar.
    Annars vegar leggur meiri hlutinn til breytingu á 3. mgr. 8. gr. laganna en þar er kveðið á um hvernig úthlutað aflamark er ákveðið. Samkvæmt ákvæðinu ræðst úthlutað aflamark af leyfðum heildarafla að frádregnu hlutfalli, 5,3%, af hverri tegund. Meiri hlutinn leggur til að auk 5,3% frádrags af heildarafla makríls skuli draga frá 4.000 lestir sem ætlaðar eru til úthlutunar til báta sem stunda veiðar með línu og handfærum. Úthlutaður afli í makríl verður því leyfilegur heildarafli að frádregnum 5,3% og fyrrnefndum 4.000 lestum af makríl sem ráðherra verður heimilt að ráðstafa. Meiri hlutinn áréttar að þessar 4.000 lestir af makríl falla ekki undir 5. og 6. mgr. 8. gr. laganna og verður eingöngu ráðstafað á þann hátt sem kveðið verður á um í nýrri 10. gr. b, sbr. framangreint.
    Hins vegar leggur meiri hlutinn til að óheimilt verði að framselja aflahlutdeild skips í makríl úr B-flokki skv. 6. mgr. 12. gr. laganna en í stað þess verði sett sérregla um framsalið í 15. gr. laganna þess efnis að flutningur aflamarks skips í makríl úr B-flokki sé óheimill nema í jöfnum skiptum í þorskígildum talið fyrir aflamark í þorski, ýsu, ufsa og steinbít. Þá er kveðið á um að í samræmi við að heimilt sé að ráðstafa fyrrnefndum 4.000 lestum eftir 15. september ár hvert til skipa í A-flokki verði ráðherra heimilt að flytja ónýtt aflamark í makríl úr B-flokki yfir í A-flokk eftir 15. september ár hvert, að teknu tilliti til tegundartilfærslna og flutningsréttar milli veiðitímabila, sem ráðstafað skal jafnt á skip með aflamark í A-flokki.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Jón Þór Ólafsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Ólafur Ísleifsson skrifar undir álitið með fyrirvara.
    Jón Þór Þorvaldsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið, með fyrirvara, í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 24. maí 2019.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form., frsm.
Ásmundur Friðriksson. Halla Signý Kristjánsdóttir.
Jón Þór Þorvaldsson, með fyrirvara. Kolbeinn Óttarsson Proppé. Njáll Trausti Friðbertsson.
Ólafur Ísleifsson, með fyrirvara.