Ferill 766. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
3. uppprentun.

Þingskjal 1674  —  766. mál.
Meiri hluti.

2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum um matvæli og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru (innflutningur búfjárafurða).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gunnar Atla Gunnarsson, Ásu Þórhildi Þórðardóttur, Lindu Fanneyju Valgeirsdóttur og Elísabetu Önnu Jónsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Sigurð Eyþórsson og Guðrúnu Vöku Steingrímsdóttur frá Bændasamtökum Íslands, Eggert Árna Gíslason frá Samtökum mjólkur- og kjötvinnslufyrirtækja, Magnús Huldar Ingþórsson, Þorstein Sigmundsson, Geir Gunnar Geirsson og Hildi Traustadóttur frá Félagi kjúklingabænda og Félagi eggjabænda, Sigurborgu Daðadóttur frá Matvælastofnun, Hrönn Ólínu Jörundsdóttur og Odd M. Gunnarsson frá Matís ohf., Emmu Eyþórsdóttur frá erfðanefnd landbúnaðarins, Karl G. Kristinsson, Pál Gunnar Pálsson og Birgi Óla Einarsson frá Samkeppniseftirlitinu, Breka Karlsson frá Neytendasamtökunum, Glóeyju Finnsdóttur frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Pál Rúnar M. Kristjánsson frá Félagi atvinnurekenda, Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins, Kristján Þórarinsson frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Andrés Magnússon og Benedikt S. Benediktsson frá Samtökum verslunar og þjónustu, Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur frá Landssambandi kúabænda, Vilhjálm Ara Arason, Grím Valdimarsson, Halldór Runólfsson, Hermann Inga Gunnarsson og Ástu Arnbjörgu Pétursdóttur frá Eyjafjarðarsveit, Eirík Blöndal og Hörð Davíð Harðarson og Steinþór Þorsteinsson frá tollstjóra.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Betri landbúnaði, Bláskógabyggð, Borgarbyggð, Bændasamtökum Íslands, Dalabyggð, erfðanefnd landbúnaðarins, Eyjafjarðarsveit, Félagi atvinnurekenda, Félagi eggjabænda, Félagi kjúklingabænda, Framsýn – stéttarfélagi, Halldóri Runólfssyni, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Húnavatnshreppi, Ísafjarðarbæ, Jóni Bjarnasyni, Karli G. Kristinssyni, Landssambandi kúabænda, Læknafélagi Íslands, Maríu Friðriku Hermannsdóttur, Matfugli ehf., Matís ohf., Matvælastofnun, Neytendasamtökunum, Rangárþingi ytra, Samkeppniseftirlitinu, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum mjólkur- og kjötvinnslufyrirtækja, Sveitarfélaginu Skagafirði, Samtökum verslunar og þjónustu og Tjörneshreppi.
    Með frumvarpinu er lagt til að núverandi leyfisveitingakerfi við innflutning á tilteknum landbúnaðarafurðum frá löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins verði lagt af. Felur það í sér breytingar á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993, á lögum um matvæli, nr. 93/1995, og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, nr. 22/1994. Samkvæmt núverandi leyfisveitingakerfi þarf sérstakt leyfi Matvælastofnunar til að flytja inn kjöt, egg og ógerilsneyddar mjólkurvörur til landsins. Eftir breytingarnar þarf eftir sem áður leyfi Matvælastofnunar til að flytja slíkar vörur inn frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Megintilgangur með frumvarpinu er að ganga svo frá málum að íslensk stjórnvöld standi við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist samkvæmt EES-samningnum, en bæði EFTA-dómstóllinn og Hæstiréttur Íslands hafa komist að þeirri niðurstöðu að núverandi fyrirkomulagi væri brot á umræddum skuldbindingum.
    Fyrir nefndinni kom fram ánægja með frumvarpið og bent á að breytingin væri löngu tímabær. Ljóst hefði verið að um ólögmætt ástand væri að ræða sem bryti gegn skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum. Með breytingunni væri verið að tryggja að matvæli njóti sömu stöðu og aðrar vörur samkvæmt EES-samningnum, að vera í frjálsu flæði á Evrópska efnahagssvæðinu, að uppfylltum settum kröfum, en falli jafnframt undir markaðseftirlit.
    Fyrir nefndinni kom einnig fram óánægja með frumvarpið og bent á að hafna bæri frumvarpinu eða í það minnsta fresta gildistöku þess.
    Meiri hlutinn bendir á að búið er að staðfesta, með dómi EFTA-dómstólsins og dómi Hæstaréttar, að núverandi fyrirkomulag sé brot gegn skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum. Meðal gagna málsins eru tvö lögfræðiálit um það hvaða áhrif frestun gildistöku frumvarpsins hefði. Í niðurstöðum beggja álita var bent á að bæði EFTA-dómstóllinn og Hæstiréttur Íslands hefðu komist að þeirri niðurstöðu að núverandi fyrirkomulag bryti gegn alþjóðlegum skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum. Var jafnframt bent á að fyrirkomulagið væri áfram brot gegn þeim verði því ekki breytt og geti þá haldið áfram að skapa íslenska ríkinu skaðabótaskyldu gagnvart þeim innflytjendum sem yrðu fyrir tjóni á því tímabili sem liði fram að gildistöku. Var í öðru álitinu vísað til þess að samþykkt frumvarps með frestun gildistöku mundi líklega ekki bæta úr því ástandi og yrði skaðabótaskylda Íslands áfram til staðar gagnvart þeim innflytjendum sem yrðu fyrir tjóni fram að gildistöku. Í málunum voru hafðar uppi málsvarnir af hálfu Íslands, að Íslandi væri heimilt vegna sérstöðu og með vísan til 11. og 13. gr. EES-samningsins að viðhafa sérstakar ráðstafanir á landamærum innan innri markaðarins. Í febrúar á þessu ári gaf Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) út rökstutt álit vegna mats stofnunarinnar um það að Ísland hefði ekki uppfyllt skyldur sínar vegna dóms EFTA-dómstólsins í málum E-2/17 og E-3/17. Íslenskum stjórnvöldum var gefinn tveggja mánaða frestur til að ráða bót á því. Rann sá frestur út 13. apríl sl.
    Meiri hlutinn bendir á að með hliðsjón af framangreindu sé nauðsynlegt að bregðast við og breyta lögum því að annars sé vísvitandi verið að viðhalda ólöglegu ástandi. Bendir meiri hlutinn á að fyrir íslenskt samfélag felast gríðarlega miklir þjóðhagslegir hagsmunir í því að staða landsins sem hluti af hinum innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins sé tryggð, m.a. fyrir útflutning á íslenskum búvörum.
    Meiri hlutinn bendir á að samhliða frumvarpi þessu gerði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið aðgerðaáætlun í 15 liðum sem miðar að því að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Bent er á að samhliða áliti þessu leggur nefndin fram tillögu til þingsályktunar um að ríkisstjórninni verði falið að hrinda framangreindri aðgerðaáætlun í framkvæmd. Var nefndinni bent á, m.a. af Matvælastofnun, að óvíst væri hvort tækist að ljúka tilteknum aðgerðum í aðgerðaáætluninni áður en leyfisveitingakerfið yrði afnumið samkvæmt frumvarpinu. Var sérstaklega vísað til viðbótartrygginga vegna svína- og nautakjöts í því samhengi.
    Meiri hlutinn leggur því til að gildistöku frumvarpsins verði frestað um tvo mánuði, eða til 1. nóvember 2019. Telur meiri hlutinn að sú frestun á gildistöku muni ekki hafa teljandi áhrif á þá hagsmuni sem að framan greinir.

Heilbrigði búfjárstofna.
Notkun sýklalyfja og frystiskylda.
    Nefndinni var bent á mikilvægi þess að gætt væri að matvælaöryggi og lýðheilsu. Var bent á að staða sjúkdóma í íslenskum landbúnaði væri talin öfundsverð og að notkun sýklalyfja í greininni væri í lágmarki og t.d. skimaði ekkert Evrópuríki jafn vel fyrir kampýlóbakter og Ísland og árangur í þeirri baráttu væri einsdæmi. Fyrir nefndinni komu einnig fram sjónarmið um að með afnámi frystiskyldu yrði aukin hætta á að til landsins bærist smit.
    Meiri hlutinn bendir á að frystiskyldan var sett í lög til að mæta þeim heilbrigðisvanda sem talin var standa mest ógn af á þeim tíma, salmonellu og kampýlóbakter. Frystingin drepur níu af hverjum tíu kampýlóbaktersýklum og í tilfelli salmonellu höfðu yfirvöld mánuð til að kanna hvort hættulegar salmonellusýkingar eða aðrir sjúkdómar hefðu komið upp í því landi sem varan var framleidd í. Bendir meiri hlutinn á að í greinargerð séu tíundaðar ástæður þess að afnám frystiskyldunnar stefni árangri í baráttu við kampýlóbakter og salmonellu ekki í hættu. Þar kemur m.a. fram að yfirdýralæknir og sóttvarnalæknir telja afnám frystiskyldu hafa lítil sem engin áhrif á veiru- og bakteríusjúkdóma í dýrum en telja að hún gæti haft áhrif á sníkjudýrasmit.
    Meiri hlutinn leggur til að við frumvarpið verði bætt ákvæði sem kveði á um að óheimilt sé að dreifa ómeðhöndluðum sláturafurðum alifugla á markaði nema sýnt sé fram á með sýnatöku, á eldistíma eða við slátrun, að ekki hafi greinst kampýlóbakter í fuglunum. Þá verði ráðherra heimilt í reglugerð að mæla fyrir um um ráðstafanir í frumframleiðslu og dreifingu matvæla til að hefta útbreiðslu sýklalyfjaónæmra bakteríustofna.

Sýklalyfjaónæmi.
    Nefndinni var bent á að sýkingar af völdum baktería sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum væru taldar eitt alvarlegasta heilbrigðisvandamál í heiminum í dag og að sterk tengsl væru á milli þessa og sýklalyfjanotkunar í landbúnaði. Afnám innflutningshafta yki því hættu á að slíkar bakteríur bærust til landsins.
    Meiri hlutinn bendir á að samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) er sýklalyfjaónæmi einhver mesta ógn við heilsufar manna í dag. 1 Sýklalyfjaónæmi gerir meðferð við sýkingum erfiðari eða jafnvel ómögulega og getur ógnað þeim miklu framförum í læknavísindum sem áunnust á 20. öld samkvæmt WHO. Undir þetta taka aðrar alþjóðlegar stofnanir, t.d. Alþjóðabankinn og Landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðadýraheilbrigðismálastofnunin, Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins og Matvælaöryggisstofnun Evrópusambandsins. Sýking af sýklalyfjaónæmri bakteríu getur orðið hverjum sem er stórhættuleg og algengar sýkingar sem eru ekki hættulegar nú en voru banvænar fyrir tíma sýklalyfja geta orðið banvænar að nýju, t.d. lungnabólga, blóðeitranir og salmonella. Meiri hlutinn bendir á að mikilvægi málaflokksins var undirstrikað á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 2016 þegar 193 þjóðir heims undirrituðu yfirlýsingu um að vinna gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Það var einungis í fjórða skiptið í sögu Sameinuðu þjóðanna sem sjúkdómatengd málefni eru rædd á allsherjarþinginu.
    Meiri hlutinn bendir á að í nýlegri skýrslu frá EMA 2 (European Medicines Agency) er sýnt fram á tengsl milli sýklalyfjanotkunar í dýrum og sýklalyfjaónæmis í mönnum, þ.e. því meiri sem notkun á sýklalyfjum er í landbúnaði þeim mun meiri líkur eru á að sýklalyfjaónæmar bakteríur ræktist í mönnum. Í sömu skýrslu kemur fram að sýklalyfjanotkun í dýrum á Íslandi er með því allra minnsta sem þekkist í Evrópu. Til samanburðar er sýklalyfjanotkun þrjátíu sinnum meiri að meðaltali í Evrópu og áttatíu sinnum meiri þar sem hún er mest (Spáni).
    Meiri hlutinn bendir á að á þeim tíma sem liðinn er frá því að frystiskyldunni var komið á hefur komið á daginn hversu mikil ógn sýklalyfjaónæmi er og við því verður að bregðast. Lög og Evrópuréttur tekur ekki á þeirri nýju ógn sem sýklalyfjaónæmi í matvælum felur í sér. Bakteríur virða engin landamæri og því verður að miða aðgerðir við það að tryggja öryggi vara á markaði. Auk þess er áhættan í réttu hlutfalli við magn innflutnings, því meiri sem innflutningur er þeim mun meiri er hættan á sýklalyfjaónæmi í kjöti. Nú þegar hafa greinst sýklalyfjaónæmar salmonellubakteríur á markaði á Íslandi í svínakjöti frá Spáni sem þó bar vottorð um að vera laust við salmonellu. Þetta er alvarlegt þar sem innflutningur á kjöti hefur vaxið afar hratt síðustu ár, en innflutningur á nautakjöti hefur tvöfaldast frá árinu 2011 og á svínakjöti þrefaldast. Hættan er sú að til Íslands berist sýklalyfjaónæmar bakteríur í kjöti, sem eru ónæmar fyrir flestum gerðum sýklalyfja og breiðist til bæði manna og dýra með ófyrirséðum afleiðingum.
    Meiri hlutinn bendir á að 8. febrúar 2019 undirrituðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og heilbrigðisráðherra yfirlýsingu um sameiginlegt átak til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi. Með yfirlýsingunni ákváðu fyrrgreindir ráðherrar að tillögur starfshóps heilbrigðisráðherra frá árinu 2017 að aðgerðum sem miða að því að hefta útbreiðslu sýklalyfjaónæmis marki opinbera stefnu stjórnvalda í þessum málaflokki. Tekin var ákvörðun um að skipa stýrihóp um reglur og viðbrögð vegna sýklalyfjaónæmra baktería. Stýrihópur í tengslum við átak gegn sýklalyfjaónæmi var skipaður 14. febrúar 2019 og samanstendur af fulltrúa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, sóttvarnalækni og yfirdýralækni. Meiri hlutinn fagnar framangreindri áherslu stjórnvalda á varnir gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería. Þá hvetur meiri hlutinn stjórnvöld til að fylgja eftir fyrrgreindri vinnu af festu og styrkja hana eins og kostur er og tryggja fjármögnun.
    Með hliðsjón af framangreindu leggur meiri hlutinn til að ráðherra verði færð heimild í lögum þessum til að setja reglugerð sem kveður á um ráðstafanir í frumframleiðslu og dreifingu matvæla í því skyni að hefta útbreiðslu sýklalyfjaónæmra bakteríustofna. Meiri hlutinn telur að íslensk stjórnvöld skuli vinna að því að koma í veg fyrir dreifingu matvæla sem í greinast sýklalyfjaónæmar bakteríur í því skyni að treysta lýðheilsu til framtíðar. Þeirri vinnu skal hraðað sem kostur er og taka tillit til alþjóðlegra skuldbindinga. Til að slíkt sé framkvæmanlegt þarf að þróa ódýrar og hraðvirkar aðferðir til að skima fyrir sýklalyfjaónæmi í matvælum ásamt því að auka sýnatöku til að bæta yfirsýn yfir núverandi stöðu. Mikilvægt er að slíkri vinnu ljúki sem allra fyrst. Meiri hlutinn áréttar að til grundvallar þeirri vinnu verði það markmið að lágmarka áhættuna sem felst í sýklalyfjaónæmi í matvælum og skapa hvata fyrir framleiðendur kjöts hér á landi og innflytjendur kjöts að taka enga áhættu með sýklalyf, enda hefur lítil notkun sýklalyfja í innlendum landbúnaði gert innlend matvæli að einhverjum þeim öruggustu í heimi. Meiri hlutinn leggur jafnframt til að við 1. gr. laga um matvæli, nr. 93/1995, verði bætt að tryggt verði að Ísland verði í fararbroddi í aðgerðum til að koma í veg fyrir útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería með matvælum og koma í veg fyrir að nýir smitsjúkdómar og ákveðnar tegundir af sýklalyfjaónæmum bakteríum berist til landsins.

Samkeppnisstaða íslensks landbúnaðar.
Tekjur innlendra framleiðenda.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að verði frumvarpið að lögum muni það hafa áhrif á tekjur innlendra kjötframleiðenda og því nauðsynlegt að bæta samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar.
    Meiri hlutinn tekur undir framangreind sjónarmið en bendir á að ágreiningur er um umfang þessa tekjusamdráttar. Samkvæmt úttekt sem unnin var af Deloitte fyrir Bændasamtök Íslands getur tekjutapið orðið á bilinu 1,4–1,8 milljarðar kr. Í álitsgerð Daða Más Kristóferssonar, prófessors í hagfræði við Háskóla Íslands, var niðurstaðan sú að áhrifin yrðu minni, eða um 500 millj. kr. á ári, á meðan á aðlögun að nýju markaðsjafnvægi stendur. Kom enn fremur fram að ólíklegt virtist að fyrirhugaðar breytingar hefðu umfangsmiklar afleiðingar fyrir innlenda framleiðslu umfram það sem ætla mætti að hefði orðið miðað við þróun undangenginna ára. Sérstaklega virðist ósennilegt að mikill samdráttur verði í seldu magni innlendrar framleiðslu ef verðlækkun verður á ferskum afurðum í kjölfar lagabreytingarinnar.

Hreinleiki og rekjanleiki afurða.
    Burðarás íslensks landbúnaðar verður áfram búfjárrækt. Meiri hlutinn bendir á að samkeppnisforskot Íslands er falið í gæðum og hreinleika afurða. Líkt og að framan greinir er staða sjúkdóma í íslenskum landbúnaði afar góð og telur meiri hlutinn brýnt að þessi staða verði varin. Því sé mikilvægt að barist verði fyrir því að fá undanþágu frá reglugerðum ESB um húsdýraáburð.
    Meiri hlutinn bendir á að Ísland hefur fengið undanþágu frá reglugerðum um flutning á lifandi dýrum og telur því fráleitt ef heimilt verður að flytja mykju sömu dýra óhindrað til Íslands. Af þessu tilefni vill meiri hlutinn taka fram að óskað var eftir upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu um stöðu þessa máls. Í svari ráðuneytisins kemur fram að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um lífrænan áburð hafi verið samþykkt innan Evrópusambandsins. Ráðuneytið hafi látið vinna áhættumat til að undirbyggja undanþágu frá reglugerðinni og var áhættumatið sent til allra sendiherra Evrópusambandsins, framkvæmdastjórnarinnar og EFTA. Í janúar sl. barst svar þar sem því var heitið að málið yrði skoðað þegar metið yrði hvort löggjöfin yrði tekin inn í EES-samninginn. Afstaða Íslands hefur verið kynnt Norðmönnum og verður málið tekið fyrir á fundi fljótlega. Þá er gert ráð fyrir því að leitað verði til ESA til að móta undanþágutexta og greina hvaða atriðum óskað verður eftir undanþágu frá.
    Með hliðsjón af framangreindu telur meiri hlutinn mikilvægt að allt kapp verði lagt á það að bæta samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar á þeim sviðum þar sem hann getur keppt, í gæðum og hreinleika. Þær upplýsingar verði að skila sér alla leið í verslanir svo að neytendur geti tekið upplýstar ákvarðanir. Bendir meiri hlutinn á að neytendur eigi rétt á að vita við hvaða aðstæður vara er framleidd og þar sé ábyrgð verslana og heildsala mikil. Því er fagnaðarefni að fulltrúar þeirra vinni með starfshópi stjórnvalda, bænda og neytenda í átaki í betri upplýsingum til neytenda, en neytendur hafa rétt á því að vita við hvaða aðstæður varan er framleidd svo að samkeppnin sé sanngjörn.

Samkeppnishæfni.
    Nefndinni var bent á að sá árangur sem hefði náðst í heilbrigði íslenskra búfjárstofna væri til kominn vegna strangra krafna sem gerðar væru til innlendra framleiðenda og bent á mikilvægi þess að innlendir framleiðendur væru samkeppnishæfir við erlenda framleiðendur og að ekki yrðu gerðar minni kröfur til erlendra framleiðenda.
    Meiri hlutinn tekur undir það að brýnt er að vinna að því að bæta samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar. Bendir hún á að ógjörningur er fyrir íslenskan landbúnað að keppa í verði einu saman við erlenda framleiðslu. Þó að hann sé að öllu leyti samkeppnisfær við erlendan hvað varðar þekkingu og tæknivæðingu skerði náttúrulegar aðstæður landsins samkeppnishæfni að öðru leyti. T.d. er landið strjálbýlt og fámennt, auk þess sem veðurfar er ófyrirsjáanlegt og erfitt. Það takmarkar möguleika bænda í framleiðslu, hækkar flutningskostnað, gerir erfitt að nýta stærðarhagkvæmni líkt og erlendis og getur auk þess leitt til umtalsverðs framleiðslutaps. Hins vegar gerir lega landsins að verkum að lítið er notað af plöntu- og skordýravarnarefnum og strjálbýli kemur í veg fyrir ofauðgun vegna köfnunarefnis- eða fosfóráburðar. Leggur meiri hlutinn því kapp á að fyrrnefndri aðgerðaáætlun verði komið sem fyrst í framkvæmd.

Tollasamningur við Evrópusambandið.
    Árið 2015 var undirritaður tollasamningur milli Íslands og Evrópusambandsins. Samningurinn tók gildi árið 2018 og leyfir aukinn útflutning á ákveðnum tegundum landbúnaðarafurða gegn auknum innflutningi frá Evrópusambandinu. Í ljósi áhrifa útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu á hagsmuni Íslands af samningnum telur meiri hlutinn mikilvægt að fram fari greining á áhrifum samningsins á íslenskan landbúnað og neytendur. Beinir meiri hlutinn því til utanríkisráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að slík greining fari fram. Komi í ljós að forsendubrestur hafi orðið vegna áðurnefndra atriða er því beint til ríkisstjórnarinnar að endurskoða tollasamninginn um landbúnaðarvörur.

Kolefnisfótspor.
    Meiri hlutinn bendir á tengsl loftslagsmála við matvælaframleiðslu. Bendir hún á að ef ekkert verður að gert mun útblástur gróðurhúsalofttegunda vegna landbúnaðarframleiðslu stóraukast á næstu áratugum vegna fjölgunar mannkyns og breytinga í neysluháttum. Verði engin breyting á aðfanganotkun er því spáð að umhverfisfótspor landbúnaðar á heimsvísu tvöfaldist á næstu þremur áratugum.
    Meiri hlutinn bendir á að Ísland getur mótað sína eigin matvælastefnu og séð til þess að þau matvæli sem framleidd eru á Íslandi séu með eins jákvætt kolefnisfótspor og völ er á. Sú vinna stendur yfir. Hins vegar geta íslensk stjórnvöld engin áhrif haft á kolefnisfótspor matvæla sem flutt eru erlendis frá. Í því er fólgin aukin samkeppnishæfni á tímum þar sem sífellt meiri áhersla er lögð á loftslagsmál í allri opinberri umræðu. Landbúnaðurinn hefur dregið úr kolefnisfótspori sínu síðustu þrjátíu ár og á sama tíma hefur framleiðsla á ákveðnum tegundum matvæla stóraukist. Um 1990 framleiddu íslenskir kúabændur um 100 milljónir lítra af mjólk en nú er framleiðslan um 150 milljónir lítra með fimmtungi færri kúm. Þar með hefur kolefnisfótspor hvers lítra hrunið á þessu tímabili. Að sama skapi er ekki hægt að bera saman kolefnisfótspor nautakjöts sem eingöngu er framleitt til að framleiða kjöt við kjötframleiðslu sem hliðarafurð úr mjólkurframleiðslu. Íslensk stjórnvöld hafa stutt við bakið á kúabændum við endurnýjun á erfðaefni í nautakjötsframleiðslu og von er á fyrstu sæðisskömmtunum úr hinum nýja stofni á þessu ári. Við það gjörbreytast forsendur kúabænda til þess að framleiða kjöt sem hliðarafurð úr mjólkurframleiðslu. Samkvæmt íslenskum rannsóknum er mikill breytileiki í kolefnisfótspori á framleiðslu landbúnaðarafurða, frá því að vera kolefnisbinding á hvert kílógramm hjá bændum sem stunda umfangsmikla landgræðslu í það að vera umtalsverð kolefnislosun á hvert kílógramm.

Tryggingasjóður.
    Nefndinni var bent á að margir búfjársjúkdóma, sem eru landlægir í Evrópu og víðar, hafi aldrei borist hingað til lands. Því kunni það að valda ófyrirséðum afleiðingum fyrir íslenska búfjárstofna, sem hafa búið við langa einangrun, ef smit berst til landsins. Var bent á að íslenskur landbúnaður hefði ekki aðgang að tryggingasjóði vegna tjóns af völdum búfjársjúkdóma eins og væri fyrir hendi innan ESB, að frátöldum bótagreiðslum vegna niðurskurðar í sauðfé.
    Meiri hlutinn tekur undir nauðsyn þess að vernd íslenskra búfjárstofna verði tryggð og undirstrikar áherslu sína á að aðgerðaáætlun verði sett í gang.
    Meiri hlutinn ítrekar að nauðsynlegt er að frumvarp þetta nái fram að ganga til þess að Ísland uppfylli alþjóðlegar skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum. Bendir hún á að mikil vinna hefur verið lögð í að tryggja að áhrif á íslenska búfjárstofna verði sem minnst, sbr. þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna.

Innleiðing gerða í C-deild Stjórnartíðinda.
    Í frumvarpinu eru ákvæði sem heimila ráðherra að vísa til erlendrar frumútgáfu reglugerða við innleiðingu reglugerða Evrópusambandsins sem eru teknar upp í EES-samninginn með einfaldaðri málsmeðferð. Þannig verði erlenda frumútgáfan birt í C-deild Stjórnartíðinda. Var nefndinni bent á að sambærilegt ákvæði þyrfti að vera í lögum um dýrasjúkdóma.
    Í greinargerð með frumvarpinu er tekið fram að með þessu sé ætlunin að bregðast við þeim gerðum Evrópusambandsins sem settar eru til að takmarka eða stöðva markaðssetningu eða innflutning matvæla eða fóðurs ef ljóst er að vörurnar geta haft í för með sér alvarlega hættu fyrir heilbrigði manna eða dýra eða umhverfið og ekki er hægt að hafa fullnægjandi stjórn á þessari hættu. Slíkar gerðir þurfi að innleiða strax þar sem þær öðlast gildi við birtingu. Þegar íslensk þýðing á gerðinni liggi fyrir verði hún birt á íslensku.
    Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemdir við að Ísland geti ekki innleitt þessar gerðir nægilega hratt og því sé ekki tryggt að Ísland geti stöðvað innflutning á innri markað. Í 2. mgr. 4. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, segir að heimilt sé að birta eingöngu erlendan frumtexta milliríkjasamnings í C-deild Stjórnartíðinda ef samningurinn varðar afmarkaðan hóp manna sem með sanngirni má ætlast til að skilji hið erlenda mál vegna menntunar sinnar eða annarrar sérhæfingar. Þær gerðir sem hér um ræðir uppfylla því ekki lagaskilyrði 2. mgr. 4. gr. laganna enda verður ekki annað séð en að um íþyngjandi reglur geti verið að ræða sem varði ekki afmarkaðan hóp sérfræðinga.
    Það er eitt af ófrávíkjanlegum skilyrðum réttarríkis að lög séu birt og séu aðgengileg þeim sem eiga að fylgja þeim. Til að svo sé þurfa þau að vera á því máli sem almenningur skilur. Meiri hlutinn áréttar að þingmálið er íslenska og það er óskráð meginregla að allur texti Stjórnartíðinda sé á íslensku. Löggjafinn hefur þó í undantekningartilvikum, þegar rík rök mæla fyrir því, heimilað undantekningar frá þessum reglum en árétta ber að frávikum skal beita af varfærni og tryggt þarf að vera að lög séu skýr og aðgengileg.
    Meiri hlutinn ítrekar að umræddum ákvæðum frumvarpsins er aðeins ætlað að ná utan um þau tilvik þar sem heilsu manna eða dýra er ógnað og Evrópusambandið gerir kröfu um tafarlaus viðbrögð til að draga úr áhættu. Þetta er því liður í að Ísland uppfylli skyldur sínar gagnvart EES-samningnum en einnig er um ríka almannahagsmuni er að ræða. Ljóst er að birting gerðanna verður einungis tímabundið á ensku þar sem kapp verður lagt á að þýða þær strax og birta í kjölfarið. Verði birtingu þeirra frestað þar til íslensk þýðing er tilbúin getur það því ógnað heilsu manna og dýra. Telur meiri hlutinn því rík rök mæla með því að heimila tímabundna birtingu gerðanna á ensku og leggur til breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim því til samræmis.
    Með vísan til alls framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á eftir 2. gr. komi tvær nýjar greinar, svohljóðandi:
                  a.      (3. gr.)
                      Við 11. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Ráðherra er heimilt að fyrirskipa hverjar þær ráðstafanir sem kveðið er á um í 8. gr. til að hefta útbreiðslu sýklalyfjaónæmra bakteríustofna. Ráðherra er jafnframt heimilt að setja reglugerð í þessu skyni.
                  b.      (4. gr.)
                     Á eftir 29. gr. a laganna kemur ný grein, 29. gr. b, svohljóðandi:
                     Ráðherra er heimilt að vísa til erlendrar frumútgáfu reglugerða við innleiðingu reglugerða Evrópusambandsins sem teknar eru upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með einfaldaðri málsmeðferð. Birta skal erlendu frumútgáfuna í C-deild Stjórnartíðinda.
     2.      Á undan 3. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  Á eftir 1. málsl. 1. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Jafnframt skal tryggja að Ísland verði í fararbroddi í aðgerðum til að koma í veg fyrir útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería með matvælum og koma í veg fyrir að nýir smitsjúkdómar og ákveðnar tegundir sýklalyfjaónæmra baktería berist til landsins.
     3.      Við 3. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða á um ráðstafanir í frumframleiðslu og dreifingu matvæla í því skyni að hefta útbreiðslu sýklalyfjaónæmra bakteríustofna.
     4.      Við 6. gr.
                  a.      Inngangsmálsgrein verði svohljóðandi:
                      Á undan 31. gr. laganna kemur ný grein, 30. gr. f, svohljóðandi.
                  b.      Í stað orðanna „5. mgr.“ í 1. efnismgr. komi: 6. mgr.
     5.      Við 8. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða á um ráðstafanir vegna framleiðslu og dreifingu fóðurs í því skyni að hefta útbreiðslu sýklalyfjaónæmra bakteríustofna.
     6.      9. gr. orðist svo:
                  Lög þessi öðlast gildi 1. nóvember 2019 nema 4., 10. og 11. gr. sem öðlast þegar gildi.

    Ólafur Ísleifsson og Sigurður Páll Jónsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 28. maí 2019.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form., frsm.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, með fyrirvara. Ásmundur Friðriksson.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Kolbeinn Óttarsson Proppé. Jón Þór Ólafsson, með fyrirvara.
Njáll Trausti Friðbertsson.

1     www.who.int/news-room/fact-sheets/detail/antibiotic-resistance
2     www.efsa.europa.eu/en/efsajournal/pub/4872