Ferill 776. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1679  —  776. mál.
2. umræða.



Breytingartillaga


við frumvarp til laga um breytingu á lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, nr. 151/1996, með síðari breytingum (stjórn veiða á makríl).

Frá Þorgerði K. Gunnarsdóttur.


     1.      Við bætist ný grein sem verði 1. gr., svohljóðandi:
                   Á eftir 5. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 5. gr. a og 5. gr. b, sem orðast svo:
         a. (5. gr. a.)
                     Frá og með árinu 2019 skal Fiskistofa deila heildaraflahlutdeild í makríl í tuttugu jafna hluta. Öllum hlutunum skal úthluta til einstakra fiskiskipa skv. 5. gr. Skal fyrsti hlutinn gilda í eitt ár, annar hlutinn í tvö ár o.s.frv.
                     Á hverju ári, fyrst á árinu 2020, skal Fiskistofa bjóða til sölu á uppboðsmarkaði til tuttugu ára þau 5% heildaraflahlutdeildar í makríl sem laus eru. Rétt til þátttöku á uppboðsmarkaði með makríl skv. 1. mgr. hafa öll íslensk skip með veiðileyfi.
                     Á uppboðsmarkaði með makríl skulu áhugasamir aðilar skila inn tilboðum. Í tilboði skal tilgreina stærð hlutdeildar sem óskast keypt og einingarverð. Sami aðili má skila inn mörgum tilboðum með mismunandi einingarverði.
                     Tilboðum skal raðað eftir einingarverði frá því hæsta til þess lægsta. Jaðartilboðið, þ.e. það tilboð þar sem framboð sker eftirspurn, stýrir verði til allra aðila sem boðið hafa hærra en jaðartilboðið.
                     Af þeirri aflahlutdeild sem árlega er boðin upp á markaði skulu 5% eingöngu boðin smábátum skv. 2. mgr. 4. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006. Óheimilt er að framselja aflahlutdeild eða leigja aflamark þessara skipa í makríl til stærri skipa.
                     Ráðherra skal með reglugerð setja nánari reglur um framkvæmd uppboða á makríl. Er honum m.a. heimilt að skipta árlegri sölu aflahlutdeildar í makríl til tuttugu ára á fleiri en eitt uppboð.
        b. (5. gr. b.)
                     Samanlögð makrílaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila má aldrei nema stærri hlut af heildaraflahlutdeild í makríl en 20%.
                     Á árlegum uppboðum með makríl geta einstakir aðilar eða tengdir aðilar ekki keypt meira en sem nemur 10% þeirrar hlutdeildar sem upp er boðin hverju sinni.
                     Aðilar teljast tengdir ef skilyrði 4. mgr. 13. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, eiga við. Jafnframt skulu aðilar teljast tengdir ef annar aðili á beint eða óbeint hluta í hinum aðilanum og annar aðilanna á meira en 1% heildaraflahlutdeildar íslenskra fiskiskipa.
     2.      Við bætist nýr kafli, II. kafli, Breyting á lögum um veiðigjald, nr. 145/2018, með einni nýrri grein, svohljóðandi:
                  Á eftir 8. gr. laganna kemur ný grein, 8. gr. a, sem orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Makríll.

                  Veiðigjald fyrir tímabundinn rétt til veiða úr makrílstofni skv. 5. gr. a laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands skal vera andvirði þeirrar 5% heildaraflahlutdeildar í makríl sem boðin skal til sölu á uppboðsmarkaði ár hvert.
                  Veiðigjald fyrir makríl skal renna í sérstakan sjóð, uppbyggingarsjóð landsbyggðarinnar.
                  Ráðherra skal kveða á um framkvæmd innheimtu veiðigjalds með reglugerð.
     3.      Fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og lögum um veiðigjald (makríll).