Ferill 802. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1741  —  802. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum, nr. 47/2004, með síðari breytingum (samningar við þjónustuaðila).

Frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurð Örn Guðleifsson frá forsætisráðuneyti, Jón Geir Pétursson og Sigríði Svönu Helgadóttur frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Einar Á. E. Sæmundsen frá þjóðgarðinum á Þingvöllum, Gunnar Val Sveinsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar og Pétur Gauta Valgeirsson, Indriða H. Þorláksson og Valdimar Leó Friðriksson frá Leiðsögn – Stéttarfélagi leiðsögumanna.
    Umsagnir um málið bárust frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Leiðsögn – Stéttarfélagi leiðsögumanna og Náttúrufræðistofnun Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að óheimilt verði að reka atvinnutengda starfsemi innan staðarmarka þjóðgarðsins á Þingvöllum án samnings um slíka starfsemi við Þingvallanefnd. Einnig er lögð til gjaldtökuheimild vegna gerðar slíkra samninga, umsjónar með þeim og eftirlits.

Verndarhagsmunir.
    Á fundum nefndarinnar var fjallað um það markmið frumvarpsins að setja rekstraraðilum í þjóðgarðinum skilyrði. Skv. 1. gr. laga um þjóðgarðinn njóta Þingvellir við Öxará og grenndin þar ákveðinnar sérstöðu sem þjóðgarður og friðlýstur helgistaður allra Íslendinga. Þjóðgarðurinn er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins og voru menningarminjar Þingvalla samþykktar á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna á fundi heimsminjanefndar árið 2004. Fyrir nefndinni kom fram að með hliðsjón af verndarmarkmiðum þjóðgarðsins kynni að vera nauðsynlegt að takmarka þann fjölda aðila sem fær aðstöðu innan tiltekinna svæða þjóðgarðsins og velja á milli aðila sem óska eftir slíku. Fram kom að slíkt fyrirkomulag er að finna í gildandi lögum um Vatnajökulsþjóðgarð en þar sem enn hefði ekki verið sett atvinnustefna fyrir hann og mótuð skilyrði fyrir því að aðilar mættu stunda atvinnu innan þjóðgarðsins hefði ekki verið unnt að framfylgja þeirri takmörkun.
    Meiri hlutinn tekur fram að í frumvarpi til laga um Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða frá umhverfis- og auðlindaráðherra er lagt til að reglur fyrir alla þjóðgarða landsins verði samræmdar, þ.m.t. þjóðgarðinn á Þingvöllum. Frumvarpið er til meðferðar á Alþingi en ekki liggur fyrir hvort næst að afgreiða málið fyrir þinglok. Meiri hlutinn telur því í ljósi þeirra verndarhagsmuna sem í húfi eru í þjóðgarðinum, m.a. vegna náttúru og menningarminja sem og vegna mikilvægis þess að unnt verði að gera kröfur til þeirra sem eru með starfsemi í þjóðgarðinum eða í tengslum við þjóðgarðinn varðandi þekkingu, reynslu og út frá öryggissjónarmiðum, sé rétt að leggja til að frumvarpið verði samþykkt.

Mótun atvinnustefnu.
    Fyrir nefndinni komu fram ábendingar um að eitt af meginhlutverkum forsætisráðuneytisins samkvæmt lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta er ráðstöfun lands og landsréttinda með leyfisveitingu og samningum um endurgjald fyrir nýtingu, að taka afstöðu til og samþykkja ráðstöfun lands og landsréttinda sem sveitarfélög veita leyfi fyrir og er ætlað að vara lengur en í 12 mánuði. Markmiðið með þessu frumvarpi er að setja skilyrði um hvaða kröfur þarf að uppfylla til að stunda viðkomandi atvinnustarfsemi. Hins vegar fer nú fram vinna á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins við mótun tillagna um sérleyfissamninga vegna nýtingar á landi í eigu ríkisins. Þegar þeirri vinnu lýkur er mikilvægt að nýta hana sem grundvöll frekari stefnumótunar um fyrirkomulag við úthlutun takmarkaðra gæða í þjóðgörðum, en sú vinna gæti leitt til frekari lagabreytinga. Meiri hlutinn áréttar að með þessu frumvarpi er verið að heimila Þingvallanefnd að setja skilyrði fyrir atvinnustarfsemi innan þjóðgarðsins og móta atvinnustefnu vegna reksturs innan þjóðgarðsins Skilyrðin geta verið breytileg eftir eðli starfseminnar. Fyrir nefndinni kom fram að eðlilegt væri að horfa til markmiða um sjálfbærni og skilyrða svo sem um þekkingu á náttúru og menningarminjum þjóðgarðsins, þekkingu og færni í þeirri þjónustu sem veita á, auk þess sem uppfylla þurfi öryggis- og gæðakröfur. Þá væri mikilvægt að atvinnustefnan skapaði hvata til nýsköpunar. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og leggur áherslu á að atvinnustefna, reglugerð og samningar gerðir á grunni þeirra myndi trausta umgjörð og yfirsýn yfir atvinnustarfsemi í þjóðgarðinum.
    Í frumvarpinu er lagt til að ákvæði 1. gr. frumvarpsins um að óheimilt sé að reka atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum, án samnings um slíka starfsemi við Þingvallanefnd, gangi framar ákvæðum laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að rökin fyrir því séu að svo lítill hluti þjóðgarðsins sé innan þjóðlendu. Fyrir nefndinni kom fram að þá sé fremur til einföldunar að ekki þurfi að leita leyfis sveitarstjórnar, eins og áskilið er í lögum um þjóðlendur, og Þingvallanefndar til að nýta land og landsréttindi innan þjóðgarðsins heldur verði það alfarið undir stjórn Þingvallanefndar.

Frestun gildistöku.
    Fram kom fyrir nefndinni að náin samvinna væri milli stjórnenda Vatnajökulsþjóðgarðs og þjóðgarðsins á Þingvöllum við gerð atvinnustefnu og mótun skilyrða fyrir rekstri atvinnustarfsemi í þjóðgörðum. Þá kom fram að heppilegt væri að búið yrði að undirbúa samningagerð og jafnvel ganga frá samningum við þá sem reka atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum áður en frumvarpið verður að lögum. Fyrir þann tíma þarf Þingvallanefnd að ljúka mótun atvinnustefnu. Meiri hlutinn telur eðlilegt að við þá vinnu verði m.a. byggt á þeirri vinnu sem unnin hefur verið í Vatnajökulsþjóðgarði en þar hefur reynslan sýnt að nauðsynlegt er að hafa góðan tíma til undirbúnings. Meiri hlutinn telur í því ljósi heppilegt að lögin öðlist ekki gildi fyrr en að ári liðnu og leggur til breytingu á gildistökuákvæði laganna þar að lútandi.

Gjaldtaka.
    Á fundum nefndarinnar var bent á að það skorti á skýrleika varðandi gjaldtökuheimildina en í frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að taka þjónustugjald vegna samninga um atvinnutengda starfsemi sem skuli standa undir kostnaði við veitingu leyfa, umsjón og eftirlit vegna hinnar leyfisskyldu starfsemi. Meiri hlutinn áréttar að hér er um þjónustugjöld að ræða sem ætlað er að standa undir kostnaði við gerð samninga, veitingu leyfa, umsjón og eftirlit vegna hinnar leyfisskyldu starfsemi. Fyrir liggur að leyfisveitingum fylgir ákveðin umsýsla og vinna af hálfu þjóðgarðsyfirvalda, auk þess sem eftirlit með leyfisskyldri starfsemi kann að vera nauðsynlegt til að tryggja að farið sé að almennum reglum og sérstökum skilyrðum sem sett hafa verið. Gert er ráð fyrir að mælt verði nánar fyrir um gjaldtökuna, þar á meðal um fjárhæð gjaldsins, í reglugerð sem Þingvallanefnd er heimilt að setja.
    Meiri hlutinn leggur til orðalagsbreytingu á 2. mgr. 1. gr. til aukins skýrleika.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      2. málsl. 2. efnismgr. 1. gr. orðist svo: Þingvallanefnd er heimilt að setja reglugerð, sem ráðherra staðfestir, þar sem mælt er nánar fyrir um skilyrði fyrir rekstri, málsmeðferð og gerð samninga samkvæmt ákvæði þessu.
     2.      3. gr. orðist svo:
                  Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2020.

    Jón Steindór Valdimarsson skrifar undir álitið með fyrirvara.

Alþingi, 5. júní 2019.

Helga Vala Helgadóttir,
form.
Líneik Anna Sævarsdóttir, frsm. Brynjar Níelsson.
Jón Steindór Valdimarsson, með fyrirvara. Kolbeinn Óttarsson Proppé. Óli Björn Kárason.
Þorsteinn Sæmundsson. Þórarinn Ingi Pétursson.